Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á hádegisverðarfundi Útflutningsráðs og Lánstrausts um áhættumat í alþjóðaviðskiptum, 24.01.2002

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp viðskiptaráðherra á hádegisverðarfundi Útflutningsráðs og Lánstrausts um áhættumat í alþjóðaviðskiptum,
Hótel Sögu, 24. janúar 2002.

Góðir fundargestir. Greiðsludráttur hefur alvarlegar afleiðingar fyrir öll fyrirtæki. Hann eykur þörf fyrirtækja á sjóðsstreymi, raskar fjárhagslegu jafnvægi, leiðir til mikils stjórnunarkostnaðar og í verstu tilvikum leiðir hann til atvinnuleysis og gjaldþrots. Mikill munur er á greiðsludrætti eftir löndum. Það virðist landlægt í sumum löndum að greiða ekki viðskiptaskuldir, fyrr en eftir dúk og disk.

Evrópa skiptist í tvö horn í þessu sambandi. Í Suður-Evrópu er ástandið slæmt. Um 90% viðskiptakrafna á Ítalíu hafa ekki fengist greiddar tveimur mánuðum eftir útgáfu reiknings og um 60-70% krafna í Grikklandi og Frakklandi, svo dæmi séu tekin. Í Norður-Evrópu er hins vegar algengast að veittur sé 30 daga greiðslufrestur og aðeins 5-10% krafna hafa ekki fengist greiddar tveimur mánuðum eftir útgáfu reiknings. Nú kynnu margir að halda að Íslendingar væru líkir þjóðum Suður-Evrópu að þessu leyti en kannanir sýna að svo er alls ekki.

Evrópusambandið samþykkti árið 2000 tilskipun um greiðsludrátt í viðskiptum, til þess að koma á sameiginlegum reglum um hámarks greiðslutíma og dráttarvexti innan sambandsins. Ósamræmi um gjalddaga krafna á milli aðildarríkja hindrar innri markaðinn í því hlutverki sem honum er ætlað að gegna. Það var einnig mismunur milli aðildarríkja hvort fyrir hendi var lagalegur grundvöllur til að krefjast dráttarvaxta og í þeim löndum þar sem slíkum rétti var til að dreifa var vaxtaprósentan sjálf og ákvörðun um hana mismunandi.

Tilskipuninni er ætlað að virða grundvallarregluna um frelsi aðila til að semja um vexti og dráttarvexti, en hefur þó að geyma lágmarksskilyrði og kröfur þar að lútandi. Henni er ekki ætlað að koma á algjöru samræmi milli löggjafar aðildarríkja, heldur er ríkjunum eftirlátið að ákveða nánar hvernig og með hvaða hætti reglunum skuli komið á í hverju ríki. Íslendingar hafa uppfyllt ákvæði þessa tilskipunar í kaupalögum og vaxtalögum.
Góðir fundargestir. Viðskipti snúast um traust. En sinn er siður í hverju landi og fyrirtæki sem stunda útflutning geta ekki gengið að því vísu að viðskiptahættir séu hinir sömu og þeir eiga að venjast frá heimalandi sínu. Fyrir útflutningsfyrirtæki er mjög mikilvægt að taka þetta með í reikninginn og jafnframt að afla sér bestu fáanlegu upplýsinga um greiðslugetu væntanlegra viðskiptavina. En það verður að hafa í huga að í upplýsingasamfélaginu skortir ekki upplýsingar. Það sem skiptir sköpum er hins vegar að vinna sem best úr upplýsingaflóðinu og nálgast réttu upplýsingarnar. Með því skapast samkeppnisforskot. Þess vegna er fundur eins og þessi, sem Útflutningsráð og Lánstraust standa fyrir mikilvægir og ég vona að hann verði árangursríkur.

Ég þakka fyrir.





Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta