Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. mars 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefna um ESB og byggðamál.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra á
ráðstefnu um ESB og byggðamál í Háskólanum á Akureyri
28. mars 2003.


Ágæti deildarforseti, góðir nemendur og aðrir gestir.

Ég vil í upphafi óska nemendafélögum rekstrar- og viðskiptadeildar og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri til hamingju með svo veglega ráðstefnu sem raun ber vitni. Málefnin, byggðamál og Evrópumál, eru mikilvæg og án efa ein brýnustu verkefni íslenskra stjórnmála á næstu árum. Ég er þakklát fyrir að fá að halda erindi um þessi mál og er ekki í vafa um að frjórri jarðvegur en opnir og kraftmiklir háskólanemendur er vandfundinn. Ég er því ansi hrædd um að ég verði kenna öðru um en grýttum jarðvegi beri fræ mín ekki ríkulegan ávöxt.

Ég er stolt af nálgun okkar Framsóknarmanna í Evrópumálum. Á kjörtímabilinu höfum við staðið fyrir opinni og fordómalausri umræðu um tengsl Íslands við Evrópu. Höfum við orðið vör við mikinn áhuga og forvitni fólksins í landinu á málefninu. Einstaklingar og félagasamtök hafa verið þakklát fyrir frumkvæði okkar og aldrei hafa verið haldnar fleiri ráðstefnur og fundir um Evróputengd mál en í kjölfar skýrslu utanríkisráðherra um Evrópumál sem lögð var fyrir Alþingi í apríl 2000. Er óhætt að segja að sú skýrsla hafi markað þáttaskil í Evrópuumræðunni hér á landi.

Stefna okkar Framsóknarmanna í Evrópumálum er skýr. Við viljum byggja okkar tengsl við Evrópu á EES-samningnum og treysta hann sem frekast er kostur. Enginn getur hins vegar útilokað aðild að ESB um ókomna framtíð og því þurfum við stöðugt að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hjá okkar nágrönnum.

Ísland utan byggðastefnu ESB.
Ísland er ekki aðili að sameiginlegri byggðastefnu ESB, en meginmarkmið hennar er að stuðla að efnahagslegum og félagslegum jöfnuði á milli allra svæða ESB. Sameiginlegar reglur gilda um byggðastyrki og komið hefur verið á fót sameiginlegum sjóðum og framkvæmdaáætlunum til að vinna að markmiðum byggðastefnunnar. Á framkvæmdatímabili núverandi áætlunar, sem nær frá árinu 2000 til 2006, mun ESB verja 213 milljörðum evra til byggðastefnunnar. Hér er um að ræða þriðjung útgjalda Sambandsins, en byggðastefnan og landbúnaðarstefnan mynda bróðurpart útgjalda þess, eða á milli 80 og 90%.

Nýlega var Íslandi boðið að taka þátt í einni framkvæmdaáætlun innan byggðastefnunnar, svokallaðri Norðurslóðaáætlun, og tekur iðnaðarráðuneytið þátt í henni. Jafnframt var ákveðið að framlag íslenskra stjórnvalda til áætlunarinnar verði 25 milljónir á ári frá 2002-2005. Þetta er okkar eina beina aðkoma að byggðaáætlun ESB.

Norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Skotlands, ásamt Færeyjum og Grænlandi eiga ennfremur aðild að Norðurslóðaáætluninni, auk þess sem aðilar frá norðvesturhluta Rússlands geta tekið þátt í verkefnum hennar.

Þessi svæði eiga margt sameiginlegt. Þau búa öll yfir gjöfulum náttúruauðlindum, náttúran er hrein en jafnframt viðkvæm, loftslagið er kalt og víða er fjalllent sem getur gert samgöngur erfiðar. Á þessum svæðum er vel menntað og hæft vinnuafl sem býr dreift og atvinna þess er oft háð náttúruauðlindum svæðisins. Sammerkt með þessum svæðum er að fólki fækkar í dreifbýli.

Markmið þessara verkefna er m.a. að finna lausnir og stunda rannsóknir á sviði samgöngu- og fjarskiptamála, stuðla að atvinnuþróun og vistvænni nýtingu náttúruauðlinda.

Í mínum huga er enginn vafi á því að þátttaka í Norðurslóðaáætluninni muni verða bæði lærdómsrík og jákvæð fyrir Ísland.

Þátttaka norrænna frænda okkar í byggðastefnu ESB.
Fyrir stuttu heimsótti ég starfsbróður minn í Finnlandi, Jari Vilén, sem gegnir nú embætti utanríkisviðskiptaráðherra. Við heimsóttum heimaslóðir hans í Lapplandi og var sú för um margt fróðleg. Íbúar Lapplands eru almennt jákvæðir í garð byggðastefnu ESB og telja að vel hafi tekist til með þátttöku Lapplands í henni. Jari taldi hana hafa verið mikla lyftistöng fyrir Lappa. Uppbygging ferðamannaiðnaðarins hefur verið ævintýri líkust á þessum slóðum og á hreindýragarði sem við heimsóttum koma 30.000 ferðamenn árlega. Aðalsöluvörurnar eru jólasveinar og snjór. Ég tel að við getum dregið heilmikinn lærdóm af frændum okkar og ég er ekki í nokkrum vafa um að svokölluð vetrarferðamennska eigi bjarta framtíð fyrir sér á Íslandi, ekki síst í mínu kjördæmi.

Bændur í Lapplandi eru að vissu leyti neikvæðari í garð ESB og eru tregir til þess að tjá sig um hvort þeir væru betur settir innan eða utan Evrópusambandsins. Finnland sé aðili að ESB og lítt stoði að velta því fyrir sér hvernig staða Finna væri utan þess. Telja þeir að skrifræði hafi aukist í kjölfar aðildar, en fyrirsjáanleiki í greininni sé meiri nú en fyrir aðild.

Í Svíþjóð voru lagðir um 400 milljarðar íslenskra króna til afmarkaðra svæða og héraða á árunum 1995-1999. Það er mat Svía að tekist hafi að viðhalda eða búa til 28.000 störf og setja á fót um 5000 fyrirtæki á þessum svæðum. Hefur byggðastefnan leitt til aukins samstarfs sveitarfélaga og gert þeim betur kleift að standa á eigin fótum. Telja margir þau vera mikið "minna háð Stokkhólmi" en fyrir aðild.

Það er mín skoðun að við Íslendingar þurfum ekki að ganga í ESB til þess að gera góða byggðastefnu enn betri. Við getum hins vegar dregið lærdóm af frændum okkar og orðið þannig samkeppnishæfari um íbúa og fyrirtæki, bæði landsbyggðin gagnvart höfuðborgarsvæðinu og Ísland andspænis nágrannaríkjum okkar.

Ef Ísland gengi hins vegar inn í ESB er ég þess fullviss að við myndum ekki spjara okkur verr en frændur okkar. Reyndar tel ég að við fengjum sérstöðu okkar viðurkennda eins og Svíar og Finnar fengu í sínum aðildarsamningum. Árið 2000 fengu Finnar um 30% meira úr byggða- og uppbyggingarsjóðum ESB en þeir létu í þá. Ég sé enga ástæðu til þess að við yrðum eftirbátar þeirra.

Af hverju ætti dreifbýlasta land í Evrópu með óblíðust veðurskilyrði og hlutfallslega dýrasta vegakerfi í Evrópu að fá minna úr uppbyggingarsjóðum ESB en Finnar?

Ég tel að þeir aðilar sem hafa reiknað út kostnað Íslands við hugsanlega aðild að ESB hafi verið of varfærnir í þessum efnum. Þeir hafa áætlað að framlög til Íslands úr byggðasjóðum ESB yrðu á bilinu 1500 til 2000 milljónir en ég tel nærri lagi að tvöfalda þá upphæð.

Reyndar tel ég líklegt að þessi sérstaða Íslands verði viðurkennd í stækkunarviðræðum þeim sem nú eiga sér stað um EES.

Samspil landsmála og alþjóðlegs samstarfs.
Ég sagði í upphafi að byggðamál á Íslandi og Evrópumál yrðu ef til vill brýnustu verkefni íslenskra stjórnmála á næstu árum. Þrátt fyrir að himinn og haf skilji þessa málaflokka, eiga þeir ýmislegt sameiginlegt ef nánar er að gáð.

Þau djúpu tengsl við Evrópu sem EES-samningurinn hefur skapað, hafa átt ríkan þátt í því langa hagvaxtar- og velmegunarskeiði sem við Íslendingar höfum búið við undanfarin ár. Leikreglur þjóðfélagsins eru skýrari nú en áður, sama hvert litið er. Samkeppnismál, neytendavernd, umhverfismál, fjármálamarkaður og vinnuvernd eru nokkrir málaflokkar sem tekið hafa stakkaskiptum eftir aðild okkar að EES. Forsenda styrkra fyrirtækja og blómlegrar atvinnuuppbyggingar eru gagnsæjar reglur sem byggjast á jafnræði og fyrirsjáanleika. Ég held að það sé almennt viðurkennt að aðild Íslands að EES hafi hraðað þessari þróun. Auðvitað skal það viðurkennt að sumar EES-reglur falla ekki vel að íslenskum aðstæðum og má nefna strangar reglur á vinnuverndarsviði í því sambandi, og aðrar hafa reynst sveitarfélögum kostnaðarsamar, svo sem reglur á umhverfissviðinu.

Lýðræðishalli EES snertir alla landsmenn.
Ein ástæða fyrir því að lítið tillit er tekið til íslenskra aðstæðna við samningu EES-reglna er sú að Ísland er hjáróma í löggjafarferli ESB eins og það hefur þróast frá undirskrift EES-samningsins. Ísland, undir öflugri leiðsögn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, hefur haft forystu um að tryggja bættan aðgang til handa EFTA-ríkjunum að ákvörðunartökuferli ESB. Því miður hafa undirtektirnar verið dræmar og ekki er líklegt að breyting verði á í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta aðkomuleysi okkar að löggjafarstarfi ESB snertir ekki bara aðkomu löggjafarvaldsins og ráðuneyta, heldur einnig sveitarfélaga. Landsvæðanefndin svokallaða, sem reynst hefur landsbyggðinni innan ESB drjúg málpípa við lagasetningu innan sambandsins, er ekki opin sveitarfélögum í EFTA-ríkjunum.


Halldór Ásgrímsson gerði þennan svokallaða lýðræðishalla EES að umtalsefni hér í Háskólanum á Akureyri fyrir nokkru og lýsti áhyggjum sínum af þessari þróun. Ég tek heilshugar undir þá skoðun og er ég reyndar afar hissa á þeim stjórnmálamönnum sem segja að við séum svo lítil, að rödd okkar myndi ekki heyrast í Brussel þó að við fengjum aðgang að öllum valdastofnunum ESB.

Mér finnst slík röksemdarfærsla andlýðræðisleg og vekur furðu að þeir sem vilja kalla sig málsmetandi stjórnmálamenn beri slíkar röksemdir á borð.

Með sömu röksemdafærslu væri ég að segja við ykkur, góðir gestir: "Verið ekki að þreyta ykkur í flokkstarfi fyrir Framsóknarflokkinn. Þið verðið meðhöndluð sem lítil peð sem enginn sér. Þið fáið í mesta lagi að taka þátt í einhverjum nefndum á flokksþingi en það hlustar enginn á ykkur. Sitjið bara heima og glápið á sjónvarpið … flokksþingið er hvort eð er "í beinni"!!"

Það hlýtur að vera metnaður okkar, hvort sem við erum einstaklingar, íbúar sveitarfélaga eða stolt þjóð, að vilja hafa sem mest áhrif á örlög okkar. Við höfum aldrei, ekki frekar en Hallgerður forðum daga, sætt okkur við að vera hornkerlingar.

Þáttur ríkisstjórnarinnar stór.
Þrátt fyrir að alþjóðlegt samstarf hraði oft breytingum innanlands, líkt og ég hef að framan lýst, má ekki skilja orð mín eins og að ríkisstjórnin hafi setið með hendur í skauti og engu máli hefði skipt hver hefði setið við stjórnvölinn. Ríkisstjórnin hefur bæði í orði og verki skapað atvinnulífinu heilbrigðara rekstarumhverfi og skotið styrkari stoðum undir það. Má í því sambandi nefna álverkefnin, einkavæðingu, t.a.m. bankanna, skattalækkanir og lagasetningu sem eykur aðhald og gagnsæi, s.s. upplýsingalögin. Þá hefur Grettistaki verið lyft í byggðamálum og vísa ég í því samhengi til nýlegrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um stóraukin útgjöld til vega-, jarðganga- og menningarmála á landsbyggðinni. Ekki má heldur gleyma því að aukið frjálsræði í menntamálum hefur meðal annars leitt til þess að bæði Háskólanum á Akureyri og Bifröst hefur vaxið ásmegin í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Í mínum huga skapaði EES samningurinn frjóan jarðveg fyrir þann góða árangur sem núverandi ríkisstjórn hefur náð. Bjarni Fel. myndi líklega lýsa þessu þannig að ríkisstjórnin hafi fengið góða sendingu frá Evrópu og afgreitt "tuðruna" viðstöðulaust í netið. Á sama hátt er ég ansi hrædd um að ríkisstjórn afturhalds og þröngsýni hefði í besta falli gert sjálfsmark!

Framtíðartengslin við Evrópu gætu ráðist af byggðamálum.
Eins og ég gat um í upphafi hefur Framsóknarflokkurinn staðið fyrir opinni og fordómalausri umræðu um tengsl Íslands við Evrópu. Segja má að Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, hafi riðið á vaðið með ítarlegri skýrslu um allar hliðar samskipta okkar við Evrópu sem gefin var út vorið 2000. Í kjölfarið hefur umræðan aukist jafnt og þétt og æ fleiri einstaklingar og félagasamtök láta mál þessi til sín taka.

Sumir segja myndina skýra og ekki þurfi að ræða hlutina. Evrópusambandið sé svona eða hinsegin og lítið sem ekkert velti á aðildarsamningum. Því miður er lífið ekki svona einfalt og slíkar einfaldanir eru misvísandi og beinlínis hættulegar kreddulausri, opinni og lýðræðislegri Evrópuumræðu.

Tökum dæmi.

Í aðildarsamningi Finna er þeim veitt ótímabundin heimild til þess að styrkja landbúnað norðan 62. breiddargráðu sérstaklega. Ljóst þykir að landbúnaður hefði svo gott sem lagst af í stórum hluta Finnlands ef ekki hefði komið til þessarar sérlausnar. Eins náðu Svíar og Finnar fram sérstöku ákvæði í byggðastefnu ESB um sérstakan stuðning við svæði þar sem færri en átta íbúar eru á ferkílómetra.

Þessi tvö byggðamál voru erfiðustu viðfangsefni samningaviðræðna Finna við ESB.

Ef Finnar hefðu farið með því hugarfari inn í ESB að ekkert væri um að semja og engar sérlausnir myndu nást, væru þeir ef til vill ekki aðilar að ESB í dag … a.m.k. hefði orðið mjórra á munum í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.

Ísland er ekki í ósvipaðri aðstöðu og Finnar. Byggðamálin eru í brennidepli og viðurkenning á sérstöðu landsbyggðarinnar yrðu lykilatriði í okkar aðildarviðræðum. Aðild Íslands að ESB án þess að hagsmunir bænda yrðu tryggðir er óhugsandi í mínum huga. Sama á við um sjávarútveginn. Þar þyrftum við á sérlausnum að halda og án þeirra myndi aðild vera út úr myndinni í mínum huga.

Framsóknarmenn lyfta umræðu um Evrópu á hærra plan.
Til langs tíma var Evrópuumræðan í landinu í þeim farvegi að hlutirnir voru annað hvort svartir eða hvítir og menn góðir eða slæmir. Ef einhver nefndi Evrópusambandið eða vogaði sér að segja að eitthvað hefði tekist vel í Evrópu var sá hinn sami forfallinn Evrópusambandssinni. Á sama hátt voru menn álitnir gallharðir ESB-andstæðingar ef styggðaryrði í þess garð hraut af vörum manna.

Með opinni og fordómalausri umræðu um Evrópumál höfum við Framsóknarmenn hins vegar frelsað umræðuna úr hlekkjum "kalda-stríðs- hugarfarsins".

Sennilega hefðu margir álitið mig Evrópusinna hefði ég flutt sömu ræðu í upphafi kjörtímabilsins. Bara fyrir það eitt að skoða hvað nágrannar okkar í ESB eru að gera í byggðamálum og reyna að draga lærdóm af því. Fáir myndu úthrópa skólastjóra þessa Háskóla fyrir að fylgjast með straumum og stefnum í menntamálum í heiminum, nú eða Samherjamenn fyrir að bera sig saman við keppinauta sína í Evrópu.

Sem ráðherra byggðamála sem vill veg landsbyggðarinnar sem mestan, ber mér skylda til þess að skoða hvað nágrannaþjóðir okkar eru að gera í þeim málum. Ef ESB stendur okkur framar í byggðamálum þá girðum við í brók og gerum betur. Við þurfum ekki að ganga í ESB til þess. Við þurfum líka að skoða hvað okkar nágrannar eru að gera í menntamálum, heilbrigðismálum, samgöngumálum, ferðamálum o. s. frv.

Sá sem lifir í þeirri trú að hann geti ekkert af öðrum lært fer villur vega.

Fordómalaus og hreinskilin umræða og stöðugur samanburður við nágranna okkar í ESB er því markmið í sjálfu sér.

Hinu er ekki að leyna að umræðan hefur annan tilgang. Hún undirbýr okkur undir ákvörðun um hugsanlega aðild að ESB, sem kann að koma upp í framtíðinni. Við lifum í alþjóðlegu umhverfi, fjarlægðir verða stöðugt minni og þjóðarafkoma okkar Íslendinga verður æ samofnari alþjóðavæðingunni og atvikum sem við ráðum ekki við.

Í alþjóðavæðingunni er enginn er eyland – ekki einu sinni Ísland.

Það er ekki á okkar valdi að ákveða það hvort eða þá hvenær Norðmenn sækja um aðild að ESB. Hvaða áhrif hefur Doha-lotan á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á stöðu landbúnaðar á Íslandi? Mun Evrusvæðið stækka og hvaða áhrif gæti það haft fyrir okkur?

Þetta eru allt þættir sem kalla á endurmat á afstöðu Íslendinga til hugsanlegrar aðildar að ESB. Ég get ekki svarað því hver niðurstaðan af þeirri endurskoðun verður, en eitt veit ég þó. Ef við höldum áfram að ræða þessi mál á opinn og fordómalausan hátt, eins og Framsóknarflokkurinn hefur lagt sig í framkróka um, þá verðum við betur undirbúin til þess að taka afstöðu til þessa stóra hagsmunamáls þjóðarinnar og minnkum líkurnar á því að þjóðin klofni í tvær fylkingar áratugum saman, líkt og gerðist við aðild okkar að NATO.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta