Ávarp á samráðsfundi Landsvirkjunar á Akureyri, 06.04.2001
Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar-og viðskiptaráðherra
á samráðsfundi Landsvirkjunar
á Akureyri, 6. apríl 2001
Ágætu samráðsfundargestir!
Ég vil í upphafi fagna því að þessi samráðsfundur skuli haldinn hér á Norðurlandi í annað sinn frá því að Landsvirkjun og Laxárvirkjun sameinuðust árið 1981. Ný lög voru sett árið 1983 um hið nýja fyrirtæki og stofnun þess var á sínum tíma síður en svo auðveld og óumdeild. Í ljósi reynslunnar leyfi ég mér að fullyrða að sú skipan raforkumála, sem varð með þessum breytingum, hefur leitt okkur til góðs við uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi. Örar breytingar samfélagsins kalla hins vegar sífellt á breytt skipulag grunnþátta þess. Í raforkumálum höfum við fylgst með slíkri þróun slíkra breytinga erlendis á síðasta áratug. Nú stöndum við frammi fyrir veigamiklum breytingum í raforkuskipulagi landsins eins og síðar verður vikið að.
Það er oft kostur að vera heldur seinni til í þróun samfélagsins en helstu nágrannar okkar og læra af reynslu annarra. Við Íslendingar fórum okkur hægt framan af öldinni við að byggja okkar raforkuiðnað upp, sá tími rann fyrst upp að nýju fyrir 40-50 árum.
Með stofnun Landsvirkjunar árið 1965 hófst mikil uppbygging í raforkubúskap þjóðarinnar með gerð stórvirkjana á Suðurlandi og fyrstu stóriðju hér á landi. Stuttu síðar var nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu milli einstakra orkuveitusvæða alls landsins á árunum 1974-1984. Sú framkvæmd var ekki óumdeild á sínum tíma en ótvírætt má telja að hún hefur stuðlað að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað raforkuverð og aðgengi landsmanna að flutningskerfinu. Á þessu sviði vorum við framar mörgum þjóðum í Evrópu, sem nú á síðustu árum hafa unnið við að tengja saman einstök orkuveitusvæði sín.
Hinn öra hagvöxt sem varð á Íslandi á síðari hluta 20. aldar má að verulegu leyti rekja til hagkvæmrar nýtingar þjóðarinnar á náttúrulegum auðlindum sínum, bæði gjöfulla fiskimiða og endurnýjanlegra orkulinda. Hraðfara tækniþróun og mikil þekking á nýtingu auðlindanna er vitaskuld forsenda fyrir hagkvæmni í þessum greinum og þeirra framfara, sem hér hafa orðið og mun fyrirsjáanlega verða einn af hornsteinum aukins hagvaxtar hér á landi á nýrri öld takist okkur að halda áfram á sömu braut og á liðnum 6-7 árum.
Árið 1997 hófst nýtt uppbyggingarskeið í stóriðju hér á landi eftir tæpra tveggja áratuga hlé. Það ár var tekin í notkun stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík og ári seinna hóf Norðurál framleiðslu. Árið 1999 hófst síðan framleiðsla í þriðja ofni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og nú standa yfir framkvæmdir við stækkun Norðuráls. Þetta hefur haft í för með sér mikla aukningu í raforkuvinnslu enda hefur notkun stóriðju aukist um 90% síðustu 4 ár, sem er jafn mikið og öll raforkuvinnsla fyrir almenna notkun var árið 1996. Þetta hefur leitt til þess að um þessar mundir eru Íslendingar orðnir mestu raforkuframleiðendur á íbúa á heimsvísu, aðallega vegna hlutfallslega mikillar notkunar stóriðjufyrirtækja. Þetta eru ótrúlegar staðreyndir þegar haft er í huga að öll þessi mikla notkun verður á aðeins örfáum áratugum síðustu aldar.
En við höfum einnig lyft grettistaki í uppbyggingu hitaveitna um land allt. Hin mikla uppbygging hitaveitna hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Í dag njóta um 86% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 12% frá rafhitun en aðeins um 2% nota olíuhitun. Aukin nýting jarðhitans hefur því ekki haft lítil áhrif á lífskjör okkar Íslendinga auk margháttaðra þæginda, sem þessi gæði landsins hafa veitt okkur og erfitt er að meta til efnislegs hagnaðar eða ábata. Sparnaður við að nýta jarðhita til húshitunar miðað við að flytja inn olíu í þeim tilgangi nemur í dag milljörðum króna á ári og er þá ekki meðtalinn hagnaður við raforkuframleiðslu, iðnaðarframleiðslu eða ylrækt. Við skulum eigi að síður hafa í huga að nauðsynlegt er að halda jafnvægi í nýtingu jarðhitasvæðanna þar eð hér er ekki um ótæmandi auðlind að ræða. Sjálfbæra orkunýtingu og aukna orkunýtni er afar mikilvægt að hafa í huga við vinnslu háhitasvæða landsins. Aukin orkunýtni er ofarlega í umræðu erlendis og er almennt talin í dag mikilvægur þáttur í umhverfisstefnu hverrar þjóðar. Þar getum við Íslendingar lagt lóð á vogarskálar ef rétt er á málum haldið í framtíðinni. Það sem við höfum gert á þessu sviði hefur vakið athygli erlendis og sívaxandi áhugi er á auknu samstarfi við Ísland varðandi nýtingu jarðhitans. Sem dæmi um þetta get ég nefnt að á síðustu tveimur mánuðum hafa iðnaðarráðuneytinu borist erindi frá stjórnvöldum í Rússlandi og Kaliforníuríki í Bandaríkjum um að koma á formlegu samstarfi og samvinnu um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og er þá einkum horft til jarðhitans. Eru verulegar líkur á að af samstarfi geti orðið við þessa aðila og við verðum að efla og auka þá einstæðu þekkingu og reynslu er við búum yfir í vinnslu jarðhitans
Á þessu sviði hefur ýmislegt gerst innanlands á síðustu misserum. Nýlega var stofnað fyrirtækið Enex hf. sem er í eigu helstu orkufyrirtækja og orkuráðgjafa landsins auk ríkisins. Tilgangur þessa fyrirtækis er að stunda orkurannsóknir og rekstur orkufyrirtækja á erlendri grund. Um tveggja áratuga skeið höfum við Íslendingar af vanmætti reynt að koma á framfæri erlendis tækniþekkingu okkar, en oftar en ekki hefur lítið orðið af fýsilegum verkefnum sökum fjárskorts og smæðar þeirra fyrirtækja er hlut áttu að máli. Þessir frumkvöðlar hafa hinsvegar hlaðið margar góðar vörður, ekki síst orðstírinn, sem veginn munu vísa til framtíðar. Með stofnun hins nýja fyrirtækis opnast nýir möguleikar á komandi árum fyrir framsækin íslensk fyrirtæki á sviði orkuiðnaðar og rannsókna. Aðild ríkisins að Enex og stuðningur við útrás íslenskra orkufyrirtækja er eðlilegur að mínu mati og á að beinast að stuðningi við að koma á laggirnar nýjum verkefnum og, þar sem svo háttar til, í samvinnu við Þróunarsamvinnustofnun Íslands.
Á öðru sviði höfum við Íslendingar haslað okkur sérstakan völl í samanburði við nágrannaþjóðir okkar, en þar á ég við þróun vetnis sem orkubera fyrir farartæki og skip. Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Fyrirtækið Íslensk NýOrka var stofnað á árinu 1999 og er tilgangur félagsins m.a. að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í samgöngutækjum. Afar mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í þeirri öru þróun í notkun hreinna orkugjafa og orkubera í stað notkunar brennsluefna í samgöngutækjum og fiskiskipum. Þátttaka okkar mun beina sjónum annarra ríkja að hinni hreinu ímynd Íslands í vaxandi mæli. Við þurfum að hafa í huga að 3/4 af innfluttu eldsneyti fer til samgangna og skipaflotans, og losun gróðurhúsalofttegunda af þessum sökum er í dag um 2/3 af heildarlosun landsins. Hér er því um verðugt verkefni að ræða. Takist okkur að nýta hreinar orkulindir þjóðarinnar á hagkvæman hátt til að framleiða með einum eða öðrum hætti orkubera í stað olíueldsneytis yrði staða Íslands meðal þjóða heims einstök.
Á árinu 1999 var í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum hafin vinna við gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.
Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu, jafnt vatnsafl og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Stór hópur sérfræðinga hefur komið hér að verki og hefur vinnu við það miðað eðlilega hingað til en fyrsta hluta verkefnisins á að ljúka á árinu 2002. Á síðasta ári var tekin sú ákvörðun að hraða vinnu við hluta fyrsta áfanga verkefnisins þannig að í árslok 2001 lægju fyrir fyrstu drög að flokkun nokkurra virkjunarkosta. Var það einkum gert til að einhver viðmiðun milli mismunandi virkjunarkosta gæti legið fyrir þegar ákvörðun um Kárahnúkavirkjun verður tekin síðar á þessu ári. Gerð rammaáætlunar er gríðarlega stórt og mikilvægt verkefni fyrir framtíðarnýtingu á orkuauðlegð landsins. Ráðist hefur verið í viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum og ljóst er að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar á náttúrufari landsins og auka skilning okkar á þessu sviði og þess er vænst að aukin sátt náist um nýtingu þessara náttúruauðlinda okkar án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu.
Um nokkurra ára skeið hefur verið unnið að stefnumörkun á framtíðaskipulagi raforkumála á Íslandi í því skyni að leggja grunn að samkeppni í greininni og er þá átt við framleiðslu og sölu á raforku. Á fyrri hluta árs 1999 voru lögð fram til fyrstu kynningar drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga, sem byggðust að verulegu leyti á niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem lauk störfum í október árið 1996 og þingsályktunartillögu sem lögð var fram á þinginu í lok árs 1997. Markmið með ofangreindum nýjum raforkulögum er að auka þjóðhagslega hagkvæmni í nýtingu orkulindanna, og stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og landnytja. Ein meginbreyting í drögum að nýjum raforkulögum verður sú að samkeppnisþættir í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnsla og sala verður aðskilin frá starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar. Þessi aðskilnaður er meginatriði í raforkulöggjöf allra nágrannaþjóða okkar til að ná fram markmiðum samkeppni í framleiðslu og sölu. Einnig verður að hafa í huga að íslenska raforkukerfið er lítið og ótengt öðrum raforkukerfum, sem torveldar samkeppni.
Við gerð frumvarps raforkulaganna hefur verið reynt að taka mið af þekkingu, og reynslu annarra þjóða af þeim breytingum sem orðið hafa í greininni á undanförnum áratug og hefur helst verið horft til Norðurlandaþjóðanna í því efni. Breytingar á raforkulagaumhverfi þurfa hins vegar einnig að taka mið af þeirri staðreynd að við eigum miklar endurnýjanlegar okulindir sem ekki hafa verið nýttar nema að litlu leyti. Ný skipan raforkumála þarf því að stuðla að og örva áframhaldandi nýtingu orkulindanna um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmni í orkubúskapnum.
Hið nýja raforkulagafrumvarp hefur verið kynnt helstu hagsmunaaðilum á síðustu mánuðum og hefur verið til umfjöllunar í ríkisstjórn að undanförnu. Nauðsynlegt er að afgreiða frumvarpið fyrir næstu áramót, en miðað er við að lögin taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2002. Þá rennur út frestur Íslands til að taka upp raforkutilskipun Evrópusambandsins í samræmi við ákvæði EES-samningsins.
Ljóst er að ný raforkulög hafa veruleg áhrif á starfsemi flestra raforkufyrirtækja sem þurfa að aðlaga sig að nýrri hugsun og breyttu umhverfi og skal engan undra að ágreiningur skuli vera um það á hvern hátt best sé að verki staðið. Ég veit að hjá Landsvirkjun hafa verið gerðar breytingar á skipulagi fyrirtækisins í því skyni að aðlaga það að breyttu raforkuumhverfi og verður væntanlega fjallað um það hér á eftir.
Með nýjum raforkulögum er nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á öðrum lögum er tengjast raforkuframleiðslu. Gera þarf breytingar á orkulögum, lögum um raforkuver, lögum um Landsvirkjun og lögum um rannsóknir á auðlindum í jörðu, en áformað er að þau lög muni fjalla almennt um rannsóknir á orkulindum. Vinna er jafnframt hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923, og stefnt er að því að sérlög verði sett um hitaveitur og hefst vinna við það verk innan skamms.
Með nýjum raforkulögum og hitaveitulögum þarf jafnframt að skoða hlutverk ríkisins í orkurannsóknum almennt. Óumdeilanlegt er að ríkið verður að annast helstu grunnrannsóknir á orkulindum landsins, en hversu langt á að ganga kann að vera álitaefni. Hugsanlegt væri að miða þennan grunn við þær rannsóknir, sem nú er unnið að á vegum rammaáætlunar, en þar leggur ríkið til grunnkortagerð, vatnamælingar og helstu náttúrufarsrannsóknir svo og yfirborðsrannsóknir vegna jarðhita. Að þessu brýna verkefni þarf að vinna á næstu mánuðum og þá í samstarfi við orkufyrirtæki landsins. Þar verður unnt að leggja til grundvallar vinnu sérstakrar samstarfsnefndar um orkurannsóknaráætlun sem skilaði ítarlegri skýrslu um þetta efni fyrir rúmum tveimur árum.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá 1992 og Kyoto-bókunin við hann er vissulega einn veigamesti þáttur í orkustefnu okkar eins og annarra iðnríkja. Við erum hins vegar í annarri stöðu en flest önnur iðnríki varðandi endurnýjanlegar orkuauðlindir og ónýtta möguleika á því sviði. Á 6. samningafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Haag á síðastliðnu ári náðist bráðabirgðasamkomulag milli aðildarríkjanna um hið svokallaða íslenska sérákvæði er varðaði nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu í litlum samfélögum. Gangi þetta eftir getum við Íslendingar litið björtum augum til næsta áratugar varðandi möguleika okkar á nýtingu orkulinda landsins. Við eigum hins vegar eftir að sjá þetta sérákvæði endanlega samþykkt, það verður vonandi gert í júlí á þessu ári á fundi aðildarríkjanna í Bonn eða þá í haust á fundi aðildarríkjanna í Marokkó. Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, mun fjalla sérstaklega um þetta efni hér á eftir og mun hann væntanlega greina frá því hvaða áhrif breytt afstaða Bandaríkjastjórnar kunni að hafa fyrir okkar mál á vettvangi loftslagssamningsins.
Eins og ég gat um á síðasta samráðsfundi Landsvirkjunar voru þá fyrirsjáanleg breytt viðhorf varðandi áætlanir um byggingu fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Í stað 120 þúsund tonna áfanga eins og ráðgert hafði verið óskuðu fjárfestar og samstarfsaðilar eftir því að kannað yrði hvort upphafsáfangi gæti orðið 260-280 þúsund tonn. Þessar hugmyndir leiddu til þess að svokölluð Hallormsstaðayfirlýsing aðila var endurskoðuð og hún felld að þessum kosti. Þetta þýddi verulegar breytingar á virkjunarröð og tilhögun virkjunarkosta sem leiddi til þess að ekki verður þörf fyrir miðlunarlón á Eyjabökkum gangi þessar áætlanir eftir. Eins og gefur að skilja gerði þessi breytta staða það að verkum að hefja þurfti umfangsmikla undirbúningsvinnu, bæði við mat á umhverfisáhrifum virkjunar og einnig gerð nýrra samninga milli fjárfesta. Allir aðilar hafa lagt áherslu á að reynt verði að hraða eins og kostur er allri undirbúningsvinnu til að unnt verði að taka álverið í notkun á árinu 2006. Öll undirbúningsvinna hefur gengið eftir þeim áætlunum sem lagðar voru í upphafi og stefnt er að því að skýrslur um mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og álversins liggi fyrir síðar í þessum mánuði.
Í haust er fyrirhugað að halda orkuþing, en slík þing hafa verið haldin tvisvar áður, 1981 og 1991. Á orkuþingum hefur verið fjallað um flesta þætti orkumála, stöðu þeirra almennt, rannsóknir og stefnumörkun. Iðnaðarráðuneytið stendur að orkuþingi ásamt ýmsum öðrum aðilum en Samorka sér um framkvæmd hennar. Orkuþing er nauðsynlegur vettvangur til að koma á framfæri við almenning hvaða þýðingu orkan, þessi mikilvægi grunnþáttur nútíma þjóðfélags, hefur í dag og mun hafa til allrar framtíðar fyrir þjóðina. Hér þurfa því allir aðilar að leggjast á árar í þessum tilgangi.
Þetta leiðir hugann að nauðsyn þess að orkufyrirtæki og stjórnvöld hafi einhvern samráðsvettvang til að ræða sín á milli um sameiginleg mál á þessu sviði. Fyrr á árum hittust fulltrúar þessara aðila reglulega þar sem menn greindu frá því helsta er á döfinni væri og lögð voru drög að rannsóknum og áætlunum. Þar komu að þáverandi Náttúruverndarráð, Orkustofnun, iðnaðarráðuneytið, Landsvirkjun, RARIK, Samorka og Orkubú Vestfjarða. Mér finnst eðlilegt að skoðað verði hvort ekki beri að endurvekja þennan samráðshóp og þá vitaskuld með nýjum aðilum og í takt við breytta tíma. Við Íslendingar erum fremur lítið fyrir það að ræða saman almennt um sameiginleg málefni, en gerum meira af því að vinna hver að sínu. Það gæti sparað ótrúlega fyrirhöfn og misskilning sem ávallt vill upp koma, ef mál væru rædd milli aðila strax á fyrstu stigum. Vil ég hvetja hagsmunaaðila orkugeirans og náttúruverndar til að hugleiða þetta.
Góðir samráðsfundargestir
Við sem viljum hagnýta orkulindir þjóðarinnar til iðnaðarframleiðslu erum stundum gagnrýnd fyrir að vilja nýta þær aðeins til stóriðju. Það er vitaskuld ekki rétt, við viljum að innviðir samfélagsins séu styrktir á allan hátt. Við viljum vinna að því að byggja upp umhverfisvænan iðnað hér á landi með hreinum og endurnýjanlegum orkulindum okkar. Aluminium er einhver umhverfisvænsti málmur sem þekkist og aukin notkun áls í samgöngum dregur verulega úr notkun brennsluefna og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt spám helstu sérfræðinga í áliðnaði munu þjóðir heims á næstu 10 árum auka ársframleiðslu áls um 8 milljónir tonna og 60% af þessari auknu framleiðslu mun fá orku frá kolum og gasi en aðeins 39% frá vatnsorku. Þetta eru uggvænleg tíðindi sem staðfesta nauðsyn þess að allar þjóðir heims er möguleika hafa á, þar á meðal við íslendingar, freisti þess að auka notkun hreinna orkulinda. Við getum verið stolt af því hvernig til hefur tekist hér á landi og okkur ber að nýta orkulindir landsins bæði til álframleiðslu og í tímans rás einnig til vetnisframleiðslu. Með því móti eflum við og styrkjum grunnþætti samfélagsins og búum í haginn fyrir börn okkar til nýrrar framtíðar. Það er stefna íslenskra stjórnvalda.
Ég þakka áheyrnina.