Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. febrúar 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á aðalfundi ICEPRO, 26.02.2002

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Erindi á aðalfundi ICEPRO, nefndar um rafræn viðskipti,
26. febrúar 2002.



Undanfarinn áratug hefur íslenskt efnahagslíf tekið meiri breytingum í lagalegu og tæknilegu tilliti en áður hefur þekkst. Upplýsingatækni og rafrænum viðskiptum fleygir stöðugt fram og íslensk fyrirtæki hafa náð eftirtektarverðum árangri í gerð hugbúnaðar- og tæknilausna, m.a. fyrir rafræn viðskipti. Lagarammi og reglur sem tengjast rafrænum viðskiptaháttum hafa batnað til mikilla muna, ekki hvað síst með tveimur lagafrumvörpum sem ég hef látið vinna og lagt fram en þau eru frumvarp til laga um rafrænar undirskriftir, sem samþykkt voru á Alþingi í fyrravor og frumvarp til laga um rafræn viðskipti og upplýsingasamfélagið sem nú er til meðferðar í þinginu og verður vonandi samþykkt á næstu vikum.

Skemmst er að minnast að nýverið var þremur ríkisstofnunum; Tollstjóraembættinu, Fiskistofu og embætti Ríkisskattstjóra veitt sérstök viðurkenning Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir vel útfærðar veflausnir til nota fyrir starfsmenn og þá sem þiggja þjónustu þessara stofnana. Af rúmlega 300 stofnunum beggja vegna Atlantshafs sem lögðu veflausnir sínar fram fyrir dómnefnd á vegum Framkvæmdastjórnarinnar, var fyrrnefndum íslenskum ríkisstofnunum ásamt 50 öðrum boðið að taka þátt í ráðstefnu og sýningu Evrópusambandsins í Brüssel í nóvember síðastliðnum. Geri aðrar þjóðir betur og sleppum jafnvel höfðatölunni í þeim samanburði.

Rafræn viðskipti og hagnýting upplýsingatækni fylgir þróun sem aldrei tekur enda. Hún er og verður óstöðvandi. Vandamál og vonbrigði koma óhjákvæmilega upp á borðið, væntingar reynast stundum of miklar og óþolinmæði gætir þegar hlutirnir ganga ekki eins hratt og vel og að er stefnt. Þá gildir bara að reyna aftur. Við höfum líka orðið vitni að mikilli niðursveiflu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, ekki hvað síst meðal fyrirtækja sem kenna sig við "Nýja hagkerfið" svonefnda. Í mínum huga, og væntanlega flestra sem til þekkja, er um tímabundið ástand að ræða og ekki ástæða til að örvænta heldur slá því föstu að a.m.k. hæfustu fyrirtækin, sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari þróun, rétti úr kútnum þegar um hægist og það fyrr en seinna. Hvað íslensku fyrirtækin varðar verður ekki betur séð en þau hafi orðið síst verr úti en almennt gerist miðað við erlend fyrirtæki sem þau eru gjarnan borin saman við, jafnvel enn betur ef nokkuð er. Væntanlega er ástæðan sú að hérlend fyrirtæki eru alla jafnan smærri , viðbragð þeirra snarpara og sveigjanleiki þeirra ásamt smæð markaðarins gerir þeim kleift að prófa sig áfram með skjótari hætti og betri endurgjöf en þekkist meðal erlendra stórfyrirtækja. Þá má ekki gera lítið úr vilja Íslendinga til að spreyta sig á nýjungum.

Þar sem ég tala hér á vettvangi ICEPRO, nefndar um rafræn viðskipti, sem viðskiptaráðuneytið tók meðal annars þátt í að koma á laggirnar fyrir einum 13 árum, er mér bæði ljúft og skylt að leggja áherslu á þá þýðingu sem stöðlun, samræming og einföldun vinnubragða í viðskiptum hefur haft fyrir atvinnulíf og stjórnsýslu. Nefndin hefur frá upphafi unnið ötullega og markvisst að þessu viðfangsefni og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Mér er kunnugt að ICEPRO er nú með á prjónunum spennandi verkefni sem miða að því að gera fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum kleift að eiga viðskipti á Netinu á stöðluðum grunni með notkun svokallaðrar XML málskipunar. Með því móti er ætlun ICEPRO að gefa öllum fyrirtækjum kost á að nýta upphafsskráningu á viðskiptagögnum eins og framast er unnt en ekki síður gera þeim kleift að efla leit að vörum og þjónustu annarra fyrirtækja en verkefnið lýtur öðrum þræði að því að skilgreina samhæfðar kröfur til að byggja upp gagna- og upplýsingabrunn fyrir rafræn viðskipti.

Góðir fundarmenn!
Með því að taka upp rafræn viðskipti nýtist urmull tækifæra til að bæta rekstur og vinnulag og draga úr kostnaði við viðskipti. Ég leyfi mér því að nota þetta tækifæri til að hvetja þau fyrirtæki og stofnanir, sem að ICEPRO standa, og raunar alla sem gera sér grein fyrir þýðingu þessa starfs, að veita því verðuga athygli og styðja. Sé rétt að málum staðið nýtur atvinnulífið allt sem og stjórnsýslan góðs af og við getum með réttu talað um "Nýtt hagkerfi."

ICEPRO, nefnd um rafræn viðskipti, veitir EDI verðlaunin í 6. sinn. Frá árinu 1997 hafa þau fallið eftirfarandi fyrirtækjum og stofnunum í skaut:

Embætti Ríkistollstjóra
BÚR ehf. árið 1998
Eimskipafélagi Íslands árið 1999
Olíufélaginu ESSO árið 2000
og í fyrra var það Tryggingastofnun Ríkisins sem hlaut verðlaunin.

Dómnefnd ICEPRO leggur til að Mjólkursamsalan í Reykjavík hljóti EDI- verðlaunin árið 2002. Viðurkenningu þessa hlýtur fyrirtækið fyrir markvissa innleiðingu staðlaðra rafrænna viðskipta með skjalasendingum milli tölva – EDI, við birgja og smásöluverslanir. Þá hefur Mjólkursamsalan sýnt metnað til að ryðja brautina fyrir stöðlun rafrænna viðskipta á Netinu, ekki síst til hagsbóta fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Eru verðlaunin jafnframt veitt sem viðurkenning og hvatning til að halda áfram á sömu braut.
Ég vil biðja fulltrúa Mjólkursamsölunnar að koma hér upp og veita verðlaununum viðtöku.



Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta