Ávarp við opnun handverkssýningar í Reykjanesbæ, 11.05.2002
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ávarp
við opnun handverkssýningar í Reykjanesbæ
11. maí 2002
við opnun handverkssýningar í Reykjanesbæ
11. maí 2002
Góðir sýningargestir!
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem svona stór handverkssýning er verið haldin á Suðurnesjum. Ef að líkum lætur hefur hér þó aðeins verið stigið fyrsta skrefið, því þeir sem fyrir sýningunni standa gera sér vonir um að hún verði árlegur viðburður í Reykjanesbæ. Áður hafa þátttakendur oft átt hlut að sýningum í Laugardalshöll, en ákváðu nú að taka höndum saman á heimaslóð þar eð ekkert varð af sýningarhaldi í höfuðborginni í ár.
Þótt vel hafi verið að verki staðið, eins og sýningargestir geta sannfærst um, er mér kunnugt um að sumir sem að sýningunni hafa unnið, láta sig dreyma um enn stærri og fjölbreyttari sýningar síðar. Það helgast ekki síst af því að handverkssýningin og það starf sem hún er til marks um, er liður í því að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu hér á þessu svæði. Í uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar vill Reykjanesbær taka fullan þátt, enda hefur undirbúningur handverkssýningarinnar farið fram á skrifstofu markaðs-, atvinnu- og menningarsviðs bæjarins. Áhersla hefur hins vegar verið lögð á það að starfið væri unnið fyrir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum.
Menningartengd ferðaþjónusta er eitt af lykilorðum nútíma atvinnuþróunar, byggðamál sem máli skiptir. Handverkið er nátengt þeirri þjónustu, þar koma margir við sögu og þar sameinast gamalt og nýtt. Þar er byggt á gömlum hefðum og verkkunnáttu í bland við hugvit og nútímatækni. Þess vegna er það sem framleitt er, í senn til marks um varðveislu og nýsköpun og byggir brú frá fortíð til framtíðar í menningarlegum og hagrænum skilningi.
Tilgangur sýningar eins og þessarar er vitaskuld sá að ná til landsmanna, bjóða fólki í heimsókn og sýna því það sem í boði er. Af því geta Suðurnesjamenn verið stoltir enda frægir fyrir dugnað og kjark. Ekki vorum við öll ýkja gömul þegar við lærðum að syngja:
"Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn.
fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn" o.s. frv.
Þótt svo sé enn, er um fleira að velja. Handverksmenn eru margir hér um slóðir. Þátttakendur í þessari sýningu munu vera kringum 80, þar af tveir þriðju af Suðurnesjum. Það sýnir samstöðu þeirra og dugnað að hópur þeirra rekur eigin verslun, sem eingöngu selur hluti gerða af félagsmönnum.
Ég fagna því að hér skuli með svo myndarlegum hætti vera vakin athygli á handverki sem menningartengdri atvinnugrein og gildi þess í uppbyggingu íslensks iðnaðar og viðskipta. Með þessu framtaki er kastljósi beint í senn að mörgum mikilvægum þáttum, sem allir eru þó samofnir.
Ég lýsi handverkssýningu í Reykjanesbæ 2002 opna!