Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2001 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu

Samgönguráðherra ávarpaði fyrr í dag ráðstefnu á Hótel Loftleiðum um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.

Ágætu ráðstefnugestir.


Ég vil þakka fyrir það tækifæri sem ég fæ hér til þess að skýra stefnu mín í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins.
Þegar fjallað er um samgöngumál höfuðborgarsvæðisins verður ekki hjá því komist að hafa undir allt svæðið frá norðanverðum Hvalfirði að Suðurnesjum. Þetta er eitt atvinnu og viðskiptasvæði þar sem fólk fer til vinnu sinnar daglega. Nágrannar mínir í vesturbænum í Reykjavík stunda vinnu hvort heldur sem er í iðjuverunum á Grundartanga, í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli eða í miðborginni. Þeir gera kröfu um greiðar samgöngur svo ekki sé nú talað um þá fjölmörgu sem sækja vinnu til Akureyrar, Egilsstaða eða Vestmanneyja og fara á milli með flugi. Þar eru á ferðinni bæði kennarar og sölumenn, að óslepptum viðgerðarmönnum tölvubúnaðar sem mega engan tíma missa. Þeir gera allir kröfu til þess að komast á milli staða á sem skemmstum tíma og viðskiptamenn þeirra gera kröfu til þess að kostnaður við ferðirnar sé í lágmarki. Flugið frá Reykjavíkurflugvelli er því forsenda fyrir þeim ferðum milli landshluta. Í því ljósi er breytt afstaða borgaryfirvalda til flugvallarins óskiljanleg.
Hafnirnar á þessu sama svæði eru lykillinn að inn og útflutningsverslun okkar og æðar vöruflutninga liggja að og frá hafnarbakka í Sundahöfn, Hafnarfjarðarhöfn, Grundartangahöfn eða Helguvíkurhöfn. Það blasir því við að um þetta svæði greinast allar megin flutningaleiðir fólks og vöruflutninga.
Það verða því engar áætlanir gerðar um samgöngumál án þess að taka fullt tillit til þeirra þarfa sem höfuðborgarsvæðið hefur á sviði samgangna. Og sú staðreynd blasir við í gildandi vegaáætlun.
Það er í þessu ljósi sem samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins mun koma mjög við sögu við gerð samræmdrar samgönguáætlunar. Í henni verður fjallað um alla þætti samgöngukerfisins. Að þeirri áætlun er nú unnið á vegum samgönguráðuneytisins.
Litið hefur verið á virkt samgöngukerfi sem eina af grundvallarforsendum fyrir hagvexti og mikilvægan þátt í öflugu atvinnulífi og þjóðlífi. Gott samgöngukerfi hefur af mörgum verið talið til lífsgæða fólks og hefur hreyfanleiki áhrif á val á búsetu, atvinnu, ferðalög/frítíma og margt fleira og er þannig einn af grundvallarþáttum nútíma samfélags. Þannig eru góðar samgöngur eitt af því sem setur hvað mest mark sitt á þróuð þjóðfélög í dag og er Ísland engin undantekning frá því.
En samgöngur þurfa einnig að taka tillit til fólks og náttúru og þrátt fyrir margar jákvæðar hliðar samgangna hafa þær einnig neikvæð áhrif á umhverfi og lífsgæði fólks. Í dag er þróunin ekki sjálfbær, of margir slasast eða deyja í umferðinni og samgöngur hafa í för með sér neikvæð umhverfisáhrif og óæskileg áhrif á heilsu og lífsgæði fólks.
Þessi atriði m.a. krefjast þess að sameiginlegt átak verði gert varðandi skipulag og áætlanagerð samgangna. Því hefur ríkisstjórnin ákveðið að vinna að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2003-2014, sem er ætlað að ná fram forgangsröðun og stefnumótun fyrir málaflokkinn í heild, hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla og meiri áherslu á samstarf og samspil milli samgöngumáta og stofnana samgönguráðuneytisins.
Á Íslandi eru samgöngur þríþættar þ.e. flug, siglingar og landsamgöngur. Þessir samgöngumátar hafa ólíkum hlutverkum að gegna og þjóna fólki og atvinnulífi á ólíkan hátt. Samkvæmt núgildandi lögum leggur samgönguráðherra fyrir Alþingi, að fengnum tillögum frá hverri stofnun, tillögu til þingsályktunar um vegáætlun, flugmálaáætlun og hafnaáætlun og öðlast þær gildi þegar þær hafa verið samþykktar á Alþingi. Þær eru síðan endurskoðaðar á tveggja ára fresti, þannig að ætíð eru í gildi áætlanir til a.m.k. 2 ára.
Alþingi samþykkti árið 1998 í fyrsta skipti þingsályktunartillögu um langtímaáætlun í vegagerð til 12 ára. Þingsályktunartillaga um jarðgangaáætlun var samþykkt á Alþingi árið 2000 og þingsályktunartillaga um sjóvarnir var samþykkt í fyrsta skipti árið 2001.
Samræming milli vegáætlunar, flugmálaáætlunar og hafnaáætlunar hefur ekki verið mikil. Þrátt fyrir að samgöngumátarnir hafi mismunandi hlutverkum að gegna eiga þeir þó ýmislegt sameiginlegt og með einni samgönguáætlun til 12 ára, má líta heildstætt á samgöngur í landinu. Er þá haft í huga að ekki sé nægjanlegt að hver samgöngumáti þróist fyrir sig, heldur er einnig mikilvægt að nýta þá möguleika sem felast í samspili þeirra.
Samgöngukerfi er í eðli sínu umfangsmikið, þar sem sumir hlutar þess eru mikilvægir á landsvísu og þjóna landinu í heild, en aðrir þjóna meira staðbundnum hagsmunum. Einkabíllinn er allsráðandi í fólksflutnigum en almenningssamgöngur eru þó engu að síður mikilvægar. Skipulag á að miðast við að fólk komist örugglega og á þægilegan hátt ferða sinna. Skipulag vöruflutninga stjórnast meira af markaðslögmálum, en unnt er með samræmdu átaki að hafa áhrif á virkni þeirra.
Alþjóðleg þróun
Alþjóðleg þróun gefur tóninn og er ákveðin forsenda fyrir íslenskri samgöngustefnu. Má þar nefna alþjóðlegar skuldbindingar og erlent samstarf sem Íslendingar eru þátttakendur í og eru ákvarðandi fyrir ýmsa þætti í samgöngumálum, svo sem ýmis lög og reglur. Einnig hefur hin svo kallaða hnattvæðing áhrif á íslenska samgöngustefnu, þar sem hún hefur bæði áhrif á vöru- og fólksflutninga milli landa. Aukin ferðalög fólks milli landa eru bæði vegna þess að Ísland hefur orðið vinsælli ferðamannastaður með árunum og einnig ferðast Íslendingar meira til útlanda, bæði í fríum og í viðskiptaerindum.
Þar sem Íslendingar eru mjög háðir utanríkisverslun eru gæði vöruflutninga til og frá landinu því mjög mikilvæg. Segja má að allir samgöngumátarnir verði fyrir áhrifum af hinni alþjóðlegu þróun, t.d. flugsamgöngur vegna ferðalaga milli landa, skipasamgöngur vegna vöruflutninga milli landa og vegasamgöngur vegna ferðamennsku innanlands.
Innlend þróun
Eitt meginatriðið varðandi innlenda þróun í vöruflutningum er mikil aukning vöruflutninga á vegum á kostnað skipaflutninga. Varðandi fólksflutninga er það einkum aukning á fólksflutningum með flugi og akstri einkabíla á vegum, en stöðnun eða minnkun í fólksflutningum með almenningssamgöngum á landi. Hin síðari ár hefur búseta einkennst af tilflutningi til höfuðborgarsvæðisins. Það er og hefur verið sterkur stjórnmálalegur vilji til að vinna með landsbyggðinni, varðandi búsetu og atvinnu og nýta auðlindir lands og sjávar. Í því samhengi hefur samgöngukerfið stóru hlutverki að gegna og þess vegna hefur verið lögð sérstök áhersla á að bæta samgöngukerfið um allt land.
Betri nýting fjármuna
Mikilvægt er að stuðlað sé að betri nýtingu fjármuna til samgöngumála. Liður í því er meiri samvinna á milli stofnana. Við ákvarðanir um uppbyggingu mannvirkja í einstökum samgöngumátum hefur alloft skort á að heildarsýn á samgöngur væri höfð að leiðarljósi. Ófullnægjandi vegakerfi olli því t.d. að ráðist var í flugvallagerð á ýmsum stöðum, en síðan reyndist ekki grundvöllur fyrir áætlunarflugi á þessa staði, þegar að vegakerfið batnaði. Sama gildir í raun um hafnirnar.
Ná má betri nýtingu fjármuna með því að líta heildstætt á samgöngumátana og þá einnig með aukinni samvinnu stofnananna í rekstri mannvirkja og þjónustu við umferðina.
Höfuðborgarsvæðið
Höfuðborgarsvæðið er meginmiðstöð samgangna á Íslandi. Meirihluti allra vöruflutninga til og frá landinu fer um hafnirnar á svæðinu. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugsins og Keflavíkurflugvöllur er í næsta nágrenni höfuðborgarinnar, þ.e. innan þess atvinnusvæðis. Þjóðvegakerfið á svæðinu ber miklu meiri umferð en aðrir þjóðvegir á landinu.
Þjóðvegirnir á höfuðborgarsvæðinu mynda samfellt kerfi, sem er burðarkerfi samgangna á svæðinu. Umferð er um 77 þúsund bílar á dag að meðaltali, þar sem hún er mest (Ártúnsbrekka). Slíkt umferðarmagn krefst 6 akreina og mislægra gatnamóta ef þjónustustigið á að vera viðunandi. Á höfuðborgarsvæðinu er að finna vegarkafla og gatnamót, sem telja verður flöskuhálsa í samgöngukerfi svæðisins þrátt fyrir það að ástandið nálgist ekki það sem er í mörgum stórborgum.
Samgöngur innan höfuðborgarsvæðisins fara mest fram með einkabílum og einungis um 4% ferða er með almenningsvögnum.. Svo lítil hlutdeild veldur því hins vegar að byggja verður samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins með tilliti til einkabílsins.
Við gerð aðalskipulags sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, hefur þjóðvegakerfinu oftast verið ætlað nægt rými bæði fyrir vegina sjálfa og mislæg gatnamót, sem þurfa mikið pláss. Þegar kemur að því að framfylgja skipulaginu reynist sveitarfélögunum oft erfitt að standa gegn þrýstingi hagsmunaaðila, og verður niðurstaðan stundum sú að þrengt er að vegum og gatnamótum, fjölgað er tengingum á stórar umferðaræðar o.fl. í þeim dúr. Þetta kemur m.a. fram í áætlunum að gera jarðgöng á nokkrum stöðum í framtíðinni.
Reykjavíkurflugvöllur verður miðstöð innanlandsflugsins næstu árin, en óvissa er um hvað tekur við þar á eftir. Sú óvissa veldur erfiðleikum í áætlanagerð um nauðsynlega uppbyggingu aðstöðu á flugvellinum, en mjög brýnt er að halda henni áfram.
Að öllu óbreyttu bendir allt til þess að hafnirnar á svæðinu verði áfram aðal inn- og útflutningshafnir landsins og þá um leið miðstöðvar fyrir dreifingu innflutnings út á land og söfnun útflutnings frá landsbyggðinni. Þessi staðreynd veldur mikilli umferð flutningabíla og skapar jafnframt miklar tekjur og hagsæld á svæðinu og möguleika fyrir atvinnufyrirtækin.
Í þeirri stefnumótun sem samgönguáætlun felur í sér er mikilvægt að leggja áherslu á öryggi í umferðinni og auknar almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins.
Þeir þættir sem ég legg áherslu á í samgönguáætlun næstu 12 árin eru þessir:

* Aukin afkastageta Reykjanesbrautar, Vesturlandsvegar að Hvalfjarðargöngum og Suðurlandsvegar að Selfossi.

* Gerð mislægra gatnamóta á höfuðleiðum á svæðinu.

* Undirbúningur og framkvæmd Sundabrautar

* Bygging þjónustu og umferðarmiðstöðvar fyrir innanaldsflugið og áætlunarbíla við Reykjavíkurflugvöll sem tengist millilandaflugvellinum með öflugum almenningssamgöngum.

* Almenningssamgöngur á sérleyfisleiðum áætlunarbíla út frá höfuðborgarsvæðinu verði boðnar út og tengdar flugsamgöngum.

* Dregið verði úr sjóflutningum inn á miðju höfuðborgarsvæðisins með því að bæta hafnaþjónustu á jaðarsvæðunum í höfnum á Suðurnesjum og í Grundartangahöfn Hvalfirði og Akranesi. Með því má draga úr vöruflutningum inn á miðju höfuðborgar svæðisins sem er mjög mikilvægt.

* Samkeppnisstaða megin flutningahafna á landsbyggpinni verði styrkt og stuðlað að bættri samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum.

* Þegar auka þarf afkastagetu Reyjanessbrautar eftir tvöföldun verði það gert með lestarsamgöngum inn á höfuðborgarsvæðið, reynist það hagkvæmur kostur.. Talið er að rekstur standi undir sér eftir 20 ár án vaxta af stofnkostnaði. Stofnkostnaður vegna lestar frá Keflavík í Mjódd er talinn 25-30 milljarðar.

    Það er svipuð upphæð og vænta má til samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu og og tvöföldun Reykjanessbrautar
    næstu 12 árin.
* Með samstarfi borgaryfirvalda og Vegagerðar verði lögð áhersla á sjálfvirka stýringu umferðarinar um stofnvegakerfið með tölvutækni og ljósum í þeim tilgangi að auka hagkvæmni í umferðinni og bæta umferðaröryggi og draga úr mengun.

Áform samgönguyfirvalda verða í vaxandi mæli að taka tillit til umhverfisþátta.

Setja þarf fram markmið er stuðla að sjálfbærum samgöngum og fjalla um leiðir til að ná markmiðunum, að svo miklu leyti sem unnt er á heimavígstöðvum. Árangur á þessu sviði ræðst þó að mjög miklu leyti af alþjóðlegri tækniþróun.
Ágætu fundarmenn.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa mikla efnahagslega yfirburði umfram aðra landshluta og eiga að geta nýtt sér hagkvæmni stærðarinnar við að byggja upp samgöngukerfið á móti ríkisvaldinu.
Umræður um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu hafa verið fyrirferðarmiklar síðustu misseri. Það er von mín að þessi yfirferð varpi ljósi á þá stefnumörkun sem ég hef unnið að og vil fylgja í góðu samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta