Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Nýsköpunarþing

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á
Nýsköpunarþingi Rannís og Útflutningsráðs Íslands,
Grand Hóteli, fimmtudaginn 14. mars 2002.


Fundarstóri,
- Pekka Yle Anttila fra Finland og
ágætu ráðstefnugestir.

Okkur verður æ betur ljóst að vísindaleg þekking og nýsköpun í atvinnulífinu eru forsendur efnahagsþróunar og almennrar velferðar. Þrátt fyrir að atvinnulífið sé drifkraftur þeirrar þróunar, getur ríkisvaldið haft sterk áhrif, - með réttum stuðningsaðgerðum og með því að beina þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru í réttan farveg.

Um þetta snúast þrjú frumvörp, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi, um nýskipan vísindarannsókna og nýsköpun atvinnulífsins. Frumvörpin tengjast einnig með afgerandi hætti yfirskrift þessa fundar um klasa og netsamstarf,eins og ég mun koma að hér á eftir.
Skilningur á mikilvægi vísindaþekkingar og nýsköpunar atvinnulífsins hefur aukist og má gera ráð fyrir að kröfur um stuðning við vísindi og nýsköpun aukist á komandi árum. Því er það ávinningur að færa umfjöllun um málefni vísinda og tækni á efsta stig stjórnsýslunnar og undir forystu forsætisráðherra. Markmið þess er að ákvarðanir verði teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnumótunar sem tekur mið af þörfum á starfssviði margra ráðuneyta - enda falla nýjungar í vísindum núorðið oft á tíðum þvert á þá skipan. Framfarir í vísindum og tækni eru hraðar og er því mikilvægt að stefnumótunin sé sveigjanleg og falli sem best að þörfum samfélagsins. Við mótun þeirra breytinga sem nú er unnið að var haft til hliðsjónar að stefna í vísindum, rannsóknum og nýsköpun setji svip sinn á almenna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum.

Ég hef litið svo á að með þessu hilli loks undir möguleika þess að losa um hefðbundna niðurnjörfun atvinnulífsins í tiltekna atvinnubundna flokka og að í framtíðinni geti ný fræðasvið og nýjar áherslur átt greiðari aðgang að opinberum stuðningi og beri því ávöxt fyrr en ella.

Þau þrjú frumvörp sem áður voru nefnd, mynda samstæða heild. Vísinda- og tækniráðið mun starfa undir forystu forsætisráðherra, en þar munu sitja auk hans fjármálaráðherra, menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra og 14 aðrir fulltrúar samkvæmt tilnefningu. Mál vísinda- og tækniráðsins verða undirbúin í tveim nefndum sem annars vegar er vísindanefnd, sem heyra mun undir menntamálaráðuneyti og hins vegar tækninefnd sem heyra mun undir iðnaðarráðuneyti.

Þótt nýskipan þessi verði trúlega lögfest nú fyrir þinglok - þá er mikið starf óunnið við að móta hið nýja starfsumhverfi. Meðal þess sem þarf að skoða vel og fella að þessu nýja umhverfi er hugmyndafræðin um klasa- og netsamstarf sem er hér til umfjöllunar. Fagnefndir Vísinda- og tækniráðsins munu þurfa að skoða vel innviði þessa máls og meta hvernig aðkoma þeirra að því á að vera. Ekki fer á milli mála að við höfum gert ráð fyrir því að klasar og netsamstarf verði til umfjöllunar í starfi tækninefndarinnar. Komið er að þessu í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, en þar segir m.a.:

"Sú nýskipan sem hér er lagt upp með ber að hafa að leiðarljósi að koma á og viðhalda samstarfi vísindasamfélagsins, opinberra aðila og atvinnulífsins innan afmarkaðra þróunarklasa og með netsamstarfi fyrirtækja og stofnana sem geta miðlað þekkingu sín á milli. Þessi og önnur álíka samstarfsform eru mikilvæg fyrir öfluga vísinda- og tæknistefnu."
Kenningar um klasasamstarf eru svo sem ekki nýjar af nálinni og er bók Porters frá 1990 um samkeppnisstöðu þjóða mörgum vel kunn. Það er þó sennilega ekki tilviljun ein sem ræður því að umræðan um klasa og netsamstarf rís nú með svo öflugum hætti í opinberri umræðu hér á landi. Ég álít að hún endurspegli m.a. okkar eigin árangur, eins og t.d. á sviði heilbrigðistækni, sem hér verður til umræðu á eftir. Einnig hafa rannóknir í nýsköpun sýnt með ótvíræðum hætti að nýsköpunargeta fyrirtækja er að verulegu leiti háð því að þau geti miðlað þekkingu sín á milli í formlegu samstarfi.

Einkum hefur verið bent á mikilvægi þess að fyrirtæki komi á slíku samstarfi á eigin forsendum, frekar en að stjórnvöld hafi beina aðkomu að þeim. Þetta breytir því þó ekki að stuðningsumhverfið á hlutverki að gegna - við að koma á klasasamstarfi á milli fyrirtækja og ekki síður við að koma á netsamstarfi sem gengur þvert á hefðbundin mörk atvinnugreinanna. Tillit er tekið til þessa í fyrirliggjandi frumvarpi um stuðning við nýsköpun atvinnulífsins, þar sem nýsköpunarmiðstöð sem starfrækja á hjá Iðntæknistofnun er m.a. ætlað að gegna slíku tenglahlutverki.

Til lengri tíma litið bind ég einkum vonir við að klasar og netsamstarf geti orðið aðferðir til sköpunar nýrra atvinnugreina, m.a. úti á landi, sem e.t.v. eru þess eðlis að okkur skortir hugarflug til að sjá þær fyrir nú. Grunnurinn að þeim væri í upphafi lagður með netsamvinnu óskyldra greina sem deildu þekkingu sín á milli til að þróa nýjar atvinnugreinar. Samstarf fyrirtækja innan nýrra atvinnugreina mundi síðan þróast í klasasamstarf fyrirtækja í hinni nýju atvinnugrein.

Þetta kann að hljóma svolítið snúið í fyrstu, en til að skýra þetta nánar gæti hér t.d. verið um að ræða netsamstarf á milli líftæknivísinda annars vegar og sjávarútvegs hins vegar um þróun nýrrar starfsemi í sjávarlíftækni. Að því fengnu, yrði til klasasamstarf fyrirtækja í sjávarlíftækni þar sem geta þeirra og samkeppnisstaða yrði styrkt með gagnvirku þekkingarflæði.

Þessi grunnhugmynd hefur um nokkurt skeið verið til skoðunar í iðnaðarráðuneytinu eins og fram kemur í megináherslum mínum í starfsemi ráðuneytisins fyrir árin 2001-2003. Nú hafa þessar sömu áherslur komið fram í áðurnefndu frumvarpi - og það er mér því sérstakt ánægjuefni að þetta mikilvæga málefni fái svo víðtæka umfjöllun á þessu nýsköpunarþingi.

Ágætu fundarmenn
Ég álít að nýsköpun í íslensku atvinnulífi eigi möguleika á að taka umtalsverðum framförum á næstu árum, með nýrri nálgun. Ég byggi vonir við það að væntanlegt Vísinda- og tækniráð gegni þar lykilhlutverki og setji menntun og þekkingu; svo og vísindi og tækniþróun í öndvegi við að bæta samkeppnisstöðu atvinnulífsins. Það er mikilvægt að þar verði tekin upp hugmyndafræðin um klasa og netsamstarf. Í því felst ný nálgun, þar sem beitt er framsækinni hugsun, sem mikilvægt er að sem flestir tileinki sér.

Ég vil að lokum óska Rannís og Útflutningsráði til hamingju með þetta glæsilega Nýsköpunarþing.

Takk fyrir.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta