Norrænn ráðherrafundur á Svalbarða, Áherslur
NORDISK MINISTERRÅD
NÆRINGSMINISTERENES MØTE PÅ SVALBARD
DEN 24. - 27. APRIL 2002
___________________________________________________________________________________
Sjálfbær þróun á norðurslóðum
Áherslur í formennskutíð Íslands í Norður-heimskautsráðinu 2002 - 2004
I.
Sýn Íslands á þróun á Norðurslóðum
Norðurslóðir búa yfir mikilli auðlegð bæði í formi náttúrugæða og mannauðs. Með þekkingu á umhverfi norðurslóða og með því að aðlagast aðstæðum þeirra geta menn ríkulega notið þeirra fjölmörgu gæða og þeirrar fegurðar sem þær hafa upp á að bjóða.
Vistkerfi og lífríki norðurslóða er einstakt og gegnir mikilvægu hlutverki í vistkerfi jarðar. Svæðið býr yfir miklum auðlindum, bæði endurnýtanlegum og óendurnýtanlegum, sem skapa grundvöll fyrir mannvist þar. Maðurinn hefur nýtt þessar auðlindir í árþúsundir og frumbyggjamenning svæðisins er einstakur og ómetanlegur þáttur í menningarlegri fjölbreytni heimsins. Vistkerfi norðurslóða er viðkvæmt og er sjálfbær nýting náttúrulegra auðlinda þess því grundvallarþáttur byggðar og mannlífs á svæðinu.
Reynsla Íslendinga sýnir að sjálfbær nýting náttúruauðlindanna verður að grundvallast á menntun og alþjóðlegri vísinda- og tækniþekkingu sem aðlöguð er aðstæðum með staðbundnum rannsóknum og þróunarstarfi. Tækniframfarir og alþjóðavæðing hafa í för með sér ný viðfangsefni og tækifæri sem örvað geta sjálfbæra þróun, vöxt og velmegun á norðurslóðum. Ísland vill líta til tækifæra norðurslóða og telur að lykillinn að lausn margvíslegra vandamála svæðisins felist í farsælli félagslegri og efnahagslegri þróun samfélaganna og jákvæðri aðlögun mannsins að náttúrufari svæðisins.
Norðurskautsráðið (Arctic Council) er vettvangur Norðurlandanna og fleiri ríkja til að bæta mannlíf á norðurslóðum, m.a. með aukinni sjálfbærri þróun.
II.
Norðurskautsráðið
Samvinna Norðurskautsríkja hófst með áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum sem samþykkt var í Rovaniemi í Finnlandi 1991. Árið 1996 var Norðurskautsráðið stofnað með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta, sem eru Norðurlöndin fimm auk Bandaríkjanna, Kanada, og Rússlands. Með stofnun þess var umfang samvinnu á norðurslóðum aukið og fjallar það nú um þjóðfélagsþróun almennt auk umhverfismála. Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur aðildarríkjanna og samtaka frumbyggja á norðurslóðum um samvinnu og uppbyggingu sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Norðurskautsráðið er fyrst og fremst samráðs og samvinnuvettvangur ríkja um stefnumörkun. Ráðið hefur ekki sjálfstæðan fjárhag og eru verkefni sem unnin eru á vettvangi þess því ekki greidd úr sameiginlegum sjóðum heldur með framlögum frá þeim ríkjum sem taka þátt í þeim.Norðurskautsráðið
Til að vinna að markmiðum Norðurskautsráðsins starfa fimm vinnuhópar sem í sitja sérfræðingar frá aðildarríkjunum auk fulltrúa frumbyggja og áheyrnaraðila. Þeir eru:
AMAP "The Arctic Monitoring Assessment Programme" sem annast vöktun og mat á efnamengun á norðurskautssvæðinu.
PAME "The Protection of the Arctic Marine Environment Working Group" sem vinnur að verndun hafsins.
CAFF "The Conservation of Arctic Flora and Fauna Working Group" sem starfar fyrst og fremst á sviði náttúruverndar.
SDWG "The Sustainable Development Working Group" sem sinnir málefnum er lúta að lífsskilyrðum og lífskjörum fólks á norðurslóðum.
EPPR "The Emergency Prevention, Preparedness and Response Working Group" sem vinnur að stefnumörkun sem snýr að viðbrögðum við umhverfisslysum.
Nýverið voru stofnaðir tveir vinnuhópar tímabundið til að vinna að tilteknum verkefnum. Annar hópurinn er ACIA (Arctic Climate Impact Assessment) sem vinnur að því að meta möguleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og hugsanleg viðbrögð við þeim. Hinn hópurinn er ACAP (Arctic Council Action Plan to Eliminate Pollution of the Arctic) sem stýrir nokkrum mengunarvarnarverkefnum.
III.
Áherslur Íslands í formennsku Norðurskautsráðsins
Norðurskautsráðið er eitt fárra svæðisbundinna samvinnuverkefna ríkja sem á rætur sínar í markmiðum umhverfisverndar. Unnið er að mörgum verkefnum og áætlunum innan umhverfisvinnuhópa ráðsins og mun Ísland í formennskutíð sinni leggja áherslu á farsælt áframhald þess starfs. Áherslur Íslands í formennsku Norðurskautsráðsins
Samvinna á sviðum efnahags-, félags- og menningarlegra þátta sjálfbærrar þróunar á sér styttri sögu innan Norðurskautsráðsins. Í formennskutíð sinni mun Ísland leggja sérstaka áherslu á að efla hlutverk Norðurskautsráðsins sem snýr að þessum málum, einkum að því er varðar lífskjör og lífsskilyrði fólks á norðurslóðum. Með þessu móti vill Ísland efla það markmið Norðurskautsráðsins að stuðla að sjálfbærri þróun á norðurslóðum. Ísland mun á formennskutíma sínum vinna að eftirfarandi þrem nýjum verkefnum:
1. Mat á lífskjörum og tækifærum á norðurslóðum.
2. Upplýsingasamfélagið - Ný tækifæri á norðurslóðum.
3. Rannsóknir í þágu sjálfbærra norðurslóða.
1. - Mat á lífskjörum og tækifærum á norðurslóðum.
Efling Norðurskautsráðsins í átt að framsæknu samstarfi á sviði efnahags-, félags- og menningarmála er aðkallandi. Ísland mun beita sér fyrir gerð yfirgripsmikillar úttektar og skýrslu um mannlífs-, byggða- og atvinnuþróun á norðurslóðum (Report on the State of Sustainable Human Development in the Artic: Challanges and Opportunities). Ætlunin er að veita yfirsýn yfir sjálfbæra mannlífsþróun á norðurskautssvæðum og greina áhrifaþætti hennar. Til grundvallar liggur sú skoðun okkar að sjáfbær þróun snúist um velferð mannlífsins, því sé mikilvægi velferðar mannlífsins á norðurslóðum í raun meginmarkmið sjálfbærrar þróunar.
Dregin verða saman margvísleg verkefni sem stofnað hefur verið til á vegum Norðurskautsráðsins og annarra. Félagsleg, menningarleg og efnahagsleg velferð íbúa norðursins og tengsl þeirra við sjálfbæra þróun og auðlindanýtingu norðurskautssvæða verður í brennidepli.
Verkið verður til þess fallið að auka þekkingu og skilning á sjálfbærri mannlífsþróun á meðal ráðamanna og almennings innan og utan svæðisins og verður í framtíðinni hægt að nota sem viðmið fyrir aðgerðir til að styrkja jákvæða þróun. Svo yfirgripsmikið verk myndi styrkja starf vinnuhóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun (SDWG). Í framhaldi af gerð skýrslunnar er fyrirséð að auðveldara verði að skilgreina sameiginleg viðfangsefni, úrbætur og tækifæri varðandi lífsskilyrði, velferð og valmöguleika fólks á norðurslóðum.
2. - Upplýsingasamfélagið - Ný tækifæri á norðurslóðum
Íbúar norðurslóða þurfa að hafa aðgang að hagkvæmu fjarskipakerfi með næga burðargetu. Notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni er grundvallaratriði fyrir farsæla þróun fyrir alla íbúa á norðurslóðum. Reynslan hefur til dæmis sýnt fram á mikilvægi netsins fyrir starf í grunnskólum og framhaldsskólum og fjarnám á háskólastigi getur náð til afskekktustu byggða. Ýmis tækifæri eru fyrir hendi varðandi hagnýtingu upplýsingatækni fyrir heilbrigðisþjónustu og nýsköpun atvinnulífsins á strjálbýlum svæðum. Upplýsingatæknin nýtist jafnframt við að auka almenna þekkingu á málefnum norðurslóða.
Efla þarf samstarf stjórnvalda og hagsmunaaðila á ýmsum stigum svo upplýsingatæknin nýtist íbúum norðurslóða í sókn þeirra að bættum lífskjörum. Aukin þátttaka almennings í málum sem miða að eflingu sjálfbærrar þróunar leiðir til aukins skilnings á sérstöðu og málefnum norðurslóða. Þetta gerir það að verkum að íbúarnir verða meiri gerendur en þiggjendur í málum sem hafa bein áhrif á lífsgæði. Virk þátttaka frumbyggja í upplýsingasamfélaginu er sérstaklega mikilvæg.
Ísland mun leggja áherslu á áframhaldandi virkan stuðning við Háskóla norðurslóða, sem er samstarfsverkefni 31 háskóla og rannsóknastofnana. Miklar vonir eru bundnar við þetta verkefni og framlag þess til eflingar mannauðs og þverfaglegrar og alþjóðlegrar menntunar í norðurslóðafræðum. Sérlega mikilvægt er að stuðla að nemenda- og kennaraskiptum og frekari nýtingu upplýsingatækni og fjarkennslu til frekari uppbyggingar þessa samstarfs í framhaldi af því að byrjað var að kenna inngangsnámskeið Bachelor of Circumpolar Studies vorið 2002.
Ísland mun í formennskutíð sinni halda alþjóðlega ráðstefnu um notkun upplýsingatækni á norðurslóðum, aðgengi, tækifæri og hindranir og leita eftir samstarfi við m.a. Northern Forum og Háskóla Norðurslóða.
3. - Rannsóknir í þágu sjálfbærra norðurslóða
Forsenda farsællar þróunar mannlífs á norðurslóðum er þekking. Það er mikilvægt að vísindaleg þekking og tækni nýtist íbúum norðurslóða við að ná tökum á aðstæðum og auðlindum svæðisins. Rannsóknir í þágu sjálfbærrar þróunar á norðurslóðum þurfa því að byggja bæði á alþjóðlegum vísindum og reynslu heimamanna. Mikilvægt er að niðurstöður vísindarannsókna séu settar fram með þeim hætti að þær nýtist stjórnvöldum við stefnumörkun og úrlausn verkefna.
Aukin þátttaka almennings og menntastofnana í umhverfismálum og öðrum málefnum sjálfbærrar þróunar er mikilvæg. Til að efla þennan þátt vill Ísland auka tengsl Norðurskautsráðsins við ýmis verkefni og samtök sem stuðla að þátttöku námsmanna og almennings í vísindasamfélaginu. Sem dæmi má nefna Rannsóknaþing norðursins (Northern Research Forum), Samtök um landbúnað á norðurslóðum (Circumpolar Agricultural Association) og Alþjóða vísindanefnd norðurskautsins (International Arctic Science Committee). Markmiðið er að virkja umræður og samráð vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum í þágu mikilsverðra málefna, viðfangsefna og tækifæra sem snúa að íbúum norðurslóða, bæði með tilliti til félags-, efnahags og umhverfisbreytinga og hnattvæðingar efnahagslífsins.
Ísland hyggst beita sér fyrir því að efla vísinda- og tæknisamstarf í þágu sjálfbærrar þróunar með auknum samskiptum vísindamanna og rannsóknastofnana. Stefnt verður að því að virkja alþjóðleg samtök og samstarfsnet á sviði vísinda svo sem á sviðum sjálfbærs landbúnaðar, samgangna, ferðaþjónustu, mannvirkjagerðar og auðlindanýtingar. Ísland vill einnig stuðla að aukinni samvinnu rannsóknasjóða aðildarríkjanna til þess að auðvelda sameiginlega fjármögnun rannsóknaáætlana og verkefna á norðurslóðum. Áhersla verður lögð á tengingu við samstarf Evrópuríkja og Norður Ameríku sem miðar að því að efla samvinnu stofnana sem sinna málefnum norðursins á sviði mennta og rannsókna.
Ísland mun í formennskutíð sinni halda alþjóðlega ráðstefnu um hagnýtingu vísinda í þágu sjálfbærrar hagþróunar á norðurslóðum, "Vísindaviku norðurskautsins."
IV.
Áframhaldandi verkefni
Samhliða nýjum áherslum mun Ísland tryggja áframhaldandi öflugt starf allra vinnuhópa Norðurskautsráðsins og framgang verkefna sem þegar er unnið að á vettvangi þeirra. Meðal þeirra má nefna:Áframhaldandi verkefni
· Ísland mun leggja sérstakan metnað í að verkefninu um mat á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum verði lokið á formennskutímanum. Markmið verkefnisins er að meta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi norðurslóða og afleiðingar þeirra fyrir samfélög, menningu- og efnahag íbúa á svæðinu.
· Áhersla verður lögð á að efla samvinnu á sviði vöktunar í þeim tilgangi að greina breytingar á umhverfinu og meta áhrif þeirra. Markmiðið er að auka samþættingu vöktunar á líffræðilegri fjölbreytni og á áhrifum mengunar og loftslagsbreytinga. Þá mun Ísland leggja áherslu á samvirkni vöktunar, áætlana og framkvæmda sem stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn mengun sjávar og lífríkis með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
· Ísland mun fylgja eftir áherslu Finnlands varðandi jafnrétti kynjanna á norðurslóðum og kanna möguleika á að samþætta kynjasjónarhorn í starfi Norðurskautsráðsins.
· Ísland mun halda áfram öflugu starfi Finnlands við að vekja athygli á hlutverki Norðurskautsráðsins á alþjóðavettvangi sem forgönguaðila fyrir málefnum norðurslóða sem einnig hafa þýðingu fyrir aðra heimshluta.