Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. október 2002 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Öryggisvika sjómanna sett

Ávarp Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra við setningu öryggisviku sjómanna 26. september 2002.

Góðir gestir.
Sjómennskan er ólík öllum öðrum störfum. Skipið, sem jafnt er vinnustaðurinn og annað heimili sjómannsins, er ávallt á hreyfingu og áhrif veðurs og sjólags eru mikil. Þjálfaður og árvökull sjómaður, haffært og stöðugt skip og fullnægjandi öryggisbúnaður er besta forvörnin gegn sjóslysum. En sjóslysin eru því miður eru of tíð. Oft verða sjóslys vegna ófullnægjandi búnaðar eða óviðráðanlegra aðstæðna, en í öðrum tilvikum getur ófullnægjandi þjálfun orsakað slys. Skjót og örugg björgun skips og áhafnar getur þá dregið verulega úr alvarlegum afleiðingum slysa. Því skiptir höfuðmáli að áhafnir íslenskra skipa kunni vel til verka þegar slys ber að höndum. Auk þess verður eftirlit með búnaði íslenskra skipa og báta að vera eins gott og mögulegt er.
Þeir sem best þekkja til sjómennsku og hafa fylgst með öryggismálum sjómanna vita að með skipulegum vinnubrögðum má fækka slysum.
Með það að leiðarljósi beitti ég mér fyrir gerð fyrstu langtímaáætlunar í öryggismálum sjófarenda og var hún fullgerð og samþykkt samhljóða á Alþingi 2001 og gildir til 2003 í fyrsta áfanga. Þar er megináherslan lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. með því að auka vitund sjómanna um slysahættu, virkja eftirlit útgerða og áhafna með öryggismálum í skipum og svo mætti lengi telja.
Vandaðar rannsóknir á slysum skipta miklu um forvarnir. Endurskipulagning sjóslysarannsókna var tímabær og mjög mikilvæg. Því var það að ég fékk sett ný lög um rannsóknarnefnd sjóslysa. Í kjölfarið voru gerðar grundvallarbreytingar á allri starfsemi nefndarinnar. Hún er nú mun sjálfstæðari, hefur skyldur til að koma með tillögur að úrbótum um það sem miður fer, auk þess sem hún vinnur að gerð öflugs gagnagrunns, sem hefur að geyma mikilvægar upplýsingar. Slíkur grunnur gegnir lykilhlutverki í því forvarnarstarfi, sem við ætlum að vinna í slysavarnamálum sjómanna á næstu árum.

Góðir gestir,
Árið 2002 varð 26. september fyrir valinu sem alþjóðasiglingadagurinn. Hann er helgaður sjómönnum og viðhorfi þeirra til eigin öryggis og annarra í áhöfn skips.
Öryggisvika sjómanna á að vekja sjómenn og aðra þá, sem að sjómennsku koma til umhugsunar um öryggi sitt við störf og hvernig þeir geta komið í veg fyrir slys, sem því miður verða of oft. Mikilvægasta öryggið felst hinsvegar í þjálfun og árvekni sjómannsins sjálfs, því framganga hans og aðgæsla um borð skiptir öllu máli.
Hlutverk sjómannsins er kjarninn í Öryggisviku sjómanna. Eins og þið sjáið er dagskrá vikunnar glæsileg;
Á laugardag verður hátíð á Miðbakkanum í Reykjvíkurhöfn þar sem almenningi gefst kostur á að skoða Sæbjörgina, sem við erum nú stödd í. Einnig verður varðskipið Ægir til sýnis, þyrla Landhelgisgæslunnar sýnir björgun og fleira má upp telja.
Þriðjudaginn 1. október kl. 1 er stefnt að björgunaræfingum um borð í öllum íslenskum skipum.
Öryggis viku sjómanna lýkur með ráðstefnu um öryggismál sjómanna fimmtudaginn 3. október.
Öryggisvika sjómanna hefst í dag. Vikuna alla eigum við að nota til þess að vekja athygli þjóðarinnar á sjómennsku. Öryggisvikan verður notuð til að efla slysavarnir. Vikan verður notuð til að sameina krafta allra sem vinna að auknu öryggi til sjós. Vikan markar vonandi upphaf fækkunar á sjóslysum á Íslandi.

Ég segi hér með ÖRYGGISVIKU SJÓMANNA 2002 SETTA og þakka öllum þeim sem unnið hafa að undirbúningi langtímaáætlunar og Öryggisviku sjómanna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta