Ávarp á ráðstefnunni "Ný hugsun á nýrri öld", 27.10.00-
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
"Ný hugsun á nýrri öld"
ávarp á ráðstefnu Nýsköpunarsjóðs og Byggðastofnunar
Viðey, föstudaginn 27. október 2000.
Ágætu ráðstefnugestir.
I.
Við höfum um langt árabil staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að fólksflutningar hafa jafnt og þétt verið frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Vestfirðir hafa verið verst leiknir af þessum fólksflutningum og lætur nærri að á tíu ára tímabilinu frá 1987 til 1997 hafi um fimmtungur íbúanna flust burtu. All nokkrar sýslur landsins urðu að búa við yfir 10 % brottflutning fólks á sama tímabili, en flutningur fólksins hefur nær eingöngu verið hingað á suð-vestur horn landsins. Ástæður þessara fólksflutninga eru af ýmsum toga, bæði félagslegar og menningarlegar en ekki hvað síst tengdar breytingum í atvinnuháttum þjóðarinnar. Ljóst er að hinar hefðbundnu atvinnugreinar, sjávarútvegur og landbúnaður, munu í framtíðinni ekki standa undir uppbyggingu atvinnulífsins á landsbyggðinni í þeim mæli sem verið hefur fram til þessa. Vissulega munu bæði landbúnaðurinn og sjávarútvegur eflast í takt við tæknilegar framfarir og nýja þekkingu, en fjöldi starfa í greinunum mun ekki vaxa. Vægi þeirra í þjóðarbúskapnum mun auk þess fara minnkandi samhliða því sem þekkingariðnaðinum vex fiskur um hrygg.
II.
Nú liggja fyrir tölulegar upplýsingar um búferlaflutninga fyrstu 9 mánuði ársins, sem eru með nokkuð öðrum hætti en verið hefur um langt skeið. Þær sýna að dregið hefur úr búferlaflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem er staðfesting á því að breytingin sem við fyrst sáum móta fyrir sl. vor hefur haldið áfram. Ekki þori ég að vona að orðið hafi viðvarandi umsnúningur í fólksflutningunum en þessi þróun ætti engu að síður að geta verið okkur öllum nokkur vísbending um að unnt er í raun að snúa vörn í sókn. Það sem vekur ekki hvað síst athygli varðandi þessar nýju tölur Hagstofunnar er að flutningur af höfuðborgarsvæðinu út á land hefur einnig aukist. Þetta á þó aðeins við um svæðið umhverfis Reykjavík en bæði á Suðurnesjum og Vesturlandi eru fleiri aðfluttir en brottfluttir innanlands og á Suðurlandi er munurinn lítill. Það eru þéttbýlissvæðin í þessum landshlutum sem draga helst til sín fólkið. Á Vesturlandi eru það Akranes og Borgarbyggð og Selfoss og Hveragerði á Suðurlandi. Því miður heldur áfram að fækka í sveitunum eins og verið hefur um langt skeið.
Þetta kann þó einnig að breytast því ég hef mikið orðið vör við það að þéttbýlisbúar hér suð-vestanlands horfa í auknum mæli til nærsveitanna í leit að griðastað fyrir vinnu sína, sem þeir vilja gjarnan getað stundað utanbæjar. Það sem virðist helst standa þeirri þróun fyrir þrifum er að bandbreidd fjarskiptakerfisins í sveitunum dugir ekki til hinna þyngri gagnaflutninga.
Þrátt fyrir að grunnorsök fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins liggi sennilega í breytingum í hinum hefðbundnu atvinnugreinum sjávarútvegi og landbúnaði og mikilli þenslu í allri atvinnustarfsemi hér fyrir sunnan, þá hefur atvinnuþróunin einnig orðið dreifbýlinu í hag. Þessi hagur er enn sem komið er lítt sýnilegur og hans gætir lítið í hagtölum.
Þó verður þessara breytinga eilítið vart í fyrirliggjandi tölum Hagstofunnar. Þetta kemur fram í því að á árunum 1996 til 2000 sköpuðust 1.900 ný störf í hinu svokallaða nýja hagkerfi, þ.e. hátæknifyrirtækjum í hugbúnaðargerð, líftækni og fjarskiptum. Þetta er um 100 störfum fleiri en þaau sem töpuðust í landbúnaði og sjávarútegi samanlagt á sama tíma. Ný störf sem skapast í þessum tæknigreinum munu, ef að líkum lætur, reynast meðal helstu hornsteina atvinnuþróunar á landsbyggðinni í framtíðinni.
III.
Við Íslendingar höfum einsett okkur að verða virkir þátttakendur í hinu nýja hagkerfi 21. aldarinnar. Þátttaka okkar í alþjóðlegu vísindasamstarfi hefur sýnt og sannað að íslenska þjóðin er ekki aðeins þiggjandi á þeim vettvangi heldur hefur hún lagt mikið af mörkum í hinn alþjóðlega þekkingarbrunn. Sóknarfæri okkar eru mörg og hafa fræðimenn bent á að tækifæri okkar til sóknar á ýmsum sérsviðum t.d. innan líftækninnar séu einstök. Sama má segja um möguleika okkar á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Sú fótfesta sem við höfum nú þegar náð á þessum tveim sviðum gefur vonir um farsæla þróun þessara þekkingargreina í framtíðinni.Sú þróun sem við sjáum nú móta fyrir er þess eðlis að landfræðileg lega lands okkar og fámenni þjóðarinnar hefur ekki afgerandi áhrif á möguleika okkar til þátttöku í þessu alþjóðlega samkeppnisumhverfi þekkingariðnaðarins. Á sama hátt er þess að vænta að enn minni samfélög geti orðið virkir þátttakendur í hinu nýja hagkerfi enda búi þau yfir einhverri sérstæðri þekkingu sem gefi þeim samkeppnisforskot.
Á grundvelli þessa vil ég leggja áherslu á að þau sérkenni sem munu gefa íslensku þjóðinni samkeppnisforskot í framtíðinni eru ekki bundin við þéttbýlið. Sé litið til líftækninnar má leiða líkur að því að við Íslendingar getum fundið okkur fjölmörg svið sem gefi umtalsvert forskot til að afla nýrrar þekkingar og til að markaðssetja nýjar afurðir. Einkum á þetta við fræðasvið sem byggja á fumgreinunum, landbúnaði og sjávarútvegi, og landfræðilegri sérstöðu landsins. Öflun þessarar þekkingar og markaðsetning hennar er ekki bundin við búsetu á þéttbýlissvæðum næst höfuðborginni. Þvert á móti eru sóknarmöguleikar okkar jafnt tengdir dreifbýlinu utan þess.
IV.
Það er ekki ætlun mín að rekja þessar hugleiðingar mínar mikið lengra að sinni. Tilgangur þeirra er þó sá að leggja áherslu á þá staðföstu trú mína að traust búseta og framsækin atvinnustarfsemi á landsbyggðinni er raunhæft markmið sem við eigum að stefna óhikað að. Grundvöllur þess að svo verði er að okkur takist að byggja upp nýja þekkingu á landsbyggðinni sem getur orðið undirstaða nýrra atvinnugreina. Stór hluti þeirra nýju atvinnugreina mun þó væntanlega byggja á hinum hefðbundnu atvinnugreinum sjávarútvegi og landbúnaði. Byggðastefna stjórnvalda verður að grundvallast á virkri þátttöku landsbyggðarinnar í hinu nýja hagkerfi 21. aldarinnar. Hún þarf að byggjast á auknum skilningi á mikilvægi menntunar og símenntunar. Hún þarf að taka mið af þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli vísindalegra rannsókna og efnahagslegra framfara og hún þarf að ástunda markvissa yfirfærslu þekkingar til landsbyggðarinnar. Síðast en ekki síst er mikilvægt að sem víðast á landinu geti ný þekking orðið til, sem eigi rætur í hefðbundnum atvinnugreinum. Gangi það eftir skapast færi fyrir nýja sérstæða atvinnustarfsemi, sem gefur okkur það samkeppnisforskot sem ætíð er nauðsynlegt í hinni alþjóðlegu samkeppni viðskiptanna.
Ágætu ráðstefnugestir.
Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag. Viðey skipar vissan virðingarsess í atvinnusögu þjóðarinnar. Þetta hús var upphaflega byggt sem embættisbústaður fyrir Skúla Magnússon, sem var ekki aðeins fyrsti íslenski landfógetinn, heldur einnig fremsti nýsköpunarfrömuður síns tíma. Ekki er ólíklegt að Skúli hafi haft byggðina í Reykjavík fyrir augum sér héðan út um þessa glugga eða af hlaðinu þegar hann ákvað að byggja iðnaðarfyrirtæki sín vestan í kvosinni í Reykjarvík. Mér finnst einkar viðeigandi að þessi ráðstefna um "nýja hugsun á nýrri öld" skuli haldin hér í Viðey, enda eru efnistökin í anda hins fallna höfðingja sem kallaður hefur verið faðir Reykjavíkur.
Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag.