Réttur sjávarjarða til útræðis.
RÉTTUR SJÁVARJARÐA TIL ÚTRÆÐIS
Við lesum það í Íslandssögunni að þegar illa áraði flutti fólkið að sjónum. Við lesum í Íslendingasögunum að höfðingjasetrin voru nálægt sjó eða áttu ítök við sjó. Nútímabóndinn fær þetta vart skilið. Þegar hann ekur um Breiðafjörðinn sér hann þar fyrrum stórbýli með lítið undirlendi og litla ræktunarmöguleika. En þar er gott sauðland og þar er fjaran og sjórinn með öllu síni lífi og lífríki. Íslenski bóndinn sótti björg í bú og nýtti til þess öll ráð sem hann kunni og þó erfitt væri til lands þá gaf sjórinn og fjaran lengi það sem þurfti til að komast af.
Þegar ræktunarbúskapur varð lykilorð í íslenskum landbúnaði á síðustu öld urðu miklar breytingar. Sjálfsþurftarhugsunin vék fyrir nýjum tækifærum og bændur tóku þátt í þeirri þjóðfélagsbreytingu sem enn stendur. Landgæði og ræktunarmöguleikar voru aðgangur bænda að nýjum tímum, nýrri uppbyggingu, nýrri sókn. Þá gerist það að önnur gildi víkja og menn einhenda sér að nýjum verkefnum. Þéttbýlismyndun, verkaskipting, sérhæfing voru stór þáttur í þessum breytingum og bændur tóku þátt í þeim af heilum hug. Hlunnindabúskapur ýmiss konar var tímafrekur og oft erfiður og tækni til að létta störf fylgdi ekki öðrum tæknibreytingum. Þá tók sjórinn sinn skerf því það var aldrei hættulaust að róa til fiskjar á opnum bátum.
Samfara þessum breytingum varð til öflug stétt útgerðamanna sem samhliða veiðum stundaði vinnslu á sínum afla, bast samtökum um sölu afurða og vann gott starf fyrir þjóðarbúið. Þá var erfitt fyrir bændur að keppa við útgerðamennina í sjósókn, samgöngur stopular og vont að koma afla til vinnslu þannig að uppfyllti þá staðla sem til hennar voru gerðir.
Á þessum tímum háðum við einnig nýja sjálfstæðisbaráttu er landhelgin var stækkuð í áföngum í 200 mílur. Erlendu skipin hurfu og bændur og aðrir þeir sem stunduðu nærmiðin fengu að vera í friði með sín veiðarfæri.
Þó ég hafi ekki farið ítarlega yfir þessa þróun s.s. aflatölur, fjölda jarða sem nýttu sitt útræði, fjárhagslega hagsmuni og aðrar lykilstærðir tel ég ljóst að nýting þessara réttinda minnkaði mjög mikið. Það hlýtur að vera tengt mikilli veiði annarra á þessum tíma og tiltölulega lágu verði afurða, a.m.k. í samburði við það sem nú þekkist.
Þessi þróun hélt áfram, tækni jókst, skipum fjölgaði og þau stækkuðu og gátu sótt lengra en áður og haldið gæðum aflans lengur en áður. Svo fór að sóknin varð of mikil, fiskistofnar gáfu sig og nauðsynlegt var talið að takmarka sókn. Þá varð til grunnurinn að því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við nú búum við.
Það kerfi var sett af illri nauðsyn, um það er ekki deilt. Það er miklu fremur deilt um hvernig það hefur þróast og hver áhrif þess eru á þjóðarhag og byggðir landsins. Það var von þeirra sem settu þetta kerfi í upphafi að það væri tímabundið og sá réttur manna að sækja í sameiginlegan sjóð auðlindarinnar yrði aftur virkur. Það hefur ekki gerst enn.
Það mál sem hér er sérstaklega til skoðunar er fyrir margra hluta sakir mjög áhugavert. Lögfræðingar hafa farið yfir þetta mál og eru auðvitað ekki sammála um þessa hluti. Ég þykist þó greina það í þeirra skrifum að réttur jarðanna sé fyrir hendi. Þessi réttur hefur verið metinn í fasteigna- og jarðamati og sannanlega eru þau nýtanleg með nútímatækni og nú er einnig nægur mannskapur til að sinna þessum störfum samhliða öðrum störfum í búskapnum.
Mig undrar ekki að þessi umræða sé komin fram með þeim hætti sem þessi fundur boðar. Hér eru tækifæri til að treysta byggðir og til að auka atvinnu og það er ekki undarlegt að eigendur vilji kanna með hvaða hætti þessi meinta eign þeirra sé virk. Og sjórinn við strendur landsins bíður upp á fleiri möguleika en veiðar. Þar er hægt að stunda ýmsan atvinnurekstur, ég vil nefna hér kræklingaeldi, þannig að það er mjög skiljanlegt að vísað sé til fortíðar og þessi mál tekinn upp. Ég get ekki tekið afstöðu til þessa máls hér í dag en ég lýsi mig reiðubúinn til að vinna að lausn þess.
Þessi umræða minnir á annað mál sem fer hátt í umræðu dagsins. Það er þjóðlendumálið. Í áratugi höfðu menn deilt um það hver væri eigandi ákveðinna landssvæða. Ákveðnir flokkar vildu taka allt land af bændum og nýtingu þess. Deilt var um hvort til væri einskinsmanns land, hver færi með afnotaréttinn og hver færi með opinbert forræði landsins. Alþingi leysti það mál með lögum um þjóðlendur og ég tel að í samráði við bændur hafi verið mörkuð góð stefna. Ég er auðvitað ekki ánægður með allan framgang þess máls en ég er sáttur við hversu dómar féllu á Suðurlandi. Í þeim lögum er líka kveðið skýrt á um beitarrétt, nýtingu veiðiréttar og forræði. Það kostar að vísu átök við stjórnarandstöðuna en þessi afnota- og beitarréttur hlaut að vera bændanna. Þúsund ára réttur bænda var staðfestur á Alþingi með stækkun sveitarfélaga til jökla. Auðvitað gátu bændur gerst óbilgjarnir og talið afrétti eign jarða eða sveitarfélaga. Þeir réttu sáttarhönd og áttu alls ekki von á stríði af hálfu ríkisins um þinglýst eignamörk jarða við hálendið.
Ég velti því fyrir mér hvort hægt sé að fara sömu leið í þessu máli, hvort hægt sé að ná sátt um meintan eigna- eða afnotarétt. Þá yrði skoðaður réttur til að nýta bætur eða gjald til þeirra sem þennan rétt eiga, verði það metið svo.
Ég óttast að verði málninu haldið áfram af fullum þunga og lítilli sanngirni af beggja hálfu þá stefni í óefni. Í lögfræðiáliti sem ég hef séð t.d. frá Skúla Magnússyni lektor og Má Péturssyni lögfræðingi Bændasamtaka Íslands eru álitaefnin mörg og það tæki alltof langan tíma að fá úrlausn eftir þeim leiðum.
Fiskveiðistjórnunarkerfið er auðvitað stöðugt til endurskoðunar og við þá endurskoðun verður að taka tillit til margra þátta. Sá þáttur sem hér um ræðir er einn af þeim og nefndin sem endurskoðaði lögin um fiskveiðistjórnun tók hann með í sinni vinnu en lagðist gegn því að þessi meinti eignaréttur verði virkur.
En lífið heldur áfram og ekkert stendur í stað. Nú heyrum við af nýjum kröfum Evrópusambandsins að við breytingar á EES-samningi verði það krafa þeirra að fá heimild til að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Fram að þessu hefur sú regla verið skýr að það er ekki heimilt. Fiskistofnarnir eru þjóðareign og ég sé ekki að þeir verði nein skiptimynt í samningum við ESB og munu aldrei verða. Áður en það gerist mun mikið vatn renna til sjávar.
Það eru kannski svona hugmyndir og fréttir sem vekja mann til umhugsunar. Við verðum að vera reiðubúin til að líta í eigin barm og vera ófeimin við að skoða breytingar á því kerfi sem við búum við um stjórn fiskveiða. Réttur jarðeigenda til að nýta staðbundna fiskistofna er einn af þeim þáttum. Ég endurtek að ég er tilbúinn að fara yfir það mál með samherjum mínum á Alþingi og í ríkisstjórn.