Merkur áfangi í þróun íslenskra orkumála.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp á blaðamannafundi.
Ágætu gestir
Við erum hér saman komin til að fagna merkum áfanga í þróun íslenskra orkumála. Merkir áfangar þurfa ekki að vera svo stórir, fyrstu spor manna hvort heldur er á lífsleiðinni löngu ellegar við þróun nýrrar tækni eru stutt en upphafið að öðru meira og merkara. Hér fögnum við jákvæðri niðurstöðu í tilraunavekefni á brennslu á metani í stað olíu í iðnaðarfyrirtæki á Íslandi, efni, sem framleitt er úr lífrænum íslenskum úrgangi kemur í stað innfluttrar olíu við iðnframleiðslu.
Á síðustu áratugum hefur okkur íslendingum tekist að draga svo úr notkun olíuefna að hún er nú aðeins bundin við farartæki, skip og iðnað. Í stað mengandi brennsluefna við almenna orkunotkun fyrir örfáum áratugum er yfir 70% af ni orkunotkun landsins í dag framleidd með hreinum orkugjöfum og erum við á því sviði fremst allra þjóða heimsins.
Um allan heim leita menn í dag leiða til að draga úr notkun olíuefna til orkuframleiðslu vegna hinna miklu gróðurhúsalofttegunda sem af slíkri starfsemi hlýst. Ein þeirra leiða sem menn helst sjá að muni geta komið í stað olíu er að auka notkun á lífrænu gasi til brennslu í stað olíuefna. Söfnun og notun hauggass er umtalsverður ávinningur í þessari viðleitni þjóða heims að draga úr olíunotkun þó svo að við brennsluna myndist koltvísýringur. Metan hf hefur með starfrækslu hreinsistöðvar sinnar í Álfsnesi stigið merkt spor fyrir fáum árum með framleiðslu á metani fyrir bifreiðar, sem gefist hefur afar vel og dregið úr olíunotkun bifreiða. Vonandi verður aukning á slíkri starfsemi á næstu árum þar til tækninni hefur fleygt svo fram að annar og hreinni orkuberi komist í almenna notkun.
Hér hafa margir aðilar komið að verki sem ber að þakka. Þar ber fyrst að nefna fyrirtækin sjálf, Borgarplast hf og Metan hf, sem lagt hafa í mikla vinnu við að þróa notkunaraðferðir og hafa sigrast á öllum erfiðleikum er ávallt verða á vegi frumherjanna.
Þá ber einnig að geta og þakka þeim aðilum er þetta verkefni hafa stutt.
Öllum þessum aðilum við ég þakka fyrir kjark og dugnað við að fylgja þessu verkefni til enda og óska ykkur til hamingju með árangurinn. Hann verður vegvísir okkar á langri leið til betra umhverfis og ávinnings iðnfyrirtækja og þjóðarinnar allrar við að efla innlenda orkunotkun og draga úr notkun hefðbundinna brennsluefna.