Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. mars 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á fundi Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs 9. mars 2001 við afhendingu nýsköpunarverðlauna.

Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra
á fundi Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs
föstudaginn 9. mars 2001
við afhendingu nýsköpunarverðlauna


"Lífvísindi - leiðin á markað."


Góðan dag, ágætu athafna- og hugsjónamenn. Morgunstund gefur gull í mund.

Fyrirsögn þessa fundar fellur vel að starfssviði manns sem fer með málefni landbúnaðar í ríkisstjórn. Landbúnaður er hagnýt lífvísindi, - nýsköpun og vöruþróun skiptir miklu fyrir framtíð þessa atvinnuvegar.

Nútíma landbúnaðarframleiðsla byggir á mjög fjölbreytilegri þekkingu þannig að fáir atvinnuvegir styðjast við jafn breiðan þekkingargrunn. Bóndinn þarf að vera vel að sér á mörgum sviðum. Þar má nefna tækni, byggingar, verkstjórn, markaðssetningu og fleira. Lífvísindin, og þá sérstaklega erfðafræðin, myndar grunninn að öllu sem hann gerir og er stöðugt viðfangsefni.

Hvort sem fengist er við ræktun eða úrvinnslu afurðanna er öflun þekkingar í lífvísindum nauðsynleg til að tryggja öryggi framleiðslunnar, magn hennar og gæði, og stuðlar að því að landbúnaðurinn geti brugðist við sífellt vaxandi samkeppni á markaði.

Skipuleg uppbygging reynslu og þekkingar með tilraunum á Íslandi er ekki gömul. Gaman er þó að geta þess að í ár eru eitt hundrað ár liðin frá því að jarðræktartilraunir hófust með núverandi sniði. Þá var stofnuð Gróðrarstöðin í Reykjavík á mótum Barónsstigs og Laufásvegar, rétt vestan við gamla Kennaraskólann.

Hagnýting erfðafræðinnar í kynbótum er stöðugt að skila afurðameiri og betri búpeningi. Íslenska kýrin skilar að jafnaði eitt prósent afurðaaukningu á hverju ári vegna kynbótastarfsins og hliðstæður ávinningur er í sauðfjárræktinni.

Erfðaframfarir í fiskeldi eru stórstígar og kynbætur verða snar þáttur í þeirri viðleitni að halda styrkri samkeppnisstöðu í lax- og silungseldi og reyndar í hverri þeirri tegund sem við kjósum að rækta.

Í jarðræktinni hafa unnist miklir sigrar með uppskerumiklum nýjum yrkjum af grösum og belgjurtum sem treysta undirstöðu fóðuröflunar. Þá vil ég nefna sérstaklega nýtt íslenskt yrki af byggi, sem kynbætt hefur verið á Rannsóknastofnun landbúnaðarins og treystir undirstöðuna undir verðmætt nýsköpunarstarf í íslenskum landbúnaði sem kornræktin er.

Möguleikar okkar og árangur í skógrækt og landgræðslu hafa einnig stórbatnað á síðustu áratugum vegna þeirra rannsókna sem unnar hafa verið í ýmsum greinum lífvísinda, og þá einkum lífeðlisfræði og erfðafræði.

Það sem ég hef hér nefnt er allt dæmi um það, hvernig rannsókna- og þróunarstarfið í lífvísindum og landbúnaði hefur skilað sér með einum eða öðrum hætti til að bæta markaðsstöðu greinarinnar. Þessar framfarir eru stöðugar og jafnar og verða það væntanlega áfram.

En það er fleira matur en feitt ket! Hvernig stöndum við í þeirri öru þróun lífvísindanna eða líftækninnar sem við verðum vitni að í fjölmiðlum nánast á hverjum degi? Þar vil ég nefna tvennt: Svo sýnist, sem skilin milli þeirra lífvera sem hingað til hafa verið nefnd nytjaplöntur og hefðbundinn búsmali og annarra lífvera, séu að minnka. Lífríkið er nú ekki lengur nýtt með hefðbundnum hætti, t.d. eru nú silungur, lax og lúða nýtt í eldi. Aðrar og ólíklegri tegundir verða með aðferðum líftækninnar uppspretta verðmæta svo sem lífefna sem nýtast með margvíslegum hætti. Hverjum hefði getað dottið í hug fyrir fáum árum að hveraörverur yrðu grunnurinn að öflugu rannsóknafyrirtæki?

Með líftækninni er einnig hægt að færa erfðaefni milli tegunda og ná árangri sem ekki var hægt að ná áður með hefðbundnum kynbótaaðferðum. Hægt er að færa erfðavísa sem auka vetrarþol milli plöntutegunda og til dæmis gera kartöfluna kuldaþolna þannig að ekki falli öll grös í byrjun ágústmánaðar á einni hélunótt, eins og iðulega kemur fyrir.

Þessa möguleika sem líftæknin bíður upp á þarf að nota til að efla íslenskan landbúnað og íslenskt atvinnulíf í heild. Vitaskuld þarf að gæta vel að hugsanlegum umhverfisáhrifum. Við þurfum að taka upp virkari umræðu um þessi mál og komast að niðurstöðu um hvernig við best beitum þessari nýju þekkingu landi og þjóð til góða. Sú áhugaverða staða virðist uppi að óblíð veðrátta, tegundafæð og erfið vaxtarskilyrði geti veitt okkur öryggi og sóknarfæri í plöntulíftækninni.

Sá þáttur líftækninnar og beiting hennar, sem einkum er til umfjöllunar hér í dag, siglir í meiri meðbyr. Margvísleg verðmæt lyf og lífefni eru framleidd með hjálp erfðabreyttra örvera nánast í iðnaðarumhverfi og hafa ekki kallað fram ákafa umræðu með sama hætti og orðið hefur þegar líftæknin er notuð til að flytja erfðavísa milli tegunda í plöntum og dýrum sem notuð eru til manneldis. Hér má nefna insulínið sem er framleitt með hjálp erfðabreyttra örvera.

Reyndar er það svo, að einnig hér eru skilin milli þess nýja og hins hefðbundna ekki eins skörp og áður. Á Rannsóknastofnun landbúnaðarins hófust rannsóknir í þróun og beitingu líftækninnar í þágu verkefna á sviði jarðræktar fyrir tæpum áratug. Lagt var upp með hugmyndir um flutning erfðaefnis úr melgresi í hveiti, sem skilaði miklum grunnupplýsingum. Einnig hjálpaði sú tækni sem þar var þróuð til að auka skilning okkar á erfðafræði íslensku bjarkarinnar og þar með hvernig staðið skuli að kynbótum á tegundinni.

Nú er hafið nýtt metnaðarfullt verkefni á Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem unnið er í samstarfi við Iðntæknistofnun. Verkefnið beinist að því að nota plöntur, reyndar fyrsta íslenska kornyrkið, til að framleiða verðmæt lyf og lífefni með svipuðum hætti og tíðkast með ræktun örvera. Hugsanlega munu íslenskir bændur því rækta lyf og önnur nýstárleg verðmæti á ökrum sínum í framtíðinni.

Verkefnið heitir ORF sem við í landbúnaðinum þekkjum vel, að minnsta kost þeir okkar sem unnu með þetta góða verkfæri á síðustu öld. Mér er sagt að orðið ORF sé einnig skammstöfun á miklivægu líftæknilegu fyrirbrigði (open reading frame). Í orðinu mætast með skemmtilegum hætti forn og ný tækni.

Svo er og um lífvísindin sem við fjöllum um hér í dag. Landnámsmenn nýttu sér líftækni til að lyfta brauðdeigi, hleypa osti, til skyrgerðar og til að brugga mjöð. Tuttugasta öldin hófst með rannsóknum á baunum og enduruppgötvun á erfðalögmálum Mendels. Öldinni lauk með raðgreiningu á öllu erfðaefni fyrstu plöntunnar, og það sem meiri athygli vakti, - erfðamengi mannsins.

Það er sannfæring mín að þessi fræði verði og framvegis undirstaða framfara í íslensku samfélagi, þar sem hugvitið verður í askana látið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta