Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. október 2001 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ræða á ráðstefnu um Evruna, 31.10.2001

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Hefur evran áhrif á Íslandi?

Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnu um evruna.
Hótel Sögu, 31. október 2001

Góðir ráðstefnugestir. Ég vil þakka fyrir það tækifæri að fá að ræða hér um eina mikilvægustu spurningu sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahagsmálum um þessar mundir; hefur evran áhrif á Íslandi og ef svo er, getum við til lengri tíma litið staðið utan evrusvæðisins.
I would particularly like to thank Mr. Herve Carre from the European Commission and Dr. Olaf Sleijpen from the European Central Bank for sharing with us here today their valuable thoughts on the euro. The euro will affect every European, whether she is outside or inside the Euro-area. The question of whether to join or to be linked to EMU should be the prime question of economic discussions in non-EMU countries. Certainly, Iceland must consider this very carefully.

Góðir gestir. Svarið við þeirri spurningu hvort evran hafi áhrif á Íslandi er óumdeilanlega já. En þó evran hafi áhrif er ekki auðsætt að Íslendingar eigi að taka hana upp sem lögeyri. Við mat á því þarf að skoða tengingu okkar við Evrópu í víðara samhengi, samsetningu utanríkisverslunar og sveiflur í þjóðarbúskapnum í samanburði við sveiflur í öðrum Evrópulöndum. Niðurstaðan er ekki einhlít og verður ákvörðun aðeins tekin eftir mikla yfirlegu og þjóðfélagsumræðu. Sú umræða er því miður alltof skammt á veg komin hér á landi. Málið snýst um hvort við getum viðhaldið krónunni okkar og jafnframt tryggt samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs í alþjóðlegu umhverfi.

Spurningin um aðild Íslands að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu er órjúfanlega tengd spurningunni um aðild að Evrópusambandinu. Augljóst er að Ísland verður ekki aðili að EMU nema hafa gengið í ESB. Það er hins vegar ljóst að sá efnahagslegi ávinningur sem felst í upptöku evru fyrir íslenskt viðskiptalíf, svo sem lægri viðskiptakostnaður og minni gengisáhætta, hefur áhrif á umræðu um ESB-aðild. Þannig virðist stór hluti atvinnurekenda og hagfræðinga vera þeirrar skoðunar að taka beri upp evru hér á landi. Í könnun sem Viðskiptablaðið gerði meðal íslenskra hagfræðinga um hvaða gjaldmiðill væri hagstæðastur fyrir Ísland, sögðust 23% vilja halda sig við krónuna, 17% vildu Bandaríkjadal en 57% evruna. Skoðanakannanir sýna einnig að mikill meirihluta félagsmanna Samtaka iðnaðarins vilja taka upp evru en almenningur á Íslandi skiptist í tvo jafn stóra hópa með og á móti.

Víkjum nú aðeins að stofnun EMU og markmiðum ESB með nýrri mynt. EMU var stofnað 1. janúar 1999 en þá var gengi gjaldmiðla stofnaðildarríkja myntbandalagsins endanlega fest. Frá þeim tíma hefur Seðlabanki Evrópu einn mótað hina sameiginlegu peningastefnu.
Síðustu aðgerðir í samrunaferlinu koma til framkvæmda í byrjun næsta árs en þá munu evruseðlar og –mynt fara í umferð og öðlast stöðu lögeyris við hlið gjaldmiðla einstakra aðildarríkja. Frá febrúarlokum verður ekki lengur hægt að nota gamla gjaldmiðla evrulandanna. Þetta er jafnframt sá þáttur samrunaáætlunarinnar sem kemur hvað mest við almenning. Evran mun fá aðra og nýja merkingu í huga fólks þegar hægt verður að handfjatla hana – hún verður raunveruleg. Það mun án nokkurs vafa leiða til gagnsæis í verðlagningu, sem ýtir undir samkeppni og lækkar verðlag.
Markmið ESB með evrunni er að eyða gjaldmiðilsáhættu og óvissu í innbyrðis viðskiptum aðildarríkja og stuðla þannig að aukinni hagkvæmni í viðskiptum. Þannig verður innri markaður ESB skilvirkari með upptöku evrunnar. Innri markaðurinn er okkur Íslendingum mikið hagsmunamál. Evran var einmitt tekin upp til að treysta þennan sama markað.

Ekki er hægt að segja til um á þessari stundu hvort langtímamarkmið ESB með evrunni muni nást. Til þess er of stuttur tími liðinn frá því að til evrunnar var stofnað og enn er hún ekki áþreifanleg fyrir almenning. Ekki er heldur hægt að greina með einföldum hætti hvaða áhrif evran hefur haft á Íslandi. Evran hefur enn sem komið er ekki yfirburðavægi í utanríkisviðskiptum okkar þar sem þrjú af stærstu viðskiptalöndunum; Bretland, Danmörk og Svíþjóð, eru ekki aðilar að EMU. Stuðningur við evruna hefur vaxið í þessum löndum og Íslendingar þurfa að vera við því búnir að hún verði tekin upp í þessum mikilvægu viðskiptalöndum okkar á næstu árum. Einnig er líklegt að evran verði mikið notuð sem viðskiptamynt í milliríkjaviðskiptum utan evru-landanna.

Íslendingar ættu að njóta að einhverju leyti þess ábata sem evrulöndunum fellur í skaut. Þannig mun viðskiptakostnaður og gengisáhætta, sem bundin er við einstaka gjaldmiðla minnka í viðskiptum við evru-löndin eftir því sem gjaldmiðlum fækkar og óskiptur markaður stækkar. Á hinn bóginn verður að telja líklegt að vaxtamunur á milli Íslands og evrusvæðisins aukist eftir því sem litlum myntum fækkar. Samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum á evrusvæðinu verður lakari.
Vaxtakostnað og gjaldmiðlaáhættu má minnka verulega með því að ganga í ESB og taka upp evruna. En þar með er ekki öll sagan sögð fyrir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Miklu máli skiptir hvort sveiflur í þjóðarbúskapnum séu svipaðar hér á landi og í evru-löndunum. Séu þær ólíkar en evran engu að síður tekin upp, hefur glatast sá möguleiki að bregðast við sveiflum með aðgerðum í peningamálum. Hagfræðistofnun athugaði áhrif evrunnar á íslenskan vinnumarkað fyrir samráðshóp stjórnvalda um evruna árið 1998. Niðurstaða hennar var sú að hagsveiflur væru meiri á Íslandi en innan ESB og að þær falli ekki saman í tíma, enda af ólíkum orsökum. Tenging krónunnar við evru í eitt skipti fyrir öll gæti því leitt til meira atvinnuleysis en ella.

Hvaða kostir í gjaldeyrismálum eru þá í stöðunni fyrir Íslendinga? Innganga í ESB og upptaka evrunnar myndi leysa mörg þau hagrænu vandamál sem við er að etja fyrir íslensk fyrirtæki. En þetta mál snertir marga strengi. Við Íslendingar höfum ávallt litið þannig á að með því að vera sjálfstæð þjóð ráðum við yfir okkar eigin mynt. Sérhver þjóð verður jafnframt að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum mörkuðum til að veita einstaklingum möguleika til að njóta sín. Frammi fyrir þessu stöndum við. Við verðum að standa okkur alveg eins og ég þurfti að gera sem stúlka í sveitinni heima. Mér var sagt að horfa fram á veg, trúa á Ísland og framtíð þess. Mín sýn var sveitin mín og Eyjafjörður. Sýn unga fólksins er önnur í dag. Hún er alþjóðleg og við verðum að taka tillit til þess. Unga fólkið sér Ísland í öðru ljósi, í alþjóðlegu ljósi.
Við þurfum sem þjóð að fara í innri umræðu um hvernig við sjáum sjálfstæði okkar og fullveldi best borgið. Þessi umræða þarf að fara fram áður en endanleg ákvörðun verður tekin um hugsanlegar viðræður um aðild að ESB. Við þurfum að svara því hvernig við viljum haga hagrænum, félagslegum og menningarlegum tengslum við Evrópu til framtíðar.

Aðrar lausnir en innganga í ESB og upptaka evrunnar lúta að tengingum við evrulönd án inngöngu í EMU. Þar má í fyrsta lagi nefna að tengjast evrunni einhliða, í öðru lagi að gera tvíhliða samning við Seðlabanka Evrópu og í þriðja lagi að hefja notkun evru sem lögeyris án inngöngu í EMU. Þessar leiðir ganga mislangt. Einhliða tenging við evruna felur í sér einhliða yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um að halda gengi krónunnar föstu gagnvart evru. Þar eð einungis þriðjungur utanríkisviðskipta eru nú við evru-lönd felur þessi leið ekki í sér neinn ávinning umfram núverandi fyrirkomulag.

Með tvíhliða tengingu yrði gert samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að verja gengi krónunnar gagnvart evru innan ákveðinna marka. Prófessorarnir Guðmundur Magnússon og Stefán Már Stefánsson hafa nú nýverið mælt með þessari leið. Hún hefur vissulega í för með sér meiri trúverðugleika en einhliða tenging við evruna en ekkert bendir til þess að unnt verði að gera slíkan samning við Seðlabanka Evrópu í fyrirsjáanlegri framtíð. Við megum ekki blekkja okkur á neinn hátt og þessi leið er ólíkleg, enda engin ávinningur í henni fólgin fyrir bankann eða ESB.
Með notkun evru sem lögeyris er gengið næst beinni inngöngu í EMU. Ókostur þessarar leiðar er hins vegar sá að Íslendingar afsöluðu sér stjórn peningamála einhliða og hefðu ekki áhrif með sýnilegum hætti.

Góðir ráðstefnugestir. Stjórn peningamála hlýtur ætíð að taka mið af aðstæðum. Örhagkerfi eins og hið íslenska getur ekki ákveðið fyrirkomulag peningamála til allrar framtíðar. Ég er þeirrar skoðunar að þær breytingar sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn gerðu á stjórn peningamála í vor hafi verið skynsamlegar. Kerfi fljótandi gengis ásamt verðbólgumarkmiði hentar íslenskum þjóðarbúskap best við þær aðstæður sem nú ríkja. Þetta kerfi getur jafnframt lagt ágætan grunn að evru-tenginu síðar, ef sú leið verður valin. Sá styrr sem staðið hefur um vaxtastefnu Seðlabankans að undanförnu kemur til af sérstökum aðstæðum í þjóðarbúskapnum en ekki umræðuefni okkar hér í dag, evrunni.
Þær leiðir sem hér að framan hafa verið nefndar munu koma til skoðunar á næstu árum enda sjálfgefið að Íslendingar þurfa að vera við því búnir að bregðast við breyttum aðstæðum í Evrópu. Við þurfum að geta aðlagast gjaldmiðilssamstarfinu í Evrópu þegar fram í sækir. Þannig þarf að haga stjórn efnahagsmála á þann hátt að hagrænir þættir hindri ekki tengingu við evruna í fyllingu tímans. Með þessum hætti á ég við að skynsamlegt sé að stjórna peninga- og ríkisfjármálum þannig á næstu misserum og árum að hægt verði að taka upp evruna eftir 5-10 ár ef við kjósum. Þetta gerir meðal annars þá kröfu til hagstjórnar að verðbólgu verði náð niður og jafnvægi verði í þjóðarbúskapnum.

Ég hef þá trú að breytingin nú um áramótin, þegar evran verður áþreifanleg, verði meiri en marga grunar. Fyrirtæki í evru-löndum munu nota evrur í viðskiptum við lönd sem ekki hafa evru sem lögeyri. Ferðamenn munu sjálfsagt krefjast þess að geta notað evrur alls staðar á innri markaðnum. Þannig getur notkun evrunnar orðið almenn án þess að íhlutun stjórnvalda komi til. Þetta er mikilvægt fyrir stjórnvöld að hafa í huga og undirstrikar mikilvægi þess að stjórnvöld búi sig vel undir þær breytingar sem evran mun hafa í för með sér.
Við stöndum frammi fyrir stórum spurningum sem ég bjóst ekki við að þurfa að svara. Mitt er ekki valið frekar en þeirra sem gengu á undan mér í sveitinni minni. Svarið er unga fólksins. Svarið snýst um framtíð þess. Ég er hins vegar tilbúin að hugsa allt upp á nýtt. Ekki útfrá sveitinni minni eða Eyjafirði heldur stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi. Við verðum fyrst og fremst að hugsa um að treysta sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar á nýjum tímum í nýju umhverfi og evran er hluti af því umhverfi.
Ég þakka fyrir.



Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta