1. fundur Vísinda- og tækniráðs.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ræða iðnaðarráðherra á 1. fundi Vísinda- og tækniráðs
þriðjudaginn 8. apríl 2003 kl. 13:30
á Nordica Hoteli
þriðjudaginn 8. apríl 2003 kl. 13:30
á Nordica Hoteli
Forsætisráðherra, menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, ráðsmenn og gestir.
Tilkoma Vísinda- og tækniráðs er mér mikið fagnaðarefni. Með sanni má segja að það ár sem við tókum okkur til að kynna betur einstök efnisatriði málsins og til þess að ná víðtækri samstöðu um þá umgjörð sem við nú stöndum frammi fyrir hafi verið vel varið. Jafnframt get ég glaðst yfir því að ég hef orðið vör við aukinn skilning á því órjúfanlega samhengi sem er á milli vísindalegra rannsókna annars vegar og nýsköpunar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara hins vegar.
Ég reikna með að flestum sé fyrir löngu orðið ljóst að núverandi fyrirkomulag opinbers stuðnings við vísindi, tækniþróun og nýsköpun hafi þurft endurskoðunar við. Rígbundin verkefnaskipting á milli stofnana, sem m.a. hefur fylgt hefðbundinni atvinnuvegaskiptingu, er gengin sér til húðar enda hefur hún í engu fylgt framþróuninni í vísindum og tækni. Upplýsingatæknin og líftæknin eru dæmigerð fræðasvið sem ganga þvert á þessa verkaskiptingu, - sem hefur leitt til þess að þeim hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Nú er nanótæknin að ryðja sér til rúms og mun hún hafa enn víðtækari snertiflöt við eldri fræðigreinar og sennilega meiri efnahagsleg áhrif en áður hefur þekkst með vísindalegar nýjungar.
Hinir hefðbundnu atvinnuvegir hafa um langt árabil reynst okkur gjöfulir og verið undirstaða efnahagslegra framfara. Geta þeirra til að standa undir væntingum fólks um aukna velmegun og ný fjölbreytt vel launuð störf fer þó hlutfallslega þverrandi. Ljóst er að efnahagsþróunin verður í auknum mæli að byggjast á nýrri vísindalegri þekkingu sem nýtt verður til að byggja upp fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf. Það gerist þó engan veginn af sjálfu sér og hafa alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýnt að okkur hefur hingað til ekki tekist það mjög vel.
Þetta kann að koma einhverjum á óvart því ekki er annað að sjá en við stöndum okkur vel þegar mældur er fjöldi vísindagreina og hversu oft aðrir vísindamenn vitna til þeirra. Í nýlegri könnun sem Háskólinn í Reykjavík stóð fyrir og nefnd er "Global Entrepreneurship Monitor", - (skammstafað G-E-M), kveður við svipaðan tón. Þar kemur í ljós að af þeim fimmtán Evrópuþjóðum sem þátt tóku í rannsókninni eru Íslendingar efstir á blaði hvað varðar heildareinkunn fyrir vilja þjóðarinnar til að takast á við frumkvöðlastarfsemi. Miðað við önnur lönd eru óvenjumargir Íslendingar þátttakendur í frumkvöðlastarfsemi og svo virðist sem óvenjuhátt hlutfall íslenskra frumkvöðla ætli sér stóra hluti í fyrirtækjarekstri.
Könnunin varpar einnig ljósi á hvar að okkur þrengir því þrátt fyrir að viljinn til þess að takast á við nýsköpunina sé vissulega fyrir hendi þá bendir hún á ótvíræðan hátt á að skortur á fjármagni og menntun standi í veginum fyrir því að hægt sé að nýta fyrirliggjandi tækifæri á árangursríkan hátt.
Í mörgum löndum sem við kjósum að bera okkur saman við hafa stjórnvöld áhyggjur af því að of fáir stundi frumkvöðlastarfsemi. Á Íslandi virðist þetta vandamál ekki vera til staðar. Hins vegar bendir ýmislegt til þess að sú mikla frumkvöðlastarfsemi sem hér er nýtist illa og beri ekki verðskuldaðan ávöxt vegna skorts á fjármagni.
Ég tel að hér sé á ferð mikilvæg ábending sem við þurfum að taka alvarlega. Við þurfum að setja okkur það markmið að ná sem mestu út úr þeim frumkvöðlakrafti sem þjóðin býr yfir. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að skapa forsendur fyrir aukinni sprotafjármögnun og almennri frumkvöðlamenntun - segir í samantekt Háskólans í Reykjavík um íslensku GEM- rannsóknina.
Þessi slaka staða okkar á sviði nýsköpunar er staðfest í öðrum alþjóðlegum úttektum og segir okkur með skýrum hætti hvar við þurfum að taka til hendinni til að ná meiri efnahagslegum ávinningi.
Sú nýskipan sem hér er til umfjöllunar skiptist í tvo meginþætti. Hið fyrra er hin stefnumótandi vinna sem Vísinda- og tækniráðið mun annast. Hið síðara er svo framkvæmd stefnunnar. Þessir tveir þættir eru óaðskiljanlegir og er annar gagnslaus án hins.
Iðnaðarráðuneytið mun axla það veigamikla hlutverk að fóstra nýsköpun atvinnulífsins. Það verður umfangsmikið og vandasamt verkefni - þar sem til grundvallar liggja afurðir vísindasamfélagsins og fyrir stafni eru fyrirheit um efnahagslegar framfarir og almenna velferð. Til þessa vandasama verks hefur iðnaðarráðuneytið fengið tvö tæki. Annars vegar er það Nýsköpunarmiðstöð sem rekin verður hjá Iðntæknistofnun og hins vegar nýr sjóður, - Tækniþróunarsjóður.
Yfirfærsla þekkingar til atvinnulífsins gerist ekki af sjálfu sér. Í hnotskurn verður það verkefni Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að hlúa að nýsköpun atvinnulífsins á sem bestan hátt, vera tengiliður frumkvöðla og lítilla og meðalstórra fyrirtækja við vísindasamfélagið annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar. Þar verða rekin sértæk stuðningsverkefni sem stuðla að bættum rekstri fyrirtækja og framgangi nýrra viðskiptahugmynda sem spretta af hugkvæmni einstaklinga eða rannsóknum og þróunarstarfi háskóla, stofnana og fyrirtækja.
Á Nýsköpunarmiðstöðinni verður rekið frumkvöðlasetur sem getur tekið við nýjum hugmyndum, miðlað til þeirra nauðsynlegri sérfræðiaðstoð og aðstoðað við þróun þeirra í söluhæfar afurðir eða þjónustu.
Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar tekur mið af því að nýjar tæknigreinar eru í örri þróun og að áhrif þeirra á atvinnulífið muni fara hratt vaxandi. Þessi þróun kallar á ný viðhorf í vísindarannsóknum og hverskonar opinberum stuðningi við atvinnulífið. Starfsemi opinberra stofnana þarf að laga að þróuninni og beita þarf nýjum aðferðum sem skila afgerandi áhrifum á skömmum tíma. Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar sem rekin er hjá Iðntæknistofnun, tekur mið af þessum breytingum og er starfsemin þverfagleg eins og önnur starfsemi sem mótast af áherslum Vísinda- og tækniráðsins.
Hitt tækið sem við höfum til að stuðla að framgangi nýsköpunarinnar er Tækniþróunarsjóður. Hlutverk hans á að vera að styðja tækniþróun og nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Áherslur Vísinda- og tækniráðsins á hverjum tíma verða ráðandi í starfseminni og í því sambandi mun hann m.a. stuðla að því að áherslur ráðsins á sviði vísinda geti fengið eðlilega framrás og leiði í raun og veru til eflingar atvinnulífsins og efnahagslegra framfara. Sjóðnum er ætlað að brúa bilið á milli Rannsóknarsjóðs annarsvegar og framtaksfjárfesta hins vegar, þ.e. þeirra sem vilja leggja fé í álitleg nýsköpunarverkefni.
Þannig er sjóðnum ætlað starfa á svokölluðu nýsköpunarstigi, þ.e. - þegar í ljós er að koma að niðurstöður vísindarannsókna geti leitt til efnahagslegs ávinnings fyrir frumkvöðulinn. Þá hefjast rannsóknir sem m.a. lúta að gerð frumgerðar og hönnun framleiðsluferla en hvortveggja getur verið ráðandi um arðsemi hugmyndarinnar.
Frá miðju árinu 2000 hefur fé til nýsköpunar vart verið fáanlegt. Meginástæða þess er almennt verðfall tæknifyrirtækja á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, sem við höfum einnig fundið rækilega fyrir hér heima. Íslenskir framtaksfjárfestar hafa haldið að sér höndum og nánast ekki lagt nokkurt fé í ný fyrirtæki - en hafa í þess stað beint kröftum sínum að því að verja eldri fjárfestingar sínar fyrir falli.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur því miður ekki farið varhluta af þessari þróun markaðanna og er eiginfjárstaða hans nú þannig að ekki er við því að búast að hann leggi mikið fé í sprotafyrirtæki næstu tvö árin eða svo.
Á milli þess að vísindaleg þekking verði til og þess að af henni spretti söluhæf viðskiptaáætlun er ekki samfella og hefur þetta bil verið kallað "nýsköpunargjáin". Tækniþróunasjóðnum er ætlað að verða veigamikill burðarbiti í brúnni yfir nýsköpunargjána. Nýsköpunargjáin er gamalgróið vandamál og þótt um langt árabil hafi verið þörf á að brúa hana þá hafa ytri aðstæður þróast á þann veg að sú þörf hefur aldrei verið meiri en nú.
Ágætu ráðsmenn,
Það fer ekki á milli mála að framundan er mikið verk að vinna. Okkur hefur verið fengið mjög þýðingarmikið verkefni sem snertir stóran og margbreytilegan hóp fólks auk þess sem það hefur þjóðhagslega mikla þýðingu. Fyrst um sinn mun vinnan aðallega vera á vegum nefndanna tveggja: tækninefndar og vísindanefndar og vil ég ljúka máli mínu á því að óska öllum þeim sem þar munu starfa velfarnaðar við lausn þeirra úrlausnarefna sem framundan eru.
Takk fyrir.