Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs 2002
Ávarp samgönguráðherra við veitingu fjölmiðlabikars Ferðamálaráðs 2002.
Ágætu gestir,
Fyrir um tuttugu árum síðan, í júní árið 1982, kviknaði sú hugmynd innan Ferðamálaráðs að veita árlega viðurkenningu, fjölmiðlabikarinn, fyrir umfjöllun um ferðamál í fjölmiðlum. Síðan þá hefur fjölmiðlabikarinn verið veittur - þó ekki árlega. Afstaðan hefur verið sú, að ef ekkert afgerandi hefur staðið uppúr, hefur verðlaunaveitingunni verið sleppt. Þessi háttur hefur verið hafður til að gera vægi viðurkenningarinnar meira en ella.
Viðurkenningin er veitt fyrir umfjöllun um ferðamál í víðasta skilningi. Fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs var fyrst afhentur árið 1982, þá Sæmundi Guðvinssyni fyrir skrif hans um ferðamál. Meðal bikarhafa má nefna Harald J. Hamar, vegna útgáfu Iceland Review, Sigurð Sigurðsson fyrir útgáfu ferðablaðsins Áfangar og Magnús Magnússon fyrir umfjöllum um Ísland í Bretlandi. Ríkisútvarpið fékk bikarinn fyrir Stiklu-þætti Ómars Ragnarssonar, Örlygur Hálfdánason vegna útgáfu bóka um Ísland og Flugleiðir fyrir markaðsstarf. Núverandi handhafi fjölmiðlabikars Ferðamálaráðs er Gunnar Marel Eggertsson, skipasmiður og skipstjóri víkingaskipsins Íslendings, sem árið 2000 silgdi í kjölfar Leifs Eiríkssonar í tilefni 1000 ára afmæli landafundanna.
Eins og upptalning bikarhafa ber með sér, leitar Ferðamálaráð víða fanga, þegar leitað er að verðugum aðila til að taka við þessari viðurkenningu. Oft hefur valið verið erfitt, en svo var ekki í ár. Ferðamálaráð Íslands hefur einróma ákveðið að Klúbbur matreiðslumeistara hljóti fjölmiðabikar Ferðamálaráðs árið 2002.
Kynningar íslenskra matreiðslumeistara, á hámenningu okkar í matargerð, hefur vakið mikla athygli erlendis og áhersla þeirra á úrvals hráefni og náttúulegar afurðir hafa opnað augu ótalmargra fyrir hreinni og óspilltri náttúru Íslands.
Mikil umfjöllun hefur verið um íslenskan mat og íslenskt hráefni í stórum og virtum erlendum fjölmiðlum. Í kjölfarið hafa fylgt greinar um Ísland sem áskjósanlegan áningarstað fyrir sælkera sem vilja upplifa óspillta náttúru og ævintýralegt umhverfi um leið og gælt er við bragðlaukana á fyrsta flokks veitingahúsum.
Markaðsátak íslenskra matreiðslumanna hefur auk þess dregið hingað til lands fjölda heimsþekktra og virtra matreiðslumanna sem hafa kynnt sér leyndardóma íslenska hráefnisins og matargerðarlistar. Þessir áhrifamenn í matarmenningu heimsins eru margir hverjir orðnir óformlegir kynningarfulltrúar lands og þjóðar, því heima fyrir deila þeir upplifun sinni með löndum sínum og viðskiptavinum.
Fjöldi erlendra blaða- og fréttamanna hafa auk þess gert sér ferðir hingað til lands í því skyni að deila upplifun sinni á matnum, hráefninu og ævintýrum landsins með lesendum sínum, áhorfendum og hlustendum.
Það er ljóst að íslenskir matreiðslumenn hafa lyft grettistaki með jákvæðri kynningu sinni á landi og þjóð. Því er það vel við hæfi að Ferðamálaráð Íslands veiti Klúbbi matreiðslumeistara fjölmiðlabikar Ferðamálaráðs á 30 ára afmælisári klúbbsins.
Ég vil biðja Gissur Guðmundsson, formann klúbbs matreiðslumeistara, að koma hingað og taka við fjölmiðlabikarnum.