Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. maí 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ávarp á ársfundi atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, 10.05.2002

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar og viðskiptaráðherra




Ávarp
á ársfundi atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði
10. maí 2002


Ágætu ársfundarfulltrúar!
Mér fannst ánægjulegt að fá ósk frá samtökum ykkar um að flytja hér ávarp við upphaf fundarins þar sem sérstaklega var óskað eftir því að ég ræddi um framtíðarsýn í orku- og stóriðjumálum. Það er því miður of sjaldan sem við Íslendingar gerum okkur far um að ræða framtíðarsýn í þessu efni og ekki síst hvaða þýðingu uppbygging á þessu sviði hefur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið í heild og hverjir möguleikar okkar eru í framtíðinni.

Fyrir einni öld hófu frumherjar rafvæðingar hér á landi að boða þá skoðun sína að leggja bæri áherslu á að nýta orkulindir þjóðarinnar til uppbyggingar iðnaðar rétt eins og þá var að gerast víða um Evrópu, og sóttu menn fyrirmyndir sínar einkum til Noregs.
Því miður varð þá ekkert af þessum áformum þeirra, en á sjöunda áratug aldarinnar töldu stjórnvöld tímabært að horfa til nýtingar orkulindanna, enda var þjóðin þá fyrst að verða bjargálna og rafvæðing landsins langt komin. Áður hafði verið unnið að því um tveggja áratuga skeið að kortleggja, meta og rannsaka helstu möguleika okkar til orkuöflunar til að gera okkur kleift að auka nýtingu þeirra. Að þessu verki býr þjóðin enn þann dag í dag.

Með stofnun Landsvirkjunar og ákvörðun um byggingu álverksmiðju í Straumsvík um miðjan sjöunda áratuginn voru stigin fyrstu skref við gerð stórvirkjana og stóriðju hér á landi. Stuttu síðar var ráðist í gerð Járnblendiverksmiðju í Hvalfirði og á áttunda áratugnum juku þessar verksmiðjur afköst sín verulega. Nokkurt hlé varð þá á uppbyggingu stóriðju næsta áratuginn, en árið 1997 hófst nýtt uppbyggingarskeið í stóriðju hér á landi eftir tæpra tveggja áratuga hlé. Það ár var tekin í notkun stækkun álverksmiðjunnar í Straumsvík og ári seinna hóf Norðurál framleiðslu.

Árið 1999 hófst síðan framleiðsla í þriðja ofni járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og nýlokið er stækkun Norðuráls og enn frekari stækkun er fyrirhuguð á næstu 2-3 árum. Á árunum 1997-2001 hefur aukning í orkusölu til stóriðju hér á landi aukist um 95% sem er meiri en öll almenn raforkunotkun landsmanna var árið 1997. Þessi þróun hefur leitt til þess að á síðasta ári urðu Íslendingar mestu raforkuframleiðendur á íbúa á heimsvísu, aðallega vegna hlutfallslega mikillar notkunar stóriðjufyrirtækja. Þetta eru ótrúlegar staðreyndir þegar haft er í huga að þessi vöxtur í raforkunotkun verður á aðeins síðustu fjórum áratugum.

Hinn öra hagvöxt og velmegun sem hefur orðið hér á landi á þessum tíma má að verulegu leyti rekja til aukinnar nýtingar þjóðarinnar á náttúrulegum auðlindum sínum, bæði gjöfulla fiskimiða og náttúrulegra endurnýjanlegra orkulinda. Nýting orkuauðlindanna mun fyrirsjáanlega verða einn af hornsteinum aukinnar velmegunar hér á landi á næstu áratugum takist okkur að auka nýtingu þeirra í þeim mæli sem verið hefur. Hin mikla uppbygging hitaveitna um land allt hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur nánast horfið. Í dag njóta um 88% landsmanna hitunar frá jarðvarma, um 11% frá rafhitun en innan við 1% notast við olíuhitun. Efnislegur hagnaður þjóðarinnar sem þessi þróun hefur haft í för með sér hefur verið metinn í það minnsta 10 milljarðar króna á ári og er þá ekki meðtalinn hagnaður við raforkuframleiðslu, iðnaðarframleiðslu eða ylrækt.

Að mínu mati er nauðsynlegt fyrir okkur að nýta orkulindir þjóðarinnar til frekari iðnaðarframleiðslu í sama mæli og gerst hefur á undanförnum árum. Dæmin eru skýr frá Grundartanga hvernig vel hefur til tekist með uppbyggingu stóriðnaðar og hver áhrif þar hafa orðið. Gleymum því ekki að öruggt og stöðugt raforkukerfi stóriðju skapar grunninn að vexti atvinnlífsins almennt og raforkukerfið er í raun slagæð samfélagsins fyrir atvinnurekstur landsins. Því varðar miklu að þar sé haldið vel á spöðum. Í dag búum við í samfélagi þar sem afhendingaröryggi og gæði raforkukerfisins er með því besta er gerist í heiminum og að því búa allir notendur.

Vaxandi umræða og deilur hafa risið hér á landi á undanförnum árum vegna umhverfisáhrifa virkjana og raflína. Ljóst er að öll ný mannvirki hafa umhverfisáhrif í för með sér og þá ekki síst stærri framkvæmdir eins og vatnsafls- og jarðhitavirkjanir. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar staðið að undirbúningi virkjana á síðastliðnum árum eins og best verður á kosið í alþjóðlegum samanburði og um það hafa vitnað færir erlendir sérfræðingar á því sviði. Þá hafa stjórnvöld freistað þess að ná sátt um málefni virkjana með margvíslegum hætti, meðal annars með því að vinna að gerð Rammaáætlunar um virkjanir, sem mun flokka og meta einstaka virkjunarkosti til að gera virkjunaraðilum og stjórnvöldum betur kleift að beina rannsóknum og undirbúningi virkjana í þann farveg sem minnstum deilum munu valda.

Á erlendum vettvangi hafa íslensk stjórnvöld fengið lof og verðlaun fyrir framlag sitt til umhverfismála við nýtingu og skynsamlega stjórnun á orkuauðlindum. Þá má benda á að umhverfisráðherrar flestra ríkja heims staðfestu í nóvember s.l. sérstakt ákvæði í Kyoto-bókuninni varðandi nýtingu endurnýjanlegrar orku fyrir iðnaðarframleiðslu þar sem notast er við bestu fáanlegu tækni til framleiðslunnar. Slík framleiðsla verður þá að verulegu leyti ekki íþyngjandi fyrir losunarheimildir þjóðarinnar. Þetta ákvæði mun gera okkur kleift að halda áfram uppbyggingu stóriðju með eðlilegum hætti næsta áratuginn að því er best verður séð.

Við sem viljum nýta orkulindir þjóðarinnar til framtíðarheilla höfum stundum verið gagnrýnd fyrir að vilja nýta þær um of til iðnaðar og atvinnuskapandi tækifæra, en huga ekki í þess stað að framleiðslu eldsneytis fyrir skip og bifreiðar. Auðvitað er slíkt fjarri öllu sanni. Það er rétt að við viljum vinna að því að byggja upp umhverfisvænan iðnað hér á landi með hreinum, endurnýjanlegum orkulindum okkar. Ál er einhver umhverfisvænsti málmur sem þekkist og aukin notkun áls í samgöngum í stað stáls dregur verulega úr notkun brennsluefna og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Áhyggjuefnið er að samkvæmt spám helstu sérfræðinga í áliðnaði munu þjóðir heims á næstu 10 árum auka ársframleiðslu áls um 8 milljónir tonna og 60% af þessari auknu framleiðslu mun fá orku frá kolum og gasi en aðeins um 40% frá vatnsorku. Þetta eru uggvænleg tíðindi sem staðfesta nauðsyn þess að þjóðir heims freisti þess að auka notkun hreinna orkulinda.

Við höfum á síðustu 2-3 árum verið þátttakendur í tilraunaverkefni með notkun vetnis sem orkubera farartækja, sem allt stefnir í að muni verða að veruleika innan fárra áratuga. Athygli heimsins á þessari þróun hefur mjög aukist á síðustu árum, en einnig hefur athygli manna beinst að þeim möguleikum sem við eigum á að nýta endurnýjanlega orku landsins til framleiðslu á hreinu brennsluefni fyrir farartæki og geta þar með útrýmt, fyrst allra þjóða olíueldsneyti og öðrum mengandi brennsluefnum. Það er ljóst að við höfum nægar orkulindir hér á landi til að framleiða vetni fyrir bifreiðar og skip landsmanna í framtíðinni þrátt fyrir að við ráðumst í verulega stóriðju á næsta áratug. Það er því ekki um að ræða að nauðsynlegt sé að draga úr orkufrekum iðnaði vegna vetnisvæðingar skipaflotans eða bifreiða í náinni framtíð.

Góðir fundargestir.

Til að við Íslendingar eigum möguleika á að standast samkeppni við aðrar þjóðir verðum við að nýta öll landsins gæði og þannig tryggja farsæld þjóðarinnar á komandi árum.Þetta á ekki síst við um nýtingu orkulinda landsins. Reynslan kennir okkur að við megum aldrei láta tískubólur villa okkur sýn þegar hugað er að atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar. Mestu varðar að við séum sammála um það að auka þurfi hagvöxt og velferð þjóðarinnar til framtíðar. Til þess að ná því marki má ekki aðeins róa á annað borð heldur bæði, við þurfum á öllum kröftum þjóðarinnar og möguleikum landsins að halda í þessu skyni. Takist okkur það mun þjóð okkar farnast vel í framtíðinni.

Ég þakka áheyrnina.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta