Grein um sölu Landsbankans, Mbl. 05.07.2001 -
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Sala Landsbankans
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 26. júní sl. um að hefja undirbúning að sölu á umtalsverðum hlut af eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. til kjölfestufjárfestis hefur vakið nokkra athygli. Í umræðunni hefur því m.a. verið haldið fram að innlendum fjárfestum verði meinað að bjóða í Landsbankann og að búið sé að kasta fyrir borð hugmyndum um dreifða eignaraðild að bönkunum. Í ljósi þessarar umræðu er ástæða til að fara betur yfir þau sjónarmið sem liggja að baki fyrirhugaðrar sölu.
Alþjóðleg þróun
Í upphafi er nauðsynlegt að skoða þróun á alþjóðlegum bankamarkaði. Mikil bylgja samruna hefur gengið yfir fjármálamarkaði Vesturlanda á undanförnum árum. Aukin samkeppni, alþjóðavæðing, lægri vaxtamunur og aukið framboð af nýrri þjónustu hefur verið einkennandi fyrir markaðinn. Ein helsta ástæða þessara breytinga eru nýjar dreifileiðir í gegnum Netið. Enga þjónustu verður eins auðvelt að bjóða fram með rafrænum hætti og fjármálaþjónustu.
Bankar búa sig undir hina rafrænu byltingu og landamæralausa fjármálaþjónustu með samrunum milli landa og með því að verja gríðarlegu fé í ný upplýsingakerfi. Á Norðurlöndum hafa bankar verið að sameinast eða fjárfesta hver í öðrum til að búa sig undir hina rafrænu samkeppni á innri markaði Evrópusambandsins við stærri banka á meginlandi Evrópu og í Bretlandi.
Talið er að samrunabylgjan á Norðurlöndum muni leiða til þess að 3-4 bankasamsteypur komist í lykilstöðu á norrænum fjármálamarkaði og verði vel í stakk búnar að takast á við alþjóðlega samkeppni. Þessar samsteypur munu reka alhliða bankaþjónustu í nokkrum löndum og líta á Norðurlöndin sem sitt heimasvæði.
Íslenskir bankar í alþjóðlegri samkeppni
Íslenskir bankar hafa að mörgu leyti staðið sig vel; þeir bjóða upp á fjölbreytta þjónustu, eru vel tæknivæddir, hafa á að skipa hæfu starfsfólki og hafa í auknum mæli haslað sér völl erlendis. Hinu er ekki að leyna að samanburður við kennitölur erlendra banka er íslenskum bönkum að flestu leyti óhagstæður. Vaxtamunur er meiri en í löndunum í kringum okkur og kostnaður sem hlutfall af tekjum almennt hærri.
Rætt hefur verið um hagræðingu á íslenskum fjármálamarkaði um langt skeið. Með samrunum utan bankakerfisins hefur borið við að íslenskum bönkum hefur veist erfiðara að veita sístækkandi íslenskum fyrirtækjum þjónustu. Ríkið brást við með því að óska eftir áliti samkeppnisráðs á samruna Landsbankans og Búnaðarbankans. Þar rákust á tvenn sjónarmið. Annars vegar hagræðingarsjónarmiðið, þ.e. að hagkvæmni stærðarinnar leiði til lækkandi kostnaðar, og hins vegar samkeppnissjónarmiðið, þ.e. að neytendur gjaldi þess ef keppinautum fækkar. Niðurstaða samkeppnisráðs var, eins og kunnugt er, að leggjast gegn samruna Landsbankans og Búnaðarbankans.
Ísland er ekki eyland í fjármálaþjónustu og því nauðsynlegt að íslenskir bankar hafi afl og styrk til að takast á við meiri samkeppni. Sú aukna samkeppni birtist í ýmsum myndum og ef svo heldur fram sem horfir, þá er framundan bylting í rafrænum dreifileiðum sem auka mun verulega samkeppni á neytendamarkaði.
Kjölfestufjárfestir
Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar segir að hafinn verði undirbúningur á sölu á umtalsverðum hlut af eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf. til kjölfestufjárfestis. Með umtalsverðum hlut er átt við að minnsta kosti þriðjung hlutafjár í félaginu. Ráðgert er að salan fari fram fyrir árslok 2001. Skilyrði er að sala á slíkum hlut leiði til aukinnar samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði og auki samkeppnishæfni hans.
En hvað er kjölfesta fyrir Landsbankann? Kjölfestufjárfestir er sá sem hefur þekkingu og reynslu á sviði fjármálaþjónustu og getur því aukið styrk bankans og gefið honum ný sóknarfæri. Kjölfestan gefur Landsbankanum færi á að auka þjónustuframboð sitt, veitir honum aðgang að fleiri dreifileiðum og mörkuðum og jafnframt aðgang að þróun á nýjum upplýsingakerfum. Með þessu eykst samkeppnishæfni bankans. Aðrir aðilar en þeir sem þekkingu og reynslu hafa af fjármálamörkuðum, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, geta ekki veitt kjölfestu með þeim hætti sem hér er lýst.
Þetta er í fullu samræmi við bankasamruna og -sölur erlendis. Sums staðar, sér í lagi í Lúxemburg, veita stjórnvöld ekki öðrum en bönkum og öðrum aðilum með faglega þekkingu á fjármálaþjónustu aðgang að virkum eignarhlutum í bönkum. Þannig treystir Lúxemburg stoðir bankakerfisins sem ein mikilvægasta atvinnugrein landsins.
Skilningurinn á hugtakinu kjölfestufjárfestir er hér með sama hætti og í ákvörðun ríkisstjórnar um sölu á Landssíma Íslands. Þar er gert ráð fyrir að í öðrum áfanga sölunnar verði leitað eftir kjölfestufjárfesti með það að markmiði að efla íslenska fjarskiptamarkaðinn, styrkja fyrirtækið og auka verðmæti þess við seinni sölu. Slíkur fjárfestir yrði valinn með samkeppni, t.d. með lokuðu útboði að loknu forvali. Sjónarmiðin eru hin sömu og við sölu á Landsbanka Íslands.
Óbreytt stefna ríkisstjórnarinnar
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hefja undirbúning að sölu til kjölfestufjárfestis á ekki að koma á óvart. Í lok ágúst 1998 greindi ríkisstjórnin frá að hætt hefði verið viðræðum við SE-bankann um kaup á Landsbankanum og viðræðum við Íslandsbanka og sparisjóðina um kaup á Búnaðarbankanum og FBA. Í stefnumótun ríkisstjórnarinnar í bankamálum frá 28. ágúst 1998 er lagður grunnur að ákvörðun um sölu bankanna þriggja. Ákveðið var að skrá bankanna þrjá á Verðbréfaþing Íslands, gefa út nýtt hlutafé í Landsbanka og Búnaðarbanka og selja 49% hlutafjár í FBA. Um aðild kjölfestufjárfesta og dreifða eignaraðild sagði:
,,Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að almenningi í landinu verði tryggð hlutdeild í eignarhaldi á bönkunum, samhliða skráningu hlutabréfa í kauphöll. Ljóst er hins vegar að æskilegt er að kjölfestufjárfestar komi til liðs við ríkissjóð sem eigandi og stuðli þannig að aukinni samkeppnishæfni viðkomandi stofnunar og auknu verðmæti. Því telur ráðherranefndin að kanna verði möguleika á að fá kjölfestufjárfesta að öllum bönkunum"
Einnig hefur verið rætt um í einkavæðingarferlinu að æskilegt sé að auka erlenda eignaraðild í íslenskum bönkum og var sérstaklega kveðið á um það í stefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum frá 28. ágúst 1998.
Hnykkt var á þessari stefnu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 1999. Þar segir að: ,,..hlutabréf í bönkunum verði seld með það að markmiði að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaði til að ná fram ódýrari þjónustu. Við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum."
Í frumvarpi um sölu bankanna frá því í vor segir varðandi áform um söluna að auk sölu til almennings og tilboðssölu verði kannaður áhugi kjölfestufjárfesta á stórum hlut í bönkunum. Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárfestingu erlends fjármálafyrirtækis.
Af þessu má ráða að ekki þarf að koma á óvart að ríkið hafi ákveðið að fylgja þeirri stefnu sinni að fá kjölfestufjárfesti inn á markaðinn í því skyni að tryggja samkeppnishæfni hans.
Dreifð eignaraðild
Í umræðum síðustu ára um sölu banka hefur því oft verið haldið á lofti að tryggja ætti dreifða eignaraðild að bönkum með lagasetningu sem bannaði fjárfestingu í bönkum yfir ákveðnu hámarki. Ráðherrar lýstu því yfir á sínum tíma að þetta væri fýsileg leið, m.a. lýsti ég því yfir að hana ætti að skoða vandlega. Ég lét í framhaldinu kanna það hvaða leiðir væru færar til að þess að takmarka hættuna á því að stærri hluthafar í fjármálafyrirtækjum hefðu skaðleg áhrif á þau og þar með á fjármálamarkaðinn allan. Við nána skoðun var talið að sú leið að takmarka í löggjöf hámark þess hlutafjár eða atkvæðisréttar sem einstakir aðilar mega eiga í fjármálafyrirtækjum myndi hafa í för með sér skaðleg efnahagsleg áhrif og draga úr samkeppnishæfni íslensks fjármálamarkaðar. Þar við bættist að Eftirlitsstofnun EFTA hefur lýst þeirri skoðun sinni að slík takmörkun brjóti í bága við 40. gr. EES samningins um skyldu aðildarríkja til að tryggja frjálst flæði fjármagns.
Í framhaldi af ítarlegri skoðun á kostum og göllum hinna ýmsu leiða tók ríkisstjórnin ákvörðun um að leggja til þann kost að styrkja verulega eftirlit með eigendum stórra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Frumvarpið varð síðan að lögum í vor. Tilgangurinn með hinum nýju lögum er sá að draga úr hættunni á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra. Viss hætta þykir á að stórir hluthafar í fjármálafyrirtækjum beiti áhrifum sínum, sem fylgja eignarhaldinu, í því skyni að afla sjálfum sér ávinnings á kostnað fyrirtækjanna, annarra hluthafa eða eftir atvikum annarra viðskiptavina. Slík háttsemi er skaðleg viðkomandi fyrirtækjum og til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á fjármálamarkaðnum.
Með þessari lagasetningu er tryggt að Íslendingar búa í það minnsta við jafn sterka löggjöf og gildir um takmarkanir á eignarhaldi í EES-ríkjum, að Noregi undanskildu. Í Noregi og Kanada hafa lengi verið í gildi strangari takmarkanir á eignarhaldi en þær hafa sætt harðri gagnrýni. Í Kanada hefur verið ákveðið að draga mjög úr takmörkunum til að tryggja samkeppnishæfni markaðarins og Eftirlitsstofnun EFTA hefur sent Norðmönnum aðvörun um að takmörkunin stangist á við EES-samninginn. Í EES-ríkjum eru takmarkanir á eignarhaldi almennt með sama hætti og hér á landi. Þær koma ekki í veg fyrir stóra eignarhluta en tryggja að ákveðnar hæfisreglur og eftirlit sé til staðar um eigendur þeirra.
Með þessu hefur ríkisstjórnin skilgreint stefnu sína með ítarlegum hætti og lokið málinu. Ég hvet alla þá sem áhuga hafa á þessu máli að kynna sér vel greinargerð og skýrslu með frumvarpinu sem hægt er að finna á vefsíðu Alþingis, althingi.is.
Söluferillinn
Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur verið falið að hafa umsjón með sölu Landsbankans til kjölfestufjárfestis. Nú þegar hefur verið auglýst eftir ráðgjöfum til að vinna að undirbúningi sölunnar með íslenskum stjórnvöldum. Verkefni ráðgjafans er m.a. að gera tillögu um hverjir eigi að taka þátt í lokuðu útboði, semja skilmála og vinnureglur vegna lokaðs útboðs, veita ráðgjöf um lágmarksverð og gera tillögur um hvaða tilboði skuli tekið. Gera má ráð fyrir að þessi ferill muni taka um sex mánuði.
Áhugi kjölfestufjárfesta
Á þessu stigi er ekki vitað um áhuga kjölfestufjárfesta á kaupum í Landsbankanum. Slíkar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar á viðskiptalegum grunni að lokinni umfangsmikilli athugun á innri stoðum Landsbankans og ytra umhverfi hans.
Áhugi erlendra banka og annarra kjölfestufjárfesta á Landsbankanum mun koma í ljós en svo miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslenskan fjármálamarkað og viðskiptavini hans að sjálfsagt er að láta á það reyna hvort ásættanlegt tilboð kemur frá aðila sem myndað getur trausta kjölfestu í bankanum.
Stjórnvöld hafa ástæðu til að vera bjartsýn um að vel takist til við þessa sölu, ekki síst vegna þess að ákvörðun hefur verið tekin um sölu svo stórs hluta bankans. Kjölfestufjárfestar hafa almennt þá stefnu að eignast stóra hluti í bönkum því að það gefur þeim færi á að koma stefnu sinni í framkvæmd.
Undanfarna daga hefur því verið varpað fram að aðgengi að íslenska fjármálamarkaðnum væri það opið að erlendir bankar væru nú þegar komnir á markaðinn hefðu þeir áhuga á því. Þetta á ekki við rök að styðjast. Langflestir bankar vilja eignast starfandi banka í stað þess að leggja út í þann kostnað sem er samfara stofnun nýs banka. Hér má einnig nefna að ekki eru nema þrjú ár síðan að SE-bankinn sótttist eftir að komast inn á íslenskan fjármálamarkað en var hafnað. Ekki eru nein rök fyrir því að álykta að óreyndu máli að erlendir bankar hafi ekki áhuga á að fjárfesta í íslenskum bönkum.
Lokaorð
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um sölu Landsbankans er skynsamleg. Hún beinist að kjölfestufjárfestum sem geta styrkt bankann. Þetta er í samræmi við alþjóðlega framkvæmd og viðurkennd viðhorf þar sem bankar út um allan heim eru að búa sig undir harðnandi samkeppni.
Forsætisráðherra benti á í viðtali við Morgunblaðið þann 24. júní sl. jákvæð efnahagsleg áhrif af innstreymi erlends fjármagns vegna sölu Landssímans og Landsbankans til erlendra aðila. Það er hárrétt, en ákvörðun ríkisstjórnarinnar er hins vegar fyrst og fremst tekin með hagsmuni Landsbankans og viðskiptavina hans að leiðarljósi. Takist vel til með sölu til kjölfestufjárfestis mun samkeppnisstaða Landsbankans styrkjast, lánshæfismat hans batna, kostnaðarhlutfall lækka og möguleiki gefst á fleiri öflugum dreifileiðum fyrir víðtækara framboð fjármálaþjónustu.