Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. júní 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Innlegg á ráðherrafundi neytendamála og viðskipta, Helsinki, 20.06.2001

Sameiginlegur ráðherrafundur
neytendamála- og viðskiptaráðherra Norðurlanda
20. júní 2001 í Helsinki - Finnlandi



Upplýsingatæknin og rafræn viðskipti

Innlegg
Valgerðar Sverrisdóttur, viðskiptaráðherra
Íslandi

I. INNGANGUR
    1. Upplýsingatækninni hafa fylgt miklar samfélagslegar breytingar á síðustu árum. Fyrir u.þ.b. 5 árum síðan hafði nærri enginn af okkur talað saman í farsíma eða sent tölvupóst. Viðskiptalífið var rétt að byrja að nýta sér hina nýju tækni til þess að kynna starfsemi sína með því að nota hana til þess að opna s.n. heimasíður á Netinu. Hraðinn í þróuninni hefur verið mikill og nú er svo komið að viðskiptalífinu bjóðast nú mörg og stór tækifæri til þess að nýta þessa nýju tækni og koma til móts við væntingar neytenda að geta nú átt enn betri möguleika á því að gera viðskipti yfir Netið. Séð frá sjónarhóli neytenda þá getur meira framboð í netverslun veitt þeim enn meiri aðgang að vörum og þjónustu en þeir hafa haft hingað til og viðskiptalífið getur náð til nýrra kaupenda og þar með aukið markaðshlutdeild sína á viðkomandi mörkuðum. Báðir aðilar, þ.e. neytendur og viðskiptalífið hafa því allt að vinna undir þessum kringumstæðum.

    2. Forsenda þess að þessi framtíðarsýn geti orðið að veruleika er þó sú að neytendurnir séu ekki í nokkrum vafa um að á engan hátt sé þeim meiri hætta búin af því að eiga viðskipti yfir Netið heldur en af öðrum hefðbundnari viðskiptaháttum, til dæmis að því er varðar friðhelgi einkalífs þeirra (persónuupplýsinga) og greiðslu með greiðslukortum yfir Netið. Traust er hlutur sem ekki verður fenginn á auðveldan hátt, heldur er forsenda trausts að aðilar hafi áunnið sér traust á hvor öðrum. Fulltrúar úr viðskiptalífi og frá neytendum verða því í sameiningu að þróa og skapa þá viðskiptahætti sem eru byggðir á traustum grunni og njóta óskoraðs trausts neytenda.
II. LAGASETNING OG ÓLÖGFESTAR REGLUR UM RAFRÆN VIÐSKIPTI.
    3. Það er ekki einungis hin öra tæknilega þróun sem hefur skapað væntingar hjá neytendum um að rafræn viðskipti séu í þann veginn að taka flug og aukast verulega. Á undanförnum árum hafa margvíslegir aðilar, opinberir sem og einkaaðilar þróað reglur sem hafa það að markmiði að greiða fyrir rafrænum viðskiptum og ætlað að auka traust hjá neytendum á slíkum viðskiptaháttum. Til dæmis samþykkti Evrópusambandið (ESB) árið 1997 tilmæli um greiðslufyrirmæli með greiðslukortum sem gerð eru með rafrænum hætti, sbr. ESB gerð nr. 97/489/ESB. Það sama ár í maí mánuði árið 1997 samþykkti ráðherraráð ESB tilskipun um fjarsölusamninga nr. 97/7/ESB 20. maí 1997. Árið 1999 samþykkti ráðherraráð ESB tilskipun um rafrænar undirskriftir og einnig nú á þessu ári hefur ráðherraráð ESB samþykkt enn eina tilskipun sem hefur þann tilgang að auðvelda enn frekar að viðskiptalífið og neytendur geti notið og fullnýtt sér þau tækifæri sem innri markaðurinn býður upp á, sbr. tilsk. 2000/31/ESB frá 8. júní 2000 um rafræn viðskipti. Margvíslegar aðrar aðgerðir eru einnig á döfinni jafnt innan ESB sem og utan þess, hjá OECD og hjá einkaaðilum s.s. hjá verslunarráðum í ýmsum ríkjum svo og alþjóðlegum samtökum verslunarinnar.
    4. Að undanförnu hafa heyrst raddir frá viðskiptalífinu um að hraða verði löggjöf og þróuninni að því er varðar reglusetningu sem á að gilda fyrir rafræn viðskipti, með því í æ ríkari mæli að þróa og samþykkja ýmsar "siðareglur" eða aðrar sambærilegar reglur sem ekki eru lögfestar. Ljóst er að ýmis konar reglur sem aðilar setja sjálfir geta komið að gagni einkum þegar ekki er neinum lagareglum til að dreifa eða rík þörf er fyrir reglur sem geta "fyllt upp" í ýmis göt eða tómarúm sem er að finna í gildandi lagaumgjörð. Það er einnig alveg ljóst að við getum ekki reiknað með því að slíkar eigin reglur sem aðilar setja sér geti leyst öll vandamál sem tengjast því að neytendur skorti traust á rafrænum viðskiptaháttum og slíkar reglur einar og sér munu ekki skapa þann vöxt sem allir aðilar eru að vonast eftir að geti legið í rafrænum viðskiptum yfir Netið. Öryggismerkingar fyrir rafræn viðskipti geta stuðlað að því að traust neytenda aukist, en verði þau of mörg þá getur það skapað rugling og glundroða hjá neytendum og grafið undan trausti þeirra og þá er orðið "öryggismerki" orðið að öfugmæli.
    5. Framundan er því mikil áskorun fyrir samstarfsaðila annars vegar á sviði neytendamála og hins vegar á sviði viðskiptalífsins til þess að þeim megi í sameiningu öðlast að ávinna sér traust neytenda til þess að stunda viðskipti með rafrænum hætti. Það verður því aðeins að veruleika að fulltrúar þessara tveggja aðila nái samkomulagi um þau grundvallarréttindi sem viðskiptalífið verður að taka tillit til og sem neytendur gera kröfu um og vænta að verði virt þegar notuð er þessi nýja tækni í viðskiptum við sölu á vörum og þjónustu. Í sameiningu verða því neytendur og aðilar í viðskiptalífinu að móta betur hvaða kröfur það eru sem viðskiptalífið verður að uppfylla, en þó einnig að stíga einu skrefi lengra; að setja í framkvæmd þær kröfur sem gerðar eru vegna neytendaverndar skv. gildandi lagaákvæðum, skv. ákvæðum í tilmælum eða í siðareglum sem aðilar viðskiptalífsins hafa sjálfir sett sér.
III. KRÖFUR NEYTENDA TIL RAFRÆNNA VIÐSKIPTA OG FRAMKVÆMD ÞEIRRA.
    6. Á undanförnum 5-6 árum hafa kröfur neytenda til rafrænna viðskipta orðið smátt og smátt skýrari og ýmis lagafyrirmæli hafa orðið til sem m.a. taka á þessum málum, sbr. liður nr. 3, hér á undan. Því miður hefur þó viðskiptalífið í mörgum tilvikum ekki sett þær reglur í framkvæmd sem opinberir aðilar hafa verið að óska eftir að settar verði. Til dæmis hefur hvorki viðskiptalífið né heldur greiðslukortafyrirtæki reynt að setja skýrar reglur um greiðsluhætti og afturköllun greiðslu þó svo að framkvæmdastjórn ESB hafi mælt með því í tilmælum sínum frá árinu 1997.
    Tæknileg þróun er ekki lengur neinn "Þrándur í götu" svo að viðskiptalífið geti hagnýtt sér þá möguleika sem felast, og falist geta í rafrænum viðskiptum.
    7. Það er staðreynd að rafræn viðskipti hafa náð miklu mun meiri útbreiðslu í Bandaríkjunum heldur en t.d. á Norðurlöndum eða í Evrópu, a.m.k. enn sem komið er. Það sýnir svo ekki verður um villst að það er unnt að ná trausti og áhuga neytenda til þess að stunda viðskipti yfir Netið. Nánari skoðanaskipti og umræður milli fulltrúa neytenda og viðskiptalífsins um þær kröfur sem neytendur gera til rafrænna viðskipta og skilvirk framkvæmd er sú leið sem nú er vænlegust til þess að auka veltu í rafrænum viðskiptum, til hagsbóta jafnt fyrir neytendur og viðskiptalífið. Þessi sameiginlegi fundur milli ráðherraráðs neytendamála og ráðherraráðs viðskiptamála hér á norrænum vettvangi tel ég að sé mikilvægt skref í þá átt að stuðla að slíkri þróun mála og hið sama ætti að eiga sér stað í vinnuhópum sem starfa fyrir þessi tvö ráðherraráð að svo miklu leyti sem það gæti talist vera skynsamlegt og jafnframt nauðsynlegt. Sameiginleg verkefni væru einnig hugsanleg enda löng hefð fyrir því í norrænu samvinnunni að löndin vinni sameiginlega að lausn mála eftir því sem henta þykir. Nauðsynlegt er að halda því starfi áfram og stuðla þannig að sterkum norrænum markaði þar sem að neytendurnir eru fullkomlega sáttir við hina nýju viðskiptahætti og rafrænir viðskiptahættir hafa áunnið sér traust neytenda.
IV. EFTIRLIT MEÐ KRÖFUM NEYTENDA TIL RAFRÆNNA VIÐSKIPTA OG HIÐ NORRÆNA SJÓNARHORN.
    8. Á Norðurlöndum eru mörg dæmi þekkt þar sem að viðskiptalífið, - einnig í sumum tilvikum í samvinnu við samtök neytenda, - hafa byrjað á því að setja saman leiðbeiningarreglur fyrir merkjakerfi í tengslum við rafræn viðskipti. Til dæmis má nefna www.ehandelsfonden.dk, www.nsafe.nk og ScanSafe en það er norrænt verkefni sem ætlað er til merkinga á netverslunum og að gera rafræn viðskipti öruggari og einfaldari fyrir neytendur. Vandamálið hér er þó að talsverður munur er á milli merkjakerfanna sem slíkra.
    9. Af því sést að nauðsynlegt er að fylgjast með og hafa eftirlit með þróuninni. Í Bandaríkjunum
    (sjá hér t.d.: http://powerrankings.forrester.com/) hafa verið þróaðar með kerfisbundnum hætti aðferðir til þess að meta netsíður sem miða að því að selja neytendum vöru eða þjónustu og í því tilviki út frá því hvers neytendur mega vænta og krefjast í sambandi við þær vörur og þjónustu sem verið er að selja á Netinu. Með hliðsjón af því að við höfum nú séð að nokkur mismunandi merkjakerfi hafa verið að þróast sem eiga að þjóna viðskiptum jafnt innan sem yfir landamæri þá er nú nauðsynlegt að setja af stað samnorrænt verkefni þar sem við förum að meta kerfisbundið þær netsíður sem bjóða upp á netverslun og sem neytendur á Norðurlöndum hafa aðgang að.
    10. Í framtíðinni verður þörf fyrir sameiginlegar viðmiðunarreglur hjá merkjakerfunum en þó ekki minni þörf fyrir samnorrænt kerfi sem veitir möguleika til þess að meta með hlutlægum hætti að hversu miklu leyti einstakar vefsíður með netverslun standist þær kröfur sem neytendur og viðskiptalífið gera á hverjum tíma til góðrar netverslunar. Þar af leiðandi leggjum við til að sett verði á laggirnar þverfagleg nefnd milli (EK-Kons og EK-Næring) embættismannanefndanna um neytendamál - og viðskiptamál og henni falið að renna af stokkum tilraunaverkefni sem miði að því að:
      • Safna saman öllum helstu upplýsingum sem skipta máli út frá neytendavernd og velji jafnframt ákveðinn fjölda vefsíðna sem bjóða upp á netverslun sem skoðaðar verði nánar og teknar til mats;
      • ákveða betur þau skilyrði og mælieiningar sem á að nota við matsgerðina og matið á þeim, þ.m.t. skilyrði og atriði sem varða raunveruleg viðskipti (sölu) og þjónustu við neytendur;
      • framkvæma og gera fullkomna matsgerð á þeim síðum sem nefndin hefur ákveðið að meta og leggja fram lista (álitsgerð) um niðurstöðu matsgerðarinnar;
      • og hugsanlega, að teknu tilliti til heildarniðurstöðunnar í verkefninu, að setja fram tillögu að samnorrænu matstæki sem gæti þjónað í framtíðinni til þess að meta bæði norrænar vefsíður á sviði netverslunar og merkjakerfi;
      • matsgerðinni er ætlað að gefa tæmandi lýsingu á þeim skilyrðum sem að nefndin telur mikilvægt að uppfyllt séu og teljist því lágmarkskilyrði sem verður að uppfylla til þess að hún njóti trausts neytenda til viðskipta yfir Netið.

Ráðherranefndin óskar eftir að skýrslan verði lögð fyrir næsta sameiginlega fund árið 2002.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta