Opinn fundur um orkumál og iðnaðartækifæri á Húsavík.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Opinn fundur um orkumál og iðnaðartækifæri,
haldinn á Húsavík, mánudaginn 25. nóvember 2002
haldinn á Húsavík, mánudaginn 25. nóvember 2002
ORKA
Í Þingeyjasýslum er að finna ein mestu jarðhitasvæði landsins. Nýting á brennisteini frá þessum svæðum var um aldir og langt fram á síðustu öld mikilvæg fyrir íbúa héraðsins. Þau háhitasvæði, sem hafa verið rannsökuð í áratugi eru Kröflusvæðið, Námaskarð og Þeistareykjasvæðið. Kröflusvæðið er einna best þekkt enda hófst raforkuvinnsla þar árið 1978 og er uppsett afl þar nú 60 MW. Stefnt er að frekari stækkun virkjunarinnar innan fárra ára og Alþingi hefur heimilað að stækka virkjunina í allt að 220 MW. Talið er að svæðið standi undir enn frekari nýtingu síðar eða allt að 350-375 MW. Í Bjarnarflagi var byrjað að nota gufu til raforkuframleiðslu og kísilgúrvinnslu árið 1967 og er talið að það svæði geti gefið allt að 70 MW afl við raforkuframleiðslu.
Á Þeistareykjasvæðinu hófust rannsóknir fyrir um 30 árum og rannsóknarboranir hófust á þessu ári. Óhætt er að fullyrða að fyrstu niðurstöður lofa góðu um nýtingu þess svæðis. Áður en rannsóknarbornir hófust var það mat jarðvísindamanna að svæðið gæti staðið undir allt að 150 MW afli við raforkuframleiðslu.
Hér að ofan hefur aðeins verið minnst á möguleika þessara svæða til raforkuframleiðslu sem gæti numið hundruðum MW. Það er því ljóst að möguleikar til orkufreks iðnaðar á svæðinu í framtíðinni eru verulegir. Í þessu sambandi má nefna að við raforkuframleiðslu nýtist ekki nema 10-15% af heildarorku jarðhitasvæðanna. Gífurleg orka er því ónýtt eftir að ferli raforkuframleiðslunnar lýkur. Möguleikar til frekari nýtingar hennar virðast ótæmandi. Það hlýtur því að vera verkefni framtíðarinnar að finna möguleika til að nýta sem stærstan hluta þeirrar orku sem til fellur á jarðhitasvæðunum þó svo að illa hafi gengið að færa sér þessa auðlind í nyt hingað til.
STÓRIÐJA
Eins og kunnugt er verður árleg framleiðslugeta álversins í Reyðarfirði talsvert miklu minni en Reyðarál hafði fyrirhugað. Þannig er nú gert ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun ásamt jökulsárveitu úr Fljótsdal nægi til þess að sjá álverinu fyrir nauðsynlegri raforku og ekki verði þörf á raforkuflutningum frá Kröflu eða Bjarnarflagi eins og áður var fyrirhugað. Í ljósi þessa má segja að nýir möguleikar hafi skapast til atvinnuuppbyggingar í orkufrekum iðnaði á Norðurlandi, þar sem raforku frá þessum virkjanakostum verður ekki ráðstafað annað.
Um nokkurt skeið hefur Fjárfestingarstofan - orkusvið unnið að staðarvalsathugunum fyrir stóriðju í samvinnu við staðbundin atvinnuþróunarfélög á þremur svæðum á Norðurlandi. Þau eru í Eyjafirði, í Skagafirði og við Húsavík. Af þessum svæðum eru athuganir lengst komnar á iðnaðarsvæðinu við Dysnes í Arnarneshreppi í Eyjafirði, en þar hafa m. a. farið fram umfangsmiklar veðurmælingar, jarðvegsathuganir og hafnarrannsóknir. Er talið að lóðin henti vel fyrir orkufrekan iðnað. Við Húsavík er verið að skoða þrjár lóðir fyrir sunnan og norðan kaupstaðinn.
Þessi svæði hafa sína kosti og galla eftir því hvers konar iðnað er verið að skoða. Þar koma til atriði sem miklu máli skipta við staðsetningu orkufreks iðnaðar eins og landkostir, hafnargerð, þjónustuiðnaður, íbúafjöldi svo og orkuöflun. Það gefur auga leið að þessir staðir eru misvel í sveit settir hvað slíka staðarvalskosti varðar og erfitt að bera þá saman að óbreyttum aðstæðum. Þannig er Húsavíkursvæðið til dæmis best sett fyrir iðnað sem nýtir jarðgufu og Dysnes best sett varðandi fólksfjölda og þjónustuiðnað.
Athygli manna hefur beinst að stóriðju á Norðurlandi að undanförnu. Þar er um að ræða hugmyndir íslenska fyrirtækisins Altech sem í samvinnu við rússneska aðila hefur stofnað hlutafélagið Atlantsál hf. til þess að kanna möguleika á að byggja á Íslandi bæði súrálsverksmiðju og álver. Málið hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hugmyndir eru í raun á frumstigi og þurfa talsverða yfirlegu áður en unnt er að taka ákvörðun um það hvort þeim verður fylgt eftir og hvar verksmiðjurnar yrðu staðsettar. Því veldur m.a. að súrálsframleiðsla er nýr og óþekktur atvinnuvegur hérlendis sem getur haft talsverð umhverfisáhrif í för með sér. Iðnaðurinn myndi nota jarðgufu í miklum mæli sem nú er verið að leita að á Þeystareykjarsvæðinu í Þingeyjarsýslu en árangur er í óvissu enn sem komið er. Það er ljóst af því sem áður er sagt að staðsetning súrálsverksmiðju á Norðurlandi kemur ekki til álita nema í nálægð við Húsavík. Álverið gæti verið víðar og er verið að bera saman kosti staðsetningar á Dysnesi og við Húsavík.
Atvinnulífið stendur á krossgötum
Okkur er eflaust í fersku minni að nýir eigendur komu að Kísiliðjunni við Mývatn í ársbyrjun 2001. Að mati hins erlenda eiganda verksmiðjunnar var útlitið framundan ekki gott og að óbreyttu stefndi reksturinn í óefni. Að þeirri ástæðu var fyrirtækið selt til Allied EFA. Hinir nýju eigendur verksmiðjunnar hafa síðan unnið að þróun nýrrar framleiðslu er nefnist kísilduft sem lofar góðu. Unnið er að fjármögnun byggingar verksmiðjunnar og er gert ráð fyrir að hún geti tekið til starfa á síðari hluta ársins 2004 ef fjármögnunin gengur eftir eins og vonir standa til.
Í kjölfar sölunnar var ákveðið að andvirðið gengi til atvinnuskapandi aðgerða í nálægum sveitarfélögum sem hagsmuni eiga að gæta af starfrækslu hennar. Baðfélag Mývatnssveitar var fyrsta verkefnið sem naut góðs af þessu en það hefur stundað tilraunarekstur á náttúrulegum gufuböðum og látið athuga möguleika á uppbyggingu á bláu lóni úr affallsvatni Bjarnarflagsvirkjunar frá 1996.
Annað verkefni er samstarfverkefni með Íslenskri erfðagreiningu. Verkefnið felst í að þróa nýja aðferð við að einangra DNA úr blóði og kanna hvort hægt sé að stofnsetja arðbært fyrirtæki á Húsavík eða Mývatnssveit í tengslum við slíkt verkefni. Uppruni þessarar hugmyndar er rannsóknarvinna sem felst í grófum dráttum í því að meðhöndla blóðið þannig að það öðlist þann eiginleika að binda DNA við kísil. Þetta verkefni er þegar komið af stað og fer rannsóknar- og þróunarvinnan fram í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Bæði þessi verkefni tengjast nýrri atvinnustarfsemi sem á það sammerkt að hún byggist á sérstökum aðstæðum sem gefa byggðarlaginu hér visst samkeppnisforskot. Annarsvegar er um að ræða hagnýtingu aukaafurðar sem er affallsvatn frá gufuaflsstöð sem einhverjir vilja eflaust líta á sem náttúruspjöll, en með hugviti og framtaksemi verður breytt í mikilvæg verðmæti fyrir nýtt atvinnulíf.
Hinsvegar eru náttúruauðlindir Mývatns nýttar til að skapa mjög verðmæta afurð fyrir líftækniiðnaðinn þar sem hæst verð er greitt.
Ég dreg fram þessi tvö dæmi í þessu erindi vegna þess að ég vil leggja áherslu á tvennt.
Í fyrsta lagi að skynsamleg nýting náttúruauðlindanna fóstrar margbreytilega afleidda atvinnustarfsemi sem ekki væri grundvöllur fyrir án auðlindanýtingarinnar. Til stuðnings þessu hafa forystumenn upplýsingaiðnaðarins margsinnis bent á að hugbúnaðargerð á Íslandi væri ekki svipur hjá sjón ef greinin hefði ekki haft aðgang að fyrirtækjum sem nýttu auðlindir sjávarins með veiðum og vinnslu. Fyrstu og veigamestu spor upplýsingaiðnaðarins voru stigin í skjóli þessarar auðlindanýtingar.
Í öðru lagi vil ég með þessu draga fram þá staðreynd að atvinnulífið hér mun í framtíðinni ekki fyrst og fremst byggjast á hefðbundnum sjávarútvegi og landbúnaði eins og við þekkjum til greinanna nú. Það verður ný þekking og ný tækni sem mun móta framtíð þessara greina eins og annað í samfélagsgerð framtíðarinnar.
Einhverjir munu sjá í þessari framtíðarmynd ótakmörkuð tækifæri en aðrir lítið annað en ógnanir. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert er að óttast og hef því valið að draga upp framtíðasýn um atvinnutækifærin hér í kringum okkur eins og ég sé þau verða í náinni framtíð.
LÍFTÆKNI.
Líftækni er stöðugt uppi á borðinu í iðnaðarráðuneytinu og er lögð áhersla á að hlúð sé að henni hvort sem erfðaefnið á uppruna sinn í sjávarfangi, í hverum eða annarsstaðar. Líftækniiðnaðurinn er í mjög örum vexti og eru um 4.300 fyrirtæki starfandi í heiminum með um 190 þúsund starfsmenn. Það er mjög brýnt fyrir atvinnu- og efnahagsþróunina á Íslandi að okkur takist að ná góðri fótfestu í líftækniiðnaði enda getur hann orðið einn af hornsteinum farsællar byggðaþróunar hér á landi. Í iðnaðarráðuneytinu höfum við fyrst og fremst horft á þrjár megin áherslur í líftækninni sem allir geta tengst þessu atvinnusvæði. Þetta eru hitakærar örverur, sjávarlíftækni og plöntulíftækni.
Hitakærar örverur er að finna á öllum jarðhitasvæðum og er fjölbreytni þeirra sennilega hvergi meiri í heiminum en hér á landi. Fyrirtækið Prokaria vinnur að rannsóknum og þróun með hitakærar lífverur og er líklegt að afurðir þess muni í framtíðinni nýtast víða, t.d. iðnaði tengdum sjávarútvegi og landbúnaði.
Notkun líftæknilegra aðferða í fiskvinnslu og vinnsla lífefna úr sjávarfangi til að auka verðmæti afurða er eðlileg þróun atvinnulífs sem um aldaraðir hefur byggst á sjávarútvegi. Iðnaðarráðuneytið kostaði fyrr á þessu ári úttekt á möguleikum í sjávarlíftækni á Íslandi og er ljóst að þeir eru miklir. Ráðuneytið er nú með til skoðunar hvernig best verði að nýta þessa möguleika og sýnist mér að grundvöllur þess felist í því að stofnað verði til öndvegisseturs við Háskólann á Akureyri. Þar verði til kjarni vísinda- og tæknimanna sem hefði bolmagn til þess að hrinda í framkvæmd þeim rannsókna - og þróunarverkefnum sem líklegust eru til þess að verða atvinnu og tekjuskapandi innan stutts tíma.
Þó nokkur fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á þessu sviði á síðustu árum. Tvö nærtæk dæmi sitt hvorum megin við okkur eru annarsvegar Prímex á Siglufirði sem vinnur kítín og kítósan úr rækjuskel og stundar rannsókna- og þróunarstarf á sykrum úr kítósan. Hinsvegar er það Norðurís á Höfn í Hornafirði sem framleiðir bragðefni úr sjávarfangi fyrir innlenda og erlenda aðila en þar liggur til grundvallar ensímblanda sem unnin er úr þorskslógi. Hér á Húsavík er unnið að hugmyndum sem tengjast glúkosan. Þessi tækni er einkaleyfisvarin sem er oftast lykilatriði í þessari grein. Ég þykist vita að allmargir séu að þreifa fyrir sér á þessu sviði m.a. í líftækniframleiðslu þar sem ódýr gufa og rafmagn getur veitt þeim samkeppnisforskot.
Plöntulíftæknin gæti orðið mjög áhugaverð til þess að styrkja atvinnu til sveita. Almennt talað fjallar plöntulíftæknin um að erfðaefni sem stýrir framleiðslu á próteini með tiltekna eiginleika er flutt yfir í jurt sem unnt er að rækta með hefðbundnum landbúnaðaraðferðum. Þar með hefur plantan sem fékk erfðaefnið fengið nýtt hlutverk við að framleiða hið eftirsótta prótein. Til að skýra þetta nánar má t.d. hugsa sér að unnt geti verið að lengja vaxtartíma plantna og komast hjá kali og grasfalli á haustin með því að flytja erfðaefni úr lífveru sem lifir við mjög kaldar aðstæður yfir í nytjaplöntu.
Þrátt fyrir að þetta kunni að hljóma sem fjarlægir hugarórar þá er svo alls ekki. Líftæknin hefur nú þegar valdið straumbreytingum í ræktun nytjaplantna. Í stað kostnaðarsamra aðgerða til að vernda plöntur gegn umhverfinu er nú hægt að breyta þeim í samræmi við umhverfisaðstæður á ræktunarstaðnum. Þannig er hægt að rækta plöntur sem eru ónæmar fyrir skordýrum og plágum, auka vítamíninnihald plantna o.s.frv.
Íslendingar hafa tekið þátt í þessari þróun og er skemmst að minnast þess að í nóvember sl. tilkynnti líftæknifyrirtækið ORF hf. að því hafi tekist að erfðabæta bygg til að framleiða verðmæt sérvirk prótein í byggfræjum. Slík fínhreinsuð prótein framleidd með erfðatækni nýtast til margra hluta s.s. í lyfjagerð, fyrir iðnað eða í landbúnaði. Þessi tíðindi eru jafn mikilvæg fyrir íslenskan iðnað og landbúnað. Um gæti verið að ræða að til verði sérstakt afbrigði af byggi sem hefði í fræi sínu próteinefni sem unnt væri að nota sem hráefni í t.d. lyfjagerð. Það er ljóst að hér í sýslunni eru allgóðar aðstæður til að rækta bygg og vel má hugsa sér að framleiðsla byggs, kartaflna eða annarra erfðabættra plantna gæti orðið mikilvægur þáttur í framleiðslu bænda í framtíðinni. Jafnframt myndi skapast grundvöllur fyrir iðnaðarframleiðslu þar sem uppskera bænda færi í vinnslu til að vinna hið eftirsótta prótein úr plöntunni.
Annað nátengt mál kom upp í huga mér nú á dögunum þegar ég ók á milli Mývatnssveitar og Húsavíkur og við mér blöstu breiður af blómstrandi lúpínum, - að e.t.v. ættu hugmyndir þeirra sem standa að Íslenska lífmassafélaginu ekki síður við hér fyrir norðan en á Suðurlandi. Iðnaðarráðuneytið hefur fylgst með þessu verkefni um margra ára skeið en það gengur út á það að rækta lúpínu í stórum stíl og brugga úr henni etanól og fleiri efni. Grundvöllur hagkvæmni verkefnisins liggur í aðgengi að ódýrri gufuorku sem hér býðst ekki síður en fyrir sunnan. Önnur forsenda er ræktunarsvæði, en gróðursnauða sanda er hér víða að finna eins og á Suðurlandi. Rannsóknir vegna undirbúnings lífmassaverksmiðju er nú í fullum gangi og veitti Evrópusambandið nýlega 60 milljóna króna styrk til rannsóknaverkefnisins sem verður á höndum öflugs alþjóðlegs rannsóknarhóps undir forustu Íslendinga.
Upplýsingaiðnaður
Þrátt fyrir krepputalið síðustu misseri hefur upplýsingaiðnaðurinn haldið sínu striki. Þannig óx útflutningur hugbúnaðar um 360 milljónir króna, á föstu gengi, á milli áranna 2000 og 2001 eða um rúm 12 %. Útflutningur hugbúnaðar hefur að auki tífaldast síðustu 11 árin og hefur nú markað afgerandi spor í íslenskar hagskýrslur enda var útflutningurinn orðinn 1.1% af heildarútflutningi vöru og þjónustu í fyrra - árið 2001.
Þrátt fyrir þessa aukningu í útflutningi og lítilsháttar samdrátt í starfsmannafjölda í greininni hafa síðustu tvö árin verið erfið rekstaralega séð fyrir upplýsingaiðnaðinn. Fyrirtækin hafa brugðist við þessu með því að sameinast og jafnframt hafa mörg hin smærri fyrirtæki verið keypt upp af þeim stærri. Þá hefur markaðssetning þeirra verið tekin til gagngerrar endurskoðunar í hagræðingarskyni.
Fram hjá því verður þó ekki litið að mörg sprotafyrirtæki sem fyrst sáu dagsins ljós á árunum 1998 til 2000 hafa ekki náð settum markmiðum og sum orðið gjaldþrota. Ein ástæða þess er að áhættufjármagn sem nóg virtist af á árunum 1998 og 1999 hefur að langmestu horfið af markaðinum og fjárfestar halda almennt að sér höndum.
Þessi skortur á fjármagni til sprotafyrirtækja og þeirra sem vilja og þurfa að stunda nýsköpun er afleitur en von mín er að úr bætist þegar frumvarp mitt til laga um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins verður að lögum, sem e.t.v. gæti orðið fyrir jól. Þá verður til nýr sjóður sk. Tækniþróunarsjóður sem er ætlað að styðja sérstaklega við nýsköpunarstarfið í landinu og ný sprotafyrirtæki.
Efling á stoðkerfi atvinnulífsins
Annað mikilvægt atriði í þessu frumvarpi er að þar er kveðið á um stofnsetningu og rekstur Nýsköpunarmiðstöðvar. Þar á að verða til ferskt og framsækið stuðningskerfi fyrir atvinnulífið. Undir þessar hugmyndir er tekið í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002-2005 og hef ég á grundvelli þess tekið ákvörðun um að í byrjun desember verði opnuð nýsköpunarmiðstöð á Akureyri til að efla atvinnuþróunina á landsbyggðinni. Starfsemin mun hafa sterkt bakland þar sem er starfsemi Iðntæknistofnunar og IMPRU sem er þjónustumiðstöð fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem rekin er hjá Iðntæknistofnun.
Sú atvinnuþróun sem ég geri hér að umfjöllunarefni byggist að miklu leyti á nýrri þekkingu og mun það verða eitt af meginhlutverkum Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að miðla henni til atvinnulífsins á landsbyggðinni. Þessi þróun mun einnig byggjast á notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni sem eru grunnstoðir upplýsingasamfélagsins. Því miður er það svo að upplýsingasamfélagið hefur átt erfiðara uppdráttar úti á landi en í þéttbýlinu fyrir sunnan og er brýnt að bregðast við því.
Ég hef því ákveðið að hrinda í framkvæmd verkefni til að rétta hlut landsbyggðarinnar og verður reynsluverkefni er nefnist "rafrænt samfélag" hleypt af stokkunum innan fárra vikna. Reynsluverkefnið gengur út frá því að tvö byggðalög á starfssvæði Byggðastofnunar verða valin í kjölfar samkeppni til að þróa og prófa aðferðir sem aðrir geta tekið sem fyrirmyndarlausnir við eflingu atvinnulífsins, til að bæta menntun og menningu og efla lýðræðið - svo nokkuð sé nefnt.
Rafrænt samfélag er samkeppni þar sem tvö byggðalög verða valin til þess að annast þróunarverkefni sem á að geta orðið öðrum byggðalögum á Íslandi til eftirbreytni um bestu aðferðir til þess að innleiða gæði upplýsingasamfélagsins í daglegt líf borgaranna og starfsemi fyrirtækja, skóla og annarra. Markmiðið er að skapa aðstæður á landsbyggðinni svo íbúarnir geti til fullnustu nýtt sé þann ávinning sem upplýsinga- og fjarskiptatæknin býður upp á.
Í samkeppninni felst að ríkið er tilbúið til þess að leggja fram ákveðna upphæð til verkefna er tengjast upplýsingasamfélaginu gegn minnst jafnhárri upphæð heimamanna á móti. Þróunarverkefnið verði í þrjú ár og á þeim tíma náist að skilgreina hvaða leiðir séu best til þess fallnar að auka lífsgæði, menntun, menningu og nýsköpun atvinnulífsins. Ég á von á að verkefnið verði kynnt fyrir öllum sveitarfélögum á landinu innan mög stutts tíma.
Húsavík og héruðin í kring geta mætt sterk til þessarar samkeppni um rafrænt samfélag. Útbreiðsla ljósleiðarans hér gerir að innviðirnir eru óvíða sterkari og í ljósi þess að sjúkrahúsið hefur verið í fararbroddi í fjarlækningum og fjarþjónustu verður að álykta að upplýsinga- og fjarskiptatæknin geti haft veruleg áhrif á framtíðarþróun atvinnulífsins hér.
OLÍA OG GAS
Ágætu fundarmenn. Að lokum langar mig til að minnast á að talið er hugsanlegt að nýtanlegar olíu- eða gaslindir kunni að leynast á íslenskum hafsvæðum og er þar einkum litið til Jan Mayen og Hatton-Rockall svæðanna en einnig til setlagasvæðanna hér úti fyrir Norðurlandi. Með lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2000 skapaðist grundvöllur fyrir leit að olíu og gasi á landgrunninu.
Í kjölfar lagasetningarinnar hefur áhugi erlendra aðila á olíuleit á íslensku hafsvæðunum farið vaxandi. Fjölmargir aðilar hafa óskað eftir upplýsingum um fyrirkomulag olíuleitarmála og fjögur olíuleitarfyrritæki hafa komið til frekari viðræðna við stjórnvöld. Tveimur norskum olíuleitarfyrirtækjum, InSeis og TGS-NOPEC, hefur verið veitt leyfi til leitar á Jan Mayen svæðinu og hafa þau bæði framkvæmt hljóðendurvarpsmælingar þar.
Ekki liggja fyrir neinar áreiðanlegar vísbendingar um að olíu sé að finna í vinnanlegum mæli á íslensku hafsvæðunum. Það er þó ljóst að ákveðin bjartsýni ríkir hjá þeim aðilum sem hafa fengið leyfi til leitar á Jan Mayen-svæðinu.
Olíuleit er ákaflega kostnaðarsöm og það er stefna stjórnvalda að ríkið beri ekki verulegan kostnað af slíkri starfsemi. Skynsamlegra er að veita fyrirtækjum sem þess óska leyfi til leitar. Starfshópur sem gerði úttekt á olíuleit við Ísland fyrir iðnaðarráðuneytið árið 1998 taldi þó skynsamlegt að ríkið fjármagnaði vissar undirbúningsrannsóknir á landgrunninu úti fyrir Norðurlandi í þeim tilgangi að afla upplýsinga sem gætu laðað erlend olíufyrirtæki til samstarfs um frekari leit á þessu svæði.
Rannsóknirnar hafa leitt í ljós að vottur af olíu- eða kolagasi streymir upp til yfirborðs víðar á söndum Öxarfjarðar en áður var talið. Ennfremur hefur komið í ljós að surtarbrandslög eins og þau sem er að finna í setlögum á Tjörnesi geta við réttar aðstæður orðið uppspretta fyrir gas og hugsanlega olíu. Hér gæti því verið komin skýring á gasuppstreyminu í Öxarfirði. Mælingar hafa einnig sýnt ótvíræð ummerki um að gas sé til staðar grunnt í setlögum í austurhluta Skjálfanda. Hugsanlegt er að um sé að ræða svipað gas og streymir upp til yfirborðs á söndum Öxarfjarðar.
Ekki er ástæða til að gera of mikið úr þessum rannsóknaniðurstöðum á þessu stigi málsins, en vonir standa til að þessar vísbendingar muni vekja áhuga olíufyrirtækja á að hefja olíuleit á landgrunni Norðurlands.
Ég vil slá botninn í þetta með því að leggja áherslu á að breytingarnar í þróun atvinnulífsins eru stöðugt hraðari og hraðari og líftími nýjunganna styttist að sama skapi. Framtíðin mun bera í skauti sér atvinnuhætti sem við kunnum engin skil á í dag og sem mun byggja á vísindaþekkingu sem okkur órar ekki fyrir. Endurnýjun atvinnulífsins og grundvöllur efnahagslegrar- og félagslegrar velferðar mun því í framtíðinni byggja á nýrri þekkingu sem í auknum mæli mun gera þá kröfu til okkar allar að við tileinkum okkur ævilanga símenntun.
Þessari þróun hefur verið reynt að mæta í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum með margvíslegum hætti. M.a. með því að stuðla að stöðugri vinnu við að auka þekkingu á orkuauðlindum okkar og nýtingu þeirra, með lögum um rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með nýrri löggjöf um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun atvinnulífsins, og með þeim fjölmörgu aðgerðum sem byggja á Þingsályktun um aðgerðir byggðamálum fyrir árin 2002-2005.
Góðir fundarmenn,
Ég hef hér hlaupið á þeim málum sem ég tel að eigi erindi við ykkur þegar orku- og iðnaðarmál tengd Þingeyjarsýslum eru til umfjöllunar. Sú breyting sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi á þeim tíma sem ég hef setið á Alþingi, er mikil. Það eru nú 15 ár. Við erum að fóta okkur í breyttu rekstrarumhverfi sem að sumu leyti er tilkomið vegna aðildar okkar að EES, en að öðru leyti er heimatilbúið.
Nú snýst allt um að standa sig í samkeppni á opnum markaði. Til þess að landsbyggðin verði ekki undir í þeirri samkeppni er mikilvægt að nýta þær auðlindir sem þar er að finna.
Auðlindir okkar Þingeyinga eru ekki síst, það sem ég nefndi hér í upphafi, jarðhitinn. Ég vona að okkur takist að halda þannig á málum að hann verði til þess að auðga atvinnulíf og fjölga störfum í Þingeyjarsýslu.