Ræða nr. 2 á norrænum sumarfundi 2001, "Skógrækt og varðveisla líffræðilegs fjölbreytileika á Íslandi".
Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra
á norrænum ráðherrafundi,
haldinn í Reykjavík 27. júní 2001
"Skógrækt og varðveisla líffræðilegs fjölbreytileika á Íslandi"
Fundarstjóri, heiðruðu fundarmenn ....
Flatarmál íslenskra skóga er harla lítið þegar borið er saman við skóga hinna Norðurlandanna og raunar allra annarra landa Evrópu. Núverandi skógleysi Íslands má að stórum hluta rekja til búsetunnar sem hér hófst á 9. öld. Við upphaf landnáms er álitið að skógar hafi þakið um fjórðung landsins, en á þeim ellefu öldum sem liðnar eru frá landnámi hefur flatarmál skóglendis rýrnað um 95%, vegna ósjálfbærrar nýtingar.
Birkiskógar á Íslandi höfðu mikla efnahagslega þýðingu á Íslandi frá upphafi landnáms allt fram á fyrri hluta tuttugustu aldar, einkum sem orkugjafi og fóður fyrir sauðfé. Íslenskir birkiskógar voru mikilvæg búsvæði fyrir margar lífverutegundir sem í dag eru sjaldgæfar rétt eins og skógarnir sjálfir. Skógarnir gegndu auk þess mikilvægu jarðvegsverndar- og vatnsmiðlunarhlutverki, en skógur eða kjarr er sá gróður sem er öflugastur til jarðvegs- og vatnsverndar.
Í samanburði við skóga hinna Norðurlandanna eru náttúrlegir íslenskir skógar fábreyttir hvað snertir fjölda trjátegunda. Aðeins ein tegund náði að nema hér land og mynda skóga eftir lok ísaldar; ilmbjörk (Betula pubescens) sem kölluð er fjallabjörk á norrænum málum. Íslenskt birki getur verið afar breytilegt í útliti og vexti eftir því við hvaða aðstæður það vex og eftir erfðasamsetningu trjánna en stærsti hluti íslenskra birkiskóga er lágvaxið og hægvaxta kjarr. Undanfarna öld hefur hins vegar fengist góð reynsla af ræktun fjölmargra innfluttra trjátegunda, svo sem af rússalerki frá Norður-Rússlandi og af sitkagreni, stafafuru, alaskaösp og víðitegundum frá Alaska. Notkun þessara tegunda gefur aukið færi á atvinnu- og verðmætasköpun í sveitum landsins, svo sem með viðarframleiðslu, sem ekki væri fyrir hendi ef aðeins væri völ á innlendu tegundinni; birki.
Ein öld er liðin frá því fyrstu skógræktartilraunir og aðgerðir til verndunar skóga hófust hérlendis. Í dag er árlega gróðursett í um 1200-1500 ha en áform eru um að nýræktun skóga verði stóraukin á næstu árum. Á árinu 1999 voru tveir þriðju gróðursettra trjáa af innfluttum tegundum en þriðjungur af íslensku birki. Margt bendir til að hlutfall birkis muni heldur aukast í framtíðinni með aukinni áherslu á skógrækt til landgræðslu og jarðvegsverndar, auk þess sem aukin friðun lands gagnvart sauðfjárbeit mun hafa í för með sér að birkiskógar breiðast út í auknum mæli með sjálfsáningu.
Markmið skógræktar á Íslandi eru í stórum dráttum fjórþætt:
1. vistfræðileg endurheimt og landbætur (endurheimt horfinna skógvistkerfa)
2. verndun jarðvegs, vatnsbúskapar og andrúmslofts (að koma í veg fyrir jarðvegseyðingu og að binda kolefni úr andrúmslofti)
3. efnahagsleg (ræktun timburskóga)
4. félagsleg (ræktun skóga til útivistar og fegrunar)
Stærstur hluti núverandi skógræktar fer fram á grundvelli laga um landshlutabundin skógræktarverkefni sem samþykkt voru á Alþingi Íslendinga árið 1999. Í hverju landshlutaverkefni er stefnt að ræktun skóga og skjólbelta á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis. Veitt eru framlög til landeigenda til ræktunar s.k. "fjölnytjaskóga", þ.e.a.s. skóga sem hafa fjölþætt markmið; að framleiða viðarafurðir til iðnaðarnota, til verndar og landbóta, og vegna fegurðar og útivistargildis. Auk þess eru framlög veitt til ræktunar skjólbelta, til að skýla búfé og mannvirkjum tengdum landbúnaði og belta sem hugsuð eru sem undanfari skógræktar á bersvæði.
Um þessar mundir örlar nokkuð á umræðu í þjóðfélaginu um hugsanleg áhrif aukinnar skógræktar á náttúrufar á Íslandi. Þessi umræða endurspeglast m.a. í því að í nýlegum lögum um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um að skógrækt á yfir 200 ha svæði skuli vera háð mati. Bent er á að breyting verði á ásýnd lands þegar bersvæði er breytt í skóglendi. Hvort sú breyting er jákvæð eða neikvæð er háð afar huglægu mati sem erfitt er að meta, en við skipulag framkvæmda er kappkostað að fella skóg vel að landslagi. Einnig er bent á að skógrækt breyti aðstæðum fyrir lífverur, m.a. með því að skyggja út ljóselskar plöntutegundir og hugsanlega raska búsvæðum þeirra fugla sem nýta sér opin svæði til varps. Skógrækt breytir vissulega aðstæðum á þeim blettum þar sem skógur verður ræktaður og því er mikilvægt að rækta ekki skóg á fundarstöðum sjaldgæfra lífverutegunda. Hins vegar fer nánast öll skógrækt í dag fram á algengustu vistgerðum, s.s. rýru mólendi eða illa grónu landi og við skipulag er sneitt hjá þekktum fundarstöðum sjaldgæfra lífvera. Því ætti sú hætta að vera lítil. Áhrif skógræktar á líffræðilegan fjölbreytileika stærri landslagsheilda eða á landsvísu ætti hins vegar að geta verið jákvæð. Með þeim eru sköpuð ný búsvæði og þar með eykst fjölbreytni vistkerfa.
Einnig hefur verið gagnrýnd sú staðreynd að skógrækt byggist hér að svo miklu leyti á "framandi lífverum", þ.e.a.s. innfluttum trjátegundum, og að slík ræktun samræmist ekki samningnum um líffræðilega fjölbreytni sem gerður var í Río de Janeiro árið 1992.
Á hitt skal þó bent að sá samningur fjallar um sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda og annarra auðlinda sem felast í líffræðilegri fjölbreytni.
Í fyrstu grein samningsins um líffræðilega fjölbreytni stendur:
"Markmið samnings þessa ... eru vernd líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting efnisþátta hennar og sanngjörn og réttlát skipting þess hagnaðar sem stafar af nýtingu erfðaauðlinda, þ.m.t. hæfilegur aðgangur að erfðaauðlindum..."
Það er með öðrum orðum skýrt kveðið á um að ekki skuli lagðar hömlur á nýtingu erfðaauðlinda utan upprunalegra heimkynna, sé slíkt gert á sjálfbæran hátt. Aðeins skal varast að nota þær tegundir sem taldar eru vera ágengar og sem geta rýrt líffræðilega fjölbreytni náttúrlegra vistkerfa. Ekki fæst séð af þeirri reynslu sem hingað til hefur fengist, að nokkur innflutt trjátegund á Íslandi teljist í hópi ágengra, framandi lífvera í náttúrlegum vistkerfum.
Í skóglausu landi með fátæka flóru trjátegunda er það ein meginforsendan fyrir efnahagslega og félagslega sjálfbærri og árangursríkri skógrækt að tryggður verði áframhaldandi aðgangur að erfðalindum annarra landa. Jafnframt verður að gera kröfu um að rannsóknir og vöktun á vistfræðilegum áhrifum skógræktar með innfluttum tegundum gefi svör um áhættu sem þessu fylgir.