Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur á fundi Samtaka atvinnurekenda á Norðurlandi
Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur á fundi
Samtaka atvinnurekenda á Norðurlandi 7. febrúar 2002
Góðir fundarmenn
Að undanförnu hefur ríkisstjórnin verið að fjalla um tillögu að nýrri byggðaáætlun fyrir árin 2002 til 2005. Ég vænti þess að þeirri umfjöllun ljúki á næstu dögum þannig að hægt verði að leggja hana fyrir Alþingi. Tillögurnar byggja að miklu leyti á vinnu sem unnin var af sérstakri verkefnisstjórn sem ég skipaði sl. vor til að vinna að mótun nýrrar byggðaáætlunar. Verkefnisstjórnin vann undir forystu Páls Skúlasonar háskólarektors og skilaði hún tillögum sínum í upphafi þessa árs. Auk þess störfuðu þrír vinnuhópar fyrir verkefnisstjórnina. Að þessari vinnu koma 25 manns víðs vegar af landinu - með reynslu af ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Jafnframt var leitað í smiðju til enn fleiri aðili sem hafa þekkingu á tilteknum sviðum. Ég er mjög ánægð með störf allra þeirra sem komu að þessari vinnu.
Í tillögu að nýrri byggðaáætlun er að finna 12 áherslusvið sem taka á flestum þeim þáttum sem snerta fólk og fyrirtæki á landbyggðinni. Þá fylgir tillögunni framkvæmdaáætlunar yfir meira en 20 verkefni sem ráðist verður í á gildistíma áætlunarinnar.
Meðal áherslusviða er efling Akureyrar sem byggðakjarna við Eyjafjörð. Gert er ráð fyrir að ríkið og sveitarfélögin við Eyjafjörð vinni að gerð sérstakrar áætlunar um það hvernig megi styrkja byggð við Eyjafjörð þannig að fólki fjölgi þar á næstu árum um a.m.k. 2-3% á ári og að atvinnulíf og menningarlíf eflist á svæðinu. Sérstök áhersla verði lögð á að Akureyri eflist sem skólabær og sem miðstöð menningar.
Ljós er að fjölmörg tækifæri eru á Eyjafjarðarsvæðinu til eflingar í atvinnulífi. Í því sambandi má nefna ferðmennsku, fiskeldi, líftækni og þau tækifæri sem munu skapast við uppbyggingu Rannsóknar- og nýsköpunarhúss við Háskólann hér á Akureyri. Iðnaðarráðuneyti í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki hér og atvinnuþróunarfélagið hafa staðið fyrir starfi sem byggir á sjávarlíftækni. Þá hefur starf á vegum iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar verið í gangi á sviði orkufreks iðnaðar, og má nefna í því sambandi viðræður sem hafa átt sér stað við Japani á undanförnum vikum um fjárfestingar hér á Akureyri.
Efling Eyjafjarðar þarf að leiða til þess að Akureyri verði sjálfsagður kostur þegar rætt verður um uppbyggingu opinberrar þjónustu sem nú er á Reykjavíkursvæðinu. Af opinberri starfsemi, sem hefur tekið til starfa hér á Akureyri á síðustu árum má nefna umhverfisstofnanirnar CAFF, Pame og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Orkusjóð, Byggðarannsóknarstofnun og Jafnréttisstofu. Þá má geta þess að miðstöð sjúkraflugs er starfrækt hér í tengslum við Fjórðungssjúkrahúsið. Verið er að byggja hér upp Landskrá fasteigna. Það sem ég hef nefnt hér skapar hugmyndinni að baki því að efla Eyjarfjarðarsvæðið ennfrekar, styrkari grunn. Það er mikilvægt að skapa mótvægi við höfðuborgarsvæðið og að Akureyri verði raunhæfur búsetukostur fyrir fleiri en nú er. Við megum hins vegar ekki falla í þá grifju að ætlast til þess að Akueyri geti boðið upp á allt það sem Reykjavík hefur upp á að bjóða. Akureyri hefur hins vegar upp á margt að bjóða sem Reykjavík hefur ekki, gleymum því ekki.
Við gerð sérstakrar byggðaáætlunar fyrir Eyjafjörð þarf að horfa til þess hvernig hægt er að efla hvers kyns þjónustu, afþreyingu og menningarstafsemi og annað það sem bætir mannlíf á staðnum og getur orðið til þess að draga að fólk. Náist samstaða um að fara þessa leið þarf að koma til gott samstarf ríkis, sveitarfélaganna á svæðinu og íbúa.
Í hinni nýju byggðaáætlun verður lögð mikil áhersla á öflugt þróunarstarf í öllum landshlutum. Markmið þess er að að efla frumkvæði og nýsköpun þannig að nýjar viðskiptahugmyndir verði þróaðar. Þróunarstarfið þarf að skipuleggja þannig að unnið verði með fólkinu á svæðunum og það aðstoðað við að koma humyndum sínum í framkvæmt. Hér þarf öflugt átak, fjármuni og hugsanlega endurskipulagningu á því þróunarstarfi sem fram fer í dag. Þetta getur tengst þeirri endurskipulagningu sem nú á sér stað á Rannís.
Eins og ég sagði áðan mun fylgja sérstök framkvæmdaáætlun með hinni nýju áætlun. Þar eru skilgreindar sérstakar aðgerðir sem ráðist verður í. Þar kemur fram hvaða ráðuneyti eða stofnun beri ábyrgð á framkvæmdinni, áætlun um kostnað osfrv. Þá er gert ráð fyrir að skipuð verði sérstök verkefnisstjórn með fulltrúum ráðuneyta til að tryggja sem besta framkvæmd byggðaáætlunarinnar.
Mikil umræða hefur verið um hækkun flutningskostnaðar á landsbyggðinni nú um all langt skeið. Uppspretta þessarar umræðu er af ýmsum toga og í raun má segja að margt komi til. Ef við lítum t.d. á sjávarútveginn þá hafa þar orðið breytingar sem leitt hafa til hærri flutningskosnaðar. Það hefur orðið breyting á sölumálum sjávarafurða. Á árum áður voru það stóru sölusamtökin sem fyrst og fremst sömdu fyrir hönd fiskframleiðenda um flutninga og gátu m.a. í krafti stærðar sinnar náð hagstæðum samningum um flutninga.
Af heilbrigðisástæðum þarf nú að flytja inn fisk sem kemur frá ríkjum utan ESB
um svokallaðar landamærastöðvar. Fiskframleiðendur sem staðsettir eru við höfn þar sem slík landamærastöð er staðsett eru því í betri stöðu en þeir sem ekki hafa slíkar stöðvar.
Samkeppni í strandflutningum hefur minnkað og ég held að ég megi fullyrða að aðeins eitt skipafélag sigli á ströndina í stað þriggja eða fleiri á árum áður. Það eru margir, sem nú sakna gömlu Ríkisskipa. Fyrirtæki á landsbyggðinni sem þurfa að flytja með skipum geta því einungis skipt við eitt fyrirtæki.
Innflutningsfyrirtæki á höfðuborgarsvæðinu eru í annarri stöðu hvað þetta varðar því þau geta þó alltaf leitað tilboða hjá a.m.k. tveimur skipafélögum.
Fyrir nokkru þurfti af samkeppnisástæðum að breyta þeim afsláttarreglum sem giltu varðandi þungaskatt af landflutningum. Það leiddi til talsverðrar hækkunar á kostnaði við landflutninga. Á síðasta ári urðu almennar verðhækkanir á flutningum sem m.a. má rekja til kostnaðarhækkana og mikils taprekstrar samgöngufyrirtækja. Þá var farið að rukka sérstakt gjald vegna flutninga á gámum til útskipunarhafnar en þetta gjald mun vera rúmlega 50 þús. krónur á 40 feta gám. Þetta er nýtt gjald og kemur sérstaklega þungt niður á fyrirtækjum sem framleiða tiltölulega verðlitla vöru í miklu magni. Loks mun enn einn kostnaðarliðurinn vera að bætast við en það er sérstakt gjald vegna áframflutnings erlendis.
Ég tel þetta upp hér til að benda á að málið er viðamikið. Uppspretta hækkana á flutningskostnaði er af ýmsum toga. Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að þessar hækkanir hafa komið mun þyngra niður á fyrirtækjum á landsbyggðinni en á fyrirtækjum sem eru staðsett við útflutningshafnir. Í þessari umræðu allri megum við þó ekki gleyma því að flutningsþjónusta hefur að sumu leyti batnað í landinu og skapað ný tækifæri fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Hver hefði t.d. trúað því fyrir 10 árum að flest fiskvinnslufyrirtæki landsins gætu stundað útflutning á ferskum flökum frá Keflavíkurflugvelli. Þá er öll flutningsþjónusta við fólk og fyrirtæki á landsbyggðinni mun greiðari nú en áður var og kostnaður við lagerhald hefur lækkað. Það hefur skapað betri samkeppnisskilyrði fyrir þau landsbyggðarfyrirtæki sem keppa á markaði höfðuborgarsvæðisins með framleiðslu sína. Jafnframt hefur það skapað skilyrði fyrir fyrirtæki sem fyrst og fremst hafa starfað á höfðuborgarsvæðinu að hafa starfsstöðvar t.d. á Akureyri. Á móti þessu vegur á hinn bóginn hin mikla hækkun á flutningskostnaði sem dregur úr þeim tækifærum sem þessi aukna þjónusta var að skapa fyrirtækjum á landsbyggðinni.
Eins og kunnugt er ákvað ríkisstjórnin að skipa starfshóp í lok síðast árs til að fara yfir almennan flutningskostnað hér á landi og milli landa miðað við þarfir ativnnulífsins. Starfshópurinn er að vinna að þessu verki í tveimur áföngum. Í fyrsta áfanga er hópnum falið að vinna greinargott yfirlit um flutningskostnað fyrirtækjanna í dag og hvernig hann hafi þróast undanfarin ár. Í öðru lagi var starfshópnum falið að fjalla um leiðir til þess að lækka flutningskostnað og hvort um sé að ræða mismunandi samkeppnisstöðu flutningsmáta vegna aðgerða stjórnvalda. Að þessu loknu er hópnum falið að koma með tillögur um aðgerðir sem mynda skilyrði fyrir samkeppni og lágum flutningskostnaði. Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar frá samgönguráðuneyti, sem er formaður, iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Ég bind vonir við störf hópsins og veit að hann mun hraða störfum sínum eins og kostur er.
Góðir fundarmenn
Ég hefði gjarnan viljað að ég hefði getað fjallað nánar um tillögur mínar í byggðamálum sem nú eru til umfjöllunar í ríkisstjórn. Það verður hins vegar gert í grófum dráttum einhvern næstu daga, en eins og lög gera ráð fyrir þá verða þær að fá samþykki Alþingis í formi þingsályktunartillögu.
Ég geri mér grein fyrir að ábyrgð ríkisstjórnar og þá ekki síst mín er mikil í þessum efnum. Ég leyfi mér líka að minna á ábyrgð annarra. Vanhugsaðar fullyrððingar af hálfu ábyrgra aðila svo sem þingmanna og sveitarstjórnarmanna um að allt sé á niðurleið hafa áhrif. Nú þegar styttist í kosningar má búast við að slíkum útspilum fjölgi. Málefnaleg gagnrýni á alltaf rétt á sér. Ómálefnalegir frasar eru hinsvegar einungis fallnir til niðurrifs.
Ég við að síðustu þakka fyrir boðið á þennan fund og óska hinum nýju samtökum velfarnaðar í mikilvægu starfi.
Það er sameiginlegt markmið okkar að styrkja landsbyggðina - að styrkja Eyjafjarðarsvæðið.
Ég bið um samstarf til að ná því markmiði.