Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma

Grein samgönguráðherra í Morgunblaðinu 7. mars s.l. um þriðju kynslóð farsíma sem hann hefur lagt fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að úthlutað verði allt að fjórum tíðnum að loknu útboði gegn 190 milljóna króna gjaldi sem fer þó lækkandi með aukinni útbreiðslu.


Nú í vikunni lagði ég fram frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að úthlutað verði allt að fjórum tíðnum að loknu útboði gegn 190 milljóna króna gjaldi, sem þó fer lækkandi með aukinni útbreiðslu. Þegar umræður hófust um þriðju kynslóð farsíma voru uppi miklar væntingar. Víða í Evrópu sáu menn í hyllingum möguleika þess að nýta hina nýju tækni til gagnaflutninga og myndsendinga. Jafnframt gerðu menn sér vonir um miklar tekjur af úthlutun tíðna.

Í mörgum löndum var efnt til uppboða á tíðnum og kepptust símafyrirtækin um að bjóða ótrúlega háar fjárhæðir í leyfin. En tæknin hefur látið standa á sér. Þessi nýja kynslóð farsíma með öllum þeim möguleikum til samskipta um farsímanetið er ekki farin að mala gull fyrir eigendur símafyrirtækjanna og endurgreiða stofnkostnað og leyfisgjöld þar sem uppboð leiddu til mikilla útgjalda.

Á Fjarskiptaþingi 2001 gerði ég grein fyrir þeirri afstöðu minni að úthluta ætti tíðnum fyrir þriðju kynslóð farsíma á Íslandi með útboði þar sem áhersla yrði lögð á tryggja útbreiðslu á þjónustunni í okkar stóra dreifbýla landi. Fara ætti þá leið sem kölluð hefur verið "fegurðarsamkeppni", þar sem útboðsherferð er beitt og símafyrirtækin látin keppa um bestu lausnirnar gegn föstu gjaldi. Með þeirri leið var fyrst og fremst hugsað um að tryggja hagsmuni símnotenda en ekki að nota skattlagningu á leyfum í þágu ríkissjóðs.

Ýmsar þjóðir, svo sem Danir, Bretar og Þjóðverjar, hafa valið þá leið að hafa uppboð á farsímaleyfum. Þegar uppboðsleiðin er valin er eingöngu keppt um verð en engin trygging er fyrir því hver útbreiðsla þjónustunnar verður.

Almennt úboð er hins vegar heppilegasta aðgerðin til að ná fram yfirlýstum markmiðum mínum sem samgönguráðherra um hámarksútbreiðslu hagkvæmrar farsímaþjónustu. Það er sú leið sem farin er í frumvarpinu. Ýmis önnur rök hníga að útboðsleiðinni:

1. Mikil reynsla er af þessari aðferð hér á landi.

2. Með því að ákveða fyrirfram skilyrði og aðferðir við mat á tilboðum má tryggja hlutlægni við val á bjóðendum.

3. Það er ekki skilyrði fyrir árangri að bjóðendur séu fleiri en úthlutaðar tíðnir - eins og er í uppboðsleiðinni.

4. Með því að heimila reikisamninga á útbreiðslu er hagkvæmni aukin og unnt að komast hjá óarðbærum fjárfestingum þrátt fyrir mikla útbreiðslu.

Við mat á tilboðum verður fyrst og fremst litið til útbreiðslu og verða veitt stig fyrir áætlaða útbreiðslu og útbreiðsluhraða eftir ákveðnum reglum. TIl að stuðla að víðtækri útbreiðslu þriðju kynslóðar farsímaþjónustu er lagt til að gerð verði lágmarkskrafa um útbreiðslu á tilgreindum svæðum. Skipting í svæði miðar að því að ná sambærilegri útbreiðslu á farsímaþjónustunni um allt land. Í frumvarpinu er lagt til að lágmarkskrafan um útbreiðslu verði 60% á hverju svæði sem tryggir í raun mikla útbreiðslu frá lágmarkskröfunni, og hins vegar er mikill hvati fólginn í því að útbreiðslukröfur umfram 30% er heimilt að uppfylla með reikisamningum milli símafyrirtækjanna.

Með útboðsaðferðinni er því lögð áhersla á meiri útbreiðslu og betri þjónustu en hægt er að gera ráð fyrir að uppboðsleiðin hefði skilað. Sú leið er ekki síst mikilvæg fyrir hagsmuni landsbyggðarinnar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta