Ávarp við afhendingu íslensku gæðaverðlaunanna, 08.11.2001
Íslensku gæðaverðlaunin 2001 í Ásmundarsal
fimmtudaginn 8. nóvember 2001.
Ágætu fundarmenn.
Það er mér sönn ánægja að vera hér í Ásmundarsal á fundi
Gæðastjórnunarfélags Íslands til að afhenda Íslensku gæðaverðlaunin
fyrir árið 2001.
Hið ágæta starf Gæðastjórnunarfélagsins í þágu íslensks atvinnulífs
og almennra framfara í landinu hefur ekki farið fram hjá neinum.
Sú var tíðin að fyrirtæki álitu gæðastjórnun óþarfa og að margra áliti fyrst og
fremst óhóflegan kostnaðarauka, án umtalsverðs mælanlegs ávinnings.
Sú skoðun breyttist ekki á einni nóttu og hefur framvarðarsveit
Gæðastjórnunarfélagsins þurft að standa af sér misjöfn veður til að ná þeim
glæsilega árangri sem við sjáum í dag.
Í síðasta mánuði heimsótti ég hugbúnaðarfyrirtæki hér í Reykjavík. Farið var
yfir merka sögu þess og eitt af því sem vakti athygli mína var að fyrirtækið
hafði vottað gæðakerfi samkvæmt alþjóðlegum staðli. Þetta vakti áhuga minn
og ekki fór á milli mála að starfsmenn fyrirtækisins töldu þetta lykilatriði
í markvissum rekstri þess.
Þarna kom fram, að ekki aðeins var gæðakerfi fyrirtækisins mikilvægt
stjórntæki innan þess og við framleiðslu, heldur var það einnig mikilvægur
þáttur í ímynd þess út á við gagnvart birgjum og kaupendum framleiðslunnar.
Fyrir mér var þetta augljós staðfesting á góðum árangri fyrirtækisins.
Jæja, víkjum þá að atburði líðandi stundar.
Íslensku gæðaverðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi gæði í rekstri og
stjórnun, fyrirtæki sem tileinkar sér og notar bestu aðferðir og verkfæri
með það markmið að ná sem mestum árangri.
Íslensku gæðaverðlaunin 2001 hlýtur:
Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi.
Í umsögn matsnefndar segir m.a.:
"Það sem öðru fremur hefur einkennt gæðastarf Svæðisskrifstofu Reykjaness er sú áhersla stjórnenda og starfsmanna að nýta gæðastarfið til þess að auka gæði þeirrar þjónustu sem hún veitir."
"Gæðastarf stofnunarinnar hefur þegar skilað miklum árangri. Metnaður og umhyggja stjórnenda og starfsmanna Svæðisskrifstofu Reykjaness fyrir þjónustuþegum sínum er stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana góð fyrirmynd."
Ég vil biðja Þór G. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi,
að koma hingað og taka á móti þessum veglega verðlaunagripi.
Ég óska þér og starfsfólki þínu innilega til hamingju með þennan glæsilega
árangur, sem verður öðrum áræðanlega hvatning til að fylgja fordæmi ykkar.