Ávarp ráðherra á ráðstefnunni "Framtíð villtra laxastofna og fiskeldi á Íslandi" 28. nóvember 2000
Ávarp
Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra
á ráðstefnunni
"Framtíð villtra laxastofna og fiskeldi á Íslandi"
haldin 28. nóvember 2000
Góðir ráðstefnugestir.
Ég vil í upphafi þakka fyrir þessa ráðstefnu. Nú þegar líður að því að taka ákvörðun um framtíð fiskeldis í landinu er nauðsynlegt að draga saman alla þá þekkingu og vitneskju sem til er, meta hana af hlutleysi og byggja ákvörðun á því mati.
Sem landbúnaðarráðherra geri mér skýra grein fyrir því að nýting villtra laxastofna er veigamikið atriði í því að viðhalda byggð víða um land. Ég hef engar hugmyndir um að breyta því.
Á sama tíma hafa valist til forystu fyrir sveit fiskeldismanna aðilar sem fylgst hafa með mikilli uppbyggingu í nágrannalöndum okkar. Þeir sjá tækifæri fyrir Ísland til að vera þátttakandi í fiskeldinu, því sem sumir vilja kalla fæðubrunni framtíðarinnar. Að því verðum við að gefa gaum því okkar er að nýta vel þau tækifæri sem gefast við fjölbreytta atvinnu uppbyggingu í dreifðum byggðum landsins.
Þegar óskir komu fram um heimild til að ala lax af norskum uppruna í sjókvíum við strendur landsins ákvað ég að skipa nefnd til að fara yfir sambýli villtrar náttúru og fiskeldis, lagalega stöðu fiskeldis og hugsanlega staðsetningu þess. Ég ákvað jafnfram að heimila tilraun með skiptieldi á Stakksfirði. Til að fylgja eftir þeirri tilraun var skipuð eftirlitsnefnd sérfræðinga sem hefur fylgst með eldinu. Fram að þessu hafa niðurstöður verið á einn veg en of snemmt er að draga miklar ályktanir. Tilraunin skal standa í tvö ár og framtíð skiptieldis í Stakksfirði ræðst af niðurstöðu hennar.
Sambýlisnefndin hefur unnið vel síðan hún tók til starfa í ágúst og hefur formaður hennar skilað til mín áfangaskýrslu. Þar er farið yfir störf nefndarinnar, saga eldis sögð í stuttu máli og vikið að þeim meginatriðum er snerta fyrrnefnt sambýli.
Rétt er þess vegna að rifja upp nokkur atriði úr áfangaskýrslunni. Hrogn af norskum uppruna voru fyrst flutt til landsins 1975 og hefur lax af þeim stofni verið í sjó hér við land frá þeim tíma, þ.e. í Rifós við Öxarfjörð. Einnig kemur fram að lax af norskum uppruna hefur verið í kvíum á fleiri stöðum við Norðurland og Austfirði þó ekki hafi verið til þess formleg leyfi. Það eldi hefur af ýmsum ástæðum gengið illa. Hvernig það má vera að þessi stofn finnist víðar enn í Kelduhverfi gefur auðvitað ástæðu til að endurskoða og auka það eftirlit sem nú er haft með eldi hér við land. Einnig er rétt að geta þess að seiði af þessum stofni eru alin í seiðaeldisstöðvum víða um land, þar af mörgum sem ekki hafa frárennsli beint í sjó. Athyglisvert er í þessu ljósi að ráðuneytinu er ekki kunnugt um að nokkru sinni hafi verið grunur um flökkulaxa af norskum uppruna í íslenskum veiðiám. Samt er fylgst vel með þessum þáttum í nokkrum ám eins og t.d. í Vopnafirði.
Áhugi eldismanna á þessum norska stofni er mjög skiljanlegur. Hann er talinn sá heilbrigðasti í heimi auk þess sem eiginleikar eins og kynþroski og vaxtargeta eru eins og best verður á kosið. Landbúnaðarráðuneytið beitti sér fyrir því á sínum tíma að viðhalda ræktun þessa stofns og styður nú starfsemi Stofnfisks sem heldur þeirri ræktun áfram. Það er ljóst að stofninn er öflugt framleiðslutæki sem sjálfsagt er að nýta, þó með gætni sé.
Dýralæknir fisksjúkdóma hefur staðfest við nefndina að út frá heilbrigðisástandi sé ekkert því til fyrirstöðu að nýta stofninn í kvíum hér við land. Hann bendir þó eðlilega á að við þéttleikabúskap eins og fiskeldi skapist oft aðstæður sem magni upp smit. Þess vegna verði á hverjum tíma að fylgjast vel með heilbrigðisástandi. Það á ekki síst við um snýkjudýr eins og fiski- og laxalús og í ýmsum heimildum sem nefndin hefur kynnt sér, kemur fram að smit lúsa frá eldiskvíum sé verulegt vandamál, ekki síst fyrir sjóbirting. Þetta gefur fyllstu ástæðu til að staðsetja heilsárseldi fjarri laxveiðiám. Í skiptieldi eins og í Stakkfirði þar sem lífsferillinn er rofinn er hættan minni.
Erfðablöndun milli eldisfisks og náttúrulegra fiskistofna er sá þáttur sem án nokkurs vafa er erfiðast að meta í þeirri ákvörðun sem nú þarf að taka. Blöndunin verður ekki metin í lítrum, metrum eða öðrum mælieiningum sem við notum daglega. Við vitum að náttúran sjálf hefur sínar eigin leiðir við að viðhalda erfðafræðilegum breytileika og að náttúrleg villa mælist allt að 5%. Sérfræðingar eru ekki sammála um áhrif, sumir segja þau jákvæð en aðrir neikvæð. Menn eru þó sammála um að náttúran ástundar sitt eigið val og sé áreitnin ekki þeim mun meiri og standi þeim mun lengur á náttúran að ráða við þessa áreitni eins og svo margar aðrar. Það er auðvitað óumdeilt að áhrif mannvistar, hvort sem þau felast í veiðiskap, virkjunargerð, mengun, ræktun eða einhverju öðru hafa fram að þessu haft mun meiri áhrif og munu trúlega hafa áfram.
Aðalatriðið í þessu er þó að nota ekki önnur tæki eða aðra tækni en þá sem best er talin hverju sinni og takmarka því eins og kostur er sleppingu fiska úr kvíum. Bætt tækni hefur minnkað sleppingu og auknar kröfur um eftirlit og vöktun hafa stuðlað að betri búskap. Ég trúi því að eldismenn, rétt eins og sauðfjárbóndinn, stundi sína ræktun til að uppskera en ekki til að láta lömbin verða eftir á fjalli. Þá verður lítill afraksturinn í þeirri samkeppni sem nú fer fram á heimsmarkaði.
Sambýlisnefndin hefur farið yfir lagalegan grunn fiskeldis. Það er ljóst að hann er ófullkominn og hefur nefndin bent á nauðsyn þess að endurskoða lögin. Nú er til í ráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um breytingu á lax- og silungsveiðilögunum. Þessi drög sem verða kynnt á næstu dögum lúta að því að styrkja lagagrunn fyrir rekstrarleyfi því sem Veiðimálastjóri gefur fiskeldisstöðvum.
Ágætu ráðstefnugestir.
Á næstu vikum liggur fyrir að taka ákvörðun um rekstrarleyfi fyrir þær eldisstöðvar sem sótt hafa um leyfi. Það verður ekki létt ákvörðun. Ég hef sagt það áður að á sumum stöðum kemur aldrei til greina að heimila eldi í sjó. Þar sem fjörðurinn kyssir laxveiðiána verður aldrei eldi. Þar sem við lágnættið má sjá gljáandi lax líða með ströndum og reka trjónuna í ferskvatnið verður aldrei eldi. Til þess er sú sjón of tengd íslenskum glæsileik að henni sé vogandi.
En e.t.v. eru einhverjir firðir sem vegna legu sinnar og veðurfars geta hentað til eldis. Að því verður að hyggja. Ef slíkt yrði leyft verður sú ákvörðun bundin þeim skilyrðum að í hvívetna verði farið gætilega í samskiptum við náttúruna og að stöðug athugun og vöktun fari fram á öllum þáttum. Þeir sem sótt hafa um þessi leyfi hafa staðfest við mig að þeir fagni ströngum skilyrðum enda komi það engum betur en þeim sjálfum að vera meðvitaðir á hverjum tíma um eldið og umhverfi þess. Því sjónarmiði ber að fagna. Ef leyfi verða veitt verða þau að vera tímabundin og ef rannsóknir og vöktun benda til röskunar á lífríki þá verði þau ekki endurnýjuð. Þá yrðu stærð leyfa eða umfang eldis að taka mið af þeirri staðreynd að vitneskja okkar um sjúkdóma og sambýli eldis og náttúru er mjög takmörkuð og trúlega ekkert nema reynslan getur svarað þyngstu spurningunum.
Það er ljóst að við Íslendingar getum átt tækifæri í fiskeldi. Ef við kjósum að nýta þau eigum við alla möguleika á að stjórna uppbyggingu eldisins og minnka þannig líkur á því að náttúran bíði skaða ef slys verða. Aukum rannsóknir og verum því viðbúin með varnaraðgerðum að illa geti farið í íslenskum veiðiám, ekki bara vegna fiskeldis heldur ekki síður vegna ýmissa annarra áhrifa sem við þekkjum ekki á þessari stundu og gerum okkur ekki grein fyrir.