Ráðstefna Símenntunarstöðvar Eyjafjarðar.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp og setning ráðstefnu Símenntunarstöðvar Eyjafjarðar
um starfsþróun í eyfirskum fyrirtækjum
í tilefni af símenntunarviku sem haldin er í þriðja sinn.
11. september 2002
um starfsþróun í eyfirskum fyrirtækjum
í tilefni af símenntunarviku sem haldin er í þriðja sinn.
11. september 2002
Ágætu ráðstefnugestir.
Allt fram á seinustu ár hefur verið auðvelt að afmarka viss æviskeið í lífi okkar - sem fylgdu hvert í kjölfar annars. Þannig voru skólaárin hluti af æsku- og uppvaxtarárunum og beinn undanfari ævistarfsins sem oft var helgað einu viðfangsefni eða einum atvinnurekenda. Þetta er liðin tíð, enda eru framfarir í þjóðfélaginu nú hraðari en nokkru sinni. Nærtækt er að líta til framfara síðustu tíu ára þar sem sprottið hafa fram arðbær störf á sviðum sem við kunnum ekki einu sinni að nefna til nafns nokkrum árum fyrr.
Mér hefur verið sagt að í sumum þessara nýju tæknigreina úreldist helmingur þekkingarinnar á aðeins fimm árum og á sumum sérsviðum vísindanna mun þekkingin úreldast jafnvel enn hraðar. Þrátt fyrir að þörfin fyrir viðhald þekkingarinnar aukist með meiri sérhæfingu starfanna, verður ekki fram hjá því litið að sérhver einstaklingur þarf að átta sig á því að menntun er viðvarandi verkefni sem ekki er bundið við tiltekið æviskeið en er í þess stað viðleitni alla ævi til þess að viðhalda og bæta starfsgetu sína, sjálfsvirðingu og almenna lífsánægju.
Hin breytta þjóðfélagsmynd sem framfarirnar hafa getið af sér hafa á sér tvær hliðar. Þar takast á ógnir, annarsvegar, og margvísleg tækifæri - hinsvegar.
Ógnirnar felast í því að gömlum og traustum gildum er ýtt til hliðar á kostnað nýrra og þeir sem ekki geta, eða hafa tækifæri til, að taka upp hina nýju siði eiga á hættu að sitja eftir.
Tækifærin felast í því að framfarirnar bjóða upp á ný tækifæri sem ekki buðust áður til þess að bæta efnalega- eða félagslega stöðu í víðtækum skilningi þeirra orða.
Í þessum þjóðfélagsbreytingum verður ekki skilið á milli hagsmuna einstaklinganna og fyrirtækjanna. Kröfur til getu fyrirtækja hafa aukist á sama hátt og kröfurnar til einstaklinganna og ógnir þeirra og tækifæri eru þau sömu. Í hinu alþjóðlega samkeppnisumhverfi, sem við erum ótvírætt hluti af, byggist hæfni okkar til þess að selja afurðir og þjónustu á því, að við búum yfir þekkingu sem á einhvern hátt skarar framúr. Nefna má sjávarútveginn í því sambandi. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem hvað mestum árangri hafa náð segja að meginmarkmiðið þurfi ætíð að vera að viðhalda og auka forskotið. Til að ná því markmiði þurfi að leggja rækt við mannauð fyrirtækjanna, en það verði helst gert með tvennum hætti.
Annarsvegar með því að reka markvissa starfsþróunarstefnu, sem starfsmenn fyrirtækisins hafa sammælst um, þar sem öllum starfsmönnum er gefinn kostur á að bæta við þekkingu sína og færni með reglulegri og markmiðsbundinni símenntun.
Hinsvegar með því að ráða nýtt og vel menntað starfsfólk sem getur og vill takast á við ný úrlausnarefni og bæta árangur fyrirtækisins með nýrri þekkingu.
Ég tel að flestir geri sé grein fyrir þeim gagnkvæmu hagsmunum starfsmanna og fyrirtækja sem felast í starfsþróuninni. Ég hef þó heyrt undan því kvartað, að fyritæki leggi oft á tíðum ekki nægilega rækt við að skýra framtíðarsýn og markmið fyrir starfsmenn. Þetta leiðir til þess að það ríkir óvissa í hugum starfsmanna um hvert fyrirtækið stefni. Afleiðingin verður sú að torsóttara verður fyrir fyrirtækið að ná markmiðum sínum og starfsmenn finna ekki taktinn í stefnu yfirstjórnarinnar.
Mörgum fyrirtækjum hefur tekist að gera starfsmannaþróun að sameiginlegu verkefni starfsmanna og er þá oftast byggt á þeirri sýn að velgengni og vellíðan í starfi tengist almennri vellíðan einstaklingsins, þar með talin vellíðan innan veggja heimilisins. Í slíkum tilfellum verður starfsþróunin ekki einskorðuð við starfið heldur verður að taka tillit til hinna margvíslegu mannlegu þátta. Það er eflaust mikið og flókið verk en til mikils er einnig að vinna því mannauðurinn er lífæð fyrirtækjanna og það er hann sem fyrst og fremst skapar arðinn
Ágætu ráðstefnugestir. Með þessum orðum er ráðstefna Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar um starfsþróun í eyfirskum fyrirtækjum sett.