Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. apríl 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Málþing um ferðaþjónustu í Vestur-Barðastrandarsýslu

Ræða samgönguráðherra á málþingi um ferðaþjónustu í V-Barðastrandarsýslu 11. apríl 2002.

Á málþingi um ferðaþjónustu í V-Barðarstrandarsýslu laugardaginn 11. apríl kom fram í ræðu samgönguráðherra að mikilvægt væri að byggja upp ferðaþjónustuna á svæðinu með hliðsjón af sérstöðu þess. Verið væri að vinna að stefnumótun af hálfu ráðuneytisins og Ferðamálaráðs og haft væri að leiðarljósi að skipta landinu upp í þróunar- og vaxtasvæði þar sem hvert landssvæði væri nýtt í þágu ferðaþjónustunnar miðað við þá kosti sem í boði væru á hverjum stað. Ráðherra lagði ríka áherslu á uppbyggingu vegakerfisins svo og að samgöngur inn á svæðið væru tryggar. Til þess að slíkt mætti verða í raun þyrftu flugsamgöngur og ferjusiglingar að batna því uppbygging vegakerfisins tæki tíma. Því hefði verið ákveðið að bjóða út flug til ákveðinna byggðarlaga, m.a. svokallaðra jaðarbyggða eins og t.d. milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Kom m.a. fram að verið væri að setja upp mjög bættan búnað í aðflugi inni á Bíldudalsflugvelli.

Fram kom í máli ráðherra að í samgönguáætlun, sem lögð verður fram í haust, væri nauðsynlegt að hraða framkvæmdum við vegi á Barðastrandasvæðinu til að tengja svæðið suður á bóginn. Í framhaldi af því yrði horft norður á bóginn með tenginu milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða í huga. Slík tenging yrði ekki nema með jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar en í ljósi stóru verkefnanna í jarðgangagerð á Austurlandi og Siglufirði, sem væru í forgangi, yrðu menn að sýna biðlund.

Í lok ræðu sinnar kom ráðherra inn á markaðssetningu ferðaþjónustunnar og átakið sem sett var í gang til að efla greinina og styrkja markaðssetninguna. Ljóst væri að þær aðgerðir hefðu borið árangur það sem af væri af árinu og nú væri bara spurning um framhaldið í sumar og það sem væri eftir ársins. Innanlandsátak væri að fara í gang til að fá íslendinga til þess að ferðast meira um sitt land og fróðlegt gæti orðið að fá hugmyndir frá þátttakendum málþingsins um hvernig efla mætti kynningu og aðgerðir til að svæðið nyti vaxandi fjölda ferðamanna.

Sjá nánar ræðu í heild sinni hér að neðan.



Málþing um ferðaþjónustu í V-Barðastrandarsýslu

Ræða samgönguráðherra.

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn, ég vil nú byrja á því að þakka ykkur fyrir að bjóða mér hingað til þessa málþings. Það skiptir miklu að fá tækifæri til þess að koma í Vestur-Barðastrandasýslu og heyra raddir heimamanna þó mér gefist nú ekki færi á að vera hér í allan dag, því miður. En það verða nógu margir til þess að bera mér boð ykkar og tillögur inn í ráðuneytið.

Umræður um ferðaþjónustuna hafa verið mjög miklar og þess vegna er málþing á borð við þetta mjög mikilvægt fyrir okkur, sem erum að vinna að stefnumótun, og ekki síður fyrir ykkur sem að vinnið að ferðaþjónustunni á þessu svæði.

Ég verð nú að biðjast afsökunar á því að hafa tafið fundinn aðeins og komið of seint en það sem er nú ennþá verra er að Gísli Eiríksson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar, er ekki kominn og hefur tafist vegna þess að það er ekki búið að moka. Við skulum vona að það verði mokað svo að Gísli komist alla leið hingað.

Það er mikið starf unnið um þessar mundir, bæði af hálfu ráðuneytisins og Ferðamálaráðs, við að móta stefnu og styrkja ferðaþjónustuna sem atvinnugrein. Staðan í þessum málum er þannig núna að ferðaþjónustan er næst stærsta atvinnugrein þjóðarinnar, ef við notum gjaldeyristekjurnar sem mælikvarða, og það segir okkur að við eigum mjög mikið verk að vinna til þess að styrkja ferðaþjónustuna sem atvinnugrein. Þess vegna er það að við höfum lagt á ráðin um að horfa til þess hvernig við getum byggt upp ferðaþjónustuna um landið allt . Ég hef lagt fram þá hugmynd, og að því er nú unnið á vegum Ferðamálaráðs, að skipta landinu upp í það sem ég hef kallað þróunar- og vaxtasvæði, með það í huga að við nýtum hvert landssvæði í þágu ferðaþjónustu, miðað við þá kosti sem eru á hverjum stað.

Við verðum að gæta þess í ferðaþjónustunni að búa ekki til eina aðferð, eitt módel sem á að passa fyrir hvert einasta landssvæði. Það svæði sem hér er um að ræða, Vestur-Barðastrandasýsla, hefur sérstöðu og við eigum að horfa til þess hvaða kostir eru hér og hvernig á að byggja upp þetta svæði ferðaþjónustunnar. Það er í þeim anda sem við erum að láta vinna á vegum Ferðamálaráðs áætlun um það og í samstarfi við heimamenn verður unnið í sumar þannig að í haust liggi fyrir tillaga um þessi svæði. Þess vegna er þetta málþing mjög mikilvægt innlegg í undirbúningi þessarar vinnu. Með sama hætti er verið að vinna að stefnumótun varðandi menningar- og heilsutengda ferðaþjónustu ásamt tillögum frá svokallaðri framtíðarnefnd ferðaþjónustunnar sem að vinnur á vegum ráðuneytisins. Ég á von á því að í haust, þá liggi fyrir upplýsingar sem skapi okkur möguleika á því að leggja upp með stefnumótun til lengri tíma í þágu ferðaþjónustunnar. Ég vona að umræður hér í dag geti leitt til þess að við fáum tillögur frá ykkur um það á hvað þið viljið leggja áherslu.

En eitt af því sem ég vil gera að umtalsefni hér í þessu stutta ávarpi mínu, er að ég vildi gera grein fyrir því að um leið og við vinnum að uppbyggingu vegakerfisins, þá verðum við að hugsa til þess að tryggja samgöngurnar hér inn á svæðið.

Á vegum samgönguráðuneytisins þá hefur sú stefna verið mörkuð að reyna að tryggja sem best flugsamgöngur og samgöngur með ferjunum og þess vegna var ákveðið að bjóða út flug til tiltekinna byggðarlaga, jaðarbyggða svokallaðra m.a., og bjóða út flugið hér á milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Innanlandsflugið hefur verið í töluvert miklum vanda en ég trúi því að þar sé komið að vendipunkti og við munum sjá að innanlandsflugið styrki stöðu sína þegar það er farið að hafa áhrif sem við höfum verið að gera, sem er að styrkja tilteknar flugleiðir sem að flugfélögin hafa orðið að bera uppi halla af á undanförnum árum. Við höfum boðið út flug eins og til Gjögurs, til Grímseyjar, áætlun út frá Akureyri, og nú til Hafnar í Hornafirði og viðurkennt það sem staðreynd að tilteknar flugleiðir geti ekki staðið undir sér en verði, með tilliti til heildarhagsmuna, að vera starfræktar. Þar má m.a. nefna flugið hér á milli norður og suður svæðisins að vetri þegar ófært er. Ég hef þá trú að ef að Reykjavíkurflugvöllur fær að vera í friði, þá muni flugið styrkja stöðu sína og það skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir Barðastrandasýslu eins og aðra landshluta sem þurfa að nýta flugið.

Ég vil greina frá því, að verið er að setja upp mjög bættan búnað í aðflugi inni á Bíldudalsflugvelli, þannig að með nýrri tækni þá verður hægt að fljúga beint á flugvöllinn, sem ekki hefur verið hægt áður þegar slæmt skyggni er. Það styttir flugleiðina og smátt og smátt batnar þessi aðstaða og að því þarf að stefna.

Hvað varðar ferjusiglingarnar, þá er alveg ljóst að á meðan að vegakerfið um Barðaströndina er eins og það er þá verður ekki undan því vikist að Breiðafjarðarferjan verði rekin. Ég hef sagt það nýverið að miðað við þessar aðstæður þá þarf að huga að bættri þjónustu ferjunnar og þá með fjölgun ferða. Einnig þarf að huga að því, án þess að það eigi að koma niður á uppbyggingu vegakerfisins, hvort þörf sé á öðru skipi. Nú gerist það ekki í einu vettfangi, það er alveg ljóst, en ef að auknar kröfur verða gerðar til þessa flutninga þá þarf að horfa á þessa hluti í heild. Aðalatriðið er að nýta skipið sem best eins og það er í þágu bæði atvinnulífsins, ferðaþjónustunnar og byggðanna hér á þessu svæði.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að uppbygging vegakerfisins tekur tíma. Sem betur fer eru framkvæmdir hafnar við vegagerðina á Klettshálsi og við gerum ráð fyrir að þeim ljúki, ekki seinna en 2004 samkvæmt áætlun. Á þessum tíma þá þarf ferjan að sinna þessari þjónustu og þess vegna vil ég leggja á það ríka áherslu að sú þjónusta verði bætt fremur en hitt.

Áður en langt um líður þá verður væntanlega ekki þörf fyrir þessar ferjusiglingar, en á meðan svo er þá þurfum við að standa þannig að málinu að það sé til hagsbóta fyrir þetta svæði, það skiptir miklu máli. Ég vil undirstrika það til að koma í veg fyrir misskilning, að það er ekki mín hugsun að rekstur ferjunnar, framlög til ferjunnar, rekstrar og endurbóta, leiði til seinkunnar á uppbyggingu vegakerfisins. Það er fjarri öllu lagi að það sé hugsunin hjá okkur í samgönguráðuneytinu.

Vegakerfið er eins og við þekkjum og það þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Eins og ég hugsa þessa uppbyggingu á svæðinu, þá vil ég leggja alla áherslu á að hraða framkvæmdum við vegi hér á Barðarstrandasvæðinu til þess að tengja þetta svæði suður á bóginn. Það er verkefni númer eitt og það er fullur vilji, veit ég, hjá þingmönnum til þess. Nú er unnið að samgönguáætlun sem verður lögð fram í haust. Þá verður að liggja fyrir útfærsla og áætlun um hvernig við byggjum veginn frá Bjarkarlundi og hingað vestur eftir, um Þorskafjörð, Djúpafjörð, Gufufjörð og svo áfram. Í haust verður áætlun að liggja fyrir um það þannig að hægt sé að setja þessar framkvæmdir inn í 12 ára áætlun sem að verður lögð fram þá. Þetta skiptir mjög miklu máli og það verður að vera, að mínum mati, sú lína sem er lögð til að byggja upp þetta vegakerfi suður á bóginn, sem fyrsta verkefni. Síðan horfum við til norðurs og sömu áætlunar, þá gerum við að sjálfsögðu ráð fyrir því að tengja norður og suður svæði Vestfjarða saman. Það gerist ekki öðruvísi en með jarðagöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar er næsta verkefni ásamt endurbótum á þeim fjallvegum sem þar að liggja.

Ég held að það sé afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að allt tekur þetta tíma og ég vil ekki vera að vekja neinar falsvonir. Við höfum frammi fyrir okkur þessi stóru verkefni sem eru jarðgöng á Austurlandi og Siglufjarðargöngin. Það hefur verið talað um að það væri fyrsta verkefnið í þessari jarðgangaáætlun. Þangað til að úr verður bætt hér á þessu svæði með jarðgöngum, verður að huga bæði að lagfæringum á þessum vegum og uppbyggingu. Sömuleiðis verður að huga að bættri vetrarþjónstu. Um það þarf að fjalla sérstaklega og verður væntanlega fjallað í þeirri samgönguáætlun sem að ég nefndi hér áðan og verður afgreidd á næsta þingi.

Um þessar mundir er töluvert rætt um markaðssetningu ferðaþjónustunnar og við höfum í kjölfar hryðjuverkanna í Ameríku sett í gang mikið átak við að efla ferðaþjónustuna og styrkja markaðssetninguna. Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem við fórum í, strax í haust og í byrjun þessa árs, hafa borið árangur. Þeir fjármunir sem settir voru í markaðsaðgerðir bæði í Ameríku og ekki síst í Evrópu, hafa borið árangur. Það hefur orðið aukning á fjölda ferðamanna til landsins í byrjun ársins. Að vísu hefur fækkað eins og við var að búast frá Ameríku, en í heildina tekið þá hefur okkur tekist að verjast. Og nú er bara spurningin hvernig verður framhaldið í sumar og það sem eftir er ársins. Við erum með mikið átak í gangi sem, eins og ég segi, hefur sjáanlega borið mikinn árangurog nú er næsta skrefið hjá okkur kynning á innanlandsátaki sem gengur út á það að fá íslendinga til þess að ferðast meira um sitt land.

Það væri fróðlegt að fá frá ykkur hugmyndir um hvernig þið teljið að það mætti efla kynningu og standa fyrir aðgerðum á vegum Ferðamálaráðs og á vegum Markaðsráðs, þannig að þetta svæði gæti notið vaxandi fjölda ferðamanna. Ég er ekki með neinar töfralausnir í þeim efnum, það eru fyrst og fremst þið og sérfræðingarnir í ferðaþjónustinni sem verða að leggja þær línur, en það er mitt hlutverk sem samgönguráðherra og ráðherra ferðamála, að leggja til þá fjármuni sem eðlilegt er talið að opinberir aðilar komi með inn í þetta verkefni.

Með þeim orðum þá vil ég endurtaka þakkir fyrir að fá að koma hingað og vænti mikils af samstarfi við aðila í ferðaþjónustu hér á þessu svæði og óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar hér í dag og í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta