Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. október 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun heimasíðu fyrir konur í atvinnurekstri, 24.10.00-

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp við opnun heimasíðu fyrir konur í atvinnurekstri
24. október 2000


Ágætu gestir,

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að vera viðstödd opnun á íslenskri heimasíðu fyrir konur í atvinnurekstri.

Þekking og kunnátta er ein af mikilvægustu undirstöðum þjóðfélagsins. Samkeppnishæfni ræðst af virkjun hugvits og þekkingar á sem bestan hátt. Til að ná forskoti í samkeppni þurfa fyrirtæki að vera virk í þekkingasköpun og –miðlun, ásamt því að nýta sér þá þekkingu sem er til staðar. Heimasíða sem þessi er virkt tæki fyrir konur í atvinnurekstri til að öðlast meiri þekkingu á atvinnurekstri og er það óháð búsetu. Slík upplýsingamiðlun er ómetanleg.

Íslendingar hafa löngum verið taldir nýjungagjörn þjóð. Það kemur okkur mjög til góða þegar kemur að Internetinu. Notkun Netsins og farsíma er með því mesta í heiminum. Mikilvægt er að nýta þetta forskot til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Íslensk þýðing á heimasíðu Small Business Administration mun án efa leiða til fjölgunar fyrirtækja í eigu kvenna en aukin þátttaka þeirra í atvinnurekstri treystir stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Nefnd sem starfaði á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis árið 1998 og skrifaði skýrslu um atvinnurekstur kvenna notaði þá líkingu að konur væru vannýtt auðlind ef atvinnuþáttaka þeirra væri ekki nýtt til fullnustu. Ég vil hér taka undir þessi orð.

Nú á haustmánuðum lét Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið sem starfar á vegum forsætisráðuneytis framkvæma könnun meðal landsmanna þar sem mældir voru ýmsir þættir er snúa að Internetnotkun. Samkvæmt könnuninni nota karlar meira Internetið en konur - 61,1% karla sem hafa aðgang að tölvu nota Internetið daglega en einungis 42,2% kvenna. Þá eru karlar talsvert lengur á Netinu en konur. Ég er sannfærð um að með tilkomu heimasíðu Small Business Administration munu konur verða búnar að ná körlum er varðar internetnotkun við næstu könnun.

Könnun verkefnisstjórnarinnar leiddi ennfremur í ljós að ábendingar um vefsíður frá vinum og vandamönnum er það sem helst hvetur þá sem hafa aðgang að Internetinu, til heimsókna á vefsíður sem þeir hafa ekki skoðað áður, eða 47,6%. Ég hvet því alla viðstadda til að minna á þessa mikilvægu heimasíðu á braut upplýsingamiðlunar.

Ég vil að lokum óska Impru, Nýsköpunarsjóði og "Auði í krafti kvenna" til hamingju með þetta ágæta framtak til stuðnings atvinnurekstri kvenna. Þá vil ég þakka sérstaklega sendiherra Bandaríkjanna, frú Barböru J. Griffith fyrir góðfúslegt leyfi Bandaríkjastjórnar á íslensku þýðingunni sem mun án efa auka samkeppnishæfni fyrirtækja í eigu íslenskra kvenna.
Finally I would like to thank the ambassador of the United States, Mrs Barbara J. Griffith for allowing on behalf of the American government the translation of this website.
I am positive that the website will be of great help to the Icelandic Women Entrepreneurs.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta