Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. desember 2002 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun á heimasíðu Byggðarannsóknarstofnunar á Akureyri.

Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Opnun á heimasíðu
Byggðarannsóknarstofnunar á Akureyri
6. desember 2002.

Góðir gestir,
Ráðuneytið hefur átt mjög gott samstarf við Byggðarannsóknarstofnun en hún var sett á laggirnar árið 2000 með samstarfssamningi milli Byggðastofnunar, iðnaðarráðuneytisins og Háskólans á Akureyri. Hlutverk stofnunarinnar er margvíslegt m.a. að annast gerð rannsóknaáætlana og framkvæmd þeirra, stuðla að samvinnu við innlenda og erlenda aðila á þessu sviði, standa fyrir ráðstefnum, umræðufundum, fyrirlestrum og fræðslustarfsemi, að annast þjónusturannsóknir og að standa fyrir útgáfu rita og söfnun bóka, tímarita o.fl um byggðamál.

Eins og sjá má af þessari upptalningu er starfsemin nokkuð víðtæk. Það er hins vegar bæði mikilvægt og ánægjulegt að tekist hefur að efla rannsóknir á sviði byggðamála hér á landi með starfsemi þessari. Í okkar samkeppnislöndum er starfsemi og rannsóknir á þessu sviði öflug, enda talin mikilvæg sem hluti af byggða- og hagstjórn einstakra svæða og landa.

Þannig má m.a. sjá öflugt starf á sviði byggðamála hjá virtri stofnun eins og OECD, sem hefur aukið rannsóknir, athuganir og ráðgjöf á sviði byggðamála. Þetta gefur sterka vísbendingu um að byggðamál eru ekki eitthvað sem er "úrelt eða gamaldags" - heldur er starf á þessu sviði mikilvægur hlekkur í samræmdri og skilvirkri byggða-, skipulags- og hagstjórn einstakra svæða og landa, þar sem alþjóðavæðing og samstarf óháð landamærum skiptir sífellt meira máli. Starf á þessu sviði hér á landi er því afar mikilvægt.

Nú á tímum upplýsingaþjóðfélags, er framboð af margvíslegum upplýsingum frá fyrirtækjum og stofnunum sífellt að aukast - ekki síst með miðlun á alnetinu – samhliða því að kröfur neytenda á þessu sviði verða sífellt meiri og sérhæfðari. Það er því sérstakt ánægjuefni að Byggðaþróunarstofnun hefur nú þróað heimasíðu þar sem finna má margvíslegar og fróðlegar innlendar sem erlendar upplýsingar um byggðamál.

Á þessari síðu má m.a. finna gagnvirkan grunn með rannsóknum, athugunum og skýrslum sem ritaðar hafa verið um byggðamál á Íslandi, víðtækt safn af tenglum sem gagnast geta þeim sem eru að stunda byggðarannsóknir, m.a. yfir erlendar stofnanir sem stunda rannsóknir á byggðamálum og síðast en ekki síst er ráðgert að setja á laggirnar fréttabréf á síðunni sem koma á út á 1 - 2 mánaða fresti.

Mikinn fróðleik um byggðamál má því finna á þessari síðu, sem aðgengilegur verður rannsóknaraðilum, nemendum sem og öllum almenningi. Það er vissa mín að þetta skref verði til að efla enn frekar markvissa og faglega umfjöllun um byggðamál hér á landi og sú umfjöllun fái þann faglega sess sem henni ber, þó á það hafi stundum skort. Hagsmunir okkar allra kalla á slíkt, hvort sem við búum í þéttbýli eða dreifbýli. Til að auka samkeppnishæfni og lífskjör einstakra svæða sem og landsins alls, þurfum við auknar upplýsingar, samhliða faglegri vinnu, frumkvæði og atorku, hvort sem um er að ræða byggðamál eða önnur málefni.

Góðir gestir,

Ég óska Byggðarannsóknarstofnun til hamingju með nýja, athyglisverða og framsækna heimsíðu, sem um leið lýsir

faglegu og markvissu starfi stofnunarinnar. Ég segi heimasíðu stofnunarinnar hér með opna.


Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta