Ávarp á ráðstefnu um áhrif nýrra raforkulaga, 15.06.2001 -
Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp
á ráðstefnu um áhrif nýrra raforkulaga
á uppbyggingu og rekstur smávirkjana
á ráðstefnu um áhrif nýrra raforkulaga
á uppbyggingu og rekstur smávirkjana
Ágætu ráðstefnugestir
Ég vil í upphafi lýsa yfir ánægju með að fá tækifæri til að koma hingað í dag og segja fáein orð í upphafi þessarar áhugaverðu ráðstefnu. Það er mjög jákvætt og raunar nauðsynlegt að hinn stóri og vaxandi hópur raforkubænda skoði vandlega breytt umhverfi raforkumála.
Það er staðreynd að ríkjandi viðhorf til raforkumála almennt hafa verið að breytast á undanförnum árum. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra og telja verður það sjónarmið eðlilegt að minnsta kosti hér á landi, meðan unnið var að uppbyggingu raforkukerfis landsins. Segja má að við höfum nú slitið barnsskónum hvað það varðar og nýtt raforkuumhverfi í samræmi við umhverfi annarra nágrannaþjóða okkar mun verða til þess að mynda samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku innan fárra ára, en flutnings- og dreifiveitur munu þó áfram verða undir opinberri forsjá vegna þeirrar einokunar er felst í slíkri starfsemi.
Þróun og uppbygging smávirkjana er mikilvægur þáttur í nýtingu endurnýjanlegrar orku landsins bæði í ljósi skuldbindinga okkar um losun gróðurhúsaloftteinda og ekki síður hins að þessi nýting vatnsaflsins er einkar mikilvæg fyrir einstaka notendur víða um land. Víða erlendis er einnig mikill áhugi á þessu máli til dæmis í nágrannalöndum okkar, Noregi og Grænlandi og hafa málefni smávirkjana borið á góma í viðræðum við stjórnvöld þessara landa. Ör tækniþróun smávirkjana síðustu ára hefur gert þessar virkjanir betur samkeppnishæfar við stærri virkjanir. Þessar tæknibreytingar hafa gert það kleift að litlir erfileikar eru á því að samtengja orkuframleiðsluna við almenna markaðinn, hafi menn möguleika á að framleiða hagkvæma raforku frá heimarafstöðvum yfir ákveðnum aflstærðarmörkum, sem hér á landi hafa verið sett um 100 kW. Þeir eru þó væntanlega mun fleiri víða um land sem einungis munu virkja fyrir sig og sína starfsemi.
Þess má geta að nú í morgun undirritaði ég 2 virkjanaleyfi. Annars vegar vegna framkvæmda í Súgandafirði og hinsvegar Ólafsfirði.
Að mati iðnaðarráðuneytissins er mikilvægt að efla og þróa uppbyggingu smávirkjana hér á landi á næstu árum. Því er að mínu mati eðlilegt að sá sem nýtir eigin hagkvæma raforku búi við sambærilegar aðstæður og þeir sem fá raforku frá samtengdu kerfi og á þetta einkum við um niðurgreiðslur á raforku til húshitunar. Óeðlilegt væri ef niðurgreiðslur á raforku yrðu til að draga úr frumkvæði manna í þessu efni.
Því hef ég kynnt í ríkisstjórn tillögu ráðuneytisins um að ríkið veiti styrk til þeirra, sem í dag njóta niðurgreiðslna vegna rafhitunar en hyggjast virkja til eigin nota á bújörðum sínum. Styrkurinn mun miðast við 5 ára niðurgreiðslur til rafhitunar gegn því að niðurgreiðslur verði felldar niður og verður styrkurinn greiddur þegar viðkomandi virkjunartillaga hefur verið samþykkt. Fjármálaráðherra hefur fallist á þessa tillögu og er gert ráð fyrir að styrkveitingar hefjist þegar á
næsta ári. Annað atriði, sem lítillega hefur verið til skoðunar er að hve miklu leyti ríkið aðstoði menn vegna frumrannsókna á aðstæðum til virkjunar. Eðlilegt væri að sú aðstoð yrði svipuð og raunin hefur verið á, varðandi hlutdeild ríkisins í virkjun vatnsfalla almennt, en þetta á einkum við um vatnamælingar og túlkun á niðurstöðum þeirra til að unnt sé á vandaðan hátt að hanna hagkvæmustu virkjun á hverjum stað. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga þegar lagt er í miklar fjárfestingar einstaklinga, það er auðvelt að vera of stórtækur og stórhuga, en ef fjárfestingin skilar ekki sínum arði getur illa farið. Því er nauðsynlegt að menn vandi eins og kostur er allan undirbúning að nýjum smávirkjunum.
Góðir ráðstefnugestir.
Ég er sannfærð um að þessi ráðstefna ykkar mun verða áhugaverð og fróðleg, það er nauðsynlegt að ræða það á hvern hátt smávirkjanir muni falla inn í nýtt umhverfi raforkumála. Mikilli vinnu er enn ólokið við efnismeðferð frumvarpsins um raforkumál og auk þess öll reglugerðarsmíð. Eigi að síður er það af hinu góða að fá fram skoðanir manna um þetta efni. Ég lít svo á að uppbygging smávirkjana vítt um landið styrki byggð á viðkomandi stað og verði til heilla fyrir þá er þess eiga kost að nýta og njóta. Með það í hug árna ég þessari ráðstefnu heilla í starfi.
Ég segi ráðstefnuna formlega setta.