Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á aðalfundi Búnaðarbanka, 10.03.2001

Valgerður Sverrisdóttir
viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Búnaðarbanka Íslands hf.
10. mars 2001.

I.
Ágætu aðalfundargestir. Það hefur margt drifið á daga Búnaðarbanka Íslands hf. frá síðasta aðalfundi. Þar ber hæst að nefna mun lakari rekstur en á metárinu 1999, samrunaviðræður við Landsbankann og umræðu sem hefur verið um málefni bankans nú að undanförnu.
Rekstur bankans gekk ekki vel á síðasta ári og veldur nokkrum vonbrigðum. Methagnaður ársins 1999 kom að hluta til vegna stöðutöku í verðbréfum sem stöðugt hækkuðu í verði. Viðsnúningur á verðbréfamarkaði á síðasta ári kom því illa við rekstur Búnaðarbankans. Það verður hins vegar að teljast ljós í mykrinu að góður hagnaður varð af hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi.
Samrunaviðræður Landsbanka og Búnaðarbanka voru mjög í sviðsljósinu síðustu mánuði ársins. Báðir bankarnir höfðu hvatt stjórnvöld til að stuðla að frekari hagræðingu á íslenskum fjármagnsmarkaði með samruna þessara banka. Ég var þessu mati fyllilega sammála og taldi samrunann leiða til aukinnar samkeppnishæfni íslensks fjármagnsmarkaðar.
Ég hafði gert mér vonir um að niðurstaða Samkeppnisráðs yrði önnur, ekki síst vegna þess að samkeppnisyfirvöld í fámennum ríkjum hafa leyft mikla samþjöppun á bankamarkaði vegna alþjóðlegrar samkeppnishæfni. En hér togast á tvenn sjónarmið. Það er annars vegar hagræðingarsjónarmið, þ.e. stærðarhagkvæmni gerir það að verkum að stærri bankar geta veitt fjölbreyttari þjónustu fyrir lægra verð. Hins vegar eru það samkeppnissjónarmið, þ.e. að stækkun og fækkun banka leiði til of mikillar samþjöppunar.
Niðurstaða Samkeppnisráðs gerir það að verkum að ríkið mun selja bankana hvorn í sínu lagi. Hvernig staðið verður að hagræðingu á fjármagnsmarkaði að sölu lokinni verður mál nýrra eigenda.
Nú undanfarna mánuði hefur mikil umræða verið um Búnaðarbankann. Kemur það að mestu til út af tveimur málum er varða bankann sem opinberar eftirlitsstofnanir hafa sent lögreglu til rannsóknar. Þar sem málin eru hjá ríkislögreglustjóra og ekki liggur fyrir ákvörðun um ákæru né dómur gengið er ekkert hægt að fullyrða um niðurstöðu þessara mála. Ég hef hins vegar ítrekað lýst yfir áhyggjum mínum af þessum málum, enda alvarlegt að opinberar eftirlitsaðilar telji að Búnaðarbankinn hafi gerst sekur um brot á lögum.
II.
Ágætu fundarmenn. Þetta kann að vera í síðasta sinn sem viðskiptaráðherra ávarpar aðalfund Búnaðarbankans sem meirihlutaeigandi. Til meirihlutaeignar ríkisins í bönkum standa engin rök í dag. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og á sviði þar sem virk samkeppni er fyrir hendi. Ríkisviðskiptabankarnir áttu rót sína að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er þessi staða ekki lengur fyrir hendi.
Frumvarp hefur verið lagt fram á Alþingi sem heimilar viðskiptaráðherra að selja allan hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Stefnt er að því að sala hefjist á þessu ári og verði lokið fyrir lok kjörtímabilsins árið 2003.
III.
Breytingar hafa nú verið gerðar á yfirstjórn Búnaðarbankans en í síðustu viku réð bankaráðið nýjan bankastjóra. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til með ráðningu hans. Árni Tómasson er góður fagmaður sem vel þekkir til málefna fjármagnsmarkaðarins og Búnaðarbankans. Býð ég Árna velkominn til starfa og óska honum góðs gengis.
Með ráðningu Árna hætta í dag þeir Stefán Pálsson aðalbankastjóri og Jón Adólf Guðjónsson bankastjóri að eigin ósk. Þeir Stefán og Jón Adólf hafa þjónað Búnaðarbankanum dyggilega í áratugi. Vil ég fyrir hönd stærsta hluthafans þakka þeim góð störf í þágu bankans.
IV.
Góðir aðalfundargestir. Mikið hefur verið fjallað um kosningu í nýtt bankaráð Búnaðarbankans, sem fram fer hér á þessum aðalfundi, en menn hafa ekki alltaf gætt að sér í þeirri umræðu. Búnaðarbankinn stendur á tímamótum. Fyrir liggur að stjórn og rekstur bankans færast í hendur einkaaðila á næstu misserum verði frumvarp til sölu bankanna að lögum á Alþingi. Því mun ég leggja til nokkrar breytingar á skipan bankaráðsins. Nýir fulltrúar í bankaráðinu verða þeir Magnús Gunnarsson, Þorsteinn Ólafsson og Árni Páll Árnason. Þeir Magnús og Þorsteinn sátu fyrir hönd ríkisins í stjórn FBA og tókst afskaplega vel til í sínum störfum þar. Þau störf fólust meðal annars í að undirbúa FBA undir einkavæðingu og starfrækslu í nýju umhverfi. Reynsla Magnúsar og Þorsteins mun því reynast Búnaðarbankanum vel í þeim breytingum sem bíða hans.
Magnús Gunnarsson er fyrrverandi framkvæmdastjóri Arnarflugs, SÍF og Vinnuveitendasambandsins. Hann var formaður Útflutningsráðs Íslands og varaformaður stjórnar FBA hf.
Þorsteinn Ólafsson er fyrrverandi forstjóri Kísiliðjunnar, efnahags- og atvinnumálaráðgjafi forsætisráðherra og forstjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins Nopef í Finnlandi. Hann var fyrsti stjórnarformaður Marel hf. og FBA hf. og situr í stjórn Norræna fjárfestingarbankans.
Árni Páll Árnason er sjálfstætt starfandi lögmaður. Hann var ráðgjafi Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra frá 1992-1994 og embættismaður í utanríkisþjónustunni frá 1994-98. Hann hefur síðan starfrækt lögmannsstofu í Reykjavík. Hann hefur setið í ráðgjafarnefnd forsætisráðherra um opinbert eftirlit frá 1999.
Í tillögu minni um skipan bankaráðs er gert ráð fyrir að með nýjum mönnum sitji áfram þau Elín Sigfúsdóttir og Þórólfur Gíslason.
Ég vil nota þetta tækifæri hér til að þakka þeim Pálma Jónssyni, Hrólfi Ölvissyni og Hauki Helgasyni fyrir dygga þjónustu í þágu bankans. Ég hef átt ágætis samstarf við núverandi bankaráð þó stundum hafi okkur greint á á síðustu mánuðum. Of mikið hefur þó verið gert úr þeim ágreiningi. Enginn ágreiningur hefur heldur verið á milli ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál þó halda mætti annað af umræðu síðustu daga.
Það er óhætt að segja að það séu spennandi tímar framundan hjá Búnaðarbankanum, sér í lagi vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar hans. Megi bankinn uppskera ríkulega.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta