Sjálfbær matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta
"Sjálfbær matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta"
Ég vil byrja á að þakka fulltrúum verslana Whole Foods fyrir þá elju, dugnað og óbilandi trú á því að íslenskar landbúnaðarafurðir eigi erindi á markað í Bandaríkjunum. Ég vil einnig þakka fyrir það að styðja bændur og íslensku þjóðina til að halda hinar hefðbundnu framleiðsluaðferðir bænda og tryggja með þeim hætti að menningararfur sveitanna glatist ekki. Þetta er arfur frá fyrri tímum sem mótast hefur kynslóð fram af kynslóð. Sveitamenningin nær bæði til fortíðar og framtíðar. Það er arfur bóndans og forfeðra hans sem búið hafa á jörðinni okkar, sameiginlegri sögubók okkar lands.
Inngangur
Matvælaframleiðsla í sinni víðustu mynd er höfuðatvinnuvegur Íslendinga og er þar bæði vísað í landbúnað og sjávarútveg. Ísland er eyja, umvafin hafi, nátengd náttúrunni og hennar öflum sem mestu hafa ráðið um velferð þjóðarinnar og gera enn. Ísland er stjálbýlt land og aðeins mjög lítill hluti þess er ræktaður. Það veldur því að við þekkjum ekki mörg þeirra vandamála sem glímt er við á þéttbýlum svæðum þar sem hver fermetri er ræktaður og afkastageta landsins er nýtt til hins ýtrasta og stundum rúmlega það. En við lifum í sama heimi og því þarf það ekki að koma á óvart þó sömu kröfur séu gerðar til okkar framleiðslu og framleiðsluþátta og það er okkar verkefni að vinna sem best úr þeim aðstæðum og nýta þau færi sem gefast í hrjáðum heimi.
Undanfaran áratugi hafa Íslendingar eins og flestar aðrar þjóðir umgengist sínar náttúruauðlindir af varfærni og með skilningi á því að þær eru ekki óendanlegar. Þar höfum við á margan hátt verið til fyrirmyndar en okkur dugar ekki að standa sífellt fyrir framan spegilinn og dáðst af eigin ágæti. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að við verðum að halda vöku okkar og tryggja áframhaldandi traust neytenda á þeim vörum sem við bjóðum. Matvælaöryggi og neytendavernd eru lykilorð framtíðar í öllu okkar starfi. Landbúnaðarráðuneytið hefur einsett sér að vinna vel að þessum málum enda aldrei of varlega farið með þetta fjöregg þjóðarinnar.
Hugmyndafræðin
Það eyðist allt sem af er tekið segir fornt íslenskt máltæki. Þetta er fleirum en Íslendingum ljóst því hugmyndafræðin um sjálfbæra þróun, í sinni einföldustu mynd, byggir á því að ganga ekki á gæði náttúrunnar og tryggja að afkomendur okkar geti notið hennar á sama hátt og við. Auðvitað verður bæði að líta til austurs og vesturs til að gá að veðri og sama gildir um þessa hugmyndfræði. Það má ekki ganga svo langt að möguleikar til að lifa af verði skornir af með einu hnífsbragði.
Íslenskur landbúnaður, bæði matvælaframleiðslan og ferðaþjónustan, hafa meðtekið þessa hugmyndafræði og gert að sinni. Og landbúnaðurinn hefur gengið lengra því hann er meðvitaður um mikilvægi neytendaverndar og umhverfismála almennt og vill ekki fyrir nokkurn mun glata því trausti sem neytendur hafa á afurðum og þjónustu.
Möguleikar Íslands
Ísland er hreint land og hefur því alla burði til að standa í fararbroddi þeirra ríkja sem setja sjálfbæra þróun fram sem megin viðfangsefni. Við þekkjum ekki mörg þeirra vandamála sem glímt er við í öðrum löndum en höfum önnur séríslensk sem við verðum að taka á. Á sama hátt höfum við ekki jafn alvarleg vandamál hvað varðar hreinleika umhverfis og afurða og eigum því að geta nýtt okkur þá sérstöðu. Við eigum að líta á þessa umræðu sem sóknarfæri en ekki sem skelfilega ofstjórn. Það er hagur okkar að sem flest ríki taki upp strangar reglur í matvælaframleiðslu því það getur verið mun erfiðara fyrir þá en okkur. Við þurfum að viðhalda ströngum skilyrðum hjá okkur og vera ekki feimnir við að taka upp nýjar reglur, jafnvel þó okkur sýnist þær tilgangslausar. Við verðum að skilja að þó þær séu kostnaður fyrir okkur þá eru þær líka kostnaður fyrir önnur ríki og jafnvel meiri en fyrir okkur. Við verðum að hafa í huga að ef við töpum trausti neytenda þá verður það óbærilegur kostnaður. Mín niðurstaða er að við eigum að fara fyrir í þessum málum hér eftir sem hingað til og hvika hvergi í þeirri stefnu að allir neytendur íslenskra afurða geti áhyggjulausir sest að gnætarborði og notið þess sem boðið er.
Þegar rætt er um kostnað sem þessari stefnu fylgir verður að vera samræmi milli þjóða. Ef yfirvöld í öðrum ríkjum greiða kostnað verður það að vera eins hér á landi. Við verðum auðvitað í samningum við aðrar þjóðir að gæta að þessu og láta ekki íslenska framleiðendur gjalda í samkeppni. Við getum einnig hugað að þessum þætti í samningum við framleiðendur, t.d. samningum um framleiðslu mjólkur og kindakjöts því þessar greiðslur yrðu vart taldar framleiðsluhvetjandi. Við erum eitt örfárra ríkja sem höfum aflagt útflutningsbætur á afurðir en það er ekkert sem bannar okkur að huga betur að umhverfismálum og neytendavernd. Þær raddir heyrast nú víða um Evrópu og í Bandaríkjunum að færa eigi stuðning við landbúnaðinn í þessa átt. Eftir þessu verðum við að hlusta og vera reiðubúin til að taka afstöðu eftir ítarlega innri skoðun á okkar eigin stefnu.
Hvað er verið að gera?
Íslenskir bændur eru meðvitaðir um þessa þróun. Hver búgreinin á fætur annarri hefur breytt framleiðsluferlinum og tekið hugmyndafræði gæðastýringar inn í framleiðsluna. Á það jafnt við um frumframleiðsluna á búunum og í allri vinnslu og sölu afurða. Við þurfum auðvitað að breyta hugsuninni en það er auðveldara fyrir okkur en margar aðrar þjóðir vegna betri ytri aðstæðna. Auðvitað hafa nýjar hugmyndir mætt ákveðinni andstöðu, oft þeirra sem ekki hafa beina hagsmuni, en við verðum að halda áfram á þessari braut. Nú á tímum er ekkert talið sjálfsagt og því hafa orðið til kerfi er votta bæði framleiðslu og framleiðsluferla. Það er nauðsynlegt til að gera ferlið trúverðugt. Neytendur þessa lands, ekki síður en annarra, gera þessa kröfu og í upplýstu þjóðfélagi þýðir ekki að segja "af því bara". Neytendur vita hvað þeir vilja og þeir hafa leiðir til að ná því fram. Lítum á neytendur sem stuðningsmenn og þeirra kröfur sem eðlilegan þátt í skoðanaskiptum framleiðenda og kaupenda. Ef ekki þá töpum við.
Við verðum auðvitað að kynna okkar vörur, heilnæmi þeirra og hollustu, en við verðum líka að geta fært á það sönnur. Gestir okkar hér í dag hafa látið sannfærast eftir að hafa komið til Íslands og séð og kynnt sér umhverfið, vinnubrögð og framleiðsluna. En þeir keyra strangar kröfur í sínum verslunum og geta e.t.v. ekki til frambúðar boðið okkar vörur nema þær séu vottaðar. Skilningur okkar á þeirra aðstæðum má ekki verða til þess að þessi markaður tapist.
En það þarf að verða samræmi í þessum hlutum. Við eigum að gera sömu eða mjög svipaðar kröfur til þeirra matvæla sem framleiddar eru fyrir eigin markað og þeirra sem fluttar eru út. Við vinnum að því að bæta það hjá okkur og aðrar þjóðir verða að gera það einnig. Það hafa ekki öll okkar sláturhús heimild til að flytja út kjöt en eru samt að skila góðri vöru á markað. Við vitum það að afurðastöðvar í öðrum löndum fá ekki allar útflutningsleyfi. Hér er hefð fyrir ákveðinni verkaskiptingu og það er gott en við verðum samt að tryggja að allar afurðastöðvar vinni í hvívetna þannig að neytandinn geti treyst þeirra vörum. Það höfum við gert og munum gera áfram.
Ferðaþjónustan í sveitum landsins veit og skilur að það sem viðskiptavinirnir sækja í er hin hreina og ægifagra náttúra. Þeir eru meðvitaðir um að komi móða á þá mynd er draumurinn búinn. Það er ánægjulegt að vita að ýmis stór fyrirtæki í þeim geira hafa sett sér formlega umhverfisstefnu og fylgja henni eftir. Sem dæmi um þetta má nefna Íshesta og Eldhesta sem selja í samráði við bændur lengri og styrri hestaferðir um allt land. Nauðsynlegt er einnig að greina áhuga og væntingar ferðamanna sem gista Ísland og mér þykir gaman að geta þess að Hólaskóli og Hestamiðstöð Íslands hafa tekið þessa þætti mjög upp á arma sína og vinna nú í samráði við bændur úttektir og rannsóknir á þessu sviði. Þar fæst grunnur sem framtíðin mun byggja á.
Hvað á að gera?
Við munum halda áfram á sömu braut og mörkuð hefur verið. Gæðastýring sauðfjárræktarinnar er auðvitað prófsteinn á að íslenskur landbúnaður sinni kalli tímans. Við viljum framleiða góða vöru þar sem ekki er gengið nærri landi. Við viljum tryggja að framleiðsluferillinn sé þekktur og að rekjanleiki afurða sé tryggður. Rekjanleiki er besta þekkta ráðið til að geta gripið inn í ef einhversstaðar verða mistök. Öll markaðssetning framtíðar mun byggja á rekjanleika og eftirliti og það er útilokað annað en að Íslendingar sinni því kalli. Einstaklingsmerkingar hafa nú verið teknar upp fyrir allt búfé nema sauðfé en þar er unnið að því að samræma hið nýja kerfi hinu eldra.
Við verðum einnig að gæta að ímynd landbúnaðarins. Fjölskyldubúið hefur lengi verið sú eining sem hann hefur byggt á og ég vil að svo verði áfram. Með því móti vinnst margt og ég tel engan vafa leika á að þannig verður hreinleika afurðanna og vönduðum vinnubrögðum best við haldið. Auðvitað verður að fara fram ákveðin hagræðing en hún má ekki verða á kostnað þess sem dýrmætast er. Ég tel að við verðum í auknum mæli að skoða hvernig við getum unnið að þessu markmiði í samningum ríkis og bænda. Hið fjölþætta hlutverk landbúnaðar er mikið og nú er vert að skoða þann þátt betur þegar við skipuleggjum landbúnaðinn til framtíðar.
Niðurstaða
Það er mín niðurstaða að framtíð landbúnaðarins verði best tryggð með áframhaldandi virðingu fyrir náttúru landsins og vöruvöndun á öllum sviðum. Við þurfum að skilgreina hlutverk þeirra sem í greininni vinna á nýtt og taka þar verulegt tillit til hins fjölþætta hlutverks. Bændur eru vörlsumenn landsins og það hlutverk verður að meta að verðleikum. Yfirvalda er að setja leikreglurnar og það verðum við að gera í samstarfi við atvinnugreinina og hagsmunaaðila. Við verðum að tryggja að vel sé um landið gengið. Við verðum að tryggja vandaðan framleiðsluferil. Við verðum að útiloka að smituð matvæli komist á markað og við verðum að upplýsa neytendur og taka tillit til skoðana þeirra og óska. Þetta átak er dýrt í framkvæmd en nauðsynlegt til að viðhalda trausti milli framleiðenda og neytenda.
Ég fagna því að íslenskur landbúnaður er meðvitaður um stöðu sína og ábyrgð og heiti því að vinna að framtíðaruppbyggingu hans með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Það er mér því mikið gleðiefni að finna þann mikla áhuga sem þessir vinir okkar, sem hér eru komnir alla leið frá Ameríku, hafa sýnt okkar bændum. En stundum áttum við Íslendingar okkur ekki á því hversu mikilvægt það er í veröldinni í dag að framleiða heilnæmar náttúruafurðir í sátt við umhverfið og án notkunar aðskotaefna. Við erum því þakklát ykkur fyrir að kunna að meta íslenska bændur og vilja styðja þá við að halda uppteknum háttum í búskapnum og vernda þar með bæði dýrin, náttúruna og mannskepnuna.