Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. desember 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri.

    Valgerður Sverrisdóttir,
    iðnaðar- og viðskiptaráðherra

    Ávarp í tilefni af opnun Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri
    6. desember 2002.


    Ágætu gestir.
    Ný byggðaáætlun var samþykkt á vorþinginu fyrr á þessu ári. Þar ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 2002-2005.

    Áætlunin byggir á fimm markmiðum, sem efnislega miða að því að draga úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðalaga í landinu. Þessum markmiðum á að ná m.a. með því að aðstoða byggðalögin við að aðlaga sig að hröðum breytingum í atvinnuháttum og veita markvissan stuðning við atvinnuþróun er leitt geti til þess að auka fjölbreytni atvinnulífsins.

    Veigamikill þáttur í því er rekstur Nýsköpunarmiðstöðvar á Akureyri sem hér verður til húsa.
    Ljóst er að starfsskilyrði atvinnuveganna eru nokkuð mismunandi eftir byggðalögum og landshlutum. Þau byggðalög sem hvað mest hafa verið háð hefðbundnum sjávarútvegi og landbúnaði hafa búið við erfiðari afkomu en þau sem notið hafa fjölbreyttara atvinnulífs. Þessum vanda er brýnt að mæta og jafna mismuninn. Til þess að snúa vörn í sókn þarf að stuðla að því að ný störf geti orðið til á landsbyggðinni. Ekki er við því að búast að fjölgun verði í hefðbundnum störfum eins og við þekkum þau nú - en æskilegast er að ný störf geti byggt á þeim atvinnuhefðum sem fyrir eru í byggðalögunum.

    Afkoma íslenskra fyrirtækja og um leið okkar allra, íbúa landsins, byggist á því að geta boðið betri vörur og þjónustu en aðrir á samkeppnishæfu verði. Við þurfum að hafa hugfast að við erum hluti af hinum alþjóðlega samkeppnismarkaði, sem hefur þjónað hagsmunum okkar vel og gert hinum tiltölulega litlu íslensku fyrirtækjum kleift að ná undraverðum árangri. Árangurinn er fyrst og fremst að þakka aukinni þekkingu og hæfni starfsmanna á ýmsum sviðum atvinnulífsins, sem er og verður undirstaða þess að byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni eflist og dafni.

    Kröfur markaðarins til atvinnulífsins eru stöðugt að aukast sem aftur leiðir til þess að kröfur atvinnulífsins um menntun og þekkingu starfsfólks vex að sama skapi. Atvinnuuppbyggingin þarf því að taka ríkulega tillit til þess að efla menntun hvarvetna í samfélaginu og að fjölga þarf sérhæfðum störfum og auka atvinnutækifæri fyrir sérhæft og menntað fólk á landsbyggðinni.

    Slíkt gerist aftur á móti ekki af sjálfu sér eða í einni andrá. Allur þorri almennings þarf að átta sig á mikilvægi símenntunar og tileinka sér hana. Fyrirtækin hafa einnig verk að vinna en þau þurfa að taka upp markvissa starfsmannaþróun, ástunda nýsköpun og stöðugar umbætur á framleiðslu sinni.

    Þrátt fyrir að hlutverk stjórnvalda sé fyrst og fremst að skapa atvinnulífinu hagstæð ytri skilyrði verður ekki framhjá því litið að þau hafa einnig veigamiklu hlutverki að gegna í sértækari stuðningi við atvinnuþróunina. Þetta kemur vel fram í Byggðaáætluninni þar sem m.a. er lögð á það áhersla að veita frumkvöðlum, jafnt og starfandi fyrirtækjum, aðgang að öflugu stuðningskerfi. Áhersla er lögð á að uppbygging stuðningskerfisins verði til að efla þá starfsemi sem fyrir er á hverjum stað, t.d. staðbundin atvinnuþróunarfélög.
    Atvinnuþróunin á landsbyggðinni hefur um langt árabil verið í höndum heimamanna á hverju svæði og er mikilvægt að svo verði áfram. Heimamenn þekkja best eigin styrkleika og vita jafnframt hvar skóinn kreppir varðandi þróun atvinnulífsins. Frumkvæðið í þróunarstarfinu verður því að vera áfram heima í héraði, hjá einstaklingum, fyrirtækjun og sveitastjórnum og vil ég leggja á það áherslu að ekki er ástæða til þess að breyta starfsemi atvinnuþróunarfélagannna eða annarra sem nú starfa að atvinnuþróunar- og nýsköpunarmálum vegna tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

    Til þess að starf þeirra geti eflst og dafnað enn frekar, og að þau verði í stakk búin til að takast af afli á við atvinnuþróunina sem framundan er, þurfa þau aftur á móti að fá sterkara bakland heldur en þau hafa haft aðgang að fram til þessa. Mikilvægi þessa verður augljóst ef haft er í huga að árangur okkar í framtíðinni mun að verulegu leyti byggjast á nýrri þekkingu og reynslu sem leitt getur til uppbyggingar nýrra atvinnugreina jafnframt því að nýsköpun í hefðbundnum atvinnugreinum eflist.

    Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri á að vera þetta bakland sem veita mun faglega ráðgjöf og leiðsögn en jafnframt reka stuðningsverkefni sem sérstaklega eru til þess fallin að efla nýsköpun atvinnulífsins og atvinnuþróunina almennt. Að baki Nýsköpunarmiðstöðvarinnar stendur Iðntæknistofnun Íslands með sitt breiða fagsvið og verðmætu reynslu.

    Með tilkomu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri er stigið fyrsta skrefið í því að endurskipuleggja þróunarstarfið á landsbyggðinni. Fram til þessa hefur það verið um of brotið upp og fastbundið atvinnugreinum og verkaskiptingu ráðuneytanna. Það er ljóst að atvinnuþróunin fylgir ekki þessari skiptingu eins og uppýsingaiðnaður er gott dæmi um og líftæknin sennilega enn betra.

    Líftæknin er vísindagrein sem hefur þróast í arðvænlegan iðnað. Líftækniiðnaðurinn byggir að stofni til á erfðaefni úr náttúrunni, t.d. úr sjó eða lífríki landbúnaðarins. Líftækniiðnaðurinn er t.d. svo tengdur landbúnaði að ég get auðveldlega séð fyrir mér að í framtíðinni rækti norðlenskir bændur plöntur sem verði grunnefni fyrir líftækniiðnaðinn. Spurninguna um hvort slíkt ætti að teljast til landbúnaðar eða iðnaðar, eða hvar mörkin á milli þeirra liggja, verðum við að forðast en í stað þess að reyna að einbeita okkur að þeim samlegðaráhrifum sem samræmt þróunarstarf getur leitt af sér.

    Ég geri þetta að umfjöllunarefni vegna þess að Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri á að þjóna öllu atvinnulífinu - án tillits til þess hvar hráefni þess er upprunnið. Allir eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar eins og hlutverk hennar segir til um.
    Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri er hluti af þeim aðgerðum sem iðnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir til þess að ná fram markmiðum Byggðaáætlunarinnar - og er sú fyrsta þeirra sem formlega er komin til framkvæmdar. Nýsköpunarmiðstöðin tengist einnig víðtækri breytingu á aðkomu ríkisins að opinberum stuðningi við vísindastarfsemi, tækniþróun og nýsköpun atvinnulífsins. Um þetta er fjallað í þremur samstæðum frumvörpum sem flutt eru af forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra, og eru nú til umfjöllunar hjá Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málaflokknum verði færð á efsta stig stjórnsýslunnar og undir fomennsku forsætisráðherra sem stýri sérstöku Vísinda- og tækniráði er móti stefnu ríksistjórnarinnar til þriggja ára í senn.

    Sá hluti málsins sem frumvarp mitt fjallar um tekur til opinbers stuðnings við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins. Meðal nýmæla þar er að á vegum Iðntæknistofnunar Íslands verði rekin nýsköpunarmiðstöð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki er þjóni öllum íslenskum atvinnugreinum í samræmi við hlutverk sitt. Einnig er gert ráð fyrir að til verði svokallaður Tækniþróunarsjóður sem er ætlað að styðja rannsóknir og tækniþróun sem miðar að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Tækniþróunarsjóðurinn er nýjung sem lengi hefur skort til að efla nýsköpun atvinnulísins.
    Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri mun fyrst og fremst beina kröftum sínum að atvinnuþróuninni á landsbyggðinni og mun beita þeim aðferðum sem líklegastar eru til árangurs við eflingu atvinnulífsins. Búið er að fara rækilega yfir og meta þau verkefni sem best hafa reynst fram til þessa og eru þau sett fram sem meginviðfangsefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar. Engu að síður er það augljóst að við verðum að viðhafa stöðuga endurskoðun og endurnýjum á uppbyggingu verkefnanna til þess að ná settum markmiðum. Um þessi verkefni verður fjallað hér á eftir og því ástæðulaust að fjölyrða um þau nú.

    Til viðbótar þessum föstu verkefnum, sem mynda grunn starfseminnar hér, er til skoðunar að fela Nýsköpunarmiðstöðinni f.h. ráðuneytisins að reka önnur og sértækari samstarfsverkefni sem ráðuneytið vill beita sér fyrir.

    Ég tel að árangur í byggðaþróuninni verði mestur með því að fleiri leggist á eitt um að ná markmiðunum sameiginlega. Ljóst er að mörg veigamikil verkefni í byggðamálum eru á verksviði annarra ráðuneyta en iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta. Ég hef áður minnst á mikilvægi menntunar á öllum skólastigum og einkum þó mikilvægi símenntunar, sem ég hef stundum nefnt - eitt af þungaviktarmálum atvinnuþróunarinnar. Það er því eðlilegt að iðnaðarráðuneytið leggist á sveif með menntamálaráðuneytinu til að efla símenntun á landsbyggðinni.

    Einnig get ég ítrekað þá skoðun mína að líftækniiðnaðurinn muni gegna veigamiklu hlutverki í framtíðinni - m.a. fyrir þá sem nú starfa í landbúnaði og við sjávarútveg. Í ljósi þessa tel ég vel koma til greina að iðnaðarráðuneytið komi að þróunarverkefnum á þessum sviðum í samvinnu við landbúnaðarráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og menntamálaráðuneytið vegan háskólarannsókna - svo dæmi séu tekin. Ótvírætt væri til bóta að við Háskólann á Akureyri gæti orðið til sterkur rannsókna- og þróunarkjarni í líftækni, með sérstakri áherslu á plöntulíftækni og sjávarlíftækni.

    Ágætu gestir.
    Í dag er stigið veigamikið spor við að hrinda byggðaáætluninni fyrir árin 2002-2005 í framkvæmd. Opnun Nýsköpunarmiðstöðvarinnar á Akureyri er fyrsta verkefnið af mörgum sem fylgja í kjölfarið til að styrkja búsetuna í landinu.

    Byggðalögin og sveitarfélögin marka umgjörð um daglegt líf og athafnir okkar og eru vettvangur íbúanna til samstarfs og sameiginlegra ákvarðana. Ég tel mikilvægt að ákvarðanir og frumkvæði um atvinnuuppbygginu verði óskertar á hendi íbúanna - og þeir studdir með ráðum og dáð til að ná betri árangri í störfum sínum. Það er bjargföst trú mín að Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri mun reynast atvinnuþróuninni á landsbyggðinni traustur bakhjarl.

    Með þessum orðum lýsi ég því yfir að Nýsköpunarmiðstöðin á Akureyri er formlega tekin til starfa.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta