Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. desember 2000 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Framtaksfjárfestar í Evrópu, ráðstefna haldin 11.12.00 -

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á ráðstefnunni: Framtaksfjárfestar í Evrópu:
Hver er staða íslenskra fjárfesta.
Þingsal A Hótel Sögu
mánudaginn 11. desember 2000.


Ágætu ráðstefnugestir.

Þrátt fyrir að nú um stundir sé örlítið á brattann að sækja verður ekki framhjá því litið að við Íslendingar höfum notið einstakrar efnahagslegrar velferðar allan seinni hluta áratugarins - með yfir 4% samfelldan árlegan hagvöxt. Ástæður þessa mikla hagvaxtar eru margar. Þær er bæði að finna í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi, sem við óneitanlega erum hluti af, - og einnig í margvíslegum breytingum sem orðið hafa á innlendum aðstæðum. Breytingar á innlendum fjármagnsmarkaði eiga hér nokkurn hlut að máli. Skipulagsbreytingar fjármagnsmarkaðarins hafa tekið undraskamman tíma og innan við þrjú ár eru síðan ríkisbönkunum tveimur Landsbanka og Búnaðarbanka var breytt í hlutafélög, í ársbyrjun 1998. Á sama tíma hóf Fjárfestingarbankinn og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins starfsemi eftir að fjárfestingarlánasjóðir iðnaðar og sjávarútvegs höfðu verið sameinaðir. Nú hefur Fjárfestingarbankinn verið seldur að öllu leyti og jafnframt er búið að selja 15% hlut í Landsbanka og Búnaðarbanka.

Framundan er svo sameining ríkisbankanna tveggja. Nú virðist ríkja nokkuð góð samstaða um þessa sameiningu þrátt fyrir að margir hafi mælt henni mót í upphafi. Augu manna hafa opnast fyrir því hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir okkur að búa við sterkan fjármagnsmarkað og geta teflt fram eins öflugum bönkum og takmarkað bolmagn okkar leyfir á hinum alþjólega samkeppnismarkaði. Þessi markaður á sér engin landamæri svo varla er lengur hægt að tala um Ísland sem heimamarkað íslenskra banka. Þetta hefur endurspeglast í öflugri útrás íslenskra fjármagnsstofnana á erlenda markaði og í fjárfestingum þeirra í útlöndum. Íslenski fjármagnsmarkaðurinn er þar með að verða stöðugt virkari þátttakandi á alþjóða vettvangi.

Mikilvægur þáttur í því var rafræn skráning verðbréfa sem mun auka skilvirkni og veltu á markaðnum. Einnig er tenging Verðbréfaþingsins við NOREX til mikilla bóta sem vafalítið mun hafa mjög hvetjandi áhrif á íslenska fjármagnsmarkaðinn og opna virka leið fyrir erlenda fjárfesta að íslenskum fyrirtækjum.

Aðgengi fyrirtækja að áhættufjármagni hefur á stuttum tíma tekið miklum breytingum. Fyrir um áratug síðan voru virkir áhættufjárfestar teljandi á fingrum annarrar handar. Frumstigum nýsköpunarinnar var ekki vel sinnt og veð í steinsteypu var í flestum tilfellum lykilatriði. Umskipti fjármagnsmarkaðarins hafa ekki hvað minnst haft áhrif á framboð af áhættufé og viðmið þess markaðar. Tilkoma Nýsköpunarsjóðs í ársbyrjun 1998 hafði mikil áhrif bæði vegna þess að þar kom fram nýtt fjármagn og til varð vísir að samkeppni um fjárfestingarverkefni.

Þegar hlutverk sjóðsins í fjárfestingarverkefnum var mótað í upphafi var sjóðnum aðallega ætlað að efla vöxt fyrirtækja, þ.e. til fjármögnunar útvíkkunar á starfsemi þeirra að aflokinni þróun og öflun markaða. Þetta breyttist þó fjótt, einkum vegna þess að aðrir fjárfestar sýndu þessu stigi áhættufjármögnunar aukinn áhuga. Áherslur sjóðsins beindust því að fjármögnun nýrra fyrirtækja - og á seinustu misserum eru allmörg dæmi um að sjóðurinn hafi veitt fyrirtækjum þróunarfjármagn eða hugmyndafé í tengslum við álitlegar viðskiptahugmyndir. Þessi þróun er ákaflega ánægjuleg og lýsir framvindu markaðarins í hnotskurn.

Þessar breytingar eiga e.t.v. rætur að rekja til þess að við höfum á undanförnum árum séð ávöxt stórstígra framfara í vísindum og tækni. Einkum er það upplýsinga- og fjarskiptatæknin sem hefur fært okkur inn í meginstrauma alþjóðaviðskiptanna og um leið skapað fjölmarga nýja möguleika í upplýsingaiðnaði. Aðrar vísindagreinar hafa einnig verið drjúgar við eflingu íslensks atvinnulífs og fjölbreytileika þess. Líftæknin og erfðavísindin hafa markað djúp spor og verið okkur hvati til aukinnar sóknar á nýjum sviðum.

Ágætu ráðstefnugestir.
Nýsköpun atvinnulífsins er undirstaða efnahagslegra og félagslegra framfara. Greið samskipti á milli vísindamanna, fyrirtækja og áhættufjárfesta eru grundvallaratriði fyrir farsælli nýsköpun. Af dagskrá ráðstefnunnar sé ég að vel hefur tekist til að kalla fulltrúa allra þessara aðila til fundarins og má vænta góðs árangurs af starfi ykkar til samræmis við það. Með þessum fáu orðum lýsi ég ráðstefnu þessa setta.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta