Ávarp á endurmenntunarnámskeiði um neytendafræðslu, 11.06.2001
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp
við upphaf endurmenntunarnámskeiðs fyrir kennara um
neytendafræðslu, 11. júní 2001
við upphaf endurmenntunarnámskeiðs fyrir kennara um
neytendafræðslu, 11. júní 2001
Ágætu kennarar og aðrir þátttakendur!
Mér er það mikil ánægja að koma hér í dag við upphaf þessa fyrsta námskeiðs fyrir kennara um neytendafræðslu. Neytendamál eru einn af málaflokkum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og málaflokkur sem mér er annt um.
Á undanförnum árum hefur mikilvægi neytendamála farið vaxandi í Evrópu svo og á alþjóðavettvangi. Á Íslandi hafa neytendamál einnig fengið sífellt meiri athygli og á kjörtímabili mínu þá vil ég vinna að því að sá málaflokkur hafi meiri forgang en hann hefur haft hingað til. Ég verð að nota þetta tækifæri til að nefna að aðeins fyrir tíu dögum síðan þá tóku gildi tvenn ný lög sem styrkja mjög réttarstöðu neytenda, - þ.e. lög um lausafjárkaup og þjónustukaupalög. Mikilvæg skref hafa því verið stigin í því skyni að auka réttarvernd neytenda og fleiri mál af því tagi eru í undirbúningi.
Samfélag okkar tekur ört breytingum og nú hefur aðalnámsskrá grunnskóla verið breytt og mun hún væntanlega í ríkari mæli en áður undirbúa börnin okkar til þátttöku í því samfélagi sem morgundagurinn og framtíðin mun færa okkur. Það er mér því mikil ánægja að sjá að neytendafræðsla á nú sinn sess í aðalnámsskrá grunnskólanna.
Það var árið 1995 sem Norræna ráðherranefndin sem fer með málefni neytenda samþykkti áætlun um neytendafræðslu í skólum. Markvisst hafa ýmsar stofnanir og einstaklingar verið að vinna að því að hrinda þeim markmiðum í framkvæmd sem er að finna í þessari áætlun: nefnilega að undirbúa ungu kynslóðina og gefa henni tækifæri til þess að öðlast þekkingu á með hvaða hætti þau geti áfallalaust tekið þátt í neyslusamfélagi okkar.
Að mínu áliti er alveg ljóst að hér hafa skólarnir lykilhlutverki að gegna og bera mikla ábyrgð á því að upplýsa unga fólkið um ýmis neytendamál sem miklu skipta í þeirra daglega lífi.
Börn verða að öðlast betri skilning á því hvernig eigi að forgangsraða, velja og hafna, um hvað fjármál snúist og meðhöndlun vasapeninga, hvernig þau eigi að greina á milli auglýsingar annars vegar og hlutlausra upplýsinga hins vegar.
Foreldrar og börn geta lent í ágreiningi s.s. vegna áhrifa fjölmiðla á börnin, vegna mismunandi sýnar á hefðbundin gildi heimilsins og þau fjárhagslegu takmörk sem raunveruleikinn kann að setja fjölskyldunni í raun og veru.
Markaðsfærsla beinist í sífellt meira mæli að börnum og unglingum og nýir og áður óþekktir markaðir hafa orðið til eins og til dæmis sést glöggt af hinni miklu aukningu á farsímanotkun meðal barna og unglinga.
Breyttur lífsstíll okkar og aukin neysla getur einnig haft mikil áhrif á næsta umhverfi okkar. Neysluvenjur okkar á Íslandi kunna þó einnig að hafa sín áhrif á hnattræna stöðu umhverfismála almennt eins og allir þekkja. Fræðsla um tengsl lífsstíls og neyslu og umhverfismála er því ekki síður mikilvæg og er hún því eitt af áhersluatriðum í áætlun norrænu ráðherranefndarinnar um neytendafræðslu.
Aukin fræðsla og þekking um reglur er varða vöruöryggi og ýmsan öryggisbúnað sem getur komið í veg fyrir slys er einnig nauðsynleg, ekki síst í þjóðfélagi sem sífellt verður tæknivæddara.
Af framansögðu er ljóst að ég tel að hlutverk neytendafræðslu í grunnskólum sé mjög mikilvægt og jafnframt tímabært. Vægi þessarar þekkingar mun einnig aukast í framtíðinni eftir því sem úr grasi vaxa nýjar kynslóðir sem gera enn meir kröfur en við höfum gert.
Þessar nýju kynslóðir munu vaxa upp með greiðan aðgang að ýmis konar tækjum sem geta hjálpað þeim við val á vörum og þjónustu sem okkur gat aldrei dreymt um að yrðu til og jafn aðgengilegar og raun ber vitni. Tölvutæknin og Netið bjóða neytendum nú þegar upp á ýmis skilvirk aðstoðartæki eins og til dæmis öflugar leitarvélar sem leita að besta verði ákveðinnar vöru eða þjónustu sem neytandi er að leita eftir kaupum á. Neytendur munu því í framtíðinni gera slíkar verðkannanir frá heimili sínu á Netinu. Hin nýja tækni mun því hafa mikil áhrif og bæta stöðu neytenda að því er varðar aðgengi að upplýsingum sem geta hjálpað þeim til þess að meta, velja og taka upplýstar ákvarðanir á markaðnum.
Ég veit að í sífellt auknum mæli eru tölvur og margmiðlunardiskar nú notaðir sem hjálpartæki við kennslu og börnin taka virkan þátt í því að læra á þessi tæki og notfæra sér Netið til þess að komast að upplýsingum í ýmsum gagnabönkum. Það hlýtur því að vera mikil áskorun í því fólgin fyrir kennara að hagnýta sér í æ meira mæli hina nýju tækni við kennsluna en um leið er það einnig eðlilegur hluti af þeirri þróun sem nú á sér stað á þessu sviði.
Ég fagna því mjög þessu framtaki Endurmenntunarstofnunar Kennaraháskóla Íslands að efna nú til þessa námskeiðs fyrir alla áhugasama kennara á Vestur-Norðurlöndum (Ísland, Grænland og Færeyjar) og hvernig þeir geti betur undirbúið nemendur til þess að taka upplýstar ákvarðanir varðandi neysluvenjur sínar og fjölskyldu sinnar í framtíðinni. Einnig erum við þakklát fyrir þá samstöðu sem hin norrænu ríkin hafa sýnt því að þetta námskeið skuli haldið en þau hafa veitt rausnarlegan fjárhagslegan stuðning við þetta verkefni af fjármunum Norðurlandaráðs.
Það er líka ánægjulegt að tekist hefur að fá Victoriu W.Thoresen til þess að koma og halda þetta námskeið en hún er einn fremsti sérfræðingur Norðurlanda á þessu sviði. Að lokum vil ég svo þakka Endurmenntunarstofnun Kennaraháskóla Íslands fyrir alla þeirra vinnu við að skipuleggja og gera þetta námskeið að veruleika.
Ég óska ykkur alls hins besta við námið næstu daga og vona að þið snúið heim á ný með mun betri þekkingu og nýjar hugmyndir um það hvernig kennslu á sviði neytendafræðslu í skólum landsins skuli hagað í framtíðinni.
Þakka áheyrnina!