Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. maí 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

"Stefnumót við nýsköpun"- ráðstefna FKA.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp ráðherra á ráðstefnu FKA
"STEFNUMÓT VIÐ NÝSKÖPUN"
23. maí 2002
á Grand Hóteli Reykjavík


Fundarstjóri,
"distinguished guest speaker Professor Paul D. Reynolds",
ágætu fundarmenn, konur og karlar.

Það fer varla fram hjá neinum að Ísland er orðið óaðskiljanlegur hluti af hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi og skipan mála hér á landi tekur í vaxandi mæli mið af alþjóðlegri þróun. Þetta kemur vel fram í vísindum og tækni þar sem Ísland hefur náð að skipa mikilvægan sess í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi, enda hafa framlög okkar til tiltekinna sviða vísinda og tækni, t.d. náttúruvísinda og læknisfræði, vakið verðskuldaða athygli.

Þessi fylgni við alþjóðlega þróun endurspeglast einnig í framboði á áhættufé sem er ein meginforsenda fyrir nýsköpun atvinnulífsins. Þróun hlutabréfavísitölunnar á Nasdaq hlutabréfamarkaðinum er oft tekin sem góður mælikvarði á vaxtarmátt tæknigreina og nýsköpunar, en hún lækkaði um 21 % á síðasta ári sem var annað lækkunarárið í röð. Þessi samdráttur, á alþjóðlegum mörkuðum hefur ekki farið fram hjá íslenskum framtaksfjárfestum né heldur þeim sem ástunda nýsköpun og þurfa á áhættufé að halda. Þróunin hér á landi hefur í meginatriðum mótast af sömu áhrifaþáttum.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er að sjálfsögðu ekki með beinum hætti sambærilegur við Nasdaq enda samsetning fyrirtækja þeirra allt önnur. Úrvalsvísitalan okkar hefur hækkað á síðustu mánuðum sem er vísbending um að afkoma fyrirtækja í hefðbundnum greinum, einkum sjávarútvegi, fari batnandi. Krónan hefur einnig styrkst um 6,3 % frá áramótum og verðbólgan er á niðurleið. Þetta gefur vísbendingu um að mögulega sé botninum náð og að vænta megi að meira fé verði tiltækt á almennum markaði til fjárfestinga í nýsköpun og tækniþróun.

Þrátt fyrir að nokkuð hafi rofað til í efnahagslífi okkar er enn langt í land að sambærileg gróska hafi færst í nýsköpunina eins og var fyrir tveimur til þremur árum síðan. Við verðum vör við þetta í iðnaðarráðuneytinu, m.a. í gegnum verkefnið "Átak til atvinnusköpunar" þar sem ráðuneytið veitir hugmyndum frumkvöðla og lítilla fyrirtækja stuðning til nýsköpunar. Þau verkefni sem komið hafa til umfjöllunar á þessu ári eru að mati okkar ekki sambærileg að gæðum og verið hefur. Tæknistig þeirra er almennt lægra og frumleiki minni. Ég velti því fyrir mér hvort tengsl gætu verið á milli þessa og hins almenna samdráttar.
Í fundarboðinu fyrir þessa ráðstefnu er varpað upp þremur áleitnum spurningum. Þær eru:

1. Getur nýsköpun aðeins átt sér stað hér á landi þegar þensla er í þjóðfélaginu?
2. Eru ný tækifæri rétt vðbrögð við kreppu?
3. Er ekki nauðsynlegt að skapandi hugsun, frumkvæði og framkvæmd séu viðvarandi ástand í íslensku atvinnulífi?

Mér finnast þessar spurningar athyglisverðar, einkum vegna þess að þær falla mjög vel að þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar frumvarpi til laga sem ég lagði fram á síðasta þingi um opinberan stuðning við nýsköpun og tækniþróun í þágu atvinnulífsins.

Eins og mörgum ykkar er vafalítið kunnugt um er frumvarpið hluti heildarendurskoðunar á opinberum stuðningi við vísindi, tækni og nýsköpun. Í því máli ber hæst að stefnumótun verður heildstæðari en fyrr og færð undir ábyrgð forsætisráðherra.

Sá hluti málsins sem að mér snýr lýtur fyrst og fremst að tækniþróun og nýsköpun og er markmið þess að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins með því að treysta stoðkerfi nýsköpunarinnar.
Með vísan til spurninganna í fundarboðinu vil ég geta þess að frumvarpinu er m.a. ætlað að skapa nýjan vettvang til að fjármagna tækniþróunar- og nýsköpunarverkefni svo nýsköpunin geti átt sér stað hér á landi hvort sem ríkjandi er þensla eða samdráttur. Því er einnig ætlað að skapa jarðveg fyrir ný tækifæri til að bregðast við kreppuástandi og stuðla að því að skapandi hugsun, frumkvæði og framkvæmd séu viðvarandi ástand í íslensku atvinnulífi.
Ágætu fundargestir.
Félag kvenna í atvinnurekstri hefur allt frá upphafi tengst iðnaðarráðuneytinu sterkum böndum, enda hafa markmið félagsins farið saman við áherslur ráðuneytisins á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Ráðstefna þessi, "Stefnumót við nýsköpun" er einnig í þessum anda og hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að blása til sóknar í nýsköpun atvinnulífsins. Það er von mín að ráðstefnan verði hvatning og leiðarljós í þeirri sókn.

Með þessum orðum segi ég ráðstefnuna setta.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta