Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. júní 2001 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp í tilefni 100 ára afmælis jarðræktarrannsókna á Íslandi 21. júní 2001

Ávarp
Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra,
flutt í Gróðrarstöð Reykjavíkur í tilefni aldarafmælis
samfelldra ræktunartilrauna á Íslandi
21. júní 2001


Ágætu hátíðargestir

Sú kemur tíð er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa.
Brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundi nýrra skóga.

Svo kvað skáldið góða Hannes Hafstein í aldamótaljóði sínu.

Til að þessi framtíðarsýn gæti ræst þurfti bæði framtak og þekkingu. Íslensk menning í þúsund ár byggði á nánu sambandi manns og náttúru, en til að takast á við nýja tíma og sækja fram til aukinnar hagsældar þurfti aukna þekkingu á þeim möguleikum sem felast í ræktun í íslenskum jarðvegi.

Með starfi Gróðrarstöðvarinnar í Reykjavík hófst ný sókn til að efla og festa í sessi ræktunarmenningu á Íslandi. Sókn sem var ómissandi þáttur á braut Íslands til sjálfstæðis.

Með Gróðrarstöðinni í Reykjavík um aldamótin síðustu og Gróðrarstöðinni á Akureyri skömmu síðar hófust tilraunir á vísindalegum grunni sem hafa vaxið og dafnað til dagsins í dag. Að mörgu var að hyggja. Fátt var um efnivið til ræktunar nytjajurta í landinu. Flytja þurfti inn nýjar tegundir og leita yrkja sem gætu hentað til ræktunar við þau sérstöku skilyrði sem ríkja í voru landi. Rannsaka þurfti notkun áburðar og aðferðir til ræktunar. Sviðið var vítt, garðyrkja og skógrækt auk ræktunar fóðurjurta handa búfé landsmanna.

Leitin að nýrri þekkingu tók þegar að skila árangri og þróunin hélt áfram eftir að starfsemin lagðist niður í Garðyrkjustöðinni hér í Reykjavík. Það starf sem hér var hafið hélt áfram á tilraunastöðvum víða um landið. Landbúnaðurinn færðist til nútímahorfs með umfangsmikilli nýræktun lands, einkum um miðbik nýliðinnar aldar.

Og bændur og aðrir ræktendur tóku vel við sér og árangurinn varð mikill og góður. Stundum fóru menn að vísu fram úr sjálfum sér ef svo má segja þegar rannsóknirnar voru ekki alltaf nægilega vel á undan atvinnuveginum og því urðu stundum nokkur áföll í ræktuninni svo sem á kalárum sem stöfuðu þó ekki síst af kólnandi tíðarfari um skeið en einnig af því að þekking á samspili erfða og umhverfis var ekki næg. Menn lærðu af þessari reynslu og rannsóknir og tilraunir voru auknar.

Í huga brautryðjenda eins og Klemenzar Kr. Kristjánssonar á Sámsstöðum og Ólafs Jónssonar á Akureyri var ræktunarmenning smári í túnum sem áburðargjafi og korn í sáðskiptum. Þetta heitir nú sjálfbær og vistvæn ræktun sem þjóðin hefur sett sér að stefna að.

Vísindi og þróun eru stundum lengi að skila árangri. Við komumst langt áleiðis á 20. öldinni, en sjáum nú fyrst í upphafi 21. aldar þessar hugsjónir brautryðjandanna rætast. Kappsamlega er unnið að rannsóknum á ræktun smára og kornræktin hefur fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í búskap fjölda bænda í öllum landsfjórðungum.

Fyrir um það bil hálfum mánuði stóðu áhugamenn í bændastétt fyrir eins dags ráðstefnu um kornrækt á Sauðárkróki. Þar var sagan rakin og gömul og ný þekking lögð fram. Ráðstefnan var sérstaklega ánægjulegt og lærdómsríkt dæmi um það hvaða árangri það skilar þegar brautryðjendur í bændastétt og okkar bestu vísindamenn taka höndum saman. Rannsóknirnar hafa verið í takti við þarfir bændanna, og þó oftast skrefi á undan, og bændurnir hafa getað hagnýtt sér niðurstöðurnar jafnóðum og þær urðu til.

Landbúnaðurinn hefur verið nefndur móðir annarra atvinnuvega. Það er móðir jörð sem veitir okkur fæði, klæði og skæði. Til að svo megi verða um alla framtíð þarf nýting landsins gæða að vera sjálfbær og bændur og vísindamenn að vinna með samstilltum hætti. Hlutverk rannsókna er að tryggja næga þekkingu til að hagnýtingin verði sjálfbær. Gott dæmi um slíkt verkefni er gerð nýrrar jarðabókar, verkefnið Nytjaland sem unnið er undir forystu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Það er sannfæring mín að RALA í góðri samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Leiðbeiningaþjónustuna og aðra aðila muni byggja upp og miðla þeirri þekkingu, sem nauðsynleg er, þekkingu bæði á ræktun nytjaplantna og gjöfulli nýtingu úthagans.

Á grunni þessara vísinda mun íslensk ræktunarmenning dafna og uppskera aukast að magni, gæðum og fjölbreytileika. Íslenskir bændur munu í vaxandi mæli rækta korn og fleiri nytjajurtir í sáðskiptum og skjóta stoðum undir fjölbreyttari og öflugri landbúnað. Til þess að svo megi verða þarf samstillt átak þeirra ágætu stofnana sem stunda rannsóknir, leiðbeiningar og fræðslu í þágu landbúnaðarins,- þættir sem svo ágætlega sameinaðist í starfi brautryðjandans Einar Helgason sem hér hóf störf í upphafi síðustu aldar.

Framtíðarsýn Hannesar Hafstein frá því fyrir hundrað árum á jafn vel við nú og þá, og áletrunin á þeim minnisvarða, sem reistur er til minningar um upphaf jarðræktartilrauna hér á þessum stað fyrir 100 árum, er einmitt sótt þangað : " ... brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa ... "

Til hamingju með Gróðrarstöðina í Reykjavík. Við þökkum í dag 100 ára þróunarstarf – fögnum miklum árangri og gleðjumst yfir ræktunarmenningu sem lagt hefur grunn að bættu mannlífi og betra Íslandi – til hamingju.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta