Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. apríl 2003 DómsmálaráðuneytiðSólveig Pétursdóttir, dóms- og kirkjumálaráðherra 1999-2003

Ávarp dómsmálaráðherra á kynningarfundi í Skógarhlíð 7. apríl 2003

Ávarp dómsmálaráðherra á kynningarfundi í Skógarhlíð 7. apríl 2003

- Stjórnstöð leitar og björgunar – samhæfingarstöð almannavarna – fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og stjórnstöð Neyðarlínunnar -


Kæru gestir.

Það er mér heiður og ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa kynningarfundar hér í dag. Tilefni fundarins er meðal annars að fagna merkum áföngum í björgunar- og öryggismálum og um leið að kynna þessu nýju og glæsilegu húsakynni fyrir fjölmiðlafólki og öðrum gestum hér í dag.

Eins og allir vita þá skipta mínútur og jafnvel sekúndur höfuð máli við leit og björgun á fólki. Það eru margir aðilar sem koma að leitar- og björgunarmálum og því mikilvægt að öll samskipti milli þeirra gangi eins hratt og örugglega fyrir sig og kostur er. Þetta vita þeir best sem í eldlínunni standa og því hafa þeir lagt mikið á sig á undanförnum árum til að efla og styrkja sína starfsemi, stytta viðbragðstíma og auka þar með öryggi allra landsmanna.

Þær breytingar sem orðið hafa á þessu sviði á undanförnum árum eru fjölmargar. Stórt og gríðarlega mikilvægt skref var stigið á sínum tíma þegar björgunarsveitir landsins sameinuðust undir hatti Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Reynslan hefur sýnt að það mikilvæga skref var öllum landsmönnum til mikillar farsældar.

Ég hef á síðustu árum sem dómsmálaráðherra beitt mér fyrir ýmsum málum, sem öll hafa stefnt að sama marki, það er að tryggja og efla öryggi landsmanna. Ég vil í því sambandi nefna nokkur atriði:

Síðastliðinn föstudag öðluðust gildi breytingar á lögum um almannavarnir sem fela það í sér að verkefni yfirstjórnar Almannavarna ríkisins voru flutt til embættis ríkislögreglustjóra og var embættinu um leið falin verkefni á sviði almannavarna. Það er von mín og trú að þessar breytingar verði til farsældar á þessu sviði, enda var markmið þeirra skýrt, að treysta og efla öryggi landsmanna.

Nýtt almannavarnaráð var skipað þegar lögin tóku gildi, og er hlutverk þess að vera ríkisstjórninni til ráðgjafar um almannavarnir og skal ráðið jafnframt starfa með ríkislögreglustjóra þegar almannavarnaástand skapast. Hið nýja almannavarnaráð skipa samkvæmt lögunum þeir sem eru í mikilvægum lykilstöðum þegar almannavarnaástand skapast og var í nýju lögunum fjölgað í almannavarnaráði frá því sem áður var. Jafnframt var sú nýbreytni samþykkt að skipaður skyldi óháður formaður almannavarnaráðs. Sama dag og lögin öðluðust gildi skipaði ég Jón Birgi Jónsson, verkfræðing og ráðuneytisstjóra í samgönguráðuneytinu formann hins nýja almannavarnaráðs til eins árs. Ég vil nota þetta tækifæri og óska honum og hinu nýja almannavarnaráði allra heilla í þeirra mikilvægu störfum.

Síðastliðinn föstudag öðluðust einnig gildi ný lög um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn. Í lögunum er fjallað um hlutverk, réttindi og skyldur björgunarsveita og björgunarsveitarmanna. Þessi nýju lög eru mikilvæg fyrir björgunarmál í landinu, skýra til muna réttarstöðu björgunarsveita og björgunarsveitamanna og eru því til heilla fyrir allt björgunarstarf í landinu. Til skoðunar er gerð formlegs samnings við Slysavarnarfélagið Landsbjörg um tryggingar björgunarsveitarmanna og vonast ég til að það mál skýrist á næstu dögum.

Í fjórða lagi skal nefna hina nýju samhæfingarstöð almannavarna og sameiginlega stjórnstöð leitar og björgunar, sem við stöndum einmitt í. Unnið hefur verið að uppsetningu tækja og tóla í þessari stöð undanfarna mánuði og hún er nú svo gott sem fullbúin þeim tækjum sem í stöðinni verða. Eftir er að framkvæma allskyns prófanir og þess háttar og formlega mun stöðin því ekki taka til starfa fyrr en eftir einhverjar vikur, enda mikilvægt að allur búnaður virki fullkomlega áður en full starfræksla hefst. Það er ekki vafi í mínum huga að þessi samhæfingarstöð og sameiginlega stjórnstöð þeirra aðila sem að leitar og björgunarmálum koma er eitt mikilvægasta skref sem stigið hefur verið á þessu sviði í mörg ár, og hefur þó ýmislegt annað merkilegt gerst eins og ég hef áður rakið. Þessi stöð mun taka við af samhæfingarstöð almannavarna sem enn er til húsa í lögreglustöðinni við Hverfisgötu og verður því virkjuð þegar almannavarnaástand skapast. Breytingin sem gerð var á lögunum um almannavarnir felur það síðan í sér að samhæfingarstöð almannavarna gæti við tilteknar aðstæður jafnframt breyst í stjórnstöð almannavarnaaðgerða, til dæmis í þeim tilvikum ef sá sem stýra á almannavarnaaðgerðum í viðkomandi umdæmi er ekki tiltækur.

Stjórnstöðin sem hér verður starfrækt verður einnig virkjuð við stærri leitar og björgunaraðgerðir, og þá með aðkomu allra þeirra aðila sem koma þurfa að slíkri aðgerð. Hér hefur fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sinn stað, Neyðarlínan, Landhelgisgæslan, Flugmálastjórn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vaktstöð siglinga. Allir þessir aðilar hafa mikilvægu hlutverki að gegna og munu í framtíðinni eiga hér milliliðalaus samskipti, landsmönnum öllum til heilla.

En það er ekki einungis hin nýja stjórnstöð sem ætlunin er að kynna hér í dag, því fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og stjórnstöð Neyðarlínunnar hafa einnig nýverið komið sér fyrir á nýjum stað hér í húsinu. Báðir aðilar voru á öðrum stað hér í húsinu og stóð aðstöðuleysi starfseminni að ýmsu leyti fyrir þrifum. Því var flutningur þeirra á stað sem sérhannaður var fyrir starfsemina kærkominn, en tækifærið var einnig notað til að efla tækjabúnað á báðum stöðum. Stjórnstöðvarnar eru hér beint fyrir framan og því í nánum tengslum við stjórnstöð leitar og björgunar, sem skiptir auðvitað miklu máli.

Þó svo að margt hafi verið talið upp er upptalningunni ekki lokið enn, því í dag verða stigin mikilvæg skref á þessu sviði. Annars vegar munu þeir aðilar sem koma að þessari sameiginlegu stjórnstöð leitar og björgunar skrifa undir samstarfssamning og hins vegar mun ég gefa út nýja reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita. Í nýju reglugerðinni er fjallað um hlutverk, skipulag og stjórnun lögreglu og björgunarsveita vegna leitar og björgunar á landi, en auk þess er að finna í reglugerðinni ákvæði um gerð viðbragðsáætlana, samhæfða þjálfun og fleira.

Til þess að tryggja enn frekar öryggi landsmanna þarf að hafa í huga að stöð af því tagi sem hér er að komast á laggirnar gæti orðið óstarfhæf t.d. vegna náttúruhamfara. Því er mikilvægt að varastöð verði til staðar. Fyrirhugað er að koma slíkri stöð upp í lögreglustöðinni á Akureyri, en umtalsverðar úrbætur er fyrirhugað að gera þar á næstunni. Þar verða jafnframt varastöðvar fyrir Neyðarlínuna og fjarskiptamiðstöð lögreglunnar. Slík heildstæð varastöð mun að sjálfsögðu styrkja enn frekar öryggi landsmanna.

Ég er ákaflega stollt af þeim árangri sem náðst hefur á þessu sviði að undanförnu og sjá má glögglega hér í dag. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim aðilum sem að þessari vinnu hafa komið, þeir eru fjölmargir og hefur samstarfið við alla þessa aðila gengið einstaklega vel.

Ég mun nú gefa út þessa reglugerð og í framhaldinu munu framangreindir aðilar skrifa undir samstarfssamning um starfrækslu leitar- og björgunarmiðstöðvar. Reglugerðin og samstarfssamningurinn ásamt fleiri gögnum eru tiltæk hér fyrir þá sem áhuga hafa á að kynna sér þetta nánar. Að undirskriftum loknum verður sett í gang stutt sýning hér í stjórnstöðinni til að sýna hvernig hún mun virka þegar hún verður komin í fullan gang og í framhaldinu gefst fjölmiðlafólki og öðrum gestum tækifæri til að kynna sér stöðina, ræða við þá sérfræðinga sem hér eru og kynna sér um leið starfsemi fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar og stjórnstöðvar Neyðarlínunnar sem eru hér fyrir framan. Síðan verður boðið upp á kaffi og aðrar veitingar hér í anddyrinu fyrir framan.

Markmið okkar á sviði björgunar og öryggismála er skýrt, við viljum efla og treysta öryggi landsmanna allra og öll þau skref sem ég hef hér lýst eru stigin með það mikilvæga markmið að leiðarljósi.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta