Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. mars 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Aðalfundur Landssímans

Aðalfundur Landssíma Íslands hf. var haldinn 11. mars 2002. Ræða samgönguráðherra fylgir hér á eftir:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn.

Síminn stendur fyrir sínu. Þannig lauk ég einni af mörgum þingræðum, sem ég flutti á liðnu starfsári Landssíma Íslands. Þær hafa orðið fleiri en ég átti von á, umræðan óvægnari, og darraðadansinn í kringum fyrirtækið krappari en nokkurn gat órað fyrir. Uppúr stendur að Síminn er öflugt fyrirtæki með yfirburðastöðu á íslenskum fjarskiptamarkaði. Það sést vel á reikningum félagsins og niðurstöðu þeirra, sem gefur tilefni til 12% arðgreiðslu til hluthafa.

Ég þakka góðan undirbúning þessa ársfundar og ítarlegar upplýsingar um gang fyrirtækisins. Þá þakka ég stjórn og öllu starfsfólki félagsins, hvar á landinu sem það starfar, alveg sérstaklega fyrir störf þess í þágu félagsins á síðasta starfsári. Síðasta starfsár hefur verið viðburðaríkt í sögu Símans. Straumhvörf hafa orðið, eigandi þess er ekki lengur einn og einkavæðing fyrirtækisins er hafin. Það er sama þróun og hvarvetna í Evrópu.

Fyrir ári síðan ávarpaði ég aðalfund Símans, þá sem handhafi eina hlutabréfsins. Nú eru hluthafar ríflega tvöþúsund, þar af um 600 starfsmenn. Vissulega hefur einkavæðing fyrirtækisins ekki gengið jafn hratt og vonir stóðu til í upphafi, en stefnan er skýr. Markmiðið er skýrt. Síminn er til sölu.

Í febrúar árið 2000 kynnti ég fyrst í ríkisstjórn hugmyndir um sölu hlutafjár í Símanum. Tæpu ári síðar, eða 26. janúar 2001, samþykkti ríkisstjórnin tillögur einkavæðingarnefndar um fyrirkomulag sölu hlutabréfa Símans. Í byrjun maí 2001 mælti ég fyrir frumvarpi til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Símanum. Lögin voru samþykkt 19. maí 2001 og þar með var heimiluð sala á öllu hlutafé félagsins.

Strax við upphaf einkavæðingarinnar var ljóst að mikil vinna var framundan – ekki síst innan fyrirtækisins sjálfs. Jafnframt var að mínu mati nauðsynlegt að sambandið milli einkavæðingarnefndar og fyrirtækisins yrði skilvirkt og gott. Því óskaði ég eftir því að stjórnarformaðurinn, Friðrik Pálsson, yrði tengiliður fyrirtækisins við nefndina. Vissulega var á köflum stormasamt þar á milli, enda gerðar miklar kröfur til Símans á stuttum tíma. Allar efasemdir, sem komið hafa fram í fjölmiðlum um vinnuframlag stjórnarformannsins, eru hins vegar rangar og ósanngjarnar.

Úttekt á rekstri Landssíma Íslands hf. og verðmat á hlutabréfum fyrirtækisins fór fram á hefðbundinn hátt. Vinna við verðmatið, sem unnið var af PwC, hófst í byrjun apríl s.l. Verðmatsskýrslu var skilað til einkavæðingarnefndar síðari hluta maí. Niðurstaða verðmatsins var, að verðmæti eigin fjár Landssímans væri á bilinu 43 til 47 milljarðar króna. Þetta jafngilti að gengi hlutabréfa samkvæmt verðmatinu væri 6,08 til 6,68 og meðaltalið 6,38. Ákveðið var að verðleggja hlutabréfin á genginu 5,75, sem var u.þ.b. 10% afsláttur frá meðalgengi. Þessi afsláttur var veittur til að tryggja almenningi og starfsmönnum ávinning. Engin fordæmi eru fyrir meiri afslætti við sölu ríkiseigna hér á landi.

Allt frá því tillögur einkavæðingarnefndar komu fram í janúar 2001 var ljóst að tími til undirbúnings sölu vorið 2001 væri stuttur. Eins og ég gat um áðan, voru lögin sem heimiluðu sölu, samþykkt 19. maí. Á fundum með ráðgjöfum kom fram að sala fyrirtækisins yrði að hefjast í byrjun júni eða ekki fyrr en í september. Samþykkt laganna í lok maí mánaðar mátti því ekki seinni vera, svo takast mætti að hefja sölu í júní. Þegar leið á árið var ljóst að ýmsir þættir voru ekki hagstæðir sölu Símans. Óvissa var á fjármálamarkaði, gengi krónunnar óstöðugt, lítil viðskipti á hlutabréfamarkaði, og ESA hafði ekki afgreitt mál varðandi meintan ríkisstuðning í tengslum við stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. Jafnframt þurfti ýmislegt að bæta og þróa í starfsemi fyrirtækisins.

Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir því að ekki hefur tekist betur til með söluna. Þrjár ástæður voru fyrirferðarmestar í umræðunni:
Í fyrsta lagi er að nefna þá hörmulegu atburði ( í New York og Washington, sem áttu sér stað nokkrum dögum fyrir söluna) sem voru nokkrum dögum áður en salan í Bandaríkjunum, þegar gerðar voru hryðjuverkaárásir á New York og Washington. Áhrif þessara atburða voru miklu mun meiri en gera mátti sér í hugarlund.
Í öðru lagi var umræðan um of hátt verð hlutabréfa í Símanum. Þar fóru fremst í flokki greiningardeildir fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóðir, aðilar sem sýnt höfðu áhuga á að kaupa stóra hluti í Símanum og stjórnarandstaðan á Alþingi. Rétt er að undirstrika hér, að staðið var að verðmati félagsins með þeim hætti sem reglur gera ráð fyrir. Þegar verðmat PwC lá fyrir var leitað til Búnaðarbanka Íslands hf. um yfirferð á verðmatinu. Bankinn gerði ekki athugasemd við þá aðferðafræði sem notuð var við verðmatið. Því kom aldrei til greina að lækka verð hlutabréfanna til að mæta væntingum á hlutabréfamarkaði. Hlutafé Símans var til sölu á því verði sem ákveðið var með þeim aðferðum sem viðurkenndar eru og reglur hafa verið mótaðar um hjá ríkinu.
Í þriðja lagi var erfitt ástand á innlendum fjármálamarkaði, sem m.a. orsakaðist af ótryggu gengi krónunnar.

(Varðandi sölu á hlut til kjölfestufjárfestis, þá var það var mat okkar að í því fælist verulegur ávinningur, bæði fyrir Landssímann og ekki síður fyrir fjarskiptamarkaðinn hér á landi í heild sinni. Fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi er lítill, og æskilegt að tengjast erlendum fyrirtækjum í sams konar rekstri með beinum hætti.)

Landssími Íslands er öflugt fyrirtæki með yfirburðastöðu á íslenskum fjarskiptamarkaði. Fjárhagsstaða fyrirtækisins er traust, tæknileg uppbygging þess er með því besta sem gerist, og innan þess býr er mikil og dýrmæt þekking. Fyrirtækið hefur á að skipa góðu starfsfólki sem hefur ásamt stjórn fyrirtækisins, þrátt fyrir mikið öldurót, náð góðum árangri - líkt og rekstur þess og afkoma staðfestir.

Hins vegar þarf fyrirtæki eins og Landssíminn sífellt að endurskoða markmið sín og stefnu. Það er hlutverk stjórnar fyrirtækisins, í umboði eigenda, að móta stefnuna og sjá til þess að rekstur fyrirtækisins gangi fram með eðllilegum og farsælum hætti.

Fundurinn hefur nú kosið fyrirtækinu nýja stjórn. Með þeirri breytingu sem hér hefur verið samþykkt, að fækka stjórnarmönnum úr sjö í fimm, er lögð áhersla á sterkari aðkomu allra stjórnarmanna að stefnumörkun og stjórnarstörfum. Hlutverk stjórnar verður sífellt mikilvægara með vaxandi samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Uppstokkun sem þessi, í æðstu stjórn Símans, er aðeins möguleg vegna þess að hjá fyrirtækinu starfar úrvalsgott fólk. Ég er sannfærður um að með samhentu átaki starfsfólks og nýrra stjórnenda mun Síminn standa af sér ágjöf síðustu vikna.

Nýrrar stjórnar og forstjóra bíður að stýra fyrirtækinu áfram á kröfuhörðum markaði, svo það fái haldið forystuhlutverki sínu á sviði fjarskipta og upplýsingatækni, auki verðgildi sitt og haldi áfram að veita mikilvæga þjónustu við landsmenn alla.

Í dag tengist fjarskiptakerfi landsins umheiminum um Cantat-3. Vöxtur í gagnaflutningi, fyrst og fremst vegna internetsins, hefur gert það að verkum að varaleiðir munu takmarkast og þegar til lengri tíma er litið er ljóst að Cantat-3 mun ekki anna gagnaflutningsþörfinni. Í samgönguráðuneytinu hefur verið mótuð skýr stefna varðandi framtíð gagnaflutnings- og fjarskiptaþjónustu - sem meðal annars kemur fram í fjarskiptalögum. Á vegum ráðuneytisins og fleiri aðila var gerð skýrslan Stafrænt Ísland þar sem metin var bæði flutningsgeta og flutningsþörf gagna til og frá landinu. Niðurstöður skýrslunnar og undirbúningur innan Símans leiddu til þess að undirbúningur að lagningu nýs ljósleiðara til Evrópu er hafinn. Sem ráðherra fjarskiptamála legg ég ríka áherslu á að þetta mál nái fram að ganga.

Í tengslum við sölu Landssímans hefur verið lögð áhersla á að bæta aðgang allra landsmanna, án tillits til búsetu, að nútímalegri gagnaflutnings- og fjarskiptaþjónustu. Á undanförnum misserum hafa augu manna beinst í vaxandi mæli að þeim möguleikum sem fjarskiptatækni getur fært einstaklingum og fyrirtækjum. Til að þeir verði fullnýttir er mikilvægt að íslenskur fjarskiptamarkaður bjóði upp á nýjustu tækni og þjónustu á tímum (örra) hraðra breytinga fyrir sanngjarnt verð. Hér á landi er kostnaður vegna almennrar talsímaþjónustu með því lægsta sem þekkist, hins vegar hafa notendur gagnaflutningsþjónustu gagnrýnt verðlagningu fyrir gagnaflutning og leigulínur. Stjórnvöld og Alþingi hafa ítrekað lýst því markmiði, að tryggja beri ódýran aðgang að nægjanlegri flutningsgetu um allt land. Í framsöguræðu minni með frumvarpi til laga um sölu Símans, lagði ég áherslu á að hrinda í framkvæmd aðgerðum til að tryggja að fjarskiptin og upplýsingatæknin geti nýst um allt land. Ég skipaði nefnd á síðasta ári, til að vinna framkvæmdaáætlun um hvernig markmiðum stjórnvalda í fjarskiptamálum verði náð. Nefnd þessi er að ljúka störfum, og mun ég kynna niðurstöður hennar inna tíðar, sem og þær aðgerðir sem tillögum hennar fylgja og munu geta aukið viðskipti og þjónustu símafyrirtækja um land allt.

Eitt af stærri verkefnum Símans á næstunni hlýtur m.a. að vera það að tileinka sér nýjungar við dreifingu myndefnis með gagnvirkri sjónvarpstækni og við uppbyggingu kerfa vegna þriðju kynslóðar farsíma. Þriðja kynslóðin hefur vakið miklar væntingar um möguleika fjarskiptanna. Það er því mikil áskorun til Símans að halda forystu sinni á þessu sviði sem öðrum. Á Fjarskiptaþingi í byrjun síðasta árs gerði ég grein fyrir fyrirhuguðu útboði á leyfum fyrir þriðju kynslóð farsíma. Staðreyndin er sú, að mikil seinkun hefur orðið á því að þriðja kynslóðin komi á markað. Sú ákvörðun mín að setja ekki strax af stað útboð leyfa vegna þriðju kynslóðarinnar hefur því reynst vera hárrétt. Íslensku fjarskiptafyrirtækin eru fyrir vikið ekki að sligast undan þungum byrðum hárra leyfisgjalda, líkt og svo mörg fjarskiptafyrirtæki í Evrópu og víðar. Tíminn hefur verið vel nýttur til að undirbúa alla framkvæmd þess að nýta nýja tækni. Unnið hefur verið að gerð lagafrumvarps, sem verður væntanlega lagt fram á komandi haustþingi. Þessi staða skapar íslenskum fjarskiptafyrirtækjum mikilsvert forskot, og eykur verðmæti þeirra. Á það vil ég sérstaklega minna, hér á aðalfundi Símans.

Hægt hefur miðað með útbreiðslu sjónvarpssendinga um breiðbandið þrátt fyrir að mikil eftirspurn virðist vera eftir þeirri þjónustu. Um land allt er spurt hvenær sjónvarpsstöðvarnar, sem nú þegar eru til staðar í dreifingu á Breiðvarpinu, verði í boði fyrir alla viðskiptavini Símans. Næsta átak hjá Símanum hlýtur að verða frekari útbreiðsla sjónvarpssendinga í samstarfi sjónvarpsstöðvanna – og þá ekki einungis hér á höfuðborgarsvæðinu - heldur um land allt.

Stafrænt sjónvarp er á næsta leiti og núverandi tækni við útbreiðslu sjónvarps því á undanhaldi. Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt leyfi til tilraunaútsendinga fyrir stafrænt sjónvarp. Með stafrænu tækninni verður mikil breyting, sem felur í sér aukna nýtingu ljósleiðarans og tæknibúnaðar Símans – og þar með aukin viðskipti fyrir fyrirtækið.

Herra fundarstjóri,
Stefna stjórnvalda er skýr. Landssími Íslands er til sölu. Sölu hlutabréfa ríkisins verður haldið áfram um leið og aðstæður á fjármálamarkaði leyfa og viðunandi verð fæst. Þess vegna segi ég nú, líkt og ég gerði við umræðuna um sölu Símans á Alþingi í fyrravor, það er ekki aðeins eðlilegt, heldur beinlínis nauðsynlegt, að ríkið gefi einstaklingum og félögum færi á að eignast hlut í Símanum. Síminn er traust og öflugt fyrirtæki sem veitir þjónustu um allt land – og mun að sjálfsögðu gera það áfram. Ástæðulaust er með öllu að óttast á nokkurn hátt þó hlutur ríkisins í fyrirtækinu fari minnkandi. Starfsleyfið, með öllum þeim ströngu skilyrðum sem í því eru og okkar framsækna fjarskiptalöggjöf, mun tryggja hagsmuni allra símnotenda á Íslandi.

Ég vil í lokin þakka öllu starfsfólki Símans frábært starf þess í þágu félagsins. Það er starfsfólkið fyrst og fremst, sem hefur gert Landssíma Íslands hf. að því öfluga og verðmæta fyrirtæki sem það í raun er.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta