Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. apríl 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á samráðsfundi Landsvirkjunar

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
á samráðsfundi Landsvirkjunar
5. apríl 2002


Ágætu samráðsfundargestir!

Margt hefur á daga okkar drifið í orkumálum frá því að við hittumst á Akureyri fyrir réttu ári síðan á ársfundi Landsvirkjunar. Segja má að undanfarin misseri hafi verið umbrotatímar á mörgum sviðum orkumála, eins og stundum áður, unnið hefur verið að fjölmörgum málefnum er til heilla horfa, orkuframleiðsla okkar hefur enn aukist og áfram er unnið að undirbúningi nýrra virkjana. Þó svo að á síðustu vikum hafi byr lægt í seglum NORAL-verkefnisins, sem unnið hefur verið að um þriggja ára skeið, mun það verkefni áfram berast að settu marki.

Þó svo að Íslendingar hafi snemma á síðustu öld áttað sig á því að mikill auður kynni að vera fólginn í orkulindum landsins segir sagan okkur að áform um nýtingu þeirra ganga ekki alltaf eftir. Athyglisvert er hve snemma virkjunarrannsóknir hófust hér á landi miðað við aðrar rannsóknir á náttúrufari landsins. Stór hluti náttúrufarsrannsókna þjóðarinnar fram yfir miðja síðustu öld beindist í ríkum mæli að hugsanlegum virkjunarsvæðum, í fyrstu að vatnsaflinu og á fjórða og fimmta áratug aldarinnar einnig að jarðhitanum. Þjóðin þráði framfarir á sem flestum sviðum og sá að með hagnýtingu orkulinda landsins fyrir heimilin og iðjuver væri mikill auður fólginn. Það er einnig merkilegt hve nákvæmar yfirlitsáætlanir voru gerðar hér á landi um vatnsorku landsins þegar á árunum 1920-1940, en þá voru gerðar ítarlegar úttektir á mögulegum virkjunarkostum landsins, sem verkfræðingarnir Jón Þorláksson og Sigurður Thorddsen unnu. Ekki greindi þá félaga mikið á um orkugetuna og undrun sætir hve nærri núverandi mati á orkugetu þeir komust með þau frumstæðu gögn, sem þeir studdust við. Þá er athyglisvert að þær rannsóknir, sem gerðar hafa verið á síðustu áratugum á vatnasviðum og síðar jarðhitasvæðum landsins hafa til þessa dags verið afar stór hluti af almennum náttúrufarsrannsóknum hér á landi auk þess að hafa verið megin forsenda fyrir nýtingu orkulindanna.

Stofnun Landsvirkjunar var á sínum tíma merkilegt framtak ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem átt höfðu um árabil samstarf um byggingu og rekstur Sogsvirkjana. Ekki var stofnun fyrirtækisins þó óumdeild. Fyrirtækið var stofnað í því skyni að standa fyrir mikilli uppbyggingu á raforkubúskap þjóðarinnar meðal annars með byggingu stórvirkjunar við Búrfell í tengslum við fyrstu stóriðju hér á landi. Með byggingu Búrfellsvirkjunar var brotið blað í tækniþróun hér á landi, sem of lítill gaumur hefur verið gefinn að. Ekki var það aðeins að virkjunin fjórfaldaði framleiðslugetu íslenskra vatnsorkuvera heldur krafðist sú virkjun lausna á fjölmörgum tæknilegum vandamálum sem fylgja beislun jökulfljóta hér á landi og áður voru óþekkt. Ákvörðun um byggingu byggðalínu milli einstakra orkuveitusvæða alls landsins á árunum 1974-1984 vaar nýtt framfararspor. Vó þar þungt hin mikla orka Búrfellsvirkjunar, sem nýta mátti fyrir allt landið. Sú framkvæmd var heldur ekki óumdeild á sínum tíma en ótvírætt má telja að hún hefur stuðlað að hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað raforkuverð og tryggt öryggi og aðgengi allra landsmanna að raforkukerfinu. Á árunum 1982-3 var Landsvirkjun gerð að landsfyrirtæki, þannig að allt landið varð orkuveitusvæði fyrirtækisins og yfirtók um leið rekstur byggðalínu. Um það varð á sínum tíma merk pólitísk sátt, sem ég tel að hafi orðið þjóðinni til gæfu.

Nýlega kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn varðandi mörk þjóðlendna í austanverðri Árnessýslu, og þar ber vitaskuld einn hæst hvernig háttað er eignarhaldi á afréttarlandi og vatnsréttindum er þeim fylgja. Ljóst er eftir úrskurð óbyggðanefndar að þau vatnsréttindi er Titanfélaginu voru seld á afréttum Árnesinga á öðrum áratug aldarinnar innifólu ekki annað í sér en hefðbundna afréttarnotkun, en engin vatnsréttindi fallvatna fyrir þessu landi. Með þjóðlendulögum árið 1998 er kveðið úr um eignarhald ríkisins á svokölluðum þjóðlendum, sem óbyggðanefnd hefur verið falið að úrskurða um mörk á. Með þjóðlendulögum og úrskurði óbyggðanefndar hefur ákveðinni óvissu verið eytt og staðfest eignarhald ríkisins yfir þessu afréttarlandi ásamt tilheyrandi vatnsréttindum. Ljóst er því að þjóðlendulögin og starf óbyggðanefndar mun gera þjóðinni betur kleift að vinna að frekari nýtingu náttúruauðlinda okkar í framtíðinni og er það vel.

Umræðan í þjóðfélaginu um virkjanir á undanförnum misserum hefur verið mikil en að mínu mati meira snúist um formsatriði fremur en aðalatriði. Umræðan um Kárahnjúkavirkjun í kjölfar úrskurðar umhverfisráðherra og nýlegar skoðanakannanir, hefur sýnt það, að aukin sátt er að verða meðal þjóðarinnar um þá framkvæmd ásamt uppbyggingu álvers á Reyðarfirði. Nú er lokið 2. umræðu á Alþingi um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og verður það væntanlega samþykkt sem lög frá Alþingi innan fárra daga. Eins og rækilega hefur komið fram í fréttum undanfarið hefur Norsk Hydro óskað eftir að fresta ákvörðun um tímasetningu NORAL-verkefnisins vegna annarra fjárfestinga fyrirtækisins í Þýskalandi fyrir stuttu. Þeir hafa þó staðfest áhuga sinn á verkefninu, telja það arðsamt og vilja taka þátt í því. Aðilar hafa þó orðið sammála um að æskilegt kynni að vera að fá nýjan fjárfesti að framkvæmdinni og hef ég skipað sérstaka nefnd sem mun vinna að því verkefni eins skjótt og verða má.

Eins og öllum er kunnugt hefur aukin nýting orkuauðlinda landsins verið ein mikilvægasta forsenda þeirra framfara sem hér á landi hafa orðið síðustu áratugi og mun verða svo áfram á nýrri öld takist okkur að halda áfram á þeirri braut. En við þurfum einnig að horfa til þeirra umhverfisáhrifa er bygging virkjana veldur og meta og flokka virkjunarkosti landsins miðað við þau umhverfisáhrif er nýting þeirra hefur í för með sér. Í því skyni hefur verið unnið að gerð svokallaðrar Rammaáætlunar um þriggja ára skeið, en markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, náttúruverðmæta svo og hagsmuna annarra aðila sem nýta þessi landsins gæði. Stór hópur sérfræðinga í 4 faghópum hefur komið hér að verki undir forystu sérstakrar verkefnisstjórnar og hefur vinnu við verkið miðað eðlilega hingað til. Á árinu 2000 var tekin sú ákvörðun að hraða vinnu við hluta fyrsta áfanga verkefnisins þannig að nú í ársbyrjun 2002 lægju fyrir fyrstu drög að flokkun nokkurra virkjunarkosta en fyrsta hluta verkefnisins á að ljúka í ársbyrjun 2003. Nú um þessar mundir eru faghópar sem fjalla um einstök sérsvið að skila áliti sínu til verkefnisstjórnar, sem síðan mun flokka þessa kosti og vega saman. Leggja ber áherslu á að hér er ekki um að ræða endanlegt mat verkefnisstjórnar heldur eins konar bráðabirgða- eða tilraunamat sem ætlað var að hafa til hliðsjónar áður en ráðist yrði í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Allt bendir til þess að unnt verði að kynna þessar bráðabirgðaniðurstöður fyrir stjórnvöldum nú í aprílmánuði. Rammaáætlun mun verða afar gagnleg til framtíðar við forgangsröðun rannsókna og áætlanagerð virkjunarkosta auk nauðsynlegrar skipulagsvinnu við framtíðarnýtingu landsins. Vegna vinnu við Rammaáætlun hefur verið unnið að umfangsmiklum grunnrannsóknum á hugsanlegum virkjunarsvæðum og ljóst er að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar og skilning á náttúrufari landsins. Vonandi mun sú vinna leiða til þess að aukin sátt náist um skynsamlega nýtingu á virkjunarkostum landsins án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra nýtingu landsins.

Sérstaða Íslendinga í orkumálum hefur víða vakið athygli á alþjóðavettvangi. Um 70% af heildarorkuþörf þjóðarinnar er aflað með endurnýjanlegum og hreinum orkulindum, sem hafa aðeins að hluta til verið nýttar. Á vettvangi Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, hefur um árabil verið bent á þessa sérstöðu landsins í því skyni að fá að nýta í auknum mæli hreinar orkulindir landsins við iðnaðarframleiðslu, og draga með því móti úr orkuframleiðslu brennsluorkuvera sem iðnríki heims hafa í verulegum mæli notast við til raforkuframleiðslu um áratuga skeið. Á 7. samningafundi aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál í Marrakesh í nóvember s.l. náðist samkomulag aðildarríkjanna um hið svokallaða íslenska ákvæði varðandi nýtingu endurnýjanlegra og hreinna orkulinda til iðnaðarframleiðslu, sem væri stór hluti af efnahagskerfi viðkomandi ríkis. Með þessu ákvæði verður Íslandi heimilt að losa um 1.600.000 tonn á ári af koltvíoxíði á árabilinu 2008-2013 umfram þá losunarheimild er þjóðin fékk með Kyoto- bókuninni. Allt bendir því til þess að bjart sé framundan næsta áratuginn varðandi aukna möguleika á nýtingu orkulinda okkar.

Þessi jákvæða þróun orkumála hér á landi hefur leitt til þess að sívaxandi áhugi erlendra aðila er á samstarfi við Íslendinga um rannsóknir og nýtingu jarðhitans. Á síðasta ári fóru fram viðræður við stjórnvöld í Rússlandi og Kaliforníuríki um að koma á formlegu samstarfi. Þá var einnig gerður samningur við orkumálaráðuneyti Ungverjalands síðastliðið haust um víðtækt samstarf um jarðhitarannsóknir og nýtingu og er vinna við nokkur verkefni þegar hafin. Þá komu fram óskir frá nokkrum Mið-Ameríkuríkjum um samstarf við Norðurlandaþjóðirnar á sviði jarðhita, einkum við fjárfestingar í nýjum virkjunum og rekstur þeirra. Síðast en ekki síst ber að nefna samstarf við Kínversk stjórnvöld og fyrirtæki þar í landi um rannsóknir og byggingu jarðvarmaveitna. Hafa íslensk fyrirtæki nú þegar haslað sér þar völl og ber að fagna þessari þróun.. Varðandi samskipti við aðrar þjóðir um samstarf og samvinnu hefur iðnaðarráðuneytið haft nána og góða samvinnu við fyrirtækið Enex hf. sem er í eigu helstu orku- og ráðgjafafyrirtækja landsins, auk ríkisins og hefur það haft með höndum framkvæmd flestra þeirra jarðhitaverkefna sem hér hefur verið minnst á.

Á undanförnum árum hefur þróun tækni við að nota vetni sem orkubera aukist hratt. Fyrirtækið Íslensk NýOrka var stofnað á árinu 1999 og er tilgangur félagsins m.a. að rannsaka og þróa vetnistækni til notkunar í farartækjum. Félagið hefur nú um eins árs skeið unnið að rannsóknarverkefni á notkun vetnis í almenningsfarartækjum ásamt fleiri aðilum og hyggst nú hefja rannsóknir við þróun vetnisnotkunar í fiskiskipum, en það er afar spennandi verkefni. Þó svo að við séum ekki langt komin á þeirri leið að vetni verði framtíðareldsneyti heimsins og hlutur okkar í þeirri þróun sé ekki stór hefur framtak og frumkvæði okkar haft ótrúlega jákvæð áhrif á ímynd þjóðarinnar og þátttaka okkar í vetnisverkefnunum mun beina sjónum annarra ríkja að hinni hreinu ímynd Íslands í vaxandi mæli.

Eins og ég gat um á síðasta samráðsfundi Landsvirkjunar lágu þá fyrir Alþingi drög að frumvarpi til raforkulaga en það var lagt fram til kynningar á Alþingi á vorþingi 2001 og var það til umfjöllunar í iðnaðarnefnd Alþingis síðastliðið sumar. Frumvarpið byggir eðlilega að miklu leyti á tilskipun ESB um innri markað raforku og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, en þar er lagður grunnur að markaðsfyrirkomulagi í raforkugeiranum. Frumvarpið hefur nú verið lagt aftur fram í endurskoðaðri gerð þar sem tekið hefur verið tillit til margvíslegra athugasemda er fram komu við kynningu frumvarpsins á liðnu sumri. Ýmsum ákvæðum þess hefur verið breytt nokkuð og önnur hafa verið útfærð frekar þannig að meiri sátt virðist nú vera um meginmarkmið þess. Horfið hefur verið frá því að hafa fullan aðskilnað milli einokunarþátta og samkeppnisþátta í rekstri raforkufyrirtækja en bókhaldslegur aðskilnaður þeirra látinn nægja með sérstöku lagaákvæði um framkvæmd hans.

Þá hefur verið lagt fram frumvarp um breytingar á ýmsum lögum á orkusviði sem tengjast nýjum raforkulögum. Unnið er að breytingum á orkulögum frá 1967, sem í raun felast í því að þau falla úr gildi en í stað einstakra lagakafla þeirra um Orkustofnun, Rafmagnsveitur ríkisins og hitaveitur koma sérlög þar um. Frumvarp um Rafmagnsveitur ríkisins hefur þegar verið lagt fram og hafin er vinna við gerð frumvarps um hitaveitur. Frumvarp um Orkustofnun hefur verið að fæðast að undanförnu í samræmi við vaxandi hlutverk stofnunarinnar við stjórnsýslu orkumála. Þá liggja fyrir í ráðuneytinu drög að breytingum á vatnalögum, sem unnið hefur verið að í vetur og síðast en ekki síst er nauðsynlegt að endurskoða lögin um rannsóknir á auðlindum í jörð en það mun fjalla almennt um rannsóknir á jarðhita og vatnsorku landsins og undirbúning nýrra virkjana.
Með nýjum lögum um orkumál og breytingum á umhverfi orkumála þarf jafnframt að skoða hlutverk ríkisins í orkurannsóknum almennt. Óumdeilanlegt er að ríkið þarf að annast helstu grunnrannsóknir á orkulindum landsins, en hversu langt þær ná, kann að vera álitaefni, og því þarf að huga að því hvernig þessum mikilvæga þætti orkumála verður best fyrir komið til framtíðar.

Á síðastliðnu hausti var haldið Orkuþing. Slík þing höfðu verið haldin tvisvar áður, 1981 og 1991. Á orkuþingum hefur verið fjallað um flesta þætti orkumála, stöðu þeirra almennt, rannsóknir og stefnumörkun. Orkuþing eru sérlega vel til fallin til þess að benda alþjóð á hvaða þýðingu orkan, þessi mikilvægi grunnþáttur nútíma þjóðfélags hefur í dag og mun hafa til allrar framtíðar fyrir okkur. Síðasta orkuþing tókst einstaklega vel að flestra mati og var þeim er að því stóðu til mikils sóma. Allar breytingar í orkumálum og umhverfi okkar verða sífellt örari þannig að ég tel eðlilegt að menn hugleiði hvort ekki beri að stefna að næsta orkuþingi eftir 5 ár í stað 10 ára áður og heiti ég fullum stuðningi iðnaðarráðuneytis til þess að svo megi verða.

Ég minntist þess á síðasta samráðsfundi að nauðsyn kynni að vera á því að orkufyrirtæki og stjórnvöld hafi einhvern samráðsvettvang til að ræða sín á milli um sameiginleg mál. Því miður hefur ekkert orðið af slíkum fundum. Á liðnu ári hef ég orðið vör við það að mikil þörf væri fyrir slíkt samstarf og ber þar ekki síst að nefna vinnu við þær lagabreytingar sem unnið hefur verið að og eru fyrirsjáanlegar á næstu árum á orkusviði. Iðnaðarráðuneyti mun hafa frumkvæði að því á þessu ári að koma á formlegum samstarfsvettvangi stjórnvalda og orkufyrirtækja.

Góðir samráðsfundargestir.

Allar þjóðir heims freista þess nú um stundir að auka notkun hreinna orkulinda. Við getum verið stolt af því hvernig til hefur tekist hér á landi á því sviði og okkur ber að halda áfram á sömu braut. Því verki er þó hvergi nærri lokið. Við skulum því stefna ótrauð að því marki okkar hér eftir sem hingað til að búa enn betur að framtíðinni með aukinni og bættri nýtingu orkulinda okkar.

Ég þakka áheyrnina.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta