Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á fundi Tækifæris, fjárfestingarsjóðs á Akureyri, 13.10.00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á fundi Tækifæris
fjárfestingarsjóðs á Akureyri 13. október 2000.



I

Kæru gestir.
Það er mér mikil ánægja að vera viðstödd fund Tækifæris hér í dag, hins norðlenska fjárfestingarsjóðs sem farið hefur svo vel af stað. Ég vil í upphafi máls míns fjalla stuttlega um áhættufjármagnsmarkaðinn á Íslandi og víkja að því loknu að þeim tækifærum sem Norðurland býr yfir.

II.
Á fyrri hluta þessa áratugar var mikil lægð í efnahagslífi þjóðarinnar. Atvinnuleysi var meira en þekkst hafði í áratugi og úrræði ríkis og sveitarfélaga dugðu skammt. Framboð áhættufjármagns var takmarkað og verðbréfamarkaðir í frumbernsku. Erfitt var að afla áhættufjármagns til nýsköpunarverkefna, m.a. vegna fyrri reynslu af slíkum verkefnum.

Nú er staðan önnur. Framboð á áhættufjármagni hefur stóraukist og leitar það nú farvegs í áhættusamari verkefnum en áður. Fjölmörg áhættufjármagnsfyrirtæki hafa sprottið upp í þeim frjósama jarðvegi sem skapast hefur á undanförnum árum.

Áhættufjármagn er gjarnan flokkað eftir því í hvaða tilgangi eða á hvaða stigi það er lagt fram. Af eðilegum ástæðum er áhættan meiri á fyrstu þrepum þróunar. Unnt er að flokka áhættufjármagn í þrjá flokka eftir áhættu.
· Í fyrsta lagi þróunarfjármagn eða hugmyndafé en það er fjármagn til
rannsókna og þróunar á vöru eða viðskiptahugmynd.
· í öðru lagi byrjunarfjármagn eða upphafsfé sem tekur við af þróunar-
fjármagni, t.d. til að fullgera frumeintak vöru og til að hefja
markaðsstarfsemi
· í þriðja lagi fjármagn til vaxtar eða vaxtarfé en það er fjármagn til
að útvíkka starfsemi að aflokinni þróun og öflun markaða.

Í mjög grófum dráttum má gera ráð fyrir að þessi þrjú stig geti tekið um tíu ár, gangi hugmyndin upp, og sé fyrirtækið þá tilbúið til skráningar á hlutabréfamarkaði.

Flestir fagfjárfestar, sem eru á annað borð reiðubúnir til að taka áhættu af fjárfestingu í óskráðum fyrirtækjum, sækjast eftir innkomu í þau við upphaf vaxtarskeiðs. Á því stigi hefur viðkomandi fyrirtæki lokið nauðsynlegri þróun og nokkur vitneskja um viðbrögð markaðarins við afurðinni liggur fyrir. Fyrirtækið hefur tekið á sig þá stjórnunarlegu mynd sem þarf til að leggja í markaðsátak en þarfnast aukins fjármagns. Við slíkar aðstæður telja fagfjárfestar sig hafa lágmarksforsendur til að meta áhættu sína. Þeir eiga jafnframt von um umtalsverðan hagnað af fjárfestingunni þar sem vaxtarskeiðið einkennist m.a. af hagnaði á stuttum tíma.

Færri fjárfestar líta á það sem hlutverk sitt að leggja fjármagn í þá miklu áhættu sem fólgin er í að koma hugmynd á framkvæmdastig. Við þær aðstæður er óvissa mikil og takmörkuð reynsla er til að sannreyna hvort hugmyndin hefur markaðsgildi. Enn fremur vantar iðulega þá rekstrar- og stjórnunarlegu þekkingu sem nauðsynleg er til að koma verkefni áfram. Fjárfesting í slíkum verkefnum kallar á umtalsverða þolinmæði. Biðtími eftir árangri er gjarnan 5-10 ár áður en verkefnið skilar arði. Á þeim tíma þarf fjárfestirinn að vera reiðubúinn til að auka við upphafsfjárfestingu sína sem og að veita aðstoð og ráðgjöf. Sá fjárhagslegi ávinningur sem næst skilar sér sjaldan með reglulegum arðgreiðslum heldur oftast í einu lagi við sölu.

Á þriðja tug áhættufjármagnsfyrirtækja starfar hér á landi en verksvið þeirra og staða á markaðnum er þó mismunandi. Lengsta reynslu hafa Þróunarfélag Íslands, Eignarhaldsfélagið Alþýðubankinn (EFA), Aflvaki og einnig Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins ef forverar hans eru teknir með. Síðan má nefna nokkra landsbyggðarsjóði og áhættufjármagnsfyrirtæki í eigu fyrirtækja eða fjársterkra einstaklinga. Lánastofnanir eins og Byggðastofnun, viðskiptabankar, sparisjóðir og fjárfestingarbankar eru einnig í áhættufjárfestingum í einhverjum mæli. Þá má ekki gleyma lífeyrissjóðum sem í einhverjum mæli, mismiklum þó, fjárfesta í óskráðum bréfum á vaxtarstigi fyrirtækja. Einnig má nefna að fjölmargir einstaklingar taka þátt í áhættufjárfestingum, jafnvel á frumstigi fjárfestinga.

Í þessu sambandi er rétt að minnast á Framtakssjóð Nýsköpunarsjóðs og þátttöku Byggðastofnunar í eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni. Í Framtakssjóði Nýsköpunarsjóðs eru 1.000 millj. kr. og er honum ætlað að stuðla að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu með áherslu á landsbyggðina. Þeim fjármunum sem ráðstafað er úr Framtakssjóði til rekstraraðila er varið til hlutafjárkaupa í arðvænlegum nýsköpunarverkefnum. Sjóðurinn er í umsjá fjögurra vörsluaðila sem hver um sig fær til umsjónar 250 millj. kr. og hafa þeir hver um sig aflað mótframlags að upphæð 125 millj. kr. Vörsluaðilar eru Fjárfestingarfélag Austurlands, Landsbankinn-Framtak, Fjárfestingarfélag Vestmannaeyja og Framtakssamlag EFA. Í samræmi við stefnumótandi Byggðaáætlun 1999-2001 fær Byggðastofnun 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs á áætlunartímabilinu til þátttöku í eignarhaldsfélögum á landbyggðinni. Byggðastofnun getur þó aldrei átt meira en 40% af hlutafé viðkomandi félags.

III.
Kæru gestir. Fjárfestingarsjóðurinn Tækifæri er nýtt og sterkt afl á íslenskum áhættufjármagnsmarkaði. Tilgangur sjóðsins er fyrst og fremst að ávaxta hlutafé með þátttöku í nýsköpun og uppbyggingu atvinnuvinnutækifæra á Norðurlandi. 40% af hlutafé sjóðsins kemur frá Byggðastofnun en stofnunin hefur heimild til þess að veita fé með þessum hætti til atvinnuþróunarmála í kjördæmum landsins, eins og ég nefndi hér áðan. Þessi heimild til stofnunar eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni hefur almennt ekki nýst sem skyldi en þar er Tækifæri þó mikilvæg undantekning.

Óhætt er að segja að Tækifæri hafi farið vel af stað því að á einungis sex mánuðum hefur sjóðurinn fjárfest í nokkrum verkefnum fyrir um 50 m.kr. og tugir raunhæfra og vel unninna verkefna eru nú á borðum sjóðsins. Hlutafé sjóðsins er 200 milljónir en til stendur að tvöfalda hlutaféð á næstunni. Sjóðurinn mun því hafa mikið fjármagn til umráða og verða norðlensku atvinnulífi mikil lyftistöng. Nafn sjóðsins er því réttnefni.

Þeir eru ekki margir áhættufjármagnssjóðirnir sem beina sjónum sínum einkum að landsbyggðinni og einmitt þess vegna er gleðilegt að sjá hversu Tækifæri hefur farið vel af stað. Það er frumkvöðlakraftur fyrir hendi á Norðurlandi og hann verður að virkja. Löngu var því orðið tímabært að sjóð sem þessum yrði komið á fót á Norðurlandi til að styðja við bakið á arðvænlegum hugmyndum sem fram koma á svæðinu. Grundvallaratriðið er það að við þurfum að stuðla að yfirfærslu þekkingar til landsbyggðarinnar því nýjar atvinnugreinar verða að líta dagsins ljós ef við ætlum að halda ungu fólki á landsbyggðinni.

Ég vil þakka fyrir að fá að sitja þennan fund hér í dag og óska Tækifæri alls hins besta í því mikilvæga starfi sem framundan er.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta