Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. september 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna Efnafræðifélags Íslands, 23.09.00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Setningarávarp á ráðstefnu Efnafræðifélags Íslands,
Reykholti, 23. september 2000

Ágætu ráðstefnugestir

Mér er það heiður að fá að ávarpa ráðstefnu ykkar hér í dag á þessum sögufræga menningarstað þar sem þið munuð fjalla um afar brýn málefni fyrir framtíðarþóun íslensks samfélags. Öll megin málefni ráðstefnu ykkar eru mál dagsins í dag og framtíðarinnar, framleiðsla og nýting vetnis á Íslandi, umhverfismál og líftækniiðnaður.
Eins og ykkur er kunnugt um eru náttúrulegar auðlindir Íslands miklar. Við eigum ein gjöfulustu fiskimið í heimi í hafinu kring um landið, við eigum gnægð hreinna og endurnýjanlegra orkulinda, hreint vatn og loft. Þessar auðlindir hafa ásamt mannauði og menntun þjóðarinnar skapað mikla velferð hennar á örfáum áratugum. Nýting innlendra orkulinda undanfarna þrjá áratugi hefur valdið því að í dag eru íslensk hús nær einvörðungu hituð upp með hreinum innlendum orkugjöfum í stað olíu áður fyrr á öldinni. Vitaskuld leiðir þetta hugann að því af hverju forfeður okkar höfðu ekki löngu áður tileinkað sér nýtingu á óþrjótandi hverum og laugum landsins sér til lífsbjargar. Hér á þessum stað gefur vissulega að líta hvað fornmenn gátu gert til að nýta,eins og kostur var, jarðhitann í hlaðvarpanum til húshitunar og baða.

Af hagkvæmum vatns- og jarðvarmaorkulindum landsins til raforkuframleiðslu höfum í dag aðeins hagnýtt okkur 15-20% að teknu tilliti til helstu umhverfisáhrifa, sem virkjanir valda. Við eigum því bjarta framtíð fyrir okkur hvað varðar nýtingu hreinna orkuauðlinda. Á síðasta áratug hefur raforkuframleiðsla hér á landi aukist um 80% og hefur mesta aukningin orðið í álframleiðslu eins og kunnugt er. Aluminium er afar umhverfivænn málmur ef svo má að orði komast, léttur og endurnýjanlegur, og þarf ekki í þessum hópi að fjölyrða mikið um það. Hins vegar er öllum kunnugt um að álframleiðsla veldur losun gróðurhúsalofttegunda, sú losun hefur góðu heilli farið minnkandi undanfarna áratugi og álverin hér á landi eru meðal þeirra er minnsta losun hafa á framleiðslueiningu. Íslensk stjórnvöld binda vonir við að enn megi um hríð auka álframleiðslu hér á landi með hreinum orkugjöfum, en aðeins ríflega helmingur álvera í heiminum notast við slíka orkugjafa. Með því að nota hreina orkugjafa verður heildarlosun gróðurhúsalofttegunda við álframleiðslu aðeins 1/8 af losun álvera er styðjast við olíukynt orkuver.

En það er önnur losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi sem erfiðara er að eiga við. Brennsla olíu hér á landi í bifreiðum og skipaflota landsins er um 85% af olíunotkun landsins og 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi kemur frá bíla- og skipanotkun. Erfitt mun reynast að draga úr þessari losun í náinni framtíð nema með því að nýir og hreinir orkugjafar komi til. Þar bindum við miklar vonir við þróun vetnisframleiðslu hér á landi í náinni framtíð. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er þess getið að nýta beri hreinar orkulindir landsins á umhverfisvænan hátt og bent á þann möguleika að framleiða hreint eldsneyti í því skyni. Ég hef átt þess kost að kynna mér erlendis þróun í vetnisframleiðslu og rannsóknum og hef sannfærst um að þróun í vetnistækni muni leiða til þess að sá orkugjafi muni með tíð og tíma leysa olíu af hólmi sem eldsneyti farartækja.

Sérstakt fyrirtæki, Íslensk Nýorka ehf. hefur nú á annað ár staðið að rannsóknum á notkun vetnis sem orkubera í samgöngum hér á landi í samstarfi við erlenda aðila. Tilgangur Íslenskrar Nýorku ehf. er að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í samgöngutækjum. Hefur fyrirtækið m.a. undirbúið rannsóknir á notkun vetnis í almenningsfarartæki og skip. Fyrsta rannsóknarverkefni Íslenskrar Nýorku ehf. verður svokallað vetnisstrætisvagnaverkefni. Undirbúningur þess hefur staðið í eitt ár, en um er að ræða fjögurra ára verkefni sem stendur fram á árið 2003. Verkefnið miðar að því að þróa heildarlausn fyrir rekstur á umhverfisvænu samgöngukerfi.

Ríkisstjórnin er ekki beinn aðili að þessum vetnisrannsóknum, en hefur eftir föngum reynt að styðja þróun. Hefur ríkissstjórnin samþykkt að verja um 100 miljónum kr til þessa verkefnis á næstu 3 árum gegn því að önnur innlend og erlend fjármögnun gangi eftir.
Allir sjá hvert stefnir i þessum efnum og spurningin er ef til vill aðeins sú hversu hröð þessi þróun verður varðandi hagkvæmni og tæknilegar lausnir. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með málum á þessu sviði og taka þátt í þróuninni eins og stefnt hefur verið að. Varla er hægt að segja annað en með framleiðslu vetnis í framtíðinni munum við nýta hreinar orkulindir landsins á eins umhverfisvænan hátt og kostur er.

Velferð þjóðarinnar á ofanverðri 20 öld er í verulegum mæli fólgin í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins, skynsamleg nýting sjávarfangs og nýting orkulindanna til atvinnuuppbyggingar hefur verið einn megin grundvöllur bættra lífskjara þjóðarinnar. Þegar svo við bætist sú framtíðarsýn okkar inn í nýja öld að framleiða hreint eldsneyti getum við verið bjartsýn. Okkur hefur tekist á þremur áratugum að byggja upp raforkukerfi landsins sem er orðið í fremstu röð hvað varðar gæði raforku og öryggi. Þetta mikla öryggi skapar því öruggt umhverfi fyrir m.a. líftækniiðnað, sem byggist m.a. á notkun hátækni er aftur krefst stöðugleika og gæða raforkunnar. Sú stórkostlega þróun sem orðið hefur í líftækni hér á landi hefur vakið verðskuldaða athygli. Auðvitað hefur sú þróun orðið fyrir tilstuðlan frumkvöðla og fjármagns, en ekki þó síst menntunar og þekkingar fólksins sem við þennan iðnað starfar. En ekki geta allir starfað við líftækniiðnaðinn þó svo að hann hafi verið mikill vaxtarbroddur í atvinnulífi landsmanna undanfarið.
Allar hugmyndir um að aukin atvinnutækifæri þjóðarinnar geti í framtíðinni byggst nánast eingöngu á þekkingariðnaði eða einhverju öðru en nýtingu náttúrulegra auðlinda eru að mínu mati óraunhæfar, uppbygging slíkra atvinnugreina er vitaskuld háð undirstöðuþáttum nútíma þjóðfélags eins og t.d. raforku og samskiptatækni. Ég hef sagt það áður og segi enn að við megum ekki í umræðum um uppbyggingu atvinnulífs og framtíðarheill þjóðarinnar segja annað hvort eða, nútíma- og framtíðarþjóðfélagið krefst þess að við hugsum, segjum og framkvæmum: bæði og. Við þurfum að byggja á öllum möguleikum, sem þjóðin hefur yfir að ráða til að skapa henni bjarta framtíð.

Góðir ráðstefnugestir. Ég sé það á dagskrá ráðstefnunnar að merk erindi verða hér flutt og óska þess hún megi enn auka þekkingu okkar á sviði efnafræðinnar, styrkja allt starf okkar í dag og skjóta rótum að enn styrkari stoðum undir atvinnulíf framtíðarinnar.

Með þessum orðum lýsi ég yfir að ráðstefnan er sett.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta