Ávarp á sýningunni Handverk og ferðaþjónusta, 19.04.2001
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ávarp við opnun sýningarinnar
"Handverk og ferðaþjónusta" í Laugardalshöll
19. apríl kl. 13:00
Ágætu samkomugestir, gleðilegt sumar!
Sýningin "Handverk og ferðaþjónusta" er nú haldin í fjórða sinn og er orðin kærkomin vorboði í hugum þeirra sem sækja sýninguna heim. Handverksfólk hvaðanæva af landinu sýnir hér sína bestu gripi og ferðaþjónustuaðilar af landsbyggðinni kynna alla þá spennandi möguleika sem í boði eru í sumar. Þá vil ég bjóða góða gesti frá nágrannalöndum okkar velkomna en þeir sýna dæmi um þarlenda handverkshefð. Frá upphafi hefur handverksfólk frá Færeyjum og Grænlandi tekið þátt í sýningunni. Í kjölfarið hafa Íslendingar sótt handverkssýningar í Færeyjum og í maí verður í fyrsta sinn haldin slík sýning í Nuuk í Grænlandi. Ég vil einnig sérstaklega bjóða velkomna þátttakendur frá Shetlandseyjum sem eru hér í fyrsta sinn.
Afrakstur sýningarinnar sýnir mikla hugmyndaauðgi sem komið hefur verið í framkvæmd og loks markaðssett. Það er alveg ljóst að sýning sem þessi er kjörin vettvangur til að mynda tengsl og samvinnu, bæði innanlands og utan. Hér eru tækifæri til að auka samstarf okkar við þær þjóðir sem eiga hér fulltrúa og vonandi eykur það samkeppnishæfni allra þessara þjóða.
Íslenskt handverk er í mikilli sókn og hefur sýningin "Handverk og ferðaþjónusta" stöðugt vaxið að umfangi og aldrei verið stærri en nú. Á annað hundrað handverksmenn sýna hér verk sín. Þá er mjög ánægjulegt hve fjölbreytt ferðaþjónusta á landsbyggðinni er kynnt hér á sýningunni. Ég vil hvetja alla viðstadda til að kynna sér þá ferðamöguleika sem fyrir hendi eru innanlands. Leitum ekki langt yfir skammt!
Sýning sem þessi er stór þáttur í því að stuðla að eflingu og þróun handverks, jafnframt því að kynna það almenningi. Ég vil óska aðstandendum sýningarinnar til hamingju með þetta mikla framtak í þágu íslensks handverks.
Ég lýsi sýninguna Handverk og ferðaþjónusta formlega opnaða!