Þingsályktunartillögur um samgönguáætlun
Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögum um samgönguáætlun. Önnur er rammaáætlun fyrir árin 2003–2014 og hin sundurliðuð fyrir árin 2003-2006.
Aðdragandi:
Miklar og vaxandi kröfur hafa verið gerðar um hraðari uppbyggingu samgöngukerfisins eins og fjölmargar ályktanir frá sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum bera vott um. Í þingsályktunartillögunum sem hér eru lagðar fram er í fyrsta sinn lögð fram heildstæð áætlun um rekstur og uppbyggingu samgangna sem tekur til allra samgöngumáta en markmiðið með samræmdri áætlun er fyrst og síðast að auka hagkvæmni. Eins og tillagan ber með sér er verkefnið risavaxið og ekki hægt að verða við óskum allra. Framkvæmdaþörfin blasir við en við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti.
Þegar mælt var fyrir lögum um gerð samgönguáætlunar var fjallað um aðdraganda þess að samræma áætlanagerð í samgöngumálum. Þar var sagt frá stýrihóp sem ég skipaði til þess að vinna tillögu að samgönguáætlun. Hann skilaði af sér í desember 2001.
Í framhaldinu lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um gerð samgönguáætlunar sem var samþykkt á vordögum 2002 sem lög um samgönguáætlun nr. 71/2002.
Við vinnslu samgönguáætlunar var tekið fullt tillit til ábendinga Ríkisendurskoðunar sem fram komu í desember 1998 en þar var bent á skort á samræmingu áætlana.
Breytt vinnubrögð
Með lögum um samgönguáætlun er öllu vinnulagi gjörbreytt. Lögin kveða á um skipun samgönguráðs. Samgönguáætlun kemur í stað sex eldri áætlana um samgöngumál, þ.e. flugmálaáætlunar, hafnaáætlunar, sjóvarnaráætlunar, langtímaáætlunar um öryggi sjófarenda, vegáætlunar og langtímaáætlunar í vegagerð. Þá tekur hún tillit til umferðaröryggisáætlunar. Áætlunin nær jafnframt til rekstrarútgjalda Vegagerðarinnar, Flugmálastjórnar og Siglingastofnunar sem ekki var fjallað um í fyrri áætlunum. Þá er mörkuð stefna til framtíðar í samgöngumálum þ.m.t. í öryggismálum og umhverfismálum.
Áætluninni er ætlað að stuðla að víðtæku samstarfi stofnana í samgönguráði, m.a. á sviði rannsókna.
Þá gera lögin ráð fyrir aukinni aðkomu helstu notenda og hagsmunaaðila að gerð samgönguáætlunar m.a. með opnu samgönguþingi sem halda á minnst einu sinni við gerð hverrar samgönguáætlunar. Einnig er lögbundið að hafnaráð og flugráð gefi ráðherra umsögn um tillögu samgönguráðs.
Stefnumótun samgönguáætlunar
Í henni er sett fram stefna í samgöngumálum til næstu 12 ára auk þess sem gerð er grein fyrir almennum forsendum og spáð fyrir um þróun ýmissa lykilstærða.
Í þingsályktunartillögunni sem hér er mælt fyrir eru eftirfarandi fjögur megin markmið.
Fyrst er markmið um greiðari samgöngur. Hér undir falla flestallar framkvæmdir við uppbyggingu og endurbætur samgöngukerfisins. Einnig er lögð áhersla á að sköpuð verði skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til eða frá höfuðborgarsvæðinu hvert á land sem er innan þriggja og hálfrar klukkustundar. Loks er sett fram að almenningssamgöngur í lofti, á sjó og á landi verði skipulagðar þannig að þéttbýlisstaðir með 200 íbúa eða fleiri eigi kost á þeim.
Annað markmið er um hagkvæmni við uppbyggingu og rekstur samgangna. Í samgönguáætlun er enn fremur áformað að nýta markaðsöflin við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins enn frekar en nú er.
Þriðja markmiðið er um umhverfislega sjálfbærar samgöngur m.a. varðandi vetnisnotkun.
Loks er fjórða markmiðið um öryggi í samgöngum og er ástæða til þess að vekja sérstaka athygli á verkefnum sem ætlað er að bæta öryggi.
Í þessari samgönguáætlun er aukin áhersla lögð á uppbyggingu vegakerfisins. Þetta er stefnubreyting þar sem litið er svo á að byggingu nýrra flugvalla og nýrra hafna sé lokið nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Framkvæmdir í höfnum og flugvöllum miðast við að bæta aðstöðu og bregðast við auknum kröfum og þróun á sviði flugs og siglinga.
Ein mikilvægasta einstaka aðgerðin í þessari nýju langtímaáætlun er skilgreining grunnnets eða burðarnets samgangna sem nær til samgöngumátanna þriggja.
Með grunnneti er átt við þau mannvirki sem mynda eðlilegt, samfellt samgöngukerfi um landið allt. Umferðin er mest í grunnkerfinu og því mikilvægt að það njóti forgangs.
Í þessari áætlun er einnig unnið að því að bæta samgöngur fyrir ferðaþjónustuna með uppbyggingu hálendisvega og öðrum aðgerðum og verður fjallað um sumar þeirra hér á eftir.
Fjármál
Heildarfjármagn til samgöngumála hefur stóraukist á undanförnum árum. Í samgönguáætlun heldur þessi þróun áfram, því enn eykst fjármagnið til vegamála. Tillagan gerir ráð fyrir að tæplega 240 milljörðum króna verði varið til samgöngumála næstu tólf árin. Þrátt fyrir þessa miklu fjármuni er ekki nægt fjármagn fyrir hendi til þess að uppfylla öll markmiðin í uppbyggingu vega fyrstu 12 árin. Það liggur fyrir að enn vantar fé sem nemur framkvæmdafé rúmlega eins fjögurra ára tímabils til þess að markmið náist.
Fáar þjóðir ef nokkrar verja jafn stórum hluta ríkisútgjalda til vegamála. Þessi staðreynd undirstrikar hina miklu þörf, sem er fyrir bættar vegasamgöngur. Meiri hluti fjárins fer til stofnkostnaðar, þ.e. til nýrra mannvirkja og undirstrikar það enn hve margt er ógert á vegakerfinu.
Fámenn þjóð í stóru landi með erfiða veðráttu verður að leggja hlutfallslega meira af mörkum til þessa málaflokks en títt er um þær þjóðir, sem við berum okkur gjarnan saman við.
Flugmál
Útgjöld til flugmála hafa aukist á undanförnum árum sem skýrist aðallega af auknum umsvifum Alþjóðaflugþjónustunnar og er búist við áframhaldandi vexti hennar. Umsvif þjónustunnar eru m.a. fjármögnuð af yfirflugsgjöldum. Áætlunin gerir ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu flugmála og í samgönguáætlun eru eftirfarandi áfangar skilgreindir:
* Á fyrsta tímabili er stefnt að því að flugvellir í flokki I uppfylli auknar kröfur vegna aðflugs, öryggis og flugverndar.
* Á öðru tímabili er stefnt að því að flugvellir í flokki II uppfylli kröfur til bygginga og einnig kröfur til flugbrauta og hlaða þar sem því verður við komið. Í lok 12 ára tímabilsins ættu því flugvellir í grunnneti að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til flugvalla í flokkum I og II að svo miklu leyti sem það er hægt af landfræðilegum ástæðum.
Sett er í forgang að ljúka þeim verkefnum sem varða flugöryggi. Víða þarf að bæta þær byggingar sem hýsa búnað sem notaður er til rekstrar flugvalla. Þá verður unnið að endurnýjun öryggis- og björgunarbúnaðar í samræmi við hertar kröfur. Loks verður vopnaleitarbúnaðar settur upp í samræmi við nýjar kröfur.
Í samgönguáætlun er stefnt að byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli og er gert ráð fyrir að hún verði fjármögnuð a.m.k. hluta til með einkaframkvæmd. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til hennar á flugmálaáætlun og verður það skoðað sérstaklega. Þó er gerð flughlaðs við stöðina á flugmálaáætlun.
Helstu markmið í rekstri flugmála á áætlunartímanum eru innleiðing nýrra rekstrarkerfa, s.s. öryggisstjórnunarkerfis og annarra gæðastjórnunarkerfa sem auka öryggi, skilvirkni og gæði þjónustunnar á flugvöllum og í flugumferðarþjónustu.
Markmiðin hér að framan miða að því að uppfylla staðla eins og þeir eru í dag.
Í áætluninni er lögð mikil áhersla á flugöryggismál og er m.a. áformað að tryggja aðkomu Íslands að nýrri stofnun Evrópusambandsins á sviði flugöryggis. Sú stofnun byggir á starfsemi og reglum flugöryggissamtaka Evrópu.
Flugmál næstu fjögur ár
Á undanförnum árum hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á sviði flugmála. Langviðamesta verkefnið er endurbygging Reykjavíkurflugvallar. Dæmi um önnur stór verkefni eru stækkun og endurbætur flugstöðva í Vestmannaeyjum, Akureyri og á Egilsstöðum og ný flugstöð í Grímsey. Helstu verkefni sem fyrirhuguð eru á næstu fjórum árum er endurbygging flughlaðs á Reykjavíkurflugvelli, endurnýjun flugbrautarljósa á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, nýr flugturn á Ísafirði og ný flugstöð á Bakkaflugvelli.
Ljóst er að mikil áhersla verður á flugvernd og öryggismál á næsta fjögurra ára tímabili. Vegna krafna um vopnaleit í millilandaflugi sem tóku gildi 1. janúar sl. þarf að kaupa talsverðan búnað á Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.
· Áformað er að taka út og votta alþjóðaflugvelli hér á landi samkvæmt nýjum kröfum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar fyrir lok ársins
· Áhersla verður lögð á stöðugt betri skráningu smárra og stærri flugatvika í samræmi við það sem aðrar Evrópuþjóðir munu gera.
Siglingamál
Mestu útgjöldin í siglingamálum eru til framkvæmda í höfnum. Áætlunin miðar við núgildandi hafnalög.
· Í áætluninni er við það miðað að ríkið taki þátt í að endurnýja hafnarmannvirki í fiskihöfnum á landsbyggðinni til að uppfylla þarfir sjávarútvegsins og jafnframt að mæta nýjum þörfum atvinnugreinarinnar. Löng reynsla hefur sýnt að kröfur til íslenskra hafna eru síbreytilegar og að þróun þeirra verður að haldast í hendur við þróun fiskiskipaflotans.
· Langtímaáætlun um öryggi sjófarenda er fest í sessi og eru framlög til hennar aukin í 20 milljónir króna á ári.
· Gert er ráð fyrir að rannsóknir verði efldar með það að markmiði að auka öryggi sjófarenda og hámarka nýtingu fjármagns sem varið er til hafnarmannvirkja og sjóvarnargarða.
· Við það er miðað að Siglingastofnun taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um öryggismál. Mikilvægt er að gæta hagsmuna Íslands þegar verið er að semja alþjóðlegar reglur. Það þarf að sjá til þess að reglurnar tryggi sem best öryggi sjófarenda, þær hæfi sem best íslenskum aðstæðum.
Eins og kunnugt er þá þjóna hafnir í meginatriðum tvíþættum tilgangi, þ.e. fiskveiðum og fólks- og vöruflutningum bæði innan lands og milli landa.
Auk þess eru ferjusiglingar frá nokkrum höfnum.
Á síðustu tveimur áratugum hefur landaður afli aukist um 30%. Vöruflutningar á milli landa hafa á sama tímabili aukist um 87% og má rekja mikið af þeirri aukningu til flutninga vegna stóriðju. Sjóflutningar innan lands jukust jafnt og þétt fram á miðjan síðasta áratug en síðustu 5 árin hafa þeir dregist saman um rúmlega 10%. Ferðum strandflutningaskipa hefur fækkað mun meira, þar sem nú eru notuð stærri og afkastameiri skip en áður.
Hafnir landsins eru víðast hvar vel í stakk búnar til að sinna meiri vöruflutningum en í dag og ekki þarf kostnaðarsamar framkvæmdir þess vegna.
Siglingamál næstu fjögur árin
Á síðustu fjórum árum var unnið á vegum hafnarsjóða að ríkisstyrktum hafnarframkvæmdum fyrir um 5.000 milljónir króna eða að meðaltali um 1.250 milljónir á ári. Hlutur ríkissjóðs í þessum framkvæmdum var um 3400 milljónir eða að meðaltali um 850 milljónir á ári.
Helstu verkefnin síðast liðin fjögur ár voru lenging bryggju á Grundarfirði og á Siglufirði, ný stálþil á Flateyri og á Ísafirði og stækkun fiskihafnarinnar á Akureyri.
Einnig framkvæmdir við nýjan brimvarnargarð á Húsavík, dýpkun hafnar og innsiglingar á Raufarhöfn og Þórshöfn, dýpkun hafnar og ný loðnubryggja á Vopnafirði.
Nýtt ferjulægi hefur verið gert á Seyðisfirði, lenging togarabryggju í Neskaupsstað, nýtt stálþil á Eskifirði, löndunarkantur á Djúpavogi, endurnýjun stálþilja í Vestmannaeyjum og framkvæmdir við dýpkun hafnar og varnargarða við höfnina í Grindavík.
Í fjögurra ára áætlun er gert ráð fyrir verja 4,6 milljörðum króna til hafnaframkvæmda sem er mun hærri fjárhæð en á undanförnum árum. Þetta skýrist m.a. af uppbyggingu ferjuhafnar við Seyðisfjörð og álvershafnar á Reyðarfirði. Styrkir til hafnargerðar eru fyrst og fremst til að endurbæta og byggja ný viðlegumannvirki til að mæta þörfum fiskiskipaflotans. Stærstu verkefnin af þessu tagi eru á Patreksfirði, Bolungarvík, Ísafirði, Siglufirði, Húsavík, Hornafirði, Vestmannaeyjum og Grindavík.
Á Akureyri, Húsavík, Þórshöfn, í Neskaupstað, á Eskifirði, Hornafirði og Þorlákshöfn verða byggðir nýir viðlegukantar úr stáli. Unnið verður að stofndýpkun innan hafnar í Vestmannaeyjum og Grindavík og viðhaldsdýpkun í Ólafsvík, á Rifi, á Sauðárkróki, Hornafirði og Þorlákshöfn.
Skjólgarðar á Akranesi, í Ólafsvík og Bolungarvík verða styrktir og byggðir nýir skjólgarðar á Vopnafirði, í Neskaupstað og Þorlákshöfn.
Eftirfarandi eru helstu áfangar og áherslur í rekstri Siglingastofnunar næstu fjögur árin.
· Lokið verður uppbyggingu móttakara og senda fyrir sjálfvirkt upplýsingakerfi um ferðir skipa, sem byggja þarf upp í samræmi við kröfur Alþjóða siglingamálastofnunarinnar.
· Miðað er við að vaktstöð siglinga verði komið á fót og er þar m.a. verið að koma til móts við reglur Evrópusambandsins. Hlutverk vaktstöðvarinnar er að vera miðstöð skipaumferðar í íslenskri efnahagslögsögu.
· Haldið uppi öflugu starfi við gerð ýmiss konar fræðsluefnis og leiðbeininga undir merkjum langtímaáætlunar um öryggismál sjófarenda.
· Unnið verður að ýmsum rannsóknum svo sem öldufarsreikningum við suðurströndina, á siglingaöryggi á mismunandi leiðum undan ströndinni og á hugsanlegu ferjulægi við Bakkafjöru. Gert er ráð fyrir að vinna við tilraunir á endurbótum á innsiglingunni til Rifshafnar.
· Þá verður unnið að áhættumati minni fiskiskipa í hættulegum öldum og ýmsum sértækum verkefnum sem tengjast öryggi skipa.
Vegamál
Útgjöldum til vegamála er skipt í þrennt, þ.e. rekstur og þjónustu, viðhald og stofnkostnað. Fyrri tveir liðirnir hafa farið hækkandi á undanförnum árum, og heldur sú þróun áfram. Valda þar mestu sívaxandi kröfur um aukna þjónustu, en sem kunnugt er eigum við fleiri bíla að hlutfalli en flestar aðrar þjóðir.
Viðhaldsþörf vega vex í hlutfalli verðmæti vega svo og í hlutfalli við aukna umferð, einkum þungaumferð. Reynt er að mæta þessari auknu þörf í samgönguáætlun.
Meirihluti vegafjár fer til stofnkostnaðar og þá helst til framkvæmda í grunnneti.
Í grunnneti samgöngukerfisins eru 10 flugvellir, 33 hafnir og um 5.200 km af vegum. Af þessum þremur þáttum kerfisins er fjárfestingaþörfin langmest í vegunum.
Grunnnet vega fær þannig stóra sneið af kökunni, en það dugir þó ekki. Engu að síður nást margir góðir áfangar á áætlunartímabilinu, og verða hér nefndir nokkrir þeirra:
Lokið verður við Gjábakkaveg og nýjan veg milli Reykholts og Flúða í Árnessýslu á öðru tímabili. Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar verður tvöfölduð. Vega- og brúargerð yfir Kolgrafarfjörð er á dagskrá á fyrsta tímabili. Á áætlunartímanum verða byggðakjarnarnir á Vestfjörðum tengdir við Hringveginn með bundnu slitlagi. Hér er um gríðarlega stórt verkefni að ræða.
Síðasta kafla á Hringveginum um Norðurland lýkur á þessu ári og á öðru tímabili verður unnt að aka allan hringinn á bundnu slitlagi. Þá verður unnið að tengingu byggðakjarnanna á Norðausturlandi við Hringveginn, og í lok tímans verður kominn vegur með bundnu slitlagi til þéttbýlisstaðanna í Norður–Þingeyjarsýslu, en nokkru fyrr til Vopnafjarðar eða á öðru tímabili. Þá ber að nefna nýja brú á Hornafjarðarfljót, sem stytta mun Hringveginn um 11 km, en henni verður lokið á öðru tímabili.
Hér hefur verið minnst á nokkra stóra áfanga. Um flesta þeirra gildir eðlilega að þeir væru betur fyrr á ferðinni. Það á ekki síst við um vegagerð á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þess ber að geta að áætlaður kostnaður við þessi verkefni hefur aukist mikið frá því að langtímaáætlun í vegagerð var sett fram.
Þessu valda einkum meiri kröfur, til þessara vega, og því að valdar eru betri og dýrari lausnir en áður. Breidd þessara vega er aukin frá 6,5 m í 7,5 m og er það gert vegna aukins umferðarhraða á bundnu slitlagi.
Af öðrum stórum áföngum ber að nefna jarðgöng. Göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Göng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Er miðað við að gerð þeirra hefjist í beinu framhaldi af gerð Fáskrúðsfjarðarganga og verkinu ljúki 2008.
Með þessum áföngum og öðrum sem nást á tímabilinu munu samgöngur stórbatna víða um land, og í sumum tilvikum er um byltingu að ræða. Þar valda jarðgöngin mestum straumhvörfum.
Á höfuðborgarsvæðinu verður unnið að byggingu Sundabrautar, gerð mislægra gatnamóta, svo sem við Kringlumýrarbraut/Miklubraut, færslu Hringbrautar og tvöföldun vega, svo sem í nágrannasveitarfélögunum í Kópavogi, Garðabæ og í Hafnarfirði. Því er ljóst að lokið verður við mörg brýn verkefni, er öll miða að því að greiða fyrir hinni miklu og sívaxandi umferð og jafnframt að draga úr slysum. Fjármagn til höfuðborgarsvæðisins er í áætluninni meira en áður hefur verið.
Vegamál næstu fjögur árin
Eins og jafnan áður þarf mikið fjármagn til reksturs og þjónustu á vegakerfinu og fer sú fjárþörf vaxandi. Sama er að segja um viðhald vega. Ekki verður fjölyrt frekar um þessa liði, en þó er rétt að minnast á tvö atriði.
Allar almenningssamgöngur utan þéttbýlis eru taldar undir vegamálum, og annast Vegagerðin umsjón þeirra. Útgjöld til þessa liðar eru 900 – 1000 milljónir króna á ári. Hafa þau farið vaxandi og verður svo áfram út tímabilið.
Þjónustusamningum um rekstur ferja og áætlunarleiða í flugi hefur verið komið á eftir útboð. Unnið hefur verið að endurskipulagningu sérleyfisleiða og þjónustusamningar gerðir við sérleyfishafa um allt land. Gert er ráð fyrir að sá hluti almenningssamganga verði einnig boðinn út í síðasta lagi á árinu 2005.
Sérstakur liður öryggisaðgerðir er í áætluninni en auk þess er rétt að benda á að mjög mikið af nýbyggingarfé fer til verkefna, sem stuðla að auknu öryggi. Sem dæmi um þetta má nefna breikkun brúa. Á undanförnum átta árum hefur einbreiðum brúm fækkað að meðaltali um 21 brú á ári.
Ég vil fara nokkrum orðum um skiptingu fjár á milli kjördæma af liðunum almennum verkefnum og tengivegum. Við afgreiðslu langtímaáætlunar í vegagerð var liðnum almennum verkefnum skipt jafnt á milli kjördæma annarra en Reykjavíkur. Við síðustu endurskoðun vegáætlunar var þessari skiptingu haldið, þar með talið á árunum 2003 og 2004. Í tillögu að fjögurra ára áætlun er lagt til að sami háttur verði á hafður á árunum 2005 og 2006.
Eðlilegt er að skoða þessi mál að nýju við næstu endurskoðun fjögurra ára áætlunar, enda verður nýja kjördæmaskipanin þá orðin föst í sessi.
Fjármagni til tengivega hefur lengi verið skipt í samræmi við reiknilíkingu þar sem tekið er tillit til kostnaðar við gerð veganna, ástands þeirra og umferðar. Hér er miðað við að sú regla haldist óbreytt.
Framkvæmdir í grunnneti.
Ferðamannaleiðir.
Ferðaþjónustan í landinu byggir í ríkum mæli á góðum samgöngum. Með þeim áherslum sem hér eru er leitast við að koma til móts við þarfir greinarinnar í heild.
Við síðustu endurskoðun vegáætlunar var í auknum mæli veitt fé til ferðamannaleiða. Tvær leiðir fengu sérstakar fjárveitingar, þ.e. Uxahryggjavegur milli Þingvalla og Borgarfjarðardala og Dettifossvegur austan Jökulsár á Fjöllum. Að öðru leyti var fjárveitingum skipt á kjördæmi til þeirra verkefna, sem brýnust voru.
Hálendisvegir
Hálendisvegir sem eru í umsjá Vegagerðarinnar teljast til landsvega og hefur þeim verið sinnt eftir því sem fjármagn hefur leyft á hverjum tíma. Með samgönguáætlun eru fjórir hálendisvegir flokkaðir með vegum í grunnneti og er það nýmæli að hálendisvegir séu settir í forgang með þessum hætti. Þetta eru vegirnir um Kaldadal, Kjöl, Sprengisand og Fjallabaksleið nyrðri. Í áætluninni er sett það markmið að þessum vegum verði komið í allgott horf og þeir síðan lagðir bundnu slitlagi. Lengd þessara vega er um 500 km og kostnaður við að fullnægja markmiðunum hefur verið metinn lauslega á 9 – 10 milljarða króna.
Í samgönguáætlun eru fjárveitingar til að hefjast handa við þetta verkefni, sem skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna auk þess, sem það stuðlar að því að landsmenn kynnist hálendinu.
Þó að grunnetið fái til sín bróðurpartinn af fjárveitingum til nýframkvæmda, verður verkefnum utan grunnnetsins sinnt áfram í svipuðum mæli eða betur en verið hefur.
Samantekt
Hæstvirtur forseti.
Þessar tillögur til þingsályktunar sem ég hef hér mælt fyrir, á grundvelli hinna nýju laga um samgönguáætlun, fela í sér mörg nýmæli en eru ekki síst til marks um að með þeim framkvæmdum sem í þeim felast munu margir stórir áfangar nást. Í hnotskurn má segja:
· Að sett er í fyrsta sinni fram heildstæð stefna og skýr markmið til næstu 12 ára í öllum greinum samgangna.
· Að sett er fram metnaðarfull áætlun um ráðstöfun fjármuna í samgöngumál næstu 12 árin í þremur fjögurra ára tímabilum.
· Að áætlanirnar gefa skýra og heildstæða sýn á samgöngumál og setja flugmál, siglingamál og vegamál í samhengi m.a. með því að skilgreina nú í fyrsta skipti grunnnet samgangna.
· Að ný vinnubrögð við þessa áætlanagerð hafa þegar stuðlað að stóraukinni samvinnu þeirra sem að samgöngumálum koma, og þá ekki síst með samvinnu við notendur með samgönguþingi, en ekki síður með meiri og nánari samvinnu á milli stofnana samgöngumála.
Með þeim áætlunum sem hér liggja fyrir Alþingi til afgreiðslu, er hugsað stórt, og það er hugsað til framtíðar. Við gerum ráð fyrir meiri og dýrari framkvæmdum en nokkru sinni fyrr, og við gerum ráð fyrir því að í lok áætlunartímabilsins fullnægi samgöngukerfi þjóðarinnar í öllum meginatriðum þegnum þessa lands. Með þessari samgönguáætlun er sannarlega stefnt að grettistaki í samgöngumálum þjóðarinnar.
Hæstvirtur forseti. Ég hef nú mælt fyrir þingsályktunartillögum um samgönguáætlun. Ég legg til að tillögunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og til háttvirtrar samgöngunefndar.
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003-2014
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003-2006