Ávarp á Hólahátíð 2002
Ágætu kirkjugestir, gleðilega Hólahátíð.
Ágústmorgunn, ágústnótt, landið er fagurt og frítt. Hjaltadalurinn skartar sínu fegursta á síðsumardegi ágústmánaðar þegar ekið er heim að Hólum. Sagan og atburðir úr lífi og starfi kynslóðanna eru við hvert fótmál, hér á þessum helga stað réðust að hluta örlög lítillar þjóðar. Í þessum fagra fjallasal hugsuðu forystumenn kynslóðanna stórt og risu upp úr fátækt og flatneskju samtímans eins og fjöllin, stórir í lund, hugsjónaríkir athafnamenn sem trúðu á guð sinn og landið sjálft, sem leiddu fátæka þjóð á vit nýrra tíma, með menntun alþýðu að leiðarljósi.
Það smáa er stórt í harmanna heim, -
höpp og slys bera dularlíki, -
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki.
En mundu þótt veröldin sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.
Þannig kvað Einar Benediktsson sem var skáld tilfinninga og ekki síður athafna. Það var hrokinn og hræðslan sem réð því að unnið var myrkraverk í Skálholti árið 1550, þegar erlent vald tók feðgana á Hólum af lífi. Þeir dóu píslarvættisdauða. Þegar bjartsýnishetjur og sannir foringjar lítillar þjóðar eru fjarlægðir af slíku miskunnarleysi er eins og þjóðinni sjálfri blæði út. Það gerðist og við tóku myrkar aldir og tilvistarkreppa.
Reistu í verki
viljans merki
vilji er allt sem þarf.
Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.
Bókadraumnum
böguglaumnum
breyt í vöku og starf.
Aldamótakynslóðin hóf sóknina með bjartsýni og þeirri lífsgleði sem einkenndi frelsishetjuna Jón Arason biskup. Undir þeim merkjum hefur íslenska þjóðin séð og sigrað. Eitt af fátækustu ríkjum veraldar í upphafi síðustu aldar er nú ein auðugasta þjóð heimsins, sem býður börnum sínum góð lífskjör. Sannleikurinn er sá, að á síðustu sjö árum höfum við Íslendingar náð undraverðum árangri í landi okkar, stjórnmálamennirnir og atvinnulífið hefur sigrast á versta meini samtímans, bægt atvinnuleysisvofunni frá landinu, sem á að vera mikilvægasta markmið stjórnmálamannanna á hverjum tíma. Vinnan er móðir mannsins, það að hafa hlutverk gefur lífinu gildi og varðveitir kristið hugarfar og sátt í sál einstaklingsins. Manni sem er hafnað, kraftar hans ekki nýttir, það er eitthvað sem deyr innra með honum, þetta vandamál er stærsta ógn auðugra stórþjóða um víða veröld. Þótt íslenskir stjórnmálamenn deili og deili hart má segja að fátt skilji þá að í viðhorfum og lífssýn. Við getum sagt að sem betur fer snúist okkar deilur um tittlingaskít. Góður var sá dómur sem íslenska stjórnsýslan fékk að mati Alþjóða efnahagsstofnunarinnar og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar í Harvard háskólanum nú á dögunum. Ísland fær hæstu einkunn af 75 þjóðum fyrir litla spillingu í þjóðkerfinu. Nú blasir við, að mínu mati, enn nýtt hagvaxtarskeið, kannski önnur sjö ár undir merkjum sóknar í atvinnulífinu þar sem við treystum enn lífsgrundvöll þessarar þjóðar. Þrátt fyrir velgengni og nýjan kraft í þjóðfélaginu verðum við jafnan að huga að hættumerkjum sem geta ógnað samstöðu í okkar litla samfélagi.
Kirkjan og viðhorf hins kristna manns og boðskapur Jesú Krists á enn og um alla framtíð að vera okkur leiðarljós. Ef við hugsum um guðspjall þessa dags, þá snýst það um ferðalag meistarans frá Týrusarbyggðum um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir til Galíleuvatnsins þar sem hann læknaði heyrnarlausa og mállausa manninn. Jesús sagði við manninn: "Effata" eða opnist þú. Maðurinn fékk heyrn og talaði skýrt. Já, allt gjörir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla og blindum gaf hann sýn.
Það er okkur hollt öðru hverju að huga að viðhorfum okkar, ekki síst gagnvart okkar minnstu bræðrum og systrum og varpa sjón okkar til landsins og lífsgæðanna. Hver er sýn okkar til landsins, kunnum við að meta auðlegð þess og fegurð, kunnum við að þakka þá farsæld sem fylgt hefur þjóðinni í hundrað ár og ekki síst á lýðveldistímanum? Hvers virði er að eiga föðurland? Hvers virði er að eiga Ísland og vera Íslendingur í nútíma heimi. Eiga tungumál, eiga ónumið land, búa við meira öryggi fyrir börn sín, þurfa aldrei að senda æsku landsins á vígvelli heimsins. Þurfum við á því að halda að einhver segi "opnist þú" til að við skynjum að við búum við aðstæður sem vart eiga sinn líka í veröldinni. Einnig erum við bundin órofa böndum við einstök héruð landsins og í dag leitar borgarbúinn að uppruna sínum og eignast sumarhús við gróna tóft af eyðikoti þar sem afi og amma erjuðu jörðina sæl í sinni fátækt og áttu um eitt að hugsa að fæða og klæða barnahópinn sinn. Þannig kallar landið okkur til sín. Hver bær á sína sögu, sigurljóð og raunabögu. Hvert hérað býr yfir duldu afli, Skagafjörðurinn er umgjörð um lífsglatt fólk í þúsund ár, enn er það söngur og bjartsýni sem einkenna mannlífið. Því hljómar það ekki sem rembingur heldur hin sanna ættjarðarást, þegar Haraldur Bessason prófessor hitti í Vesturheimi mann af Indíánaættum og þegar hann heyrði að hann talaði gullaldar íslensku spurði hann Indíánann: "Ertu Íslendingur." Hann svaraði að bragði: "Nei, ég er Skagfirðingur." Þessi maður var alinn upp af skagfirskum hjónum í Manitoba og hafði aldrei til Íslands komið, en þetta upplifðum við Margrét í Kanada, þessa ást og tryggð á Íslandi hjá fólki sem er af íslensku bergi brotið og líkt og skáldið:
Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót.
Þegar maður heyrir svo setningar eins og þessar frá kærulausum mönnum sem sletta í góm og segja: "Við hérna á skerinu, tvö hundruð og áttatíu þúsund hræður, hvað ætli við getum annað en horft til sameiningar við stærri heildir." Allt í einu berast fréttir að Ísland sé svalasta tískuland Evrópu á eftir Ítalíu. Ætli það skipti engu máli í hugum þessara manna eða opni augu þeirra?
Nú efast ég ekki um að sem betur fer hafa margar þjóðir það gott og ríkjasambönd eru góð sambönd alveg eins og flestir þeir alþjóðasamningar sem við höfum gert voru mikilvægir og gagnast vel. Þetta er hins vegar spurningin um hvað á að ganga langt, hverju má fórna og hvað getur unnist. Ég efast t.d. ekki um að margt það sem Evrópusambandið gerir og áformar er til hagsbóta, ekki síst fyrir hin fátækari ríki, það hefur samhjálp að leiðarljósi og jöfnun lífskjara. Ég tel að upplýst umræða þurfi að eiga sér stað á kostum og göllum þess að Ísland gerist aðili eða gerist ekki aðili að slíku ríkjasambandi, þar er ég sammála utanríkisráðherra, það má aldrei gerast að á einni nóttu, án umræðu um okkar stöðu, værum við knúin í slíkt samband. Í áratugi var hér deilt um inngönguna í NATÓ, sú ákvörðun klauf þjóðina og var erfið innan stjórnmálaflokkanna í áratugi. Það er rangt að halda því fram að hispurslaust eigum við að ganga eða ganga ekki í sambandið, slíkt getur enginn sagt fyrirfram. Það er líka dómgreindarlaust að ætla að láta pólitíska félaga segja já eða nei í póstkosningu hvort sækja beri um aðild, eins og er að henda einn stjórnmálaflokkinn. Okkur ber að halda traustataki um þann samning sem við höfum og hugsa um stöðu og hagsmuni Íslendinga í þeim efnum.
Hins vegar er kröfugerð um tafarlausa aðild af hálfu hagsmunasamtaka út frá sínum hagsmunum móðgun við mörg önnur sjónarmið. Því verður ákveðin umræða um stöðu Íslands ekki umflúin, en það verður að vigta kostina og gallana inn á vogarskálarnar. Við búum ekki á skeri og erum ekki hræður, við erum þjóð sem best hefur vegnað eftir að fullu frelsi var náð og höfum háð stríð til að verja okkar auðlindir. Við eigum viðskiptasamning og verðum að standa vaktina um hann, um þetta eru allir sammála. Hins vegar, þegar stefnir í átök, má pólitíkin ekki skorast undan ábyrgð. Ísland þarf að eiga eina sál í málum sem snúa að ákvarðanatöku um framtíðarhagsmuni landsins í samskiptum við erlent vald. Ég tel fyrir bestu að slíðra þessi sverð og að stjórnmálaflokkarnir, stjórnmálamennirnir og aðilar vinnumarkaðarins yrðu ásáttir um að mynda þverpólitískt samstarf um að móta áætlun um stöðu Íslands og framtíðarmarkmið í alþjóðasamfélaginu. Þannig gæfum við okkur góðan tíma til að meta þetta mál og móta stefnu þar sem samstaða væri leiðarljósið og enginn þyrfti að efast um upplýsta umræðu þar sem hagsmunir þjóðarinnar sætu í fyrirrúmi.
Setning dagsins var: "Opnist þú." Þurfum við að huga að ýmsu öðru sem Kristur kenndi okkur. Er okkar litla þjóð á ferð inní viðhorf og framgöngu sem kunna að sundra kristnum viðhorfum og vinskap í litlu samfélagi? Þarf á ný að velta um borðum víxlaranna? Er samúðin gagnvart þeim veika og smáa að fjara út, eru öfl sem vilja sjá lögmálin auga fyrir auga og tönn fyrir tönn að taka við af hófstillingu og kærleika? Er einnig minnkandi skilningur á því að samhjálpin var hugsuð til þeirra sem hennar þurfa vegna fötlunar eða fátæktar? Aðalsmerki okkar samfélags hefur verið að prófessorinn, atvinnurekandinn og verkamaðurinn eru vinir í sömu götu og erfitt fyrir ókunnuga að þekkja þjóðfélagsstöðu þeirra, börnin þeirra leikfélagar og ganga í sama skóla. Barn verkamannsins fetar hér menntaslóð, auður og völd hafa ekki ráðið, deilt og drottnað. Hvað er þá að gerast hér þegar launakjör eru skoðuð. Hér áður fyrr hafði formaður eða skipsstjóri á bát tvo hluti meðan háseti hafði einn. Nú sýnist mér að ákveðið sjálftökulið sem skammtar sjálfu sér og nýrri aðalsstétt laun, sé að brjóta aldagamla hefð. Hver segir að forstjórar í þjónustufyrirtækjum samtímans eigi að meta sig svo mikils að þeir hafi forsætisráðherra landsins í hlutverki hásetans og telji sjálfsagt að skammta sér tvö- og þreföld laun hans og hiki ekki heldur við að staðsetja sig í launum langt fyrir ofan það sem forseti lýðveldisins fær, sem hefur tvo hluti meðan forsætisráðherra fær einn. Sá sem stýrir fyrirtæki er formaður á bát og ber góð laun, en þessi nýja þróun þolir ekki gleraugu réttlætis í litlu samfélagi þar sem allir gegna stóru hlutverki. Hvers vegna sjá þessir óhófsmenn ekki bjálkann í eigin auga, ekkert þýðir að telja okkur trú um að þetta stafi af alþjóðasamfélaginu þegar ýmsir taka tvöföld laun konunnar sem stýrir Álverinu.
Við þurfum með sama hætti að huga að eignaskiptingunni og hverjir halda utan um auðsuppsprettuna. Færast eignir á færri og færri hendur þarf löggjafinn að takmarka vald og huga að eignaskiptingunni. Aflvaki framfaranna á síðustu öld lá ekki síst í styrk fjöldans sem var hvati framfara og dugnaðar í landinu. Hverjir ráða yfir arði auðsuppsprettunnar og deila þeir henni til landsmanna eða safna fáir menn í nýrri valdastétt auði með augun rauð? Hver er þróun í sjávarútvegi, landbúnaði svo ekki sé talað um í þjónustugreinum, verslun, bönkum og samgöngum til og frá landinu? Allt eru þetta stórar spurningar á himni stjórnmálanna, spurningar sem kalla á umræðu og stefnumótun. Eru nýjar aðalsstéttir að ná tökum, hafa vaxtaverkir fylgt góðærinu eða hafa erlendir samningar sem við höfum gert haft áhrif á þessa þróun, eru hlutafélögin öll með fallegu nöfnunum tæki til að safna auði og ná í fjármagn í nýrri valdabaráttu? Stundum fær maður á tilfinninguna að allt sé þetta leikur stórra stráka í sandkassa. Við horfum á milljarða viðskipti í yfirtöku og sameiningu fyrirtækja, við skynjum að einyrkinn er hornreka og burtrækur úr aldingarði fjársýslumannanna. Við heyrum og sjáum stór gjaldþrot þar sem þeir minni eru féflettir. Við heyrum af auði manna sem svo vel hafa hagnast að þeir geta keypt banka, sparisjóði, fjölmiðla og allt milli himins og jarðar. Hér áður óttuðust menn kolkrabba og smokkfiska, en er ógnarskepnunum í undirdjúpunum ef til vill að fjölga? Hér þarf nýjar og skýrar línur, okkar samfélag þrífst best sé auði og völdum dreift og að eignaraðildin að auðsuppsprettunni sé margra en ekki fárra.
Hið kristna samfélag stendur frammi fyrir nýrri ógn, ekki bara í gegnum eiturlyf, ekki síður því virðingarleysi sem glæpamenn sýna lífinu og gleggst er dæmið með litlu stúlkurnar tvær í Bretlandi. Foreldrar eru í hættu með börn sín, þau byrja snemma að vafra um veraldarvefinn og kunna á tæknina. Því þurfa foreldrar, skólar og stjórnvöld að vinna nánar saman héðan í frá en hingað til. Skólarnir eru heimili númer tvö, þar verður að ríkja væntumþykja og vilji til að greina vanda barnanna sem stundum á uppsprettu í veikum foreldrum. Velferð barna felst í því að grípa inní áður en tjónið eyðileggur barnið. Eitt göfugasta starf sem unnið er í dag er mannúðarstarf og uppeldisstarf heimila sem hafa helgað sig þessu björgunarstarfi, heimila sem í mörgum tilfellum eru sveitaheimili sem finna að návistin við dýrin og ástúð færa barnið á ný til lífsins. Kirkjan gegnir stóru hlutverki í þessari baráttu og getur markvisst náð enn meiri árangri með skólum og foreldrum. Ég er sannfærður um að ef kirkjan, skólanir og foreldrarnir vinna nánar saman, dragi úr mestu ógn okkar tíma, hinum tíðu sjálfsvígum ungs fólks, harmleikur sem skekur og lamar lífshamingju alltof margra í dag. Hún er lamandi þögnin í kringum baráttu margra við eiturlyf og þann glæp að svipta sjálfan sig lífinu, fólkið sem er ráðvillt og þjáist þarf á ástúð og hjálp að halda. Ennfremur þurfum við að byrgja brunninn svo barnið detti ekki ofaní hann, þar þarf til öfluga nýja fjölskyldustefnu sem virkar gegn óhamingjunni.
Hér á Hólum er menntastaður, landbúnaðarskóli sem virkar að nokkru sem alþjóðlegur skóli vegna íslenska hestsins. Menntun og vísindi gegna stóru hlutverki í farsælu mannlífi, byggðaþróun og menningu landsins. Endurreisn vígslubiskupsembættanna að Hólum og í Skálholti marka ný tímamót í kirkjusögunni og ekki síður í virðingu þessara höfuðstaða. Hólaskóli og vígslubiskup hafa tekið höndum saman um að efla Hólastað með ýmsum hætti svo sem varðandi kennslu, menningarviðburði, ásýnd staðarins og viðhald húsnæðis. Hæst rís auðvitað viðgerð á dómkirkjunni, endurbygging gamla skólahússins og síðast en ekki síst bygging Auðunnarstofu hinnar nýju, sem byggð er í minningu þeirrar stofu sem hér var reist árið 1315.
Heim að Hólum mun kalla fleiri og fleiri ferðamenn til sín á næstu árum. Megi faðmur kirkjunnar og gestrisni skólans vitna um gestrisni hins íslenska bónda og sveitamanns. Hér er höfuðstaður, hér er samstarf kirkju og skóla, megi það blessast um alla framtíð. Eða eins og skáldið sagði:
því guð metur aldrei annað í heim
en auðmýkt og hjartans trúnað.
(E.Ben.)