Ávarp á ráðstefnu um hreina framleiðslutækni fyrirtækja, 20.11.2001 -
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar-og viðskiptaráðherra
Ávarp
á ráðstefnu á vegum Hafnarfjarðarbæjar um hreinni framleiðslutækni
í Hafnarborg, þriðjudaginn 20. nóvember 2001
á ráðstefnu á vegum Hafnarfjarðarbæjar um hreinni framleiðslutækni
í Hafnarborg, þriðjudaginn 20. nóvember 2001
Ágætu ráðstefnugestir.Ég ólst upp við það, að með afrennslinu frá fiskvinnslunni í Grenivík flaut til sjávar ógrynni af lífrænu efni, blóðs og fitu, sem litaði sjóinn út frá vinnslustöðinni. Þetta vakti enga sérstaka athygli á þeim tíma og var aldrei grundvöllur neinskonar umræðu. Hér væri einfaldlega um að ræða úrgang sem skilað væri aftur til sjávar og væntalega yrði einhverju í lífríki hans til góðs. Að auki sýndu mávarnir þessu mikinn áhuga og ekki var heldur talin ástæða til að amast við þeim.
Svipaða sögu var að segja um sláturhúsið.Þetta er liðin tíð. Forustumenn fyrirtækja hafa áttað sig á mikilvægi þess að forðast mengun með bættri meðferð á hráefnum og úrgangi. Þeir hafa gert sér grein fyrir því að hér er um að ræða brýnt hagsmunamál sem tengist auknum kröfum um bætta hollustuhætti og neytendavernd. Þá hefur einnig opnast skilningur á því, að í þeim lífmassa sem fargað hefur verið, eins og t.d. með frárennslisvatni frá fiskvinnslu, er að finna mikilvæg hráefni sem hafa efnalega þýðingu fyrir fyrirtækin.
Hrein framleiðslutækni snýst ekki eingöngu um umhverfismál, þótt þau séu viss þungamiðja málsins. Hrein framleiðslutækni er ekki heldur til þess ætluð að setja hömlur á starfsemi fyrirtækja, að takmarka möguleika þeirra til vaxtar eða að ná hámarks árangri. Hún byggist aftur á móti á því, að umhverfismál eru órjúfanlegur þáttur á sérhverju stigi framleiðslunnar, allt frá frumöflun hráefna til skila kaupenda á umbúðum og afgöngum til endurvinnslu. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að hrein framleiðslutækni er ekki sérmál einhvers einstaks aðila, t.d. stjórnvalda eða tiltekinna fyrirtækja heldur þarf hún að vera með vitund og á færi allra þegnanna. Engu að síður gegna fyrirtækin gríðarlega mikilvægu hlutverki og er ekki að ástæðulausu að þessi ráðstefna beinist að framleiðslutækni fyrirtækja. Flest hinna öflugri fyrirtækja í iðnaði hafa tekið upp umhverfisstefnu sem m.a. mótar framleiðslutækni þeirra, en oftast einnig kröfur til birgja og annarra viðskiptavina. Umhverfisstefnan felur í sér skuldbindingu um að vinna að stöðugum umbótum og að lágmarka umhverfisröskun af völdum starfseminnar. Fyrirtækin hafa skilgreint lykilatriði starfseminnar og hvernig þau hafa áhrif á umhverfið. Í þessari "umhverfisrýni" eru áhrifin kortlögð og tekið tillit til skoðana hagsmunaaðila og krafna og væntinga viðskiptavina.
Skilgreining á markmiðum og leiðum dugir þó skammt ef framkvæmdin er ómarkviss. Mér hefur stundum fundist, að víða hafi skort á að hin fögru fyrirheit nái fram að ganga. Því er ástæða til að leggja áherslu á ábyrgð stjórnenda á framkvæmdinni. Það er m.a. á þeirra ábyrgð að þýðingarmiklir umhverfisþættir séu vaktaðir og kerfið sé skilvirkt út frá niðurstöðum innri úttekta og reksturinn sé aðlagaður breyttum aðstæðum í hinu ytra umhverfi.Að mínu mati er stjórnun umhverfismála hjá fyrirtækjum mjög sambærileg við almenna gæðastjórnun. Hvortveggja byggist á kerfisbundnum aðferðum við að leysa vandamál og ná fram stöðugum umbótum. Gæðastjórnun kom fram sem fræðigrein um 1950 og það hefur tekið langan tíma að fá almenna viðurkenningu á mikilvægi gæðastjórnunar fyrir rekstur og afkomu fyrirtækja. Það eru ekki mörg ár síðan gæðastjórnun var fyrst og fremst álitin óþarfa kostnaðarauki án umtalsverðs ávinnings. Svo er ekki lengur.
Eins mun verða um umhverfisstjórnun sem á sér styttri sögu. Í báðum tilfellum mun verða unnið eftir alþjóðlegum stöðlun sem í auknum mæli verða forsenda þess að fyrirtæki verði gjaldgeng í alþjóðlegum viðskiptum. Innleiðing gæðastjórnunar og umhverfisstjórnunar ætti því að vera hverju ábyrgu fyrirtæki kappsmál og mikilvægur þáttur þeirra í að efla samkeppnisstöðu sína og arðsemi.
Til lengri tíma litið er ekki ólíklegt að bæði gæðastjórnun og umhverfisstjórnun hverfi út af borðinu sem sjálfstæðar aðgerðir. Þær ásamt öðrum svipuðum stjórnunaraðferðum, eins og t.d. öryggisstjórnun og jafnréttismarkmiðum, hætta að hafa sjálfstætt gildi en verða í þess stað svo samvafin heildarstefnumótuninni og framkvæmd hennar að þau verða ekki sýnileg. Þetta kann að hljóma sérkennilega en þessarar þróunar er þegar farið að gæta hjá þeim fyrirtækjum sem hvað lengst eru komin á þessari braut.
Ég vil að lokum fagna því að Hafnarfjarðarbær hafi tekið frumkvæðið að þessari ráðstefnu um "hreina framleiðslustefnu fyrirtækja" og þakka fyrir tækifærið að fá að ávarpa ykkur um þetta veigamikla hagsmunamál atvinnulífsins.
Takk fyrir.