Ræða á blaðamannafundur 31. janúar 2001 varðandi innflutning landbúnaðarvara
Ræða ráðherra á
blaðamannafundi 31. janúar 2001
varðandi innflutning landbúnaðarvara
Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að Íslendingar færu varlega í innflutningi landbúnaðarvara. Um það vitna störf mín á Alþingi undanfarin 14 ár. Þess vegna var mér líkt og manninum á götunni brugðið við þá umræðu að eftirlit með innflutningi á landbúnaðarvörum hefði brugðist. En eftir lestur álitsgerðar Eiríks Tómassonar get ég glaðst yfir því að embætti yfirdýralæknis viðheldur öflugu eftirlitskerfi með innfluttum matvörum. Á sama hátt finnst mér miður að hnökrar koma fram í stjórnsýslunni. Það kemur mér á óvart hvernig stjórnsýslan milli landbúnaðarráðuneytisins, yfirdýralæknis og tollayfirvalda hefur þróast í kjölfar gildistöku WTO samningsins árið 1995. Þegar ég kom í landbúnaðarráðuneytið hófst ég þegar handa við að bæta og breyta stjórnsýslu þess ráðuneytis. Aukinn kraftur var settur í þá vinnu þegar Guðmundur B. Helgason ráðuneytisstjóri tók til starfa 1. september s.l. Hann hefur tekið þá vinnu föstum tökum en öll slík vinna tekur tíma. Því vil ég segja nú að álitsgerð Eiríks Tómassonar verður okkur hvatning í þessu starfi.
Þegar ég nú kynni þá álitsgerð sem prófessor Eiríkur Tómasson hefur unnið fyrir mig, landbúnaðarráðherra sem er annt um heilbrigði manna og dýra, vil ég leggja megin áherslur á eftirfarandi þætti.
1. Túlkun og framkvæmd Íslands á samningi WTO um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna er sú strangasta meðal aðildarríkja stofnunarinnar. Meginreglan er bann og innflutningur er ekki leyfður nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Ísland hefur algera sérstöðu hvað þetta varðar. Þess vegna er ekki ástæða til bráðaaðgerða hér á landi eins og víða annars staðar þar sem opnara innflutningsfyrirkomulag gildir. Þær þjóðir eru að taka upp fyrirkomulag íslendinga tímabundið. Flestir þeir sem nú hafa gagnrýnt mig og mína embættismenn hvað harðast ættu að huga að því hvað þeir sögðu þegar reglurnar voru settar 1993-1995. Hér væri önnur staða ef þeir hefðu ráðið.
2. Í álitsgerð Eiríks kemur fram að embætti yfirdýralæknis hafi unnið vel og faglega þegar það heimilaði umræddan innflutning. Það sinnti bæði lögbundum skyldum og rannsóknarskyldu. Þetta álit Eiríks er mjög mikilvægt fyrir bændur og neytendur þessa lands. Þetta er grundvallaratriði gagnvart þeim trúnaði sem þarf að vera á milli eftirlitsaðila og neytenda og bænda. Fyrir ákvörðuninni lágu vísindaleg rök, auk aðildar okkar að GATT/WTO samningnum.
3. Ísland hefur alltaf lagt mikla áherslu á gildi vísindalegra raka þegar fjallað er um milliríkjaviðskipti með matvæli. Það má ekki breytast. Við sem byggjum afkomu okkar á útflutningi matvæla getum kallað yfir okkur skaðlegar gagnaðgerðir með ófyrirsjánlegum afleiðingum ef við hverfum af þeirri braut. Í þessu samhengi er rétt að minna á fiskimjölið og sumir halda því fram að fiskurinn geti orðið næstur.
4. Í álitsgerð Eiríks eru gerðar tvær athugasemdir sem ég sem landbúnaðarráðherra tek alvarlega. Annars vegar lúta þær að stjórnsýslulegri meðferð innflutnings landbúnaðarvara, sem falla undir tollkvótaskuldbindingar Íslands á vettvangi WTO og hins vegar að reglugerð og auglýsingu sem um innflutning gilda. Gagnrýnt er það verklag að láta heimild landbúnaðarráðuneytisins til innflutnings skv. búvörulögum ná einnig yfir innflutningsheimild skv. lögum um dýrasjúkdóma. Tilgangurinn var að minnka vinnu og fyrirhöfn. Þetta valdaframsal, eins og Eiríkur kallar þetta í álitsgerðinni stenst ekki og því verður hætt nú þegar. Reglugerð og auglýsing, sem landbúnaðráðuneytið hefur sett vegna þessa innflutnings hafa ekki næginlega lagastoð, eru með öðrum orðum meira íþyngjandi. Það fær ekki staðist. Þó hér sé síður en svo um einsdæmi að ræða verður það ekki til málsbóta hér.
En hvert verður framhald þessa máls?
Þar vil ég nefna tvennt:
Í fyrsta lagi að ríkisstjórn Íslands hefur falið Eiríki Tómassyni og Skúla Magnússyni, lektor, að gera úttekt á lögum, reglum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, m.a. með tilliti til þess hvort auka megi takmarkanir á innflutningi kjöts og kjötvöru til þess að kom í veg fyrir að hingað til lands berist sjúkdómar, sem hættulegir geta verið heilbrigði manna og dýra. Þessari úttekt skal lokið fyrir 1. mars n.k. Ég mun miða aðgerðir landbúnaðarráðuneytisins við niðurstöður þeirrar úttektar, og gera þær tillögur um lagabreytingar sem ég tel nauðsynlegar til að treysta fyrirkomulag innflutningsmála og haga reglugerðarsetningu landbúnaðarráðuneytisins í samræmi við slíkar breytingar.
Í öðru lagi að ríkisstjórn Íslands hefur falið Vilhjálmi Rafnssyni lækni og Ólafi Oddgeirssyni dýralækni, að gera úttekt byggða á fyrirliggjandi gögnum á hugsanlegri hættu sem neytendum stafar af neyslu á vörum sem innihalda innflutt nautakjöt eða nautakjötsafurðir. Eins og fram hefur komið í umræðu síðustu daga er nauðsynlegt að huga að öllu eftirliti með matvælum, ekki bara eftirliti með hráum afurðum. Þessari úttekt skal lokið fyrir 15. febrúar n.k.
Með þessu móti tel ég að Ísland geti haldið þeirri sérstöðu sem það hefur. Við gleðjumst með íslenskum bændum sem framleiða frábærar afurðir í hreinustu náttúru í heimi en um leið tekur það okkur sárt að sjá angist í augum neytenda margra annarra landa. Á sama hátt lýsi ég samúð minni með bændum í þeim löndum sem nú eru hart leiknir af búskaparháttum sem óraunhæfar kröfur um lágt matvælaverð leiða af sér.
Með vísan í allt það sem ég hef hér sagt ítreka ég að það er stefna ríkisstjórnarinnar að standa vörð um hreinleika og gæði innlendrar framleiðslu. Þá stefnu ríkisstjórnarinnar hafa neytendur tekið undir með þeim hætti að bergmálar um allan hinn vestræna heim.