Ávarp á aðalfundi Orkubús Vestfjarða, 01.06.2001
Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp á aðalfundi
Orkubús Vestfjarða
1. júní 2001
Ágætu aðalfundarfulltrúar.
Ég fagna því að eiga þess kost að sækja þennan aðalfund Orkubús Vestfjarða hér á Ísafirði í dag en þetta mun vera 24. aðalfundur Orkubúsins frá stofnun þess, en fyrirtækið var stofnað með lögum nr. 66 frá 1976.
Segja má að aðdragandi að stofnun Orkubúsins hafi annars vegar verið hið háa raforkuverð sem var í kjölfar olíukreppunnar á árunum upp úr 1973, en á þeim tíma urðu mörg byggðarlög að reiða sig á raforkuframleiðslu frá díselstöðvum. Að auki var einnig nokkur raforkuskortur á Vestfjörðum á þessum tíma, sem menn töldu réttilega geta hamlað eðlilegri vinnslu sjávarafurða og byggðaþróun, ekki síst hér á Vestfjörðum. Af þeim sökum var mikill áhugi meðal Vestfirðinga á því að þeir sjálfir fengju tækifæri til að leysa orkumál sín og tækju ábyrgð þeirra í eigin hendur í samvinnu við ríkið. Þetta sjónarmið var ríkjandi víða um land á þessum tíma, skoðanir allmargra sveitastjórna voru á þann veg að orkuöflun væri best fyrir komið sem sameiginlegt verkefni sveitarfélaga og ríkisins en rekstur dreifiveitna yrði hins vegar hlutverk sveitarfélaga eða sameignarfélaga þeirra. Sameignarfélagsformið var þá talið eðlilegast, enda var fordæmi fyrir því hjá orkufyrirtækjum og lög um hlutafélög voru ófullkomin á þeim tíma.
Eðlilega varð nokkur ágreiningur um eignaskiptingu í hinu nýja félagi, en ekki var gert ráð fyrir því að eignarhlutdeild sameignaraðila yrði í beinu hlutfalli við stofnframlag, heldur að eignarhluti sveitarfélaganna réðist af íbúafjölda hvers og eins.
Auðvitað hefur gengið á ýmsu í rekstri Orkubúsins á síðustu áratugum, eins og hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum hér á landi. Um árangurinn almennt af starfi Orkubúsins þurfa menn ekki að efast, ég tel að starfsemi þess hafi lyft grettistaki í að endurbæta öll skilyrði fjórðungsins í hinu samtengda raforkukerfi landsins. Þegar Orkubúið tók til starfa árið 1978 var almennt heimilisrafmagn á Vestfjörðum um 80% dýrara en í Reykjavík, en í dag er munurinn einungis um 10% og þetta sýnir öðru fremur árangur fyrirtækisins.
Þó svo að væntingar manna um aukna orkuöflun á Vestfjörðum á sínum tíma við stofnun fyrirtækisins hafi ekki gengið eftir varð hins vegar sú breyting á árinu 1983 að Vestfirðir tengdust meginflutingslínukerfi landsins. Með þeirri línu breyttist afhendingaröryggi þessa landshluta og sama heildsöluverð tók gildi eins og á öðrum sölustöðum flutningsnetsins. Vissulega var mikið um bilanir á Vesturlínu fyrstu árin, en tekist hefur að endurbæta verstu kafla línunnar á síðustu árum og þar með skapa Vestfirðingum nánast sama afhendingaröryggi raforku og öðrum landsmönnum. Ég er hins vegar sannfærð um að í náinni framtíð verði vatnsafl fjórðungsins nýtt til aukinna hagsbóta fyrir íbúa svæðisins.
Í dag stöndum við hins vegar öll frammi fyrir breyttum viðhorfum í orkumálum og ýmsum ákvörðunum um breytingar á orkuumhverfi okkar, bæði vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar í EES- samstarfinu, en að auki hafa viðhorf manna um hlutverk opinberra aðila í rekstri raforkufyrirtækja breyst á undanförnum áratug.
Jafnframt hafa víða erlendis verið þróaðar aðferðir og reynsla fengist á samkeppni í raforkuframleiðslu og sölu, sem hefur leitt til hagræðingar og sparnaðar í rekstri raforkufyrirtækja. Meginþáttur í nýrrri raforkulöggjöf annarra þjóða hefur verið að skilja á milli annars vegar samkeppnisþátta, framleiðslu og sölu og hins vegar flutningi og dreifingu, sem telst vera einokunarstarfsemi og önnur lögmál gilda þar um. Á síðastliðnum vetri var frumvarp til nýrra raforkulaga kynnt á Alþingi og tekur það til allra helstu atriða, sem fjallað er um í tilskipun Evrópusambandsins. Iðnaðarnefnd þingsins mun í sumar og haust fjalla um frumvarpið og kalla eftir áliti hinna ýmsu aðila, æskilegast væri að afgreiða frumvarpið fyrir næstu áramót þar eð ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins mun taka gildi 1. júlí 2002.
Ein forsenda fyrir breyttu skipulagi raforkumála er að tryggja þarf jafnræði og sömu starfsskilyrði milli fyrirtækja. Sérstök nefnd á vegum fjármálaráðuneytis vinnur nú að tillögugerð sem tryggi skattalegt jafnræði raforkufyrirtækja. Önnur nefnd hefur nýlega lokið störfum, en hennar hlutverk var að gera tillögur um það á hvern hátt dreifiveitum yrðu bættar óarðbærar rekstrareiningar, sem þær væru lagalega skuldbundnar til að reka. Eins og kunnugt er hafa þessar einingar valdið því að skuldasöfnun hefur orðið í tímans rás hjá dreifiveitum í strjálbýli. Það hefur leitt til þess að ríkið hefur þurft að yfirtaka hluta þessara skulda þegar í óefni hefur verið komið. Jafnframt hafa viðskiptavinir Orkubúsins og RARIK í þéttbýli orðið að bera hluta þessa kostnaðar með hærra orkuverði en ella, þar eð sama verðskrá hefur gilt í þéttbýli og dreifbýli. Í nýju raforkuumhverfi gengur slíkt fyrirkomulag ekki upp. Nefndin leggur því til að ríkið leggi fram árlega allt að 500 milljónir kr. í því skyni að bæta dreifiveitunum upp óarðbærar rekstrareiningar kerfisins og tekna yrði aflað annaðhvort af fjárlögum eða með sérstöku álagi á framleidda orku til almennra nota. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða fyrir alla landsbyggðina, sá klafi sem viðvarandi hallarekstur af þessum sökum hefur árum saman haft á starfsemi dreifiveitna í strjálbýli hefur hamlað gegn eðlilegri endurnýjun dreifikerfisins og jafnvel komið niður á viðhaldi þess.
Ljóst er að gera þarf verulegar breytingar á öllum lögum um raforkufyrirtæki landsins í kjölfar nýrra raforkulaga. Eins og kunnugt er hafa nýlega verið sett lög um Orkubú Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja á þann veg að fyrirtækjunum hefur verið breytt í hlutafélag. Endurskoða þarf orkulög, sem fjalla m.a. um hlutverk Orkustofnunar og Rafmagnsveitu ríkisins, einnig þarf að gera breytingar á lögum um rannsóknir og auðlindir í jörðu þannig að þau lög nái einnig til rannsókna á vatnsorku landsins og annarra orkugjafa. Loks ber að nefna vatnalögin frá 1923, en heildarendurskoðun þeirra fer nú fram á vegum iðnaðarráðuneytisins. Þá verður sérstakt frumvarp um hitaveitur lagt fram á hausti komanda, sem tengist beint gerð nýrra raforkulaga.
Nýtt raforkuumhverfi mun leiða til breytinga á starfsemi Orkubúsins sem og öðrum raforkufyrirtækjum landsins þar eð þau verða að aðskilja samkeppnisrekstur frá einokunarstarfsemi. Ég vil ítreka að stefna mín er að efla og styrkja starfsemi raforkufyrirtækja úti á landsbyggðinni. Vitaskuld munu tæknibreytingar og aukin hagræðing verða til þess í framtíðinni að hlutur vinnuafls innan raforkugeirans mun minnka miðað við núverandi ástand. Hið vandaða raforkukerfi okkar skapar nauðsynlegt umhverfi fyrir alla atvinnustarfsemi er krefst stöðugleika og gæða raforkunnar. H Á Vestfjörðum hefur vel til tekist hvað varðar uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa, sem krefst þess að því sé vel við haldið og sinnt af hæfasta starfsfólki. Ég geri mér grein fyrir að hér í þessu fyrirtæki er að finna mikla reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er við rekstur raforkukerfisins hér á svæðinu og vafalaust verður sá rekstur með svipuðu sniði á næstu árum óháð því hvert eignarhald eða eignarform fyrirtækisins verður.
Það er ekki nýtt mál að menn íhugi kosti og galla þess að breyta eignarfyrirkomulagi Orkubús Vestfjarða yfir í hlutafélagsform. Á aðalfundi félagsins 1996 var samþykkt að fela óháðum aðila að gera könnun á kostum og göllum þess að gera félagið að hlutafélagi og meðal annars yrði kannað hvort eignarhlutir í slíku félagi yrðu framseljanlegir. Í framhaldi af því var ráðgjafarfyrirtæki falið að vinna greinargerð um kosti og galla þess að Orkubú Vestfjarða yrði gert að hlutafélagi. Á þeim tíma voru stjórnendur flestra orkufyrirtækja komnir á þá skoðun að stefna bæri að hlutafélagsformi og er svo enn í dag. Í nýju raforkulagaumhverfi er það rekstrarform mjög æskilegt fyrir fyrirtæki í blönduðum rekstri.
Ég vil því fagna þeirri formbreytingu sem fyrirhugað er að gera hér í dag á Orkubúinu, sem ég tel mikilvæga fyrir framtíðina.
Ágætu aðalfundargestir
Velferð þjóðarinnar á síðustu áratugum hefur í verulegum mæli verið fólgin í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins og þá ekki síst nýtingu orkulindanna til beinnar og óbeinnar atvinnuuppbyggingar.
Við þurfum og verðum í framtíðinni að nýta alla möguleika og atvinnutækifæri sem þjóðin hefur möguleika á til að skapa henni áfram bjarta framtíð. Þar skiptir miklu að við búum að vönduðu og öruggu raforkukerfi, en nauðsynlegt er að áfram sé gengið á framtíðarbraut við nauðsynlega endurnýjun og uppbyggingu núverandi raforkukerfis til hagsbóta fyrir alla landsmenn og til að efla byggðina í landinu.
Ég óska aðalfundarfulltrúum velfarnaðar í störfum og óska þess og trúi að með starfi ykkar hér í dag á stofnfundi Orkubús Vestfjarða hf. stigið þið heillaspor.
Ég þakka áheyrnina