Ræða dómsmálaráðherra við kynningu á skýrslu um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess
Fréttatilkynning
nr. 10/2001
Ræða dómsmálaráðherra við kynningu á skýrslu um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. 21.3.2001.
Góðir gestir
Hér verður kynnt ný skýrsla sem unnin hefur verið á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Þess varð vart að fjölmiðlar hefðu töluverðan áhuga á þessu verkefni og var því ákveðið að boða til þessarar kynningar í dag.
Hér er auðvitað um að ræða vandmeðfarið málefni og því mikilvægt að þær upplýsingar, sem fram koma í þessari skýrslu séu ekki slitnar úr samhengi eða að myndin, sem þar kemur fram af viðfangsefninu sé ýkt eða oftúlkuð.
Ég tel að í skýrslunni sé að finna haldgóðar upplýsingar um félagslegt umhverfi vændis. Það á í sjálfu sér ekki að koma á óvart að vændi fyrirfinnist á Íslandi, við höfum ekki haft neina ástæðu til þess að ætla að Ísland hefði sérstöðu meðal þjóða að þessu leyti. Skýrslan gefur hins vegar ekki neina mynd af því hversu útbreitt vændi er á landinu, enda fer það mjög dult og hefur án efa legið í þagnargildi lengi vel.
Umræðan hefur þó aukist að undanförnu, sem á ekki síst rætur að rekja til þess að svonefndur "kynlífsiðnaður" hefur sprottið hratt upp hér á landi og dafnað vel, að því er virðist. Sumir tala jafnvel um að "klámbylgja" hafi skollið yfir.
Umræðan um málefnið hefur hins vegar ekki alltaf verið uppbyggjandi og hafa þar gjarnan vegist á öfgakennd sjónarmið, sitt úr hvorri áttinni. Sú vinna, sem lögð hefur verið í rannsóknir og umfjöllun um viðfangsefnið af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu hefur m.a. það markmið að leggja grundvöll að upplýstri umræðu.
Rannsóknin hefur einnig það markmið að leggja grundvöll að frekari stefnumótun á þessu sviði. Það er auðvitað alltaf auðvelt að slá fram fullyrðingum um stórkostleg vandamál og kalla eftir einföldum lausnum. Það þjónar hins vegar sjaldnast miklum tilgangi eða gerir mikið gagn.
Stefnumótun til framtíðar verður að byggjast á gaumgæfilegri skoðun á því viðfangsefni eða vandamáli, sem um er að tefla og afleiðingum þeirra kosta, sem fyrir hendi eru til þess að takast á við það. Í því augnamiði hefur dómsmálaráðuneytið lagt í mikla vinnu til þess að skoða þann málaflokk, sem hér er um að ræða. Í desember síðastliðnum kom út ítarleg skýrsla um löggjöf hér á landi um vændi, klám og fleira tengt og samanburður við löggjöf á þessu sviði á hinum Norðurlöndunum. Sú skýrsla liggur hér frammi.
Nú hefur komið út skýrsla um félagslegt umhverfi vændis, eins og áður sagði. Til að nálgast viðfangsefnið hafa verið tekin viðtöl við einstaklinga, sem þekkja til vændis hér á landi, bæði sérfræðinga, sem hafa kynnst slíku í gegnum starf sitt og einstaklinga, sem þekkja til þess af eigin raun. Helst ber að nefna starfsmenn heilbrigðisstofnana, starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík og Ríkislögreglustjóra, starfsmenn meðferðarstofnana, félagsþjónustunnar, barnaverndarstofu, Stígamóta og Kvennaathvarfsins. Þá hafa verið tekin viðtöl við einstaklinga sem hafa verið í vændi og vímuefnaneyslu, nektardansara og starfsmenn nektardansstaða. Auk þess hefur verið aflað víðtækra upplýsinga úr gögnum, sem þykja geta varpað frekara ljósi á viðfangsefnið.
Í rannsókninni hefur verið leitast við að kanna hvort vændi sé stundað meðal ungs fólks í þeim tilgangi að afla fjármagns til framfærslu. Leitast hefur verið við að draga upp mynd af aðstæðum þessara ungmenna. Þá hefur athygli beinst að starfsemi nektardansstaða, með það að markmiði að varpa ljósi á hugsanlegt vændi í tengslum við starfsemina. Einnig er komið inn á ýmsar hliðar kynlífsiðnaðarins á Íslandi svo sem auglýsingar á símalínum, í dagblöðum og á internetinu, klámspólur, klám á internetinu, barnaklám, skipulagt vændi, óskipulagt vændi og nauðarvændi. Skýrsluhöfundar munu lýsa efni skýrslunnar nánar hér á eftir.
Eins og við mátti búast kemur m.a. fram að vændi fyrirfinnst í einhverjum mæli á Íslandi. Rannsóknin rennir einnig stoðum undir grunsemdir um að vændi eigi sér m.a. stað í tengslum við rekstur nektardansstaða en einnig í yngri aldurshópum, sem eiga við fíkniefnavanda að etja eins og hér verður nánar lýst.
Af þessu tilefni hef ég í samráði við ríkisstjórnina, en ég kynnti skýrsluna á fundi hennar í gær, ákveðið að skipa nefnd, sem hafi það hlutverk að gera tillögur um viðbrögð við þessum niðurstöðum. Nefndinni verði falið að meta þennan vanda af þverfaglegum sjónarhóli. Meðal annars verði farið yfir gildandi refsilög, sem varða vændi og kynferðislega misnotkun, rannsókn og meðferð slíka mála, þ.m.t. stuðning við þolendur og hvort unnt sé að veita börnum og unglingum ríkari refsivernd á þessu sviði. Einnig verði kannað hvort ástæða sé til að setja reglur um rekstur og starfsemi nektardansstaða til þess að sporna við vændi.
Sigríður Ingvarsdóttir, héraðsdómari, mun leiða starf nefndarinnar, og prófessor Þórólfur Þórlindsson, formaður Áfengis- og vímuvarnaráðs, hefur fallist á að taka sæti í nefndinni, en einnig verður óskað eftir tilnefningum frá félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, lögreglu og Reykjavíkurborg.
Þær skýrslur, sem nú liggja fyrir, bæði um félagslegt og lagalegt umhverfi vændis, eru góður grunnur fyrir störf nefndarinnar.
Ég vil nefna nokkur atriði sem ég tel mikilvægt að nefndin muni fjalla um:
· Í fyrsta lagi kemur fram að í umræddri skýrslu um félagslegt umhverfi vændis, að ekki sé til nein sérsniðin þjónusta fyrir einstaklinga í vændi á Ísland. Slík þjónusta er til í nágrannalöndunum, bæði ráðgjöf, s.s. opnar símalínur, og félagsleg aðstoð. Nefndin verður að fjalla um hvernig megi auka aðstoð og stuðning við þá sem leiðast út í vændi og efla sérþekkingu á viðfangsefninu í félags- og heilbrigðiskerfinu. Hið sama á auðvitað einnig við um lögregluna.
· Í öðrum ríkjum Norðurlandanna hafa verið numin úr gildi ákvæði, sem lögðu refsingu við því að veita vændisþjónustu. Slíkt ákvæði er enn að finna í íslenskum lögum. Breytingarnar voru studdar þeim rökum, að vændi væri fyrst og fremst félagslegt vandamál, sem bregðast ætti við með félagslegum úrræðum en ekki því að refsa þeim ógæfusömu einstaklingum, sem leiðast út á þessa braut.
Skýrsla um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess virðist sýna að þeir einstaklingar, sem stunda vændi sér til framfærslu búi einatt við afar erfiðar aðstæður, séu gjarnan háðir fíkniefnum og eigi erfiðan bakgrunn. Ýmislegt, sem kemur fram í skýrslunni, bendir jafnframt til þess að að gildandi löggjöf vinni gegn því að þessir einstaklingar leiti sér aðstoðar vegna vanda síns, jafnvel í heilbrigðiskerfinu. Sú spurning hlýtur því eðlilega að vakna hvort ekki sé rétt að færa íslenska löggjöf til samræmis við Norðurlöndin að þessu leyti
Á móti má benda á að hér er um að ræða einhver helgustu einkamál hvers einstaklings og gæti verið talið vafasamt setja frekari lagareglur um þetta þegar í hlut eiga einstaklingar, sem taka ákvörðun af fúsum og frjálsum vilja. Sjálfsagt er erfitt að fullyrða um að kynferðisleg reynsla á þessum aldri stríði ævinlega gegn hagsmunum þess einstaklings, sem í hlut á. Einnig kunna slíkar lagareglur að vera taldar úr nokkrum takti við lífsviðhorf íslenskra unglinga.
Það, sem hins vegar mælir með hækkun kynferðislegs lögaldurs, er fyrst og fremst tillit til þess að um er að ræða áhrifagjarnan hóp, sem hefur ekki staðfestu og sjálföryggi, sem menn öðlast gjarnan með meiri reynslu og þroska. Hækkun kynferðislegs lögaldurs myndi því stuðla að ríkari vernd fyrir þennan hóp gegn eldri einstaklingum sem hyggjast notfæra sér þetta þroskaleysi í kynferðislegum tilgangi. Ég tel að þessi rök hafi mikið vægi.
· Í öllum öðrum ríkjum Norðurlanda er að finna sérstök ákvæði sem leggja refsingu við kaupum vændisþjónustu barna og ungmenna. Svíar hafa jafnvel gengið svo langt að leggja refsingu við kaupum á vændisþjónustu í öllum tilvikum. Ekki er komin mikil reynsla á þessa lagabreytingu Svía og hefur hún verið afar umdeild þar í landi. Hins vegar tel ég mjög eðlilegt að lögð sé refsing við kaupum á vændisþjónustu þegar börn í eiga í hlut, og sú skýrsla sem hér er til kynningar, bendir til þess að þörf sé á slíkum lagabreytingum. þannig að bannað verði að kaupa kynlífsþjónustu af ungmennum innan 18 ára aldurs.
Vændi hefur um skeið verið nokkurs konar "tabú". Athæfið er ólöglegt og því dulið – fáir vilja viðurkenna þátttöku, hvort heldur er að bjóða slíka þjónustu eða þiggja hana. Ef hægt er að koma þessu viðkvæma máli upp á yfirborðið og fá það viðurkennt með vandaðri umfjöllun og rannsóknum er mikils til vinnandi. Það er fyrsta skrefið til þess að takast á við vandann og koma til móts við þá, sem aðstoð þurfa á að halda. Það er von mín að sú skýrsla sem hér er lögð fram sé slíkt skref.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu
21. mars 2001
21. mars 2001