Framsöguræða samgönguráðherra vegna sölu Landssímans
Hæstvirtur forseti.
Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um sölu á hlutafé ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. Salan er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að halda beri áfram einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einkum þeirra sem eru á samkeppnismarkaði. Með gildandi fjarskiptalögum, sem ég beitti mér fyrir og tóku gildi 1. janúar 2000, voru sköpuð skilyrði fyrir raunverulegri samkeppni í fjarskiptum á Íslandi - samkeppni sem er nú orðin að veruleika. Þess vegna er ekki aðeins eðlilegt, heldur beinlínis nauðsynlegt, að ríkið hætti samkeppni við þá einstaklinga og fyrirtæki sem starfa á sama markaði.
Áform um einkavæðingu Landssímans eiga sér nokkurn aðdraganda. Símamálastofnanir víða um lönd hafa verið einkavæddar á undanförnum árum, samhliða því að samkeppni á fjarskiptamarkaði hefur verið innleidd. Ástæðan er sú að ríkið hefur viljað draga sig út úr rekstri á samkeppnismarkaði. Auk þess hefur mönnum orðið ljóst að með samkeppni á fjarskiptamarkaði, þar sem fyrirtækin keppa um hylli neytenda, má bæta þjónustuna og lækka verð á henni. Við þessar nýju aðstæður hefur hlutverk stjórnvalda breyst mikið. Í stað þess að standa sjálf í rekstri símafyrirtækja, er það nú hlutverk stjórnvalda að skapa þær aðstæður að samkeppni verði raunveruleg, en jafnframt að tryggja aðgang allra landsmanna að nútíma fjarskiptaþjónustu.
Með lögum frá 1996 var stofnað hlutafélag um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Samkvæmt þeim verða hlutir í félaginu ekki seldir nema með samþykki Alþingis. Með því var tryggt að hlutum í fyrirtækinu yrði ekki ráðstafað nema að loknum nauðsynlegum undirbúningi.
Af því tilefni, og til að vanda allan undirbúning að sölu hlutafjár í Landssímanum, fól ég framkvæmdanefnd um einkavæðingu að vinna tillögur um hvernig staðið skuli að sölu hlutabréfa í Landssíma Íslands hf. Sérstaklega var lagt fyrir nefndina að skoða eftirfarandi atriði er tengjast undirbúningi sölu:
1. Að tryggja starfsfólki kauprétt á hlutafé í fyrirtækinu með hliðsjón af sambærilegum tilvikum við sölu annarra ríkisfyrirtækja.
2. Að ákveðinn hluti verði seldur í almennri dreifðri sölu og þá sérstaklega símnotendum.
3. Að kanna kosti og galla þess að selja umtalsverðan hlut í fyrirtækinu til eins aðila.
4. Að meta hagkvæmni þeirra hugmynda sem fram hafa komið um að skilja að einstaka þætti í starfsemi fyrirtækisins, svo sem hið almenna fjarskiptanet.
Nefndin svaraði þessum spurningum með skýrslu sem gefin var út í lok janúar síðastliðnum. Í skýrslunni var lagt til að salan færi fram í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga yrðu almenningi, starfsmönnum og fjárfestum boðin 24% fyrirtækisins. Í öðrum áfanga yrði leitað eftir kjölfestufjárfesti í lokuðu útboði að loknu forvali. Sú sala næmi 25% hlutafjár með hugsanlegri 10% viðbót síðar. Í þriðja áfanga yrðu þau 51% sem eftir verða seld.
Við einkavæðingu ríkisfyrirtækja á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á sölu hlutabréfa til starfsmanna. Mótuð hefur verið sérstök aðferðafræði sem einkavæðingarnefnd leggur til að lögð verði til grundvallar við sölu á hlutabréfum til starfsmanna Landssíma Íslands hf.
Landssími Íslands hefur mikla markaðshlutdeild í fjarskiptaþjónustu hér á landi, þótt eðlilega hafi hún farið minnkandi eftir að markaðurinn var opnaður fyrir samkeppni. Markaðshlutdeild Símans er mismikil eftir þjónustugreinum. Hæst er hún í fastlínuþjónustu, eða yfir 90%. Í farsímarekstri er markaðshlutdeildin um 75%, og lægri í gagnaflutningsþjónustu, en á því sviði er örðugra um upplýsingar þar sem margir smærri aðilar starfa. Ef horft er til opinberra veltutalna helstu fyrirtækja á þessu sviði, má ætla að heildar markaðshlutdeild Landssímans sé komin niður fyrir 85%. Þetta hlutfall fer sýnilega lækkandi samhliða því að nýir samkeppnisaðilar Símans fá aukinn styrk. Ný fyrirtæki hafa á mjög skömmum tíma náð að tryggja sér fótfestu á fjarskiptamarkaðinum og veita Símanum samkeppni – samkeppni sem stuðlar að betri frammistöðu Símans og þannig betri þjónustu við alla landsmenn.
Ég er þess fullviss að sá rammi sem fjarskiptalöggjöfin hefur búið fjarskiptamarkaðinum tryggir að samkeppnisaðilar Landssímans fái eðlilegt svigrúm til athafna, m.a. til að bjóða þjónustu á grunnkerfum Landssímans. Þessu til staðfestingar eru samningar Íslandssíma og Tals um aðgang að farsímakerfi Landssímans. Samningarnir eru til marks um að heilbrigðir viðskiptahættir þróast hratt á þessu sviði - þannig að hagkvæmni og fjölbreytni fara vaxandi.
Þetta þýðir vissulega að markaðshlutdeild Landssímans mun minnka, en þarf síður en svo að þýða að umsvifin minnki. Á það ber að líta að mörk fjarskiptaþjónustu og ýmissa annarra starfsgreina, hafa orðið óskýrari síðustu árin. Því er spáð að sú þróun haldi áfram. Þannig eru þess glögg merki að símafyrirtæki sæki meira inn á vettvang afþreyingar, fjölmiðlunar og upplýsingatækni í sífellt víðari merkingu. Fjarþjónusta í tölvutækni fer vaxandi og símafyrirtæki hafa víða haslað sér völl á því sviði. Sömu einkenni má sjá á íslenskum fjarskiptamarkaði, og þau má greina í breyttum áherslum Landssímans. Þess er því að vænta að samhliða því að markaðshlutdeild félagsins minnkar í hefðbundinni fjarskiptaþjónustu, auki það áherslur á önnur skyld svið, haldi uppi heilbrigðum vexti í starfsemi sinni og verði þannig verðmætara.
Afkoma af rekstri Landssíma Íslands hefur verið mjög góð síðustu árin. Á síðasta ári skilaði reksturinn 6,6 milljörðum í rekstrarafgang, fyrir afskriftir og fjármagnskostnað. Þetta er liðlega 40% af tekjum. Er það hlutfall mjög gott í alþjóðlegum samanburði símafélaga og í ljósi þess að símgjöld á Íslandi eru með því lægsta sem þekkist.
Samkeppnisyfirvöld lýstu þeirri afstöðu að félagið hafi verið vanmetið við breytingu á Póst- og símamálastofnun í hlutafélag. Niðurstaða nefndar, sem ég fól að endurskoða stofnefnahagsreikning félagsins, í kjölfar ákvörðunar samkeppnisyfirvalda, var sú að félagið skyldi greiða rétt um 5 milljarða í ríkissjóð. Hefur nú verið gengið frá því máli og fjárhæðin að fullu gjaldfærð í reikningum félagsins. Sú ákvörðun að gjaldfæra þessar skuldbindingar að fullu á síðasta ári var ákvarðandi um niðurstöðutölu reikninga síðasta árs, en hagnaður eftir skatta var 149 milljónir. Stefna félagsins nú er að hagnaður eftir skatta verði að meðaltali meiri en 100 milljónir á mánuði á yfirstandi ári.
Í umræðunni um sölu Landssímans hefur því verið haldið fram að aðskilja beri grunnnetið frá annari starfsemi fyrirtækisins. Ég óskaði sérstaklega eftir því við einkavæðingarnefnd að metin yrði hagkvæmni þess að skilja að einstaka þætti í starfsemi fyrirtækisins, svo sem hið almenna fjarskiptanet. Nefndin skoðaði bæði rekstrarlegar og tæknilegar forsendur slíkrar skiptingar og kallaði til ráðgjafar sérfræðinga á þessu sviði. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki sé ástæða til að skipta rekstri fyrirtækisins út frá sjónarmiðum um þjónustu, samkeppni eða vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar.
Margháttuð rök hafa verið færð gegn því að skipta Landssíma Íslands í tvö eða fleiri fyrirtæki vegna fyrirhugaðrar einkavæðingar. Þessi tel ég vega hvað þyngst:
1. Langt fram eftir nýliðinni öld var lagaumhverfi fjarskiptafyrirtækja við það miðað að eitt ríkisfyrirtæki átti allt fjarskiptanetið og hafði einkarétt á öllum fjarskiptum. Símamálastofnanir nutu lögbundins einkaréttar en þurftu jafnframt að lúta ströngu aðhaldi með verðlagningu, þjónustu og þjónustustigi. Þrátt fyrir að dregið hafi úr nauðsyn slíkra aðgerða eru í gildi ítarlegar reglur sem tryggja hagsmuni samkeppnisaðila og notenda fjarskiptaþjónustu, einkum ef samkeppni skortir. Staða þeirra gagnvart Símanum er því lík hvort sem hún er veitt af fyrirtæki í einkaeign eða sérstakri símamálastofnun í eigu ríkisins.
Þessi þrjú atriði sýna glöggt að staða notenda og samkeppnisaðila er vel tryggð án tillits til þess hvort grunnnet og þjónusta verði skilin að eða ekki.
Þá er á það að líta að veruleg vandkvæði eru á að skipta fyrirtækinu. Tæknileg sjónarmið þess eru fyrst og fremst að erfitt er að skilja þjónustu grunnnetisins frá annarri þjónustu. Slíkur aðskilnaður krefst gífurlegrar fjárfestingar í stjórn- og tengibúnaði sem hefði í för með sér aukinn kostnað fyrir neytendur.
Þegar fjallað er um skiptingu fyrirtækisins er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim öru breytingum sem orðið hafa á þessum markaði á undanförnum misserum. Sem dæmi má nefna að samtök hugbúnaðarfyrirtækja, töldu fyrir aðeins þremur árum að skipta bæri fyrirtækinu upp með þeim hætti að dreifikerfið yrði skilið eftir í sérstöku félagi. Formaður samtakanna hefur nú lýst því yfir að ekki sé lengur ástæða til þess. Fyrirtæki á fjarskiptamarkaðnum hafa tekið í sama streng.
Til að taka saman þau meginatriði sem mæla gegn aðskilnaði grunnets og þjónustu vil ég nefna eftirfarandi:
1. Í fyrsta lagi fer samkeppni vaxandi í rekstri grunnneta í fjarskiptaþjónustu eins og ég mun víkja nánar að síðar. Hafa ber í huga að grunnnet Landssímans er nú þegar í samkeppni við til dæmis Línu.Net og Íslandssíma.
2. Í öðru lagi fylgja slíkum aðskilnaði tæknileg vandkvæði sem auka kostnað fyrir neytendur.
3. Í þriðja lagi hefur aðskilnaður nets og þjónustu enga sérstaka þýðingu þar sem fjarskiptalög mæla þegar fyrir um bókhaldslegan aðskilnað rekstrarþátta Landssímans.
4. Í fjórða lagi má nefna það að ýmiskonar kvaðir hafa verið lagðar á Landssímann og gerðar eru miklar kröfur til þjónustu fyrirtækisins um allt land. Ef fyrirtækinu yrði skipt upp er hætt við að það yrði veikara og möguleikar þess til að veita öllum landsmönnum þjónustu skertir.
5. Í fimmta lagi tryggir lagalegt umhverfi samkeppnisaðilum Landssímans greiðan aðgang að grunnkerfinu á sama verði og Landssíminn.
6. Sala á fyrirtækinu án grunnnetsins myndi væntanlega draga úr líkum á því að kjölfestufjárfestar sýndu fyrirtækinu áhuga þar sem ákveðin óvissa yrði um mögulega þróun fyrirtækisins. Kjölfestufjárfestar eru að leita að viðskiptatækifærum og geta einungis metið fyrirtækið út frá þekktum stærðum og aðstæðum.
Af framansögðu er því ljóst, að öll rök hníga í þá átt að Landssími Íslands hf. verði ekki hlutaður í sundur. Ekki síst vegur hér þungt að hagsmunum hinna dreifðu byggða er best borgið með þjónustu öflugs fjarskiptafyrirtækis og eðlilegri samkeppni á þeim markaði - án ríkisafskipta. Þá vil ég sérstaklega nefna, af gefnu tilefni, að umræða um aðskilnað kerfa í raforkudreifikerfinu og aðskilnað kerfa í fjarskiptakerfinu er ekki sambærileg. Fjarskiptanetin eru margbreytilegri og flóknari en raforkudreifikerfi en grundvallaratriðið er þó að á fjarskiptamarkaðinum er nú þegar til staðar samkeppni í dreifingunni – ólíkt því sem gerist í dreifingu raforku. Þá er þess að geta að hvergi í Evrópu hefur sú leið verið farin að skilja sambærileg fyrirtæki í sundur og halda grunnkerfi eftir í ríkisrekstri.
Þrátt fyrir sölu ríkisins á hlutabréfum í eigu þess hafa stjórnvöld verulegra hagsmuna að gæta af því að félagið sé vel og örugglega rekið og í fullu samræmi við tilgang þess og markmið fjarskiptalaga. Landssíminn hefur byggt upp fullkomið fjarskiptakerfi og fjarskiptaþjónustu sem allir landsmenn eiga aðgang að samkvæmt gildandi fjarskiptalögum .
Í samgönguráðuneytinu hefur verið unnið markvisst að því að efla möguleika allra landsmanna á að njóta nútímalegrar fjarskiptaþjónustu á hagstæðu verði. Fyrst ber að nefna fjarskiptalögin sem tóku gildi þann 1. janúar 2000. Með þeim var komið á lagaumhverfi sem annars vegar auðveldar aðgang nýrra fyrirtækja að markaði, og hins vegar allra landsmanna að gagnaflutningsþjónustu á forsendum alþjónustu, en í 13. gr. fjarskiptalaga er það nýmæli að gagnaflutningsþjónusta með 128 kílóbita á sekúndu flutningsgetu (ISDN þjónusta) sem notendur tengjast um heimtaugar almenna talsímanetsins teljist til alþjónustu. Í leyfisbréfi Landssímans og samkomulagi fyrirtækisins við samgönguráðherra frá 16. mars síðastliðnum er tryggð stórfelld uppbygging ATM-gagnaflutningsneta og ADSL-þjónustu, auk þess sem framtíð NMT, langdræga farsímakerfisins, er tryggð.
Í kjölfar samkomulagsins kynnti Landssími Íslands hf. síðastliðið haust aðgerðir til að mæta þörfum landsbyggðarinnar fyrir þjónustu á sviði gagnaflutninga og ná fram markmiðum um aukna gagnaflutningsþjónustu við almenning og atvinnulíf í landinu. Í áætlunum fyrirtækisins felst stórfelld verðlækkun og aukin þjónusta um allt land. Landssíminn skuldbatt sig til fimm ára til að tryggja viðskiptavinum á öllum þéttbýlisstöðum með fleiri en 150 íbúa aðgang að tveggja Megabita samböndum yfir ATM-netið eða sambærilegri þjónustu á verði, sem sé það sama innan hvers svæðis en aukakostnaður við tengingar út fyrir svæði verði ekki umfram kr. 17.000 á mánuði. Fyrir liggur að nokkur halli verði á þessari þjónustu Símans fyrst í stað, en áætlanir félagsins miðast við að þessi halli snúist í hagnað með vaxandi umferð um fjarskiptanetið. Til að tryggja að þessu marki verði náð, og að þessi þjónusta veiki ekki rekstrarforsendur félagsins, verður áfram unnið að hagræðingu í rekstri stofnlínuhluta og þjónustu. Þá er jafnframt við það miðað að öll önnur fjarskiptafyrirtæki hafi áfram aðstöðu til endursölu þessarar þjónustu líkt og verið hefur.
Auk þessara sértæku aðgerða stjórnvalda og fyrirtækisins til að jafna aðstöðumun notenda fjarskiptaþjónustu hér á landi, stuðlar aukin samkeppni ótvírætt að lægra verði á fjarskiptaþjónustu til almennings. Því ber að fagna vaxandi samkeppni um allt land þar sem ný fjarskiptafyrirtæki hafa ýmist hafið starfsemi eða hafa uppi áform um uppbyggingu nýrra fjarskiptaneta.
Uppbygging öflugra ljósleiðaraneta utan höfuðborgarsvæðisins virðist nú einnig vera orðinn hagkvæmur fjárfestingarkostur að mati annarra fyrirtækja en Landssímans. Nýr ljósleiðari hefur þegar verið lagður austur fyrir fjall og til Vestmannaeyja á vegum Íslandssíma og Línu.Nets. Áform eru uppi um lagningu nýs ljósleiðara til Akureyrar og fjarskiptafyrirtækið Fjarski sem er í eigu Landsvirkjunar er að gera tilraunir með lagningu ljósleiðara í tengslum við dreifikerfi sitt sem nær um allt land. Fyrirtækið hefur þegar gert samning við Rannsókna- og háskólanet Íslands hf. um uppbyggingu ljósleiðaranets á landsvísu. Því er líklegt að önnur fyrirtæki muni veita Landssímanum samkeppni í netaðgangi um allt land. Þá hafa Íslandssími og Lína.Net unnið að uppbyggingu á eigin neti.
Ljóst er að á næstu misserum fer í hönd tími mikilla breytinga í fjarskiptaþjónustu, þar sem ný kynslóð farsíma mun að einhverju leyti leysa af hólmi þjónustu í almenna talsímanetinu og hefðbundinni GSM-þjónustu. Mikilvægt er að almenna fastanetið um allt land verði byggt upp með þetta fyrir augum.
Samhliða sölu Landssíma Íslands verður lögð áhersla á framtíðaruppbyggingu fjarskiptakerfisins. Vilji minn í þessu sambandi er skýr, en ég tel að leita verði leiða til að styrkja svo sem unnt er bæði dreifikerfið og þjónustuna um land allt. Því hefur verið mótuð í samgönguráðuneytinu skýr stefna varðandi framtíð gagnaflutnings- og fjarskiptaþjónustu sem meðal annars kemur fram í fjarskiptalögum. Þá vil ég nefna að á síðasta ári var á vegum ráðuneytisins og RUT-nefndar gerð skýrslan Stafrænt Ísland þar sem metin var bandvíddarþörf til og frá landinu. Niðurstaða hennar hefur haft þau áhrif að undirbúningur fjarskiptafyrirtækja að lagningu nýs ljósleiðara til Evrópu er kominn vel á veg. Þá hefur, eins og ég hef þegar vikið að í ræðu minni, verið gripið til ýmiskonar ráðstafana vegna sölu Landssímans, sem hafa það að markmiði að bæta aðgang allra landsmanna, án tillits til búsetu, að nútímalegri gagnaflutnings- og fjarskiptaþjónustu. Samgönguráðuneytið tekur einnig þátt í starfi á vegum Verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og samstarfi við menntamálaráðuneytið um hvernig koma megi á öflugum flutningsleiðum í upplýsingtækni til allra skóla í landinu. Að þessu er nú unnið.
Öflugar eftirlitsstofnanir eiga að tryggja að samkeppni geti þrifist um land allt. Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun hafa gert með sér samning um gagnkvæmt samráð í málum er varða samkeppnis- og fjarskiptalöggjöf. Einnig hafa ný lög verið sett um Póst- og fjarskiptastofnun sem hafa það að markmiði að efla heimildir stofnunarinnar gagnvart fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverða markaðshlutdeild. Eftirlitsstofnanir stjórnvalda geta því tryggt að eftir skilmálum leyfisbréfa sé farið. Fjarskiptafyrirtækin hafa gert með sér gagnkvæma samtengingarsamninga og samstarf um númeraflutning, forskeyti og aðgang að heimtaug er með því besta sem þekkist.
Eins og ég hef nú rakið hefur rekstur fjarskiptafyrirtækja breyst í grundvallaratriðum á undanförnum árum. Kröfur um sveigjanleika fjarskiptafyrirtækja hafa jafnframt aukist verulega. Fyrirtæki sem hagnýta nýjustu tækni hafa komið fram á undanförnum mánuðum og gera auknar kröfur til aðlögunarhæfni Landssíma Íslands. Aðhald sem fylgir hæfilega dreifðri eignaraðild Símans stuðlar ótvírætt að hagkvæmri þróun íslensks fjarskiptamarkaðar.
Ég legg áherslu á að salan fari fram þegar aðstæður og almennt ástand í efnahagsmálum mæla með því. Ég hef heyrt ýmsa úr röðum stjórnarandstöðunnar lýsa efasemdum um sölu á hlutafé ríkisins í Landssíma Íslands hf. núna á þeim grundvelli að verðmæti félagsins hafi fallið. Rétt er að undistrika hér í umræðunni, að ekkert verðmat á Landssíma Íslands hefur farið fram. Hins vegar er rétt að mat markaða á verðmæti tæknifyrirtækja hefur breytst mjög mikið á tiltölulega stuttum tíma. Þannig hafa símafyrirtæki um allan heim lækkað umtalsvert frá því þau voru metin hvað hæst í mars og apríl á síðastliðnu ári. Um þetta þarf ekki að deila. Um hitt virðast sérfræðingar nokkuð sammála að verðþróun hlutabréfa í tæknifyrirtækjum hafi á síðastliðnu ári endurspeglað meiri væntingar til vaxtar og framtíðarhagnaðar en fyrirtækin fái staðið undir. Fyrirtækin voru því í raun ofmetin. Þess er vart að vænta að hlutabréfamarkaðir komist á ný í þær hæðir sem var á síðastliðnu ári. Ég tel heldur ekki sjálfsagt að harma að hafa ekki nú þegar selt íslenskum almenningi hlut í Símanum á verði sem einungis hefði getað lækkað. Ríkissjóður getur ekki komið fram eins og hver annar spákaupmaður sem reynir að koma eignum sínum út á sem hæstu verði á kostnað almennings – sem þá hefði keypt í góðri trú. Það verð sem nú er á eignarhlutum í símafélögum gefur fjárfestum raunhæfa von um að fjárfesting í öflugum og vel reknum félögum geti skilað góðum arði. Þetta er mikilvæg forsenda vel heppnaðrar einkavæðingar með mikilli þátttöku alls almennings. Ég ætla ekki að hafa hér uppi neinar getgátur um verðmæti Landssímans um þessar mundir. Að því mati vinna nú þrautreyndir og virtir sérfræðingar. Hitt veit ég að kennitölur úr rekstri Landssímans gefa mjög ákveðið til kynna að félagið standi sterkum fótum og komi vel út í samanburði við önnur evrópsk símafélög. Þá ber að hafa í huga að verðmæti Landssímans hlýtur einnig að taka mið af sterkri stöðu félagsins á hinum íslenska fjarskiptamarkaði.
Með einkavæðingu Landssímans má ná margþættu markmiði. Aukið frjálsræði í viðskiptum hefur opnað augu íslenskra fjárfesta fyrir því að þeir eiga ekki síður möguleika á að festa fé sitt í atvinnurekstri í útlöndum. Því eru bornir saman fjárfestingarkostir, hér heima sem erlendis. Ef þeir finnast ekki nægjanlega áhugaverðir hér á landi, leitar fé úr landi. Við þær aðstæður er mikilvægt að ríkið beiti áhrifum sínum til að bjóða fram áhugaverða fjárfestingarkosti - kosti sem geti bæði laðað fram aukinn sparnað almennings með mikilli þátttöku í almennri sölu og gefið stofnanafjárfestum nýtt tilefni til að festa fé sitt hér innanlands og draga þannig úr útstreymi til erlendra fjárfestinga. Kaup á hlut í Landssímanum eru vel til þess fallinn að mæta þessum sjónarmiðum. Því eru almenn efnahagsleg rök fyrir því að hraða sölu á hlut í Símanum - eins og ríkisstjórnin stefnir að.
Að endingu minni ég á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að tekjunum af sölu ríkisfyrirtækja verði varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, til að fjármagna sérstök verkefni í samgöngumálum og til að efla upplýsingasamfélagið. Að því verður unnið svo fjarskiptin og upplýsingatæknin geti nýst atvinnulífinu og einstaklingum um landið allt.
Hæstvirtur forseti. Ég legg til að frumvarpið verði að lokinni umræðunni hér í dag vísað til 2. umræðu og hæstvirtrar samgöngunefndar.